Lokafrestur — vinningur í boði

Mynd: Everton FC.

Um helgina rennur út lokafrestur til að borga félagsgjöldin í stuðningsmannaklúbbi Everton á Íslandi en á sunnudaginn fellur niður greiðsluseðill sem sendur var í heimabanka til ykkar allra sem skráð eru í félagatalið. Svörun hingað til hefur verið ekkert annað en frábær og kunnum við ykkur bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Við settum í gamni upp töflu yfir þá staði á landinu sem hafa að geyma dyggustu bakhjarla klúbbsins í ár og miðuðum þar við hlutfall í hverju bæjarfélagi (skv. skráningu í félagatali) sem greitt hafa árgjöldin. Taflan sýnir efstu 23 bæjarfélögin og eru 13 af þeim með 100% svörun (vel gert!) en Akranes, Hafnarfjörður, Akureyri, Húsavík og Kópavogur eru ekki langt undan.

Bæjarfélag Hafa greitt
Vestmannaeyjar 100%
Höfn 100%
Egilsstaðir 100%
Reyðarfjörður 100%
Borgarfjörður-eystri 100%
Seyðisfjörður 100%
Grenivík 100%
Hvammstanga 100%
Hólmavík 100%
Patreksfjörður 100%
Ísafjörður 100%
Búðardalur 100%
Borgarnesi 100%
Reykjanesbær 100%
Siglufjörður 100%
Garður 100%
Sandgerði 100%
Grindavík 100%
Kjalarnes 100%
Akranes 85%
Hafnarfjörður 79%
Akureyri 75%
Kópavogur 75%
Húsavík 75%
Garðabær 50%
Eskifjörður 50%
Dalvík 50%
Njarðvík 50%
Reykjavík 48%
Önnur póstnúmer Lægra en 48%

Ef þú hefur ekki enn greitt árgjaldið þá endilega kíktu í heimabankann þinn fyrir helgi og greiddu gíróseðil frá okkur sem þar er að finna. Einnig er hægt að millifæra beint inn á reikning félagsins (reikningsnúmer: 331-26-124, kt: 5110120660, upphæð: 3000 kr.) og er það hægt hvenær sem er — en athugið þó að aðeins þau ykkar sem greiða fyrir sunnudag fá greiðslugjöf.

Að auki ætlum við að standa fyrir smá happdrætti þar sem einn heppinn félagsmaður verður dreginn út og fær að launum óvæntan glaðning. Allir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld fyrir núverandi tímabil eru með í pottinum — líka þau ykkar sem greiddu snemma. Aðeins stjórnarmeðlimir og fjölskyldur þeirra eru undanskildar.

Ef þú, lesandi góður, hefur áhuga á að ganga í félagið þá geturðu gert það með því að borga árgjaldið og þá ertu með í happdrættinu (svo framarlega sem greitt er fyrir sunnudag). Einnig er hægt að hafa samband og við leiðbeinum með skráningu í félagið.

Vonum við að þið sýnið stuðning ykkar í verki því án ykkar er ekkert stuðningsmannafélag! Áfram Everton!

11 Athugasemdir

 1. Hallur skrifar:

  Sælir kappar ég borgaði einhvern seðil í desember og er bara að spá hvort það sé komin nýr seðill ef svo er sé ég hann ekki i heimabankanum

 2. Finnur skrifar:

  Það passar. Þú ert búinn að borga. Það er nóg að hafa borgað gíróseðilinn einhvern tímann á núverandi tímabili til að teljast vera fullgildur meðlimur í klúbbnum á árinu sem þýðir jafnframt að þú ert með í pottinum þegar við drögum. Takk fyrir stuðninginn!

 3. jon ingi skrifar:

  Mér finnst þessi tölfræði hjá ykkur vera ósanngjörn gagnvart skilvirkum greiðendum t.d. í Reykjavík og er mjög óhress hvernig þið stillið þessu upp. Ég veit fyrir mitt leyti þá hef ég greitt þetta um leið og það birtist í heimabankanum en nú er maður víst í hópi þeirra óskilvísustu, takk fyrir.

  • Finnur skrifar:

   Sæll Jón Ingi og takk fyrir góða og þarfa ábendingu! Hún gefur mér tækifæri á að vekja athygli á því að þetta er síður en svo tæmandi listi yfir póstnúmer með Everton stuðningsmenn innanborðs. Vissulega eru bæjarfélög með lægri svörun við greiðsluseðlum en Reykjavík — en ég kaus að birta þau ekki (og benti á það hér að ofan). Því er Reykjavík ekki í neðsta sæti listans, þó annað kynni að virðast af töflunni.

   Þetta var bara spurning um hvar ég ákvað að komið væri gott af upptalningunni en mér fannst ekki hægt að hafa lista sem innihélt ekki fjölmennasta bæjarfélagið. Þar sem ég sé nú að þetta var ekki nógu ljóst þá hef ég þó tekið athugasemdir þínar til greina og er búinn að bæta við færslu í lok töflunnar til að taka vonandi af allan vafa.

   Bendi einnig á að þetta var allt til gamans gert og er síður en svo vísindalegt (skráning í félagatal er ekki fullkomin) og því ber að taka þessu með fyrirvara.

   Það var aldrei meiningin að þú tækir þetta sem gagnrýni á þig en þinn stuðningur í gegnum tíðina hefur síður en svo farið framhjá okkur, enda skilvís með eindæmum á félagsgjöld og kunnum við þér bestu þakkir fyrir.

   • Jón Ingi skrifar:

    Sæll Finnur
    Ég skil alveg hvað þið eruð að fara og hef engar athugasemdir við það, sjálfsagt að reyna allt til að ná inn félagsgjöldunum. Það sem ég hefði vilja sjá er hvað stendur á bak við prósentuna t.d. annars vegar sveitarfélag með 2 félagsmenn sem báðir eru búnir að greiða þar væri 2/2 = 100% og hins vegar sveitarfélag með 100 félagsmenn og 47 búnir að greiða 47/100 = 47%
    En þetta er kannski algert aukaatriði og ég viðurkenni að þetta var óþarfa viðkvæmni í mér.
    Með bestu kveðju, JIE

    • Finnur skrifar:

     Skil þig. Ég vildi ekki hafa tölurnar of nákvæmar því það eru einhverjar rangfærslur í félagatali þar sem kominn er tími á að uppfæra það með nýjustu upplýsingum um heimilsföng (væri leiðinlegt að telja of fáa stuðningsmenn einhvers staðar). Við komum líklega til með að uppfæra félagatalið í kjölfar þess sem við sendum út greiðslugjafirnar.

     En jú, það er vissulega auðveldara, eins og þú bendir réttilega á, fyrir minni sveitarfélögin að gera vel og kemur líklega alltaf til með að halla á höfuðborgarsvæðið í þeim efnum — einfaldlega þar sem stuðningurinn er mestur þar (kannski eðlilega) og þar með erfiðara að ná í 100%.

     Ekki má þó gleyma að við kunnum mjög vel að meta stuðninginn frá félagsmönnum í Reykjavík sem þegar hafa borgað (sem og annars staðar) og vonum bara að þetta virki sem hvatning til þeirra sem enn eiga eftir að borga. 🙂

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég sé ekki Dalabyggð á listanum, þá á ég líklega eftir að borga.

 5. Finnur skrifar:

  Heyrðu, þú segir nokkuð, Ingvar! Það passar ekki að þú eigir eftir að borga (hefur staðið í skilum bæði á þessu tímabili sem og undanfarið). Ég fór því og athugaði útreikningana mína og fann villu sem gerði það að verkum að fimm bæjarfélög duttu út, þar með talið þitt. Takk kærlega fyrir þessa ábendingu — búinn að uppfæra listann.

 6. Gestur skrifar:

  Þá er ég rólegur , hélt ég hefði gleymt mér

 7. Gestur skrifar:

  Það er geynilegt að Lukaku er ekki Everton maður, selja hann sem fyrst og fá framherja með hjarta

%d bloggers like this: