Frammistaða leikmanna hingað til

Mynd: Everton FC.

Gunnþór kom með skemmtilega pælingu í kommentakerfinu þegar hann bað um álit okkar á frammistöðu leikmanna hingað til og hvort leikmenn væru á pari eða ekki. Ég ætlaði að svara í kommentakerfinu en svo varð þetta nógu langt til að búa bara til hraðsoðna færslu úr þessu.

Þannig að hér er mín skoðun, lauslega raðað eftir stöðum á velli:

Mark:

Tim Howard – Stóð sig vel á síðasta tímabili og algjörlega frábærlega á HM (ertu ekki að grínast í mér?!) en hefur alls ekki staðið undir væntingum á þessu tímabili. Á móti kemur að erfitt er að vera markvörður þegar vörnin er í rugli, eins og hefur loðað við okkur undanfarið. Á einhverjum tímapunkti hlýtur að fara að fjara undan honum (er 35 ára nú þegar) og spurning hvort hann sé þegar dottinn úr liðinu. Undir pari.
Joel Robles – Við höfum séð að hann er frábær shot-stopper en áður en Howard meiddist hafði hann ekki fengið marga sénsa og síður en svo náð að sýna sitt rétta andlit — enda ekki fengið marga leiki í röð á velli (við sjáum ekki bestu hliðar leikmanna fyrr en þeir spila reglulega, sbr. Heitinga). Hann er þó allur að koma til og maður veltir fyrir sér hvort hann gæti tekið við af Howard. Það væri óskandi (myndi spara helling). Yfir pari.

Vinstri bakverðir:

Leighton Baines – Besti vinstri bakvörðurinn í deildinni og þó víðar væri leitað. Ekki jafn góður á þessu tímabili þó og á fyrri tímabilum. Áttaði mig á því um daginn að hann hefur ekki skorað nema úr föstum leikatriðum í svolítið langan tíma. Erfitt að sjá það þó því að hann hefur skorað töluvert úr vítum og aukaspyrnum en það kom vissulega meira af mörkum úr honum áður. Á pari?
Bryan Oviedo – Erfitt að dæma hann, nýstiginn upp úr svakalega ljótu tvöföldu fótbroti. Sáttur við það sem ég hef séð hingað til.
Luke Garbutt – Veit ekki hvað það er við Everton en þeir virðast aldrei í vandræðum með vinstri bakverði, framleiða þá og kaupa ódýrt á færibandi. Ef Baines færi (á metfé) þá getur maður allavega huggað sig við það að það yrðu engir aukvisar eftir að berjast um þá stöðu. Yfir pari.

Miðverðir:

Sylvain Distin – Antílópan okkar ástsæla og hraðskreiða er búin að eiga alveg skelfilegt tímabil. Alveg gáttaður á því hvernig það getur verið að Distin og Jagielka eru búnir að vera svona lélegir saman á þessu tímabili, sbr. síðasta tímabil (ein besta vörnin yfir í eina þá verstu). Erfitt að skrifa það á annað en Distin, miðað við þá feila sem er búið að skrá á hann. Langt langt langt undir pari.
John Stones – Mig langaði að öskra þegar hann meiddist illa gegn United því hann virtist að fara að leysa þetta Distin-vandamál sem hefur hrjáð okkur á tímabilinu. Virðist þó vera að komast í form aftur — var algjörlega frábær á móti Palace. Unun að horfa á. Hvað kostaði hann aftur? Eina milljón punda?! Framtíðar miðvörður. Yfir pari.
Phil Jagielka – Átti erfitt HM með Englendingum og lengi að komast í gang. Kafteinninn okkar á þó fullt eftir — sérstaklega við hliðina á Stones. Þeir tveir eru flottir saman þegar báðir eru heilir. Á pari.
Antolin Alcaraz – Ég var til í að gefa honum fullt af sénsum og sjá hann pluma sig ef hann fengi nógu marga leiki. Ég er enn að bíða eftir að hann fari að sýna hvað hann getur og er farið að gruna að hann sé einfaldlega ekki nógu góður. Finnst hann alltof mikið að leika sér að eldinum. :/ Ekki búinn að gefast upp þó, en tíminn er að renna út. Undir pari.

Hægri bakverðir:

Seamus Coleman – 60 þúsund pund fyrir einn besta, ef ekki besta hægri bakvörð deildarinnar. Myndi sæma þann sem fann hann íslensku fálkaorðunni, ef væri ekki búið að gjaldfella hana ítrekað undanfarið. Frábær í vörn og skorar helling af mörkum. Er hægt að biðja um meira? Yfir pari.
Tony Hibbert – Mr. Everton. Ronaldo norðursins. Okkar Chuck Norris og besti tæklari deildarinnar. Búinn að vera í eldlínunni endalaust og aldrei hlíft sér. Hlaut að koma að því að hann færi að dala en hann hefur nánast ekkert spilað. Erfitt að kveðja, en líklega kominn tími á nýja kynslóð. Undir pari.
Tyias Browning – Ekki fengið marga sénsa en það sem maður hefur séð hefur litið mjög vel út. Yfir pari.

Miðjan:

James McCarthy – Hesús Kristus hvað við söknum hans!! Einhver tók saman hvað Everton hefur unnið fáa leiki án hans og það var fáránlega lág tala (of depressing til að fletta því upp). Er það undir/yfir pari? Hmm… Undir pari ef meiðsli eru tekin með.
Gareth Barry – Hvað gerðist? Reyndar, hann og McCarthy voru algjörlega frábærir saman og McCarthy búinn að vera mikið meiddur en hann virðist alls ekki ná sama takti með Barkley/Besic (OK, hann og Besic voru reyndar fínir í seinasta leik) en hann hefur átt of marga afleita leiki á tímabilinu. Langt undir pari.
Ross Barkley – fórnarlamb væntinga, að mínu mati. Frábær leikmaður og á eftir að bæta sig mikið en á sínar lægðir eins og eðlilegt er með svona unga leikmenn. Undir pari.
Muhamed Besic – Flottur leikmaður og hefur heillað mig frá upphafi. Algjört bargain (4m punda) og alltaf gaman að sjá þegar það virkar svona skemmtilega. Yfir pari. Mikið langar mig til að sjá hann og McCarthy ná vel saman á miðjunni en grunar að þeir séu of mikið að keppa um sömu stöðuna. :/
Darron Gibson – nánast free transfer en búinn að vera alltof mikið meiddur. Ef hann fer ekki að láta til sín taka verður hann að teljast flopp (afar ódýrt flopp). Undir pari.
Leon Osman – Spilaði alla leikina í fyrra, ef mér skjöplast ekki. Höfum saknað hans mikið, þó einhverjir kjósi ekki að viðurkenna það. Kominn á tima eins og Hibbert. Undir pari. Þurfum að finna leikmann sem getur leyst hann af.

Kantmenn:

Steven Pienaar – Nákvæmlega sama hér og með Osman. Undir pari.
Kevin Mirallas – Frábær leikmaður. Óheppinn með meiðsli (ljótar tæklingar) en maður lifandi hvað hann getur breytt leikjum og tekið flottar aukaspyrnur. Vona að hægt verði að semja við hann áfram og að hann láti þetta 2nd season syndrome ekki á sig fá. Á pari.
Aiden McGeady – Hann er búinn að vera ágætur, þarf að skora fleiri mörk en er með eitthvað af stoðsendingum. Mikill vill alltaf meira en hann kostaði lítið sem ekkert og væntingar verða víst að vera í samræmi við það. Undir pari. Væri gaman að hafa annan Mirallas hinum megin.
Christian Atsu – Það eina jákvæða við þennan lánsmann var að bráðefnilegur og ungur kantmaður okkar (Matthew Kennedy) gat farið á láni og fengið að spila reglulega í stað þess að sitja á bekknum hjá okkur. Atsu annars: Langt undir pari. Hlæ ennþá innra með mér þegar ég hugsa til greiningu Liverpool (Kop) manna á Everton liðinu fyrir derby leikinn þar sem þeir mátu Atsu „okkar sprækasta mann“.

