Hull – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin í Hull leiknum: Joel, Baines, Jagielka, Alcaraz, Coleman, Barry, Besic, Barkley, Naismith, Mirallas, Kone. Bekkurinn: Griffiths, Eto’o, McGeady, Oviedo, Lukaku, Distin, Atsu. Sem sagt, Jagielka aftur inn í liðið en enn á ný enginn McCarthy.

Hull voru heppnir að lenda ekki undir strax í byrjun þegar Besic tók frábært hlaup upp hægri kantinn og framlengdi glæsilega á Kone sem hljóp inn í teig en náði ekki að senda á Naismith sem var frír utar í teignum í ákjósanlegu færi.

Lukkudísirnar voru þó með okkur strax hinum megin þegar Barry felldi sóknarmann Hull inni í teig en dómarinn, Kevin Friend (af öllum mönnum), mat það svo (ranglega) að brotið hefði verið utan teigs. Jelavic tók aukaspyrnuna en lúðraði boltunum langt upp í stúku.

Abel stal boltanum af Barkley á slæmum stað, rétt utan teigs og tók skotið en Robles varði í horn. Allt á fyrstu fimm mínútunum eða svo, en svo róaðist þetta aðeins. Bæði lið þó að komast í góðar stöður en ekki að ná að skapa almennileg færi.

Naismith vildi víti á 19. mínútu þegar hann féll við með varnarmann í hælunum, líklega hefði það verið harður dómur en maður hefur séð vítin gefin fyrir svona.

Meyler átti algjörlega glórulausa tæklingu hálfri mínútu síðar, klippti Naismith niður aftan frá en slapp með gult.

65% possession hjá Everton fyrsta hálftímann, 35% hjá Hull en það voru þó Hull sem komust yfir á 33. mínútu með einföldum hætti. Há sending inn í teig utan af velli og El Mohamady stökk hærra en Baines og skallaði í hornið á markinu. 1-0 fyrir Hull. Baines átt að gera betur þar. Hull áttu svo skot af mjög löngu færi á 37. mínútu en Robles varði.

Coleman tók flott hlaup upp hægri kant stuttu síðar. sólaði vinstri bakvörð Hull, komst inn í teig og reyndi fyrirgjöf sem breytti stefnu og stefndi í netið en markvörður nógu fljótur að átta sig og sló í horn. Ekkert kom úr horninu en Hull svöruðu með skyndisókn og skoti innan teigs sem var blokkerað af varnarmanni.

Vörnin var svo í tómu tjóni á 42. mínútu þegar sóknarmaður Hull sendi háan bolta yfir öftustu mennm, Alcaraz og Barry, og Jelavic komst einn á móti markverði og vippaði yfir. Veit ekki hvað Barry bar að hugsa, hann hætti bara að elta og Alcaraz virtist á skokkinu til baka fyrst um sinn. Ekki mjög beysið. 2-0 fyrir Hull og þannig endaði fyrri hálfleikur.

Oviedo kom inn fyrir Besic í seinni hálfleik og Lukaku inn fyrir Mirallas, sem hafði að mestu verið farþegi í leiknum. Ovieda fór í stöðuna hans Baines og Baines þar með færður á miðjuna (þar sem Besic var).

Hull byrjuðu hálfleikinn líflega og voru ekki langt frá því að bæta við forskotið eftir „goal-mouth scramble“ þar sem Hull reyndu allt til að koma boltanum í netið og Everton allt til að koma boltanum út úr teig en hvorugu liðinu tókst það fyrr en Hull enduðu á að pota honum út af. Sýndist Jelavic reyndar vera rangstæður í aðdragandanum.

Barkley hefði átt að skora á 53. mínútu þegar hann fékk sendingu inni í teig, lék á tvo-þrjá menn og skaut föstu skoti að marki sem markvörður varði glæsilega. Þar hefði staðan átt að vera 2-1. Besta færi Everton í leiknum fram að því.

Barkley var næstum búinn að setja Kone inn fyrir á 57. mínútu með stungusendingu en boltinn fór í hælana á varnarmanni. Lukaku fékk þó frákastið og átti skot af löngu sem var varið.

Naismith átti skot úr ákjósanlegu færi á 68. mínútu en í hönd og brjóstkassa leikmanns Hull innan teigs. Pressan aðeins að aukast frá Everton.

Hull fengu tækifæri til að klára leikinn endanlega á 75. mínútu þegar Jelavic fékk frítt skot inni í teig en skaut í bakið á Barry.

Baines sendi frábæra sendingu inn í teig á Lukaku sem fékk frían skalla á móti markverði en skallaði yfir.

Og svo var þetta búið á 85. mínútu þegar Alcaraz var rekinn út af fyrir litlar sakir (ekki var það brot allavega, kannski eitthvað sem hann sagði), seinna gula spjaldið hans og þar með rautt.

Hull fengu enn eitt tækifærið til að komast í 3-0 en Hernandez vippaði yfir en tókst ekki.

Lokastaðan 2-0 fyrir Hull.

Einkunnir Sky Sports: Robles 5, Baines 6, Jagielka 5, Alcaraz 3, Coleman 6, Barry 4, Besic 4, Barkley 6, Naismith 6, Mirallas 4, Kone 5. Varamenn: Oviedo 5, Lukaku 6. Hull menn mestmegins með sjöur og áttur. Erfitt að vera ósammála þessari einkunnagjöf — kannski helst að Jagielka og Coleman ættu örlítið meira skilið. Ekki mikið samt.

Í lokin er rétt að geta þess að Hallam Hope, sóknarmaðurinn ungi, var á dögunum seldur til C deildar liðsins Bury fyrir ótilgreinda upphæð og að lán miðjumannsins unga, John Lundstram, hjá Blackpool verður afturkallað þann 3. janúar. Lundstram er tvítugur og hefur leikið með U17-U20 ára landsliði Englands. Af öðrum lánsmönnum er það að frétta að lán Matthew Kennedy er við það að klárast hjá Hibernian. Einnig bárust fréttir um að yfirmaður sjúkraþjálfunardeildar, Danny Donachie, sé hættur störfum fyrir félagið en það hefur ekki fengist staðfest.

49 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  getur ekki klikkað , allir Wigan mennirnir inná

 2. Gunnþór skrifar:

  Er hæfilega bjartsýn,því miður, vonandi þarf ég að éta þetta ofan í mig.

 3. Finnur skrifar:

  Ágætis greining sem ég rakst á á meðan ég beið leiks:
  http://www.grandoldteam.com/2014/12/30/whats-missing-everton-season-osman-osman/

 4. Ari S skrifar:

  Frábær markvarsla hjá Wigan manninum Joel, hann er að koma til. Á 6 mín. eftir að Barkley sem er ekki frá Wigan missti boltann klaufalega fyrir utan teig. Svo vorum við heppnir að fá ekki dæmt víti á okkur eftir að Bary sem er ekki frá Wigan braut á Hull leikmanni ini í teig.

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Here we go again!!!

 6. Ari S skrifar:

  Léleg vörn hjá Leighton Baines orsakaði markið sem við fengum á okkur … hann á reyndar 145 leiki með Wigan.

 7. Ari S skrifar:

  Léleg vörn hjá Barry sem orsakaði annað markið hjá okkur. Að mér vitandi hefur hann aldrei leikið með Wigan en þó einu sinni með Aston Villa.

 8. Gestur skrifar:

  Þetta hlýtur að fara að koma hjá Everton , það eru nú ekki nema 18 leikir eftir í deildinni.

 9. Diddi skrifar:

  Okkar menn að leika með hræðsluglampa í augum, þetta er hroðalegt …………..

 10. Georg skrifar:

  Úff hvað Barry er búinn að vera slakur í þessum leik, reyndar í síðustu leikjum líka. Vill Lukaku inn fyrir Barry í hálfleik

 11. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hálfleikur, við 59% með boltann, 2-0 undir og með skitnar 2 marktilraunir. En það er allt í lagi er það ekki Robbie?? Við erum 59% með boltann og það er það sem telur er það ekki???
  Fallbarátta hér komum við!!!!

 12. Ari S skrifar:

  Oviedo og Lukaku inn á í hálfleik. Besic og Mirallas útaf.

 13. Gunnþór skrifar:

  Georg mér finnst allt liðið lélegt menn eru bara mislélegir,Martinez hlýtur að vera búinn að missa klefann þetta er bara eins og maður sé að horfa á 6 flokk,mönnum er andskotans sama hvort hvort það sé skorað á okkur eða ekki,menn er eins og barðir hundar þarna inná vellinnum.ég fer að trúa manninum þarna úti á englandi sem sagðist sjá það fyrir að Everton myndi yfirgefa þessa deild núna í vor,allavega er spilamenska liðsins eins og hún er búin að vera undanfarið að staðfesta það að liðið fari rakleiðis niður.

  • Georg skrifar:

   Gunnþór ég nefndi Barry sérstaklega því hann var yfirburðaslakasti maðurinn á vellinum og heppni að hann sé ekki búinn að gefa 2-3 mörk í viðbót við annað markið. Það sagt þá var allt liðið mjög slakt í fyrri hálfleik

  • Ari S skrifar:

   Gunnþór getur þú ekki hringt í þennann menn úti í Englandi og spurt hvernig þetta fer í bikarkeppnunum sem við erum í? Þá þurfið þið (hinir svartsýnu) ekki að leggja það á ykkur að horfa á leiki fram á vor.

 14. Ari S skrifar:

  Gunnþór, Barry er búinn að vea lélegastur.

 15. Gunnþór skrifar:

  Ari minn mér er alveg sama hver er búinn að vera lélegastur.Svo eigum við bara eina bikarkeppni eftir og hún byrjar núna um helginna.

  • Ari S skrifar:

   Nú er Evrópukeppni ekki bikarkeppni? Eða er kannski búið að slá okkur út úr henni líka? Varstu kannski að tala við englendinginn aftur?

 16. Ari S skrifar:

  Fáránlegt seinna gula spjaldið sem að Alcaras fékk. Þetta skrifast á dómarann.

 17. jon ingi skrifar:

  Aðmaður skuli eyða tíma í að horfa á þessa hörmung. Maður skilur ekki hvað hefur komið fyrir þetta ágæta lið að vera nú algerlega getulaust og ef menn komast í færi eins og Barkley þá kinksa þeir. guð hjálpi þeim í næsta leik.

 18. Gunnþór skrifar:

  Eigum við ekki bara að skrifa það bara á dómarann hvað við erum skít lélegir.

  • Ari S skrifar:

   Nú ertu eins og smákrakki Gunnþór. Fyrst bullar þú um að það sé búið að slá okkur úr Evrópukeppnini og svo kemur þetta komment núna….

   Sástu seinna