West Ham – Everton 2-2

Mynd: Everton FC.

Everton og West Ham áttust við í algjörlega mögnuðum endurteknum leik í þriðju umferð FA bikarsins. Fyrri leikurinn á Goodison fór 1-1 þar sem Lukaku jafnaði í uppbótartíma sem gaf okkur líflínu — annan séns á útivelli. Og dramatíkin var ótrúleg: rautt spjald, fjögur mörk, tvö víti sem dómarinn missti af og mjög svo taugatrekkjandi vítaspyrnukeppni í lokin.

Uppstillingin fyrir bikarleikinn komin: Joel, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, Besic, Barkley, Naismith, McGeady, Lukaku. Varamenn: Griffiths, Oviedo, Kone, Mirallas, Garbutt, Alcaraz, McAleny.

Everton menn komu ákveðnir og beittir til leiks og sýndu að viðreisnin eftir tapið gegn Hull er raunverulegt og ekki bara tímabundið ástand. Liðið hefur sýnt þrjá flotta leiki í röð núna og spilamennskan allt önnur en verið hefur.

Og þetta var mjög skemmtilegur leikur fyrir alla sem á horfðu, stuðningsmenn sem og hlutlausa því boltinn gekk markanna á milli og mörg færi litu dagsins ljós.

West Ham fengu algjört dauðafæri snemma leiks þegar Stones náði boltanum við vítateig en tók þá ákvörðun að losa ekki boltann burtu með þrjá West Ham menn í kringum sig. Hann tapaði náttúrulega knettinum og sóknarmaður West Ham komst einn á móti Robles sem varði meistaralega frá honum. Rangstæður Carroll reyndi að skalla frákastið inn en skallaði boltann í stöngina. Markvarslan frá Robles setti tóninn fyrir restina af leiknum því hann var algjörlega frábær og kom Everton oft til bjargar.  Þetta fyrsta færi reyndist það besta í fyrri hálfleik og Everton menn heppnir að lenda ekki undir.

Lukaku komst í dauðafæri hinum megin en var réttilega dæmdur rangstæður en hann lét nokkuð oft grípa sig í landhelgi á móti mjög svo framliggjandi vörn West Ham.

Downing átti skot af löngu færi á 30. mínútu en rétt framhjá. Robles reyndar með þann allan tímann ef á hefði þurft að halda.

Stones fékk skallafæri á 41. mínútu inni í teig, alveg upp við mark en dæmdur brotlegur, líklega réttilega. Sýndist það vera bakhrinding.

Naismith setti svo McGeady í algjört dauðafæri upp við mark vinstra megin en West Ham maður náði að komast fyrir og trufla hann í skotinu.

0-0 í hálfleik.

West Ham komust yfir á 50. mínútu og kom markið úr skyndisókn. Frekar einfalt og direct, boltinn sendur fram á Carroll sem framlengdi á Valencia inn að/í teig og Valencia komst aðeins of auðveldlega framhjá Stones hægra megin og setti boltann vinstra megin við Robles og í hliðarnetið á fjærstöng. 1-0 West Ham.

Lukaku átti skot af löngu færi en beint á markvörð og svo gerðist slysið. Á 55. mínútu fékk McGeady sitt annað gula spjald í leiknum. Hann hafði fengið gult réttilega fyrir kappsemi í tæklingu (tók manninn en ekki boltann) en seinna gula spjaldið var vafasamt. Arsenal maðurinn í salnum hristi hausinn og sagði að þetta væri vissulega brot hjá honum en aldrei gult og því ekki rautt. Erfitt að vera ósammála því.

Þar með leit þetta mjög svart út, manni færri á útivelli og marki undir og maður átti von á því að þetta væri búið — ekki síst vegna þess að West Ham menn virtust ætla að ganga á lagið og bæta við marki. Náðu eitraðri stungusendingu inn í teig en tveir West Ham menn náðu ekki til boltans. Hefðu hæglega geta sett annað mark þar.

En þetta var síður en svo búið því Martinez kallaði á Mirallas og Oviedo af bekknum og þeir komu inn fyrir Barkley og Besic á 66. mínútu. Og sá fyrstnefndi átti aldeilis eftir að láta til sín taka og breyta gangi leiksins en maður verður að taka ofan fyrir Everton og þeim baráttuanda gegn mótlætinu.

Lukaku sýndi enn á ný hvað hann er nautsterkur í framlínunni þegar hann breytti vonlausri stöðu í skyndisókn með því að stela bolta af varnarmanni Lukaku og senda fyrir mark. Þar var Mirallas mættur í dauðafæri og náði skoti en varnarmaður West Ham bjargaði á línu með ótrúlegum hætti. West Ham menn svöruðu með skyndisókn og komust þrír á tvo en skotið blokkerað í algjöru dauðafæri. End to end stuff, eins og enskurinn segir. Og örskömmu síðar varði Robles meistaralega skot við teiglíni skot sem öllu jöfnu hefði átt að syngja í netinu. Sló boltann yfir slána og hélt okkur inni í leiknum.

Hinum megin brutu West Ham menn þrisvar af sér í sömu sókninni (tvisvar á Lukaku og einu sinni á Oviedo) rétt utan teigs vinstra megin. Kjörið fyrir Mirallas að setja háan bolta á fjærstöng og freista þess að einhver skalli inn. En nei, hann var ekki á þeim buxunum — hlóð bara í skotið og skoraði á nærstöng, glæsilegt mark úr aukaspyrnu. Staðan orðin 1-1, manni færri. Game on!

Stundum vill það verða að liðin vaxi að styrkleika við það að missa mann út af og það var raunin í kvöld. Maður vildi náttúrulega blása til sóknar því manni fannst möguleiki til að taka þetta þó liðið væri manni færri, en svo kom maður niður á jörðina rétt undir lok leiks þegar West Ham settu mikla pressu á Everton til að reyna að forðast framlengingu.

Robles bjargaði okkur meistaralega tvisvar í lokin þegar hann varði frábært skallafæri á 87. mínútu og sýndi svo heimsklassa markvörslu þegar hann sló flott skot frá Noble yfir slána. Robles er greinilega að vaxa með hverjum leiknum sem líður.

Í lokin fengum við svo enn eina líflínuna þegar skotið var í hendi Stones við vítateigslínuna. Þulurinn vildi meina að dómarinn hefði gert mistök þar, því það hefði verið heldur hart að dæma brot á það en fyrst dómarinn dæmdi brot þá hefði það átt að vera víti á Stones því hann var innan teigs.

Staðan því 1-1 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar.

Lukaku fékk fyrsta almennilega færi framlengingar. Naismith sendi á Coleman sem framlengdi á Lukaku sem hitti ekki en hann bætti einfaldlega fyrir það með marki stuttu síðar. Mirallas tók við knettinum upp við hornfána nánast vinstra megin, sólaði þrjá varnarmenn West Ham (þar af einn tvisvar) og sendi fyrir (framhjá tveimur West Ham mönnum) beint á Lukaku sem potaði inn af stuttu færi (sjá mynd hér að ofan). Everton komið yfir í byrjun framlengingar, þrátt fyrir að vera manni færri á útivelli! Ekki laust við að manni finndist maður ekki eiga neinn rétt á þessu! Lukaku búinn að skora sitt fimmta mark fyrir Everton í fimm leikjum í röð gegn West Ham og mikið hljóta þeir að hata hann. 🙂

Staðan 1-2 í hálfleik framlengingar en Mirallas var ekki hættur því strax í upphafi seinni hálfleik framlengingar stal hann boltanum af kærulausum varnarmanni West Ham sem var að dóla með boltann. Mirallas hlóð í skotið en West Ham menn rétt náðu að blokkera í horn.

Og svo jók dómarinn enn á dramatíkina þegar Mirallas var felldur við vítateigslínu þar sem hann var að komast inn fyrir vörnina. Dómarinn dæmdi aukaspyrnu en færði brotið út fyrir teig þó endursýning sýndi glögglega að brotið væri fyrir innan. Og bæði lið búin að missa af réttmætri vítaspyrnu.

En í staðinn jöfnuðu West Ham menn úr horni. Boltinn fór frá vinstri helmingi yfir alla vörnina og var skallaður fyrir mark aftur þar sem Carlton Cole jafnaði úr sinni fyrstu snertingu í leiknum en hann var nýkominn inn á. 2-2 og aftur stefndi í horn.

Og bæði lið fengu ákjósanleg tækifæri til að klára leikinn. Carroll var næstum búinn að skalla inn eftir horn en boltinn í Jagielka og út af.

Lukaku skóp sér kjörið tækifæri, fór framhjá tveimur varnarmönnum og skaut á fjærstöng en hárfínt framhjá.

Hinum megin átti sér eitthvað stað sem er best lýst sem goal mouth scramble þar sem Stones reddaði okkur, en hér var ég svolítið farinn að tapa yfirsýn yfir allt sem gerðist, því þetta var svo tíðindamikill leikur.

2-2 var þó lokastaðan eftir framlengingu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Mirallas með fyrsta vítið: öruggt hægra megin við markvörð sem skutlaði sér í rangt horn. 1-0 Everton.
West Ham svaraði með nákvæmlega eins víti. 1-1.

Naismith steig á punktinn og markverði West Ham var leyft að fipa hann með því að ganga að honum og segja eitthvað við hann (sem Robles var svo bannað stuttu síðar, einhverra hluta vegna). Markvörður varði frá Naismith og því pressan komin á Everton. West Ham svöruðu örugglega, 2-1 West Ham.

Lukaku næstur. Tók öruggt víti niðri vinstra megin. Staðan: 2-2 en West Ham aftur öruggir í svari : 3-2 West Ham.

Baines næstur á punktinn en átti óvenjulega tæpt víti, næstum varið en endaði í netinu. West Ham menn svöruðu í sömu mynt: Robles næstum búinn að verja frá þeim með fótunum en boltinn inn. Staðan 4-3.

Það var þó ekki fyrr en í lokaspyrnunni að Everton náði að jafna þegar Robles náði að verja skot frá Stuart Downing og enn á ný halda möguleikanum á lífi. 4-4 eftir 5 spyrnur hjá báðum liðum og því þurfti að grípa til bráðabana.

Næstu víti voru nokkuð örugg og gengið niður línuna þangað til komið var að markvörðunum en þá fór að draga til tíðinda.

Robles tók sína spyrnu en skaut í þverslá og út og því kom það í hlutverk markvarðar West Ham að klára þetta fyrir West Ham sem hann og gerði og þeir fara því áfram á kostnað Everton.

Jagielka og Mirallas eiga ágætis tilkall til titilsins „maður leiksins“ en í mínum huga á Robles þann titil því hann stóð sig frábærlega frá upphafi til enda og ég get ekki annað en litið framhjá því að hann hafi ekki náð að skora úr lokaspyrnunni — hann er með svo marga plúsa í kladdanum sem vega upp á móti þegar hann hélt okkur inni í leiknum aftur og aftur.

FA bikarævintýrið vissulega búið og nokkur sorg sem fylgir því en ég er samt stoltur af mínum mönnum eftir síðustu þrjá leiki. Allt annað að sjá spilamennskuna og baráttuandann ogEverton búið að horfa ofan í byssuhlaupið ítrekað en alltaf neitað að gefast upp. Þeir duttu út með sæmd í kvöld eftir frábæra frammistöðu manni færri.

Ég er svo búinn á því eftir að hafa horft á þennan rússíbana að ég nenni ekki einu sinni að prófarkarlesa þetta! 🙂 Endilega látið í ykkur heyra í kommentakerfinu.

18 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Everton getur bara ekki blautan

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Og nú einum færri. McGeady fífl!!

  3. Georg skrifar:

    Mirallas

  4. Georg skrifar:

    Lukaku! Mirallas glæsilegur!

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég er að skíta á mig!!!

  6. Diddi skrifar:

    ég ætla að láta aðra um að tjá sig um McGeady 🙂 En djöfull var Joel góður í þessum leik…….. maður leiksins að mínu mati 🙂

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Svekk!!

  8. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég átti aldrei von á að segja það sem ég segi nú en Robles var stórkostlegur í kvöld, maður leiksins.

    • Orri skrifar:

      Sæll Ingvar.Ég segji eins og þú í gær við voru slegnir út með sæmd.

  9. Gestur skrifar:

    Robles var góður en Stones var ekki að heilla mig og Lukaku , guð minn góður, hann getur ekki sent boltann og á í vandræðum að hitta markið.

  10. Georg skrifar:

    Flottur karakter í liðinu. Heldur betur svekkjandi að detta svona út. Skil svosem ekki af hverju við notum ekki Mirallas og Lukaku á undan Robles á punktinum. Leikmenn ættu að bera höfuð hátt eftir þennan leik. Spila einum færri í rúma klst og koma svona til baka. Nú er bara tvær keppnir eftir, deild og evrópa. 3 stig á mánudag gegn West Brom!

  11. Gunnþór skrifar:

    Fínn leikur duttum svolítið niður í senni hálfleik í heildinna bara flott.Frábær barátta og Robles óheppinn í vítinnu en flottur leikur fyrir allan peninginn.ÁFRAM EVERTON

  12. Ari G skrifar:

    ER eyðilagður. Everton mjög góðir einum færri áður frekar lélegir. Robles og Mirallas bestu menn Everton. Barkley ég hef aldrei séð hann svona lélegan áður er orðlaus.

  13. Diddi skrifar:

    aldrei sáttur við tap en held að það sé ekkert slæmt fyrir okkur að hafa „bara“ Evrópudeildina og úrvalsdeildina með þennan hóp sem við höfum. Nú hífum við okkur upp deildina og tökum svo Evrópudeildina með stæl. KOMA SVO 🙂

  14. Finnur skrifar:

    Er andlega búinn á því eftir þennan leik en skýrslan er allavega komin. 🙂

    Getum borið höfuðið hátt þrátt fyrir tap. Mjög hjartastyrkjandi að sjá baráttuna í liðinu. Glittir í liðið okkar aftur.

  15. Holmar skrifar:

    Flottur leikru hjá okkar mönnum og allt annað sjá til liðsins nú í síðustu þremur leikjum.

    Finnst þetta spil sem lék andstæðingana oft illa á síðasta tímabili vera komið aftur. Miklu meiri hreyfing án bolta og menn viljugir til að reyna að taka menn á. Virðist sem sjálfstraustið sé komið aftur.

    Robles var mjög fínn í leiknum en mér fannst hann aldrei líklegur í vítakeppninni, var alltaf farinn af stað. Óheppinn að skora ekki úr sínu víti.

    Mirallas magnaður og svo fannst mér Besic mjög fínn líka, vann boltann oft vel og skilaði yfirleitt ágætleg frá sér. Fannst undarlegt að taka hann af velli í stað Barry.

    Þetta einn skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef séð lengi, þó svo að úrslitin hafi verið ákaflega svekkjandi.

  16. Halldór Sig skrifar:

    Ef við horfum á björtu hliðarnar með þetta að þá getum við einbeit okkur að evrópukepninni og deild. Held við höfum ekki breidd í meira.

  17. Ingvar Bæringsson skrifar:

    En eitt er skrýtið. Þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem Everton var að spila mjög vel með breyttri taktik svo maður spyr sig, af hverju í ósköpunum gerðu þeir þetta ekki fyrr??