Young Boys – Everton 1-4

Mynd: Everton FC.

Everton urðu í kvöld fyrsta liðið í þrjú ár til að vinna Young Boys á þeirra heimavelli í Evrópukeppninni og það reyndist eiginlega merkilega auðvelt — okkur til nokkurrar undrunar — sérstaklega þar sem Everton voru manni færri síðasta þriðjunginn.

Uppstillingin: Howard, Oviedo, Jagielka, Stones, Coleman, McCarthy, Barry, Barkley, Mirallas, Naismith, Lukaku. Bekkurinn: Joel, Alcaraz, Garbutt, Gibson, Besic, Atsu, Duffus.

Okkar menn byrjuðu leikinn af krafti og maður hafði mjög góða tilfinningu fyrir leiknum frá upphafi. Menn greinilega ákveðnir í að standa sig og færin létu ekki á sér standa. Pressa Everton góð og þeir sköpuðu flott færi.

Þrjú dauðafæri litu dagsins ljós á fyrstu tíu mínútunum, tvö frá Lukaku (skalli og skot) og eitt frá Barkley en öll neðarlega á vinstri stöng sem markvörður Young Boys var greinilega að dekka vel því hann hélt þeim inni í leiknum með frábærum markvörslum alveg út við stöng.

Á 9. mínútu skoruðu Young Boys, eiginlega þvert gegn gangi leiksins. Fengu skotfæri utan teigs og Hoarau lyfti boltanum frábærlega yfir Howard. 1-0 Young Boys. En Everton svöruðu af krafti!

Jöfnunarmarkið var einfalt — há sending inn í teig sem Lukaku skallaði í markið alveg við stöngina vinstra megin. 1-1.

Maður hafði í kjölfarið dálitla samúð með Young Boys því tvisvar í röð sá línuvörðurinn ekki rangstöðu í sókn Everton sem endaði með marki. Coleman potaði inn á fjærstöng hægra megin eftir að Naismith hafði tekið þríhyrninginn í gegnum vörn Young Boys (og verið rangstæður) og sent fyrir markið.

Svo skoraði Lukaku aftur en boltinn breytti stefnu af varnarmanni og barst til Lukaku sem hafði komið úr rangstöðu og var fljótur að hugsa og náði að pota inn við fjærstöng, líkt og Coleman stuttu áður.

Young Boys voru reyndar, áður en Everton bætti við þriðja markinu, nálægt því að jafna leikinn en Howard varði skot frá þeim frábærlega. Boltinn barst til sóknarmanns Young Boys rétt fyrir framan markið en sá hafði engan tíma til að hugsa og skotið arfaslakt og beint á Howard.

Flott spil Everton var næstum búið að setja Mirallas einan inn fyrir á 40. mínútu en síðasti varnarmaður Young Boys náði að setja Mirallas úr jafnvægi og fella hann. Hefði verið hart að dæma aukaspyrnu.

Og hinum megin voru Young Boys óheppnir að skora ekki því að á 43. mínútu áttu þeir skot sem fór framhjá Howard og McCarthy varði á línu með því að slengja fæti í boltann sem endaði í stöng og út af.

Fjögur mörk í fyrri hálfleik og staðan 1-3 fyrir Everton, á útivelli. Er hægt að biðja um meira?

Maður hélt að seinni hálfleikur myndi snúast um það að halda fengnum hlut, enda tveggja marka forysta á útivelli í Evrópukeppninni gulls ígildi. En Everton liðið lét það ekki nægja, heldur vildu greinilega meira.

Oviedo gerði reyndar frábærlega í að stoppa sókn Young Boys á 56. mínútu (sem voru að komast alveg upp að marki hægra megin) þegar hann setti öxlina í sóknarmann Young Boys og náði að koma boltanum út af. Oviedo meiddist við það á læri og Garbutt kom inn á.

En það leið ekki á löngu þangað til Everton voru búnir að bæta við marki. Barkley átti frábæra stungusendingu á Lukaku sem hljóp með boltann upp að marki og setti hann framhjá markverði Young Boys. Staðan orðin 1-4 og þrenna Lukaku staðreynd.

Stuttu síðar (á 62. mínútu) var Stones rekinn út af. Sóknarmaður Young Boys komst framhjá honum og Stones fékk rautt fyrir að toga hann niður inni í teig. Þetta var ekki annað gula spjald hans og ég mér fannst rautt vera kannski hart en þetta var þó ekkert annað en víti. Howard las vítið rétt og fór í rétt horn en það var algjör óþarfi því Young Boys sendu boltann upp í stúku.

Og einhvern veginn átti maður von á því að Everton liðið myndi vera, manni færri, í vörn restina af leiknum en það var síður en svo að sjá. Ef eitthvað er var eins og þeir spýttu bara í lófana og bættu í. Og þar af leiðandi var lítil ógn af Young Boys þaðan í frá.

Garbutt átti frábæra sendingu fyrir mark frá vinstri sem setti Lukaku einan á móti markverði en skotið slakt beint fyrir framan markið. Lukaku hefði getað (og átt að) setja fernuna þar.

Young Boys voru mjög svo heppnir að fá ekki á sig mark í kjölfarið þegar skot Barkley breytti stefnu af varnarmanni og fór í horn. Markvörður búinn að kasta sér í rangt horn og markið opið.

Alcaraz inn á fyrir McCarthy á 69. mínútu en á 84. mínútu var Lukaku næstum búinn að bæta við marki — enn á ný. Fékk stungusendingu inn fyrir og komst upp að marki en markvörður Young Boys varði glæsilega. Lukaku greinileg ekki ætlað að ná fernunni í kvöld, þrátt fyrir allnokkur tækifæri.

En það skipti ekki öllu því Everton fer með þriggja marka forystu í seinni leikinn á heimavelli og Young Boys þurfa að skora ansi mikið af mörkum á Goodison til að komast áfram. Flottur leikur hjá Everton í kvöld. Ákefð, pressa, flottar sendingar inn fyrir vörnina og markaveisla. Meira svona!

15 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  hvaða leikmaður er C.Duffus?

  • Finnur skrifar:

   Duffus er sóknarmaður úr unglingaliðinu sem hefur verið að gera vel. Þessir Evrópuleikir eru frábær reynsla fyrir svona gutta.

  • Halldór Sig skrifar:

   Ég sá þennan Duffus spila með 17 ára liði Everton í Gautaborg fyr 2 árum síðan og var hann lang besti maður liðsins og mjög öflugur sóknarmaður

 2. Ari G skrifar:

  Frábær leikur hjá Everton sennilega sá besti í vetur. Lukaku stórkostlegur meira segja Barry var mjög góður. Barkley flottur, Naismith frábær, Mirallas ok, Jagielka góður, hinir stóðu fyrir sínu nema Stones ekki hans dagur.

 3. Gunnþór skrifar:

  Flott úrslit hvernig var leikurinn vorum við að spila vel eða var andstæðingurinn slakur,sá ekki leikinn,hvað segja menn?

 4. Diddi skrifar:

  þessi Lukaku sem var inná, hver er þetta eiginlega 🙂

 5. ólafur már skrifar:

  þessi Lukaku kom frá Chelsea Diddi borguðum 30 mills fyrir hann en vissi annars ekkert hver þetta var hahaha 😀

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Stórkostlegt!!! Frábært!!! Gargandi snilld……og auðvitað þurfti ég að missa af meirihlutanum.

 7. Gestur skrifar:

  ekkert annað en að setja gervi gras á Goodison

 8. Gestur skrifar:

  hvenær skoraði Everton leikmaður þrennu síðast?

 9. þorri skrifar:

  kæru félagar Hvaða lið er þetta Everton lið. Fyrir mér eru þeir frábærir. Fyrri hálfleikur var frábær það voru allir að vinna sína vinnu. Þá sérstaklega Lukaku hann var frábær. Það er maður sem er kominn til að vera. Og Tim Howard hann var mjög góður allan leikinn Þetta er mitt lið ÁFRAM EVERTON

 10. Elvar Örn skrifar:

  Lukaku var brilliant, Barkley var mangaður og…..wait for it….. Barry var andskoti góður líka. Frábær liðsheild og Everton að brillera í Evrópudeildinni, komnir í 16 liða úrslit nema við töpum 0-4 eða 5-1 eða 6-2 á heimavelli,,,ólíklegt verð ég að segja.
  Klaufalegt brot hjá Stones og hann stóð sig ekki illa en var að hanga alltof mikið á boltanum í öftustu línu og óþarfa brot þegar hann fékk rautt.
  16 liða úrslit here we come, já og svo er Leicester á heimavelli næstu helgi.
  Þýðir þetta ekki að Everton-Newcastle verður á sunnudegi á árshátíðarhelginni góðu norðan heiða? Sem er samt besta mál.

 11. Halldór Sig skrifar:

  Vonandi er þetta sem koma skal það sem eftir er tímabilsins

 12. Elvar Örn skrifar:

  Til upplýsinga þá verður dregið í 16 liða úrslitin daginn eftir seinni leikinn okkar gegn Young Boys þ.e. föstudaginn 27 febrúar.
  Nánar um það hér:
  http://www.uefa.com/uefaeuropaleague/news/newsid=2212383.html

%d bloggers like this: