Everton vs. Sunderland

Mynd: Everton FC.

Þriðji síðasti leikur Everton á tímabilinu er á heimavelli gegn Sunderland, eða svörtu köttunum eins og þeir eru stundum kallaðir. Leikurinn er á laugardaginn kl. 11:45 og ljóst að Sunderland koma einbeittir til leiks, enda í fallsæti (18. sæti) þó þeir eigi leik til góða — og gætu með sigri komist upp fyrir næstu þrjú lið fyrir ofan sig.

Tölfræðin er Everton megin því þeir eru taplausir á heimavelli á árinu og hafa unnið síðustu fjóra leiki þar án þess að fá á sig mark. Sunderland hafa á móti ekki unnið á útivelli á árinu (frá því þeir unnu granna sína í Newcastle, 0-1 rétt fyrir jól). Sunderland hafa jafnframt aðeins unnið einn af síðustu 12 leikjum á Goodison Park í öllum keppnum og sá sigur var 1-0 sigur (mark úr víti) í leik þar sem Howard var rekinn af velli. Til gamans má geta að Jagielka vantar aðeins eitt mark til að jafna markahæsta mann Sunderland, Connor Wickham, en sá síðarnefndi er með 5 mörk, sem útskýrir vel hvers vegna Sunderland eru þar sem þeir eru nú á töflunni. Það er samt aldrei gott að mæta liðum í botnsætunum við lok tímabils og þetta verður því örugglega hörkuleikur.

Engin ný meiðsli hafa litið dagsins ljós hjá okkar mönnum undanfarna daga. Garbutt er nú heill eftir að hafa verið frá en Pienaar er tæpur og ólíklegur til að sjást á velli í þessum síðustu þremur leikjum. Fyrirfram var ljóst að Hibbert, Gibson og Oviedo koma ekki til með að taka þátt í lokaleikjum tímabilsins. Líkleg uppstilling því: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas, Lennon, Barkley, Lukaku.

Hjá Sunderland eru John O’Shea, Steven Fletcher og Wes Brown metnir tæpir en Ricky Alvarez og Emanuele Giaccherini eru frá.

Í öðrum fréttum er það helst að Brian Brabin flutti sig um set úr akademíu Everton yfir í stjórastöðu hjá Tranmere. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hafði ekki heyrt um Brabin áður, en við hljótum að óska honum velfarnaðar í nýju starfi.

Af ungliðunum er það svo að frétta að Coventry völdu lánsmann frá Everton, Matthew Pennington, sem sinn unga leikmann ársins en hann hefur spilað 25 leiki með þeim á tímabilinu. Chris Long og Gethin Jones framlengdu jafnramt lán sín hjá Brentford og Plymouth. Vikan var annars erfið hjá U21 árs liðinu en Everton U21 tapaði 1-3 fyrir Liverpool U21 og síðan 1-0 fyrir Sunderland U21 á útivelli. Eina mark Everton í þessum leikjum skoraði Harry Charsley.

Öllu betri fréttir bárust frá U18 ára liðinu en Everton U18 sigraði Aston Villa U18 á útivelli 1-4. Mörk Everton skoruðu Danny Brammall, Nathan Broadhead, Delial Brewster og Antony Evans. Það er sérstaklega gaman að segja frá því að þeir eru hársbreidd frá því að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn annað árið í röð því þeir eru aðeins tveimur stigum frá efsta sæti fyrir síðustu umferðina en eiga til góða leik við liðið í neðsta sæti í deildinni.

10 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Það var að koma í ljós að Europa League er möguleiki á næsta ári en tilkynnt var núna áðan að England fengi úthlutuðu Fair Play sæti. Everton eru í þriðja sæti í þeirri töflu, Liverpool efst (en allar líkur eru á að þeir fari í hvort eð er í Europa League með því að ná 5. sæti). West Ham eru í öðru sæti Fair Play league þannig að þetta virðist vera spurning hvort West Ham brjóti meira af sér en okkar menn það sem eftir lifir tímabils. 🙂

  Þess má geta að liðið í fjórða sæti Fair Play töflunnar (Man City) fengi ekki Europa League sæti því þeir eru búnir að gulltryggja sér Champions League sæti. Burnley eru í því fimmta.
  http://www.bbc.com/sport/0/football/32651839

  Fair play taflan er hér:
  http://www.premierleague.com/en-gb/matchday/fair-play.html

  • Diddi skrifar:

   vonandi fær West Ham þetta sæti, við þurfum að ná CL sæti á næsta tímabili 🙂

  • Finnur skrifar:

   Það er náttúrulega einn vinkilinn á þetta. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið klofinn í afstöðu minni gagnvart Europa League. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á gengi í deild en hefur líka áhrif á fjárhaginn og mögulega áhrif líka á hvort leikmenn eru til í skrifa undir. Jú, vissulega er þetta ekki meistaradeildin en Europa League trekkir pínu. Gæti haft áhrif líka á vilja stjórnarformanns til að opna pyngjuna (já, já – – rólegur Ingvar, við vitum alveg hvað þú ert að hugsa). 🙂

   • Diddi skrifar:

    því miður sýndi uppgjör þegar Moyes var síðast með liðið í EL að það var lítið sem ekkert eftir. Það eru kannski aðeins meiri peningar í þessu í dag. En ég vil sjá uppgjörið áður en ég felli dóm. Það er rétt Finnur að þetta getur haft áhrif á trekkjarann hjá okkur 🙂

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Efast um að það sé nokkuð í þessari blessuðu pyngju nema kusk.
    Og þannig verður það þar til einhver af Stones,Barkley,Mirallas,McCarthy eða Coleman hefur verið seldur.
    Enda kannski bara eins gott því Martinez er ekki treystandi fyrir peningum.

    Held að við töpum fyrir Sunderland í dag 1-3 🙁

 2. Diddi skrifar:

  og btw við töpum fyrir sunderland 1 – 2 held ég 🙂

 3. Diddi skrifar:

  til gamans má geta þess að u21 liðið okkar vann West Ham í kvöld og tryggði sér með því áframhaldandi veru í efstu deild 🙂

 4. Elvar Örn skrifar:

  Sjáumst kannski á Ölver Ok?

 5. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=9273

 6. þorri skrifar:

  kemst því miður ekki skemmti ykkur vel við vinnum 3-1

%d bloggers like this: