Crystal Palace – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Crystal Palace voru búnir að vinna fjóra leiki í röð þegar þeir mættu Everton í dag en Martinez náði að stöðva 100% árangur Alan Pardew frá því hann tók við Palace. Niðurstaðan 1-0 sigur  sem Everton menn sóttu af harðfylgi. Loksins 3 stig, búið að vera allt of langt síðan síðast.

Uppstillingin: Robles, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, Besic, Mirallas, McGeady, Naismith, Lukaku. Bekkurinn: Griffiths, Alcaraz, Distin, Oviedo, Gibson, Barkley, Kone.

Everton fékk óskabyrjun í leiknum þegar Naismith komst upp vinstri kantinn snemma í leiknum, gaf fyrir á Lukaku en markvörður náði að slengja hendi í boltann. Palace menn voru þó svo óheppnir að boltinn fór í fótinn á Lukaku og inn. 1-0 fyrir Everton strax á 2. mínútu. Þulurinn hafði á orði að Lukaku hefði ekki skorað í síðustu átta deildarleikjum og því við hæfi að hann skoraði nú, því aldrei hafa liðið meira en átta leikir milli Úrvalsdeildarmarka hjá honum.

Palace menn svöruðu af miklum krafti og náðu að koma boltanum framhjá Robles en Jagielka bjargaði á línu. Þetta var sentimetraspursmál að boltinn væri allur inn fyrir línuna en marklínutæknin og endursýning staðfestu að ekki væri um mark að ræða og Jagielka gerði afskaplega vel. Palace náðu að skapa glundroða upp við mark Everton ítrekað en ekki komu nein dauðafæri út úr því, mestmegnis skot sem blokkeruð voru af varnarmanni.

Puncheon átti bylmingsfast skot af löngu færi fyrir Palace sem Robles varði í horn en ekki laust við að færi aðeins um mann. Lukaku átti eitt gott færi hinum megin þar sem hann komst framhjá síðasta varnarmanni en missti boltann aðeins of langt frá sér til hliðar og hreinsað frá.

En að öðru leyti jafnræði með liðum, Palace þó líklegri.

Engin breyting á liðunum í hálfleik en Everton strögglaði þó nokkuð til að byrja með og leit út fyrir að Palace væru að fara að jafna. Coleman náði að gera vel þegar hann hirti boltann af Gale í algjöru dauðafæri fyrir framan markið. Palace áttu svo eitt langskot utan af velli sem Robles átti ekki í nokkrum erfiðleikum með. Man ekki eftir neinum almennilegum færum frá þeim eftir það.

Everton menn fengu hins vegar nokkur áður en leik lauk. Til dæmis algjört dauðafæri á 77. mín þegar McGeady sendi frábæra stoðsendingu frá hægri á fjærstöng yfir á Lukaku fyrir framan markið en Lukaku aðeins hársbreidd frá því að pota inn.

Oviedo kom inn á fyrir Mirallas á 68. mínútu.

McGeady vann boltann óvænt inni í teig, kom sér í færi og tók skotið – sveigur upp í samskeytin fjær en glæsilega varið. Hefði verið nákvæmlega eins skot og það sem hann skoraði úr í fyrsta leik hans (og Everton) á tímabilinu gegn Leicester.

Naismith vann boltann nokkru síðar á miðjunni og brunaði í sókn, komst tveir-á-móti-tveimur ásamt Lukaku, sendi til hægri á Lukaku en skotið frá Lukaku í hliðarnetið.

McGeady vann svo boltann aftur óvænt, komst upp að endalínu og hefði getað gefið á menn í dauðafæri fyrir framan markið en ákvað að skjóta — hátt yfir.

Fjórum mínútum bætt við og Kone kom inn fyrir Lukaku en Everton landaði 1-0 sigri á Palace af harðfylgi. Og mikið andaði maður léttar þegar dómarinn flautaði þetta af. 1-0 lokastaðan. Loksins — loksins — kom sigurleikur.

Einkunnir Sky Sports: Robles 7, Baines 7, Stones 8, Jagielka 8, Coleman 7, Besic 6, Barry 6, Mirallas 7, Naismith 7, McGeady 7, Lukaku 7. Varamenn : Oviedo 6, Kone 6. Hjá Palace voru þrír í byrjunarliðinu með 7, restin með 5 eða 6.

25 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  Get nú ekki séð á fyrri hálfleik að þetta hafi verið æfingaferð til Qatar, líklegra að um fyllerísferð hafi verið að ræða 🙂

 2. Diddi skrifar:

  Dýrmæt 3 stig, haldið hreinu og bara þokkaleg frammistaða hjá okkur 🙂 Bring on the shits 🙂

 3. Elvar Örn skrifar:

  Tveir leikir í röð án þess að fá á sig mark verður að teljast gott og kærkominn sigur í dag. Búnir að losa okkur af botninum og næst er að taka Lifrarpollinn á heimavelli.
  Ánægður með Robles og vörnina í dag og allt að koma vonandi.
  Minnti mig pínu á Everton undir stjórn Moyes þar sem við skorum 1 mark og verjum það út leikinn.
  Bring on next team.

 4. Diddi skrifar:

  hjá mér skoruðum við á 2. mínútu 🙂

  • Finnur skrifar:

   Takk fyrir það, Diddi. Við erum svolítið slow hérna fyrir sunnan en ég er búinn að leiðrétta. 🙂

 5. Ari S skrifar:

  Innilega til hamingju með sigurinn og stigin þrjú í dag 🙂

  Hérna er eitt gott fyrir jákvæðu grúppuna Elvar og félaga:

  https://www.youtube.com/watch?v=bjPqsDU0j2I

  …og eitt fyrir neikvæðu grúppuna, Didda og félaga:

  https://www.youtube.com/watch?v=p9PAuWV-Vn0

  kær kveðja,

  Ari

  • Finnur skrifar:

   Ég get nú ekki sagt að Diddi fari fyrir neikvæðu grúppunni… 🙂

   • Ari S skrifar:

    Nei ég er sammála, tek það til baka ef ég má…? afsakið Diddi, gleymdi mér aðeins í sigurvímunni 🙂

 6. Ari G skrifar:

  Þokkalegur leikur hjá Everton vörnin góð nema í byrjun leiks þá var hún mjög slæm. Lukaku hefði getað mun meira missti oft boltann þegar hann var að brjótast í gegnum vörn Palace en hann er samt að lagast. Fannst enginn bera af hjá Everton vel Jagielka mann leiksins bjargaði marki besta vörn leiksins.

 7. Elvar Örn skrifar:

  Ég er nú að bíða eftir jákvæðu innskoti frá Ingvari (eða kærum félaga Gunnþóri) , er langt í það?
  Ég og Georg munum vonandi horfa á Everton – Liverpool á Egilsstöðum næstu helgi með nokkrum gallhörðum púllurum og tökum með Oz appið, varpa og alles, soldið sjúkt en gæti orðið magnað. Einhverjir félagar þar?
  Everton er á runni segi ég.

 8. Diddi skrifar:

  Ef Orri verður í landi þá skora ég á hann þeytast yfir Fjarðarheiðina og hitta ykkur 🙂

 9. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ef mér skjátlast ekki erum við búnir að vinna einn deildarleik á mánuði þetta tímabilið vonandi kemur febrúarsigurleikurinn um næstu helgi.
  En kannski var þetta það sem liðið þurfti, að vinna svona „ugly“ eins og Bretarnir segja.
  Ég er þó ekkert of viss um það.
  En gott að fá sigur loksins það var löngu tímabært, verst að það verður líklega til þess að Martinez heldur starfinu aðeins lengur.
  Annars sá ég bara seinni hálfleik í dag og mér sýndist þetta bara vera týpískur fallbaráttuslagur. Ég hélt að það væri liðin tíð hjá okkur. Og því miður skil ég ekki hvernig sumir ykkar geta endalaust verið jákvæðir og bjartsýnir. Ég var mjög bjartsýnn eftir síðasta tímabil, en eftir því sem leið á undirbúningstímabilið gerði ég mér betur og betur grein fyrir því að eitthvað væri ekki í lagi.
  Það virtist vera illa skipulagt og andstæðingarnir í æfingaleikjunum valdir af handahófi.
  Ég var svo sem ekki mikið að hafa áhyggjur af úrslitunum úr þeim, taldi mér trú um að þau skiptu ekki máli. Svo kom að fyrsta alvöru leiknum. Svekkjandi jafntefli gegn Leicester. Ég sá hann ekki og skrifaði þau úrslit á einskæra óheppni. Fyrsti leikurinn sem ég sá á þessu tímabili var gegn Arsenal. Það hefði öllum átt að vera ljóst eftir hann að vörnin var ekki í lagi. Það þurfti að styrkja hana. Svo kom að leiknum gegn Chelsea, eftir hann var ég alveg viss um að Martinez myndi styrkja vörnina áður en felagaskiptaglugginn lokaðist. Það gerði hann ekki og það sem verra var, var að sóknarleikurinn var orðinn hægur, fyrirsjáanlegur og hreinlega leiðinlegur og úrslitin eftir því. Um miðjan október gafst ég upp og afskrifaði þetta tímabil.
  Ég hélt eftir leikina gegn West Ham í bikarnum og gegn City í deildinni að liðið væri loksins að rífa sig upp, en svo kom leikurinn gegn West Brom og þá var manni kippt harkalega niður á jörðina aftur.
  Svo ef ykkur finnst ég neikvæður og svartsýnn þá verður bara að hafa það. Þeir sem geta ímyndað sér hvað gerist ef svo illa færi að við féllum skilja örugglega hvernig mér líður. Ef Everton fellur munu líða mörg ár þar til þeir koma upp aftur.

  • Gestur skrifar:

   Þetta er akkúrat tímabilið í hnotskurn, takk fyrir góðan og raunsæjan pistil

 10. Gunnþór skrifar:

  Sorry félagar mér finnst votta fyrir smá beyskju fyrir að fá að heira sannleikann,en ég var í borginni og var í rútu þegar leikurinn var þannig að ég veit ekkert um leikinn.Flott þrjú stig í dag en verð að koma því að mér finnst við illa komnir ef við erum að missa okkur yfir sigri á no name liði á Englandi þá er eitthvað skakkt við þetta allt saman.Eigið góðan dag og ÁFRAM EVERTON

 11. albert gunnlaugsson skrifar:

  Horfði á leikinn. Vonandi gefur þetta okkar mönnum púst! Taka svo poolarana um næstu helgi 😉

 12. Elvar Örn skrifar:

  Gunnþór, ég hef nú hvergi lesið að menn séu að „missa sig yfir sigri“ hér á spjallinu en alveg í lagi að gleðjast þegar við sjáum svona sjaldgæfa útkomu úr leik.
  Það er líka alveg rétt Ingvar að þetta var ekki þannig séð fallegur sigur en klárlega fannst mér hann ekki ljótur heldur. Sigur er nú einu sinni sigur og því ber að fagna. Það er heldur ekki hægt að skammast endalaust í að menn séu hér jákvæðir og bjartsýnir því það er bara Val manna að hafa það svo.
  Veturinn er klárlega mikil vonbrigði en það er líka spurning um að vera raunsær, hvað eru margir klúbbar að eyða meira í leikmenn en Everton? Geri ráð fyrir að það séu amk 8 klúbbar og því kannski „raunsætt“ að Everton séu þar fyrir neðan. Ég hef klárlega séð batamerki í seinustu leikjum og er viss að við förum að skríða upp töfluna en þó ekki eins langt upp og maður vonar. Ég tel engar líkur á því að ná Evrópu sæti en spurning hvað við náum langt í Evrópu deildinni, þar eru eitt það jákvæðasta í vetur verð ég að segja en við höfum ekki rætt þá frammistöðu mikið.
  Eins og ég er nú í alvöru bjartsýnn maður (og má vera það) þá er ég það sjaldnast þegar við mætum Liverpool þar sem við höfum verið að koma verulega illa út í þeim viðureignum seinustu árin. Jafntefli mark Jagielka fyrr á leiktíðinni var samt magnað en áttum í raun ekkert skilið úr þeim leik. 3-3 jafnteflið í fyrra var einn skemmtilegasti leikur sem ég hef séð en þar átti Everton skilið að vinna. Kannski kemur Everton liðið mér á óvart næstu helgi með sigri, hver veit.

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Ég er ekki að skammast yfir því að menn séu bjartsýnir og jákvæðir. Ef menn vilja vera það þá er það bara þeirra mál.

 13. Gunnþór skrifar:

  Ein spurning sem mig langar að fá svör frá sem flestum hérna Svartsýnum jafnt sem bjartsýnum.Hvaða leikmenn finnst ykkur hafa verið að spila á pari í vetur?(nenni ekki að lesa einhver útúrsnúninga komment hérna)væri gaman að sjá hvernig menn lesa í leikinn hérna.

 14. Gestur skrifar:

  Mirallas er búinn að spila vel þegar hann er með en hann hefur verið aðeins frá. Naismith virðist alltaf vera klár og skila sínu.

 15. Elvar Örn skrifar:

  Af þeim sem hafa verið að spila þá eru Mirallas, Naismith, Besic, Stones á pari (alls ekki í öllum leikjum en að jafnaði). Allir aðrir undir pari. Robles samt að koma til og Lukaku einnig. Everton klárlega að spila undir getu það er enginn að neita því held ég.

 16. Gunnþór skrifar:

  Ok Elvar þá erum við að ná saman félagarnir.Þetta kemur allt menn orða hlutina mis harkalega en menn eru allir sammála inn við beinið. ÁFRAM EVERTON

 17. Finnur skrifar:

  Executioner’s Bong að vakna til lífsins aftur með greiningu á Crystal Palace leiknum:
  https://theexecutionersbong.wordpress.com/2015/02/01/tactical-deconstruction-crystal-palace-0-1-everton/

%d bloggers like this: