Everton vs. Liverpool

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti litla bróður, Liverpool, á laugardaginn kl. 17:30 í 24. deildarleik tímabilsins en fyrir leikinn verður smá athöfn við Park End stúkuna þar sem minnisvarði um Hillsborough slysið verður afhjúpaður.

Pressan er mestmegnis á Liverpool að vinna leikinn því Everton kemur til með að leggja ofuráherslu á að standa sig vel í Evrópudeildinni, miðað við stöðuna eins og er. Það kemur þó til með að vinna nokkuð með okkar mönnum (fyrir utan það að vera á heimavelli) að Liverpool liðið lék í miðri viku (í FA bikarnum í gær) á meðan Everton liðið hvíldi, en Liverpool lentu undir í leiknum gegn B-deildar liði Bolton (sem voru manni færri lungað úr leiknum) og þurftu því á sínum sterkustu mönnum að halda til að sigra.

Mikið hefur verið rætt um það að James McCarthy hafi meiðst á æfingu í vikunni og þurft að fara á spítala en Martinez sagði það einfaldlega vera rangt (að hann hefði meiðst) og að McCarthy ætti að vera klár í leikinn, ef svo færi að hann þyrfti á kröftum hans að halda. Heimsóknin á spítalann hafi aðeins verið til að mæta í myndatöku til að sannreyna að hann hefði náð að jafna sig og að myndirnar litu vel út. Besic hefur auk þess sýnt það enn á ný að njósnaradeild Everton hefur næmt auga fyrir ódýrum og óslípuðum demöntum, en það er ekki hægt að neita því að það væru frábærar fréttir ef McCarthy yrði orðinn nógu heill þar sem hann hefur meira en sannað gildi sitt á miðjunni. Martinez sagði líka að ekki væri langt í það að Tim Howard væri orðinn góður en hann er farinn að æfa með hópnum, en líklega þarf hann viku í viðbót.

Gömlu mennirnir, Hibbert, Osman og Pienaar, eru þó frá sem og lánsmaðurinn Atsu (sem er með landsliði Ghana) en þeir á koppnum anda örugglega léttar við þær fréttir, enda er Atsu „okkar sprækasti maður“ (að þeirra mati). En talandi um spræka menn…

Nýliðinn okkar, Aaron Lennon, sem kom í janúarglugganum er tilbúinn í derby leikinn og miðað við hvað stuðningsmenn púlaranna hafa grandskoðað myndir af honum til að athuga hvort hann brosi nógu mikið þegar hann heldur treyjunni á lofti mætti ætla að þeir væru hálf smeykir við að mæta honum. Kannski skiljanlegt, miðað við það sem maður hefur séð af honum (til dæmis hér og hér). En, eins og Martinez benti á þá er það hlutverk ljósmyndara að velja góðar myndir af fyrirsætunum og ekki laust við að mann gruni að Lennon sé að spara brosið fyrir derby leikinn. Það kæmi mér alls ekki á óvart þó hann stimpli sig inn í derby-folklore söguna með að minnsta kosti flottu hlaupi sem skilar stoðsendinu í marki. Og það þarf enginn að segja mér að hann eigi ekki eftir að brosa út að eyrum við að fagna því, enda kemur þessi gagnrýni til með að reynast honum ekkert annað en aukin hvatning.

Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, Besic, Barkley, Mirallas, Naismith, Lukaku. McCarthy og Lennon eru líklegir til að vera skipt inn á síðasta hálftímann, sérstaklega sá síðarnefndi, svona til að keyra á þreytta vörn Liverpool í lokin. Hjá þeim er Kolo Toure frá vegna Afríkukeppni og Lovren hefur verið að ströggla við bæði meiðsli og slakt form þess á milli. Flanagan er á langtímameiðslalistanum hjá þeim og Lazar Markovic haltraði af velli í FA bikarleik þeirra þannig að hann telst líklega tæpur.

Í öðrum fréttum er það helst að Everton gerðu samning við Central Coast Mariners í Ástralíu (landið sem færði okkur Tim Cahill, sælla minninga) um að skiptast á leikmönnum úr U21 árs liðinu með það fyrir augum að leikmenn beggja liða öðlist sem mesta reynslu. Þessi samningur er svipaður og Man City gerðu við Melbourne City fyrir ekki svo löngu.

9 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Svo má ekki gleyma flottu sigurmarki frá Lennon gegn Liverpool:
  https://www.youtube.com/watch?v=ewBqtM85BJs
  Sé ekki betur en að hann brosi út að eyrum! 🙂

 2. Halli skrifar:

  Þetta verður nú eitthvað síðasti derbyleikurinn hjá no 8 í rauðu og við ætlum ekki að gefa honum sigur í þessum leik. Ég spái 3-1 fyrir okkar mönnum og eigum montréttinn fram á næstu leiktíð

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Það er alveg hræðilegt að þessi leikur skuli vera á laugardaginn. Ég er nefnilega að fara á þorrablót um kvöldið og Everton vinnur ALDREI ef ég er að fara eitthvað að skemmta mér að kvöldi leikdags.
  Býst ekki við að það breytist núna og við töpum en þó með stórri hjálp frá dómaranum.

 4. Finnur skrifar:

  Í síðasta leik þessara liða á Goodison sáum við 6 mörk. Mig grunar þó að þessi leikur verði ekki sama markaveislan og að þetta verði mjög tæpt; spái 1-1 jafntefli þar sem Gerrard skorar úr föstu leikatriði og Mirallas eða Lukaku jafni.

  Þess má til gamans geta að Lukaku er heitur þessa dagana; hefur skorað 3 mörk í 5 síðustu leikjum Everton. Einnig er rétt að minnast á að frá því í nóvember hefur Mirallas skorað í þriðja hverjum leik Everton að meðaltali. Hann skoraði í þarsíðasta leik Everton þannig að… Og svo má alls ekki gleyma Naismith sem hefur einstakt lag á að skora í mikilvægum leikjum. Þannig að þetta verður eitthvað.

  En… ég vona bara að ekki verði um nein meiðsli að ræða og að dómarinn haldi sér á mottunni; á það til að vera svolítið í aðalhlutverki í þessum leikjum síðustu árin.

 5. ólafur már skrifar:

  sælir það er kominn tími til að þagga aðeins í þeim þarna hinu meginn við ána í dag og segji ég að við vinnum þennan leik 2-1 Lukaku með 1 og Naismith með 1 en ég veit ekkert hver skorar fyrir litla liðið og mér er sama COYB

 6. Diddi skrifar:

  ég óttast að þessi leikur snúist alltof mikið um Gerrard og þessi dómari hreinlega höndli það alls ekki. Spái því að ódýr víti verði dæmd og dómarinn rétt nái að skyggja á Gerrard í því að vera maður leiksins. 1 – 3 lokatölur í þessum leik því miður og Ingvar fer á þorrablótið í fúlu skapi. Svo má til gamans (án þess að það skipti öllu máli) geta þess að EVERTON og liverpool eru sömu megin árinnar, eitthvað sem Bjarni Fel var ekki að skilja í gamla daga og ég vona að við þurfum ekki að þagga niður í þessum hinum megin nema í bikarleikjum þ.e.a.s. Tranmere 🙂

 7. Diddi skrifar:

  En ég vona auðvitað að þetta fari á allt annan veg 🙂

 8. Teddi skrifar:

  Því miður 1-2 eins og hjá Bolton á miðvikudag.
  Lukaku og Gerrard fá rautt.

 9. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=8791

%d bloggers like this: