Everton vs Newcastle

Mynd: Everton FC.

Þessi færsla verður í styttri kantinum, enda stjórn Everton klúbbsins á Íslandi fyrir norðan að halda upp á árshátíð klúbbsins í frábærri stemmingu!

En á morgun (sunnudag) á Everton leik við Newcastle kl. 16:00 í 29. umferð ensku deildarinnar. Barry er í banni en Stones ætti að ná leiknum en hann missti af Dynamo Kiev leiknum vegna veikinda. Lennon er jafnframt klár eftir að hafa setið hjá í Europa League. Baines er metinn tæpur en McGeady, Pienaar, Oviedo og Hibbert eru meiddir.

Líkleg uppstilling: Howard, Garbutt, Stones, Jagielka, Coleman, McCarthy, Barkley, Besic, Mirallas, Naismith, Lukaku.

Hjá Newcastle er Papiss Cisse í banni og bakvörðurinn Massadio Haidara og Rolando Aarons metnir tæpir. John Carver mun stýra Newcastle í leiknum en hann tók við af Alan Pardew, allavega um stundarsakir.

Í öðrum fréttum er það helst að Everton mun keppa um Asíubikarinn á fjögurra liða móti í sumar (hin liðin: Arsenal, Stoke og úrvalslið Singapore). Leikið verður um miðjan júlí.

Og af ungliðunum er það að frétta að akademían samdi við 16 ára norður-írskan markaskorara, Shane Lavery, sem fékk trial með Everton og heillaði þjálfarana — skoraði í sínum fyrsta leik gegn United og svo fjögur mörk í næsta leik gegn Rotherham! Hann er í augnablikinu á ferðalagi með norður-írska U17 landsliðinu.

Þau ykkar sem stödd eru fyrir norðan minnum við á bjórsmökkunina í Víking Brugg (Vífilfelli) kl. 17:00. Maturinn er svo kl. 19:00 en þá hefst formleg hátíðardagskrá á Strandgötu, Akureyri, í veislusalnum til móts við Pollinn. Heildardagskráin er annars hér.

En hver er annars ykkar spá fyrir Newcastle leikinn?

3 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Miðað við hvernig frammistaðan hjá okkar mönnum hefur verið allt tímabilið eftir Evrópuleiki þá er jafntefli það besta sem við getum vonast eftir. Held samt að við töpum 0-1. 🙁

  2. Gestur skrifar:

    Ég held það reyndar líka

  3. Ari S skrifar:

    Ha ha ha þið eruð yndislegir báðir tveir.