Sókn:

Steven Naismith – Enn einn á free transfer og fer vaxandi. Á það til að ergja okkur með afleitum sendingum sem brjóta niður sóknir Everton en þess á milli á hann stoðsendingar, glæsileg hlaup gegnum vörn andstæðinganna og skorar afar mikilvæg mörk. Erfitt að finna mann sem sýnir jafn mikinn baráttuanda á velli sem oft leiðir til þess að Everton snýr skyndilega vörn í sókn þegar hann stelur boltann af andstæðingnum. Vex með hverju tímabilinu — eigum við ekki að segja rétt yfir pari?
Arouna Kone — nýstiginn upp úr erfiðum meiðslu, erfitt að dæma.
Romelu Lukaku — átti erfitt uppdráttar í byrjun, fékk lengra frí vegna HM og ekki leikfær til að byrja með. Spilaði samt vegna meiðsla annarra. Markahæstur núna (fyrstur til að komast í tveggja stafa tölu), sem er… ekki ekki neitt… Aðeins undir pari líklega.

Held ég sé ekki að gleyma neinum (kæmi þó ekki á óvart) en væri gaman að heyra hvort þið séuð sammála eða ekki.

7 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Flott grening Finnur og skemmtileg greining ég er kanski ekki allstaðar sammála en þannig á það að vera

  2. Halldór skrifar:

    Sammála nema með Coleman, fannst hann besti hægri bak í deildinni í fyrra. Hann er langt frá því formi í dag.

  3. Gestur skrifar:

    talandi um að notfæra sér stöðu

    • Finnur skrifar:

      Hélt nú reyndar að það væri eitt af hlutverkum ritara að skrifa greinar hér. 🙂 Kannski rétt að minna á að ég hef nokkrum sinnum boðið fólki að senda inn greinar til birtingar og það stendur enn til boða, þannig að þetta er engin sérstaða einhverra útvaldra. Eins og nýleg dæmi sanna líka: Ari S, tók það upp hjá sjálfum sér að skrifa upphitunargreinar um Evrópuleikina, til dæmis. Svo hef ég einstaka sinnum tekið út löng komment (frá öðrum en mér) úr kommentakerfi hér og gert að greinum, því mér þótti það sem skrifað var eiga erindi við okkur öll og greinaformið hentugra til lesturs en kommentakerfið. Þannig að þetta er engin nýlunda.

      • Gestur skrifar:

        Gott mál , það gerðist lítið hér ef það væri ekki haldið svona vel um hlutina. Ég er sammála flestu en Hibbert hefur verið að vinna sig inn í liðið spilaði lítið á síðasta tímabili..

  4. Gunnþór skrifar:

    Finnur þetta var flott greining og vel til fundið.mér persónulega finnst hafsentarnir okkar allir vera að spila undir pari tala nú ekki um bakverðinna okkar tvo sem voru langbestir í sinni stöðu síðastliðin tvö ár vera lant undir pari,miðjan enginn á pari og sóknarlínan finnst mér vera undir pari.Við getum líka séð val á leikmönnum umferðarinnar í vetur við höfum ekki átt marga þar.

  5. Diddi skrifar:

    Mér finnst fáir leikmenn hafa verið á pari við frammistöðu síðasta tímabils. Stones og Besic hafa þó verið flottir að mínu mati. Mirallas er góður en djöfull andskoti sem það fer í taugarnar á mér hvað hann er misjafn. Í sumum leikjum er hann hreinlega óstöðvandi en svo er eins og hann detti niður í drullusvað í öðrum. Coleman langt frá sínu besta og Baines rétt að skána upp á síðkastið. En við söknum McCarthy ekkert eðlilega mikið. Lukaku er enn alveg fyrirmunað að halda boltanum við sig og sáum við mikinn mun á því þegar Kone kom inn fyrir hann í síðasta leik. Boltinn eins og límdur við hann. Lukaku svolítið klunnalegur í boltameðferð. En þetta á bara eftir að lagast allt saman. Vil hafa Robles áfram í markinu. KOMA SVO 🙂