Swansea – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Swansea á útivelli í dag og uppskar eitt stig eftir 1-1 jafntefli. Það er þó ekki annað hægt að segja en að við séum nokkuð frústreruð að fara ekki með öll þrjú stigin, ekki síst þar sem tvö stig töpuðust á dómaramistökum, en það verður bara að taka því.

Uppstillingin fyrir Swansea leikinn: Howard, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Lennon, Barkley, Osman, Kone. Varamenn: Robles, Alcaraz, Garbutt, Besic, Pienaar, Naismith, Mirallas. Gylfi í byrjunarliði Swansea.

Leikurinn byrjaði rólega, bæði lið héldu boltanum vel eins og búist var við en hvorugt liðið að ná að skapa almennileg skotfæri.

Gomis, þeirra helsti markaskorari sýndi þó góða takta í byrjun, var næstum sloppinn í gegn einn á móti markverði á 6. mínútu en Baines gerði frábærlega og náði að hreinsa frá áður en Gomis komst í upplagt skotfæri. Gomis átti svo stórhættulegt skot utan teigs á 13. mínútu sem Howard varði glæsilega í horn. Gomis meiðist þó í skotinu og var skipt út nokkrum mínútum síðar.

Sömu örlög hlaut Osman sem var skipt út af fyrir Pienaar á 27. mínútu. Sást ekki hvort hann hefði meiðst en það hlýtur að vera.

Shelvey náði að skora með langskoti fyrir Swansea á 30. mínútu en dómarinn löngu búinn að flauta fyrir brot á Baines og því stoppuðu allir, Howard reyndi ekki einu sinni að verja.

Coleman átti svo flott skot utan teigs á 32. mínútu, lágt og fast og alveg út við stöng en vel varið í horn.

En á 40. mínútu skoraði Lennon sitt annað mark fyrir Everton — fékk fyrirgjöf frá McCarthy á vinstri kanti inn í teig, lagði boltann fyrir sig með einni snertingu og setti hann í innanvert hliðarnetið vinstra megin, framhjá varnarmanni sem og Fabianski sem kom hlaupandi á móti. 0-1 fyrir Everton. Lennon og McCarthy. Flott kombó.

Kone átti skot innan teigs á 43. eftir stungusendingu frá Pienaar en skotið beint á markvörð. Pienaar lék svo sama leik rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

0-1 í hálfleik. Swansea aldrei unnið Everton í deildarleik og útlitið dökkt fyrir þá hvað það varðaði.

Everton liðið leit mjög vel út í byrjun seinni hálfleiks, markið greinilega veitt þeim aukið sjálfstrausti og náðu oft flottu og hröðu spili fram á við. Pínulítið eins og afturhvarf til þess liðs sem við sáum á síðasta tímabili. Þeir náðu þó því miður ekki að bæta við marki, sem hefði líklega gert út um leikinn.

Barry var þó ekki langt frá því að stýra fyrirgjöf úr horni í netið á 54. mínútu. Óheppinn að skora ekki.

Kone slapp svo við spjald á sextugustu mínútu þegar hann náði bæði bolta og manni og allt brjálað á Liberty Stadium enda Kone á gulu spjaldi. Maður var eftir það með hjartað í buxunum í hvert skipti sem Kone nálgaðist boltann því hann leit út fyrir að vera að fara að næla sér í annað gult og Martinez skipti honum ekki út af fyrr en undir lok leiks (76. mínútu). En Kone hélt sig á mottunni.

Swansea hins vegar unnu sig inn í leikinn aftur og náðu yfirhöndinni í seinni hluta seinni hálfleiks. Þeir komust í gott færi á 62. mínútu hægra megin í teig, lyftu yfir Coleman og léku á Barry en skotið slakt, hátt yfir og framhjá.

En á 65. gerði dómari leiksins, Michael Oliver, sig sekan um afdrífarík mistök. Emnes, varamaðurinn fyrir Gomis, hrinti Coleman inni í teig. Coleman féll við og snerti boltann með hendi en í stað þess að dæma brot á Swansea manninn dæmir Oliver víti!? Say what? Allan tímann bakhrinding og dómarinn í góðri aðstöðu til að sjá það. Shelvey skoraði hins vegar örugglega úr vítinu. Staðan 1-1.

Það lifnaði aðeins yfir Everton liðinu við markið og stutt síðar átti Barkley skot af löngu sem var varið. Howard varði svo flott skot úr aukaspyrnu frá Gylfa — sló boltann yfir markið á 84. mínútu.

Mirallas kom inn á fyrir Barkley á 85. mínútu og átti flott skot utan teigs á 90. mínútu sem Fabianski varði. En fleiri urðu færin ekki. Niðurstaðan: 1-1 jafntefli á útivelli og Everton þar með ósigrað í fjórum leikjum í röð.

Skv. BBC voru liðin nokkuð jöfn á bolta (51/49) en Everton með 8 skot sem rötuðu á rammann, á móti þremur frá Swansea.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Jagielka 7, Stones 7, Coleman 6, Barry 7, McCarthy 8, Lennon 7, Barkley 6, Osman 6, Kone 6. Varamenn: Mirallas 6, Naismith 6, Pienaar 6. Fimm með 7 hjá Swansea, en restin með 6.

10 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  Tvö stór núll, engin mörk en hendum inn einu rauðu spjaldi á þetta miðjumoð helgarinnar.

  • Diddi skrifar:

   Teddi þú verður að segja alveg ákveðið hver fær rauða spjaldið. Ég spáði jú alveg ákveðið um markaskorara leiksins 🙂

   • Finnur skrifar:

    Ja, ef við töpum þá fær Elvar klárlega rautt því við vinnum aldrei þegar Elvar er fyrir sunnan að horfa með okkur. 🙂

    • Diddi skrifar:

     díll 🙂 þá verður nærveru hans ekki óskað í framtíðinni, EEEEEN hvar heldur hann sig alltaf þegar við vinnum, verðum að planta honum þar 🙂

   • Teddi skrifar:

    Sorrý maður, þetta var ekki alveg skýr melding sem barst mér. Hlaut e-ð að vera því að Kone átti að fá rautt en staða tunglanna var sem betur fer hliðholl Everton. 🙂

 2. Gestur skrifar:

  Mikið svakalega var Evertonliðið dapurt í dag.

 3. Ari S skrifar:

  Gareth Barry var fínn dag. Coleman byrjaði vel en dalaði niður þegar á leikinn leið. Barkley stóð sig vel og Howard átti klassa markvörslu allavega einu sinni. Þetta var allt í lagi svo sem og með þessu 38. stigi sem að liðið fékk þá er öruggt að liðið fellur ekki. Þetta er í fyrsta sinn sem að við erum öruggir (12 stigum á undan fall liði) með fimm leiki eftir. Þýðir að við þurfum að tapa öllum fimm leikjunum til þess að eiga möguleika á að falla og þá þurfa allavega 4 lið fyrir neðan okkur að vinna 4 leiki af 5. Við skulum gleðjast yfir þessu eftir dapurt tímabil kæru félagar.

  kær kveðja,

  Ari

  • Diddi skrifar:

   ég hélt að það væru spilaðar 38 umferðir Ari. En já við getum glaðst yfir því að vera áfram í deild þeirra bestu 🙂

   • Ari S skrifar:

    Já rétt, ég ruglaðist aðeins;) við erum þrátt fyrir það nokkuð öruggir með að falla ekki með þessu stigi í dag.

    En takk fyrir ábendinguna Diddi minn 🙂

   • Orri skrifar:

    Sæll Diddi.8 sætið er ekki fallsæti er ekki fallsæti,þar endum við í vor eins og ég hef lenfi talað um.

%d bloggers like this: