Chelsea – Everton 1-0

Mynd: Everton FC.

Það er ekki laust við að maður væri fyrirfram hálf smeykur við þessa viðureign þar sem sú síðasta var erfiður tilfinninga-rússíbani sem byrjaði á því að lenda 0-2 undir eftir þrjár mínútur (!) og endaði illa með þriggja marka tapi, þó Everton liðið hefði oft virst ætla að ná að jafna.

Chelsea liðið í þetta skiptið efst í deildinni með nokkurt forskot á City og þar að auki í bullandi formi þessa dagana.

Uppstilling Everton í leiknum: Howard, Oviedo, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, Besic, Barkley, Lennon, Naismith, Lukaku. Varamenn: Robles, Garbutt, Alcaraz, Gibson, McCarthy, Kone, Mirallas.

Howard sem sagt beint inn í aðalliðið aftur þrátt fyrir að Robles hafi haldið hreinu þrjá leiki í röð en Baines aftur hvergi sjáanlegur. McCarthy og Mirallas á bekknum.

Chelsea byrjuðu leikinn með látum og settu sterka pressu á okkar menn. Á 3. mínútu vildu Chelsea menn fá víti þegar boltinn fór, að mér sýndist, í öxlina á Naismith. Willain átti svo flott skot á 5. mínútu en yfir markið.

Besta færi Everton í fyrri hálfleik kom upp úr skyndisókn á 7. mínútu þegar Aaron Lennon fann Barkley á miðjunni og hann átti flotta sendingu á Lukaku sem komst inn í teig og skaut en Cech varði með fæti og (að mér sýndist) næstum í eigin samkeyti.

Chelsea svöruðu á 9. mínútu með flottu skoti frá Cuadrado hægra megin í teignum en framhjá (og alltaf á leið frá marki).

Remy var svo næstum búinn að skora með skalla á 13. mínútu en Howard varði glæsilega. Besta færi Chelsea í fyrri hálfleik.

Remy með flott skot eftir skyndisókn Chelsea en aftur framhjá og alltaf á leið frá marki.

Hazard með fast skot við D-ið en Howard varði vel — sem betur fer — því Chelsea menn hefðu komist í frákastið.

0-0 í hálfleik; Liðiðn 50/50 á boltanum nokkrun veginn en Chelsea þó með fleiri tilraunir og litu út fyrir að vera líklegri til að skora. Báðir markverðir með eina góða vörslu í hálfleiknum.

Ein breyting á liði Everton í hálfleik: McCarthy inn fyrir Besic.

Chelsea héldu áfram að sækja í seinni hálfleik en hættan af þeim var minni eftir því sem leið á og færum þeirra fækkaði til muna.

Howard átti flotta markvörslu á 62. mínútu beint úr aukaspyrnu og sömuleiðis þegar Willain reyndi skot frá vinstri úr teig.

En fimm mínútum síðar leit langbesta færi leiksins ljós (og munaði töluverðu þar á) þegar Lukaku fékk fyrirgjöf fyrir markið frá Oviedo og náði góðu skoti — óvaldaður point blank á mark, eins og Englendingar orða það — en Cech varði með ótrúlegum hætti með því að slengja fæti í boltann. Enn á ný sýnir Cech hversu góður markvörður hann er og enn á ný þarf hann að gera það á móti Everton. Hér hefði staðan átt að vera 0-1 og þeir hefðu ekki getað kvartað.

Tvöföld skipting hjá Chelsea örfáum mínútum síðar: Drogba inn fyrir Remy og Fabregas fyrir Cuadrado (á 70. mínútu) en Martinez svaraði nokkrum mínútum síðar með tvöfaldri skiptingu: Mirallas inn á fyrir Lennon og Gibson inn á fyrir Barkley.

Chelsea héldu að þeir væru komnir yfir á 85. mínútu þegar þeir skoruðu rangstöðumark. Skot kom utan teigs sem breytti stefnu tvisvar: fór fyrst í leikmann Everton og þaðan í rangstæðan Ivanovic og í markið. Línuvörður sá það, sem betur fer, og dómarinn dæmdi markið ógilt.

Á 87. mínútu fékk Barry svo rautt spjald fyrir sitt annað gula spjald. Martinez vildi eftir leik meina að viðbrögð leikmanna Chelsea hefðu náð að þvinga rautt spjald úr vasanum á dómaranum þar sem brotið var ekki spjaldsins virði. Ivanoic slapp í kjölfarið við spjald fyrir að grípa um hálsinn á McCarthy og setja svo ennið í hann stuttu síðar. Dómarinn var í góðri aðstöðu til að sjá allavega fyrra atvikið, eins og sjá má, en gerði ekkert.

En upp úr aukaspyrnunni skora Chelsea menn — á síðustu mínútu venjulegs leiktíma (andvarp). Aftur var um að ræða skot sem breytti um stefnu, fór í gegnum klofið á varnarmanni og í netið alveg upp við stöngina. Deflection mark — sem virtist vera eina leið Chelsea til að koma boltanum í netið framhjá afskaplega vel skipulagðri vörn Everton.

Og nú sveið það mjög sárt að Cech skyldi hafa bjargað Chelsea fyrir horn með ótrúlegum hætti frá Lukaku. En lítið við því að gera.

Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Oviedo 6, Stones 7, Jagielka 6, Coleman 7, Besic 7, Barry 5, Lennon 5, Naismith 6, Barkley 6, Lukaku 7. Varamenn: McCarthy 6, Mirallas 6, Gibson 6.

11 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  jæja og búið að setja Mirallas á bekkinn , það er verið að hrekja hann burtu.

 2. Elvar Örn skrifar:

  Bara 15 mín eftir og Howard verið frábær og vörnin líka. Everton með tvö bestu færi leiksins með tveimur góðum Skotum frá Lukaku sem var bara óheppinn að skora ekki.

 3. Gunnþór skrifar:

  Áttum því miður aldrei séns í kvöld.

 4. Gunnþór skrifar:

  Nú eru fimm skyldusigrar framundan hjá okkur og ekkert kjaftæði.

 5. Gestur skrifar:

  Það besta við þennan leik er að Barry er í banni í þeim næsta.

 6. Diddi skrifar:

  hvað ætli við getum hangið lengi í þessu tólfta sæti ???

 7. Gestur skrifar:

  Búnir að spila 25 leiki í deild og 6 sigrar , alveg ótrúlegt

 8. Gunnþór skrifar:

  Gestur það er ekkert eðlilegt við það.

 9. Eiríkur skrifar:

  Hvernig gat það gerst á 87 mín að Barry fengi seinna gula fyrir litlar sakir og í kjölfarið skuli James McCarthy fá gult spjald fyrir æsing í Chelsea leikmönnum. Algjörlega óskiljanlegt.

 10. Finnur skrifar:

  Já, alveg sammála: það var hálf undarlegt að sjá útkomuna úr þessum látum sem Chelsea menn áttu upptökin á. Dómarinn virtist taka þessu broti frá Barry með jafnaðargeði (réttilega) í byrjun alveg þangað til Chelsea menn hlupu upp til handa og fóta. Það var ekkert sem benti til þess að hann væri að fara að reka Barry út af. Skil líka ekki af hverju McCarthy fær spjald en Ivanovic sleppur (eins og myndin hér að ofan sýnir).

  En algjörlega frábær vörn í leiknum og þó pressan hefði verið meiri frá Chelsea þá áttum við besta færið bæði fyrir og eftir hlé. Hefðum hæglega getað unnið þetta.

  Greining Executioner’s Bong á leiknum:
  https://theexecutionersbong.wordpress.com/2015/02/12/tactical-deconstruction-chelsea-1-0-everton-2/

 11. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Það er ekkert að marka hvað lekur úr þessum gerspilltu, Skyfourendaþarmssleikjum í enska knattspyrnusambandinu.
  Það er svo gerspillt að verstu einræðisstjórnir, mafíósar og íslenskir útrásarvíkingar blikna í samanburðinum.
  Meira að segja Sepp Blatter er ekki svona spilltur.

%d bloggers like this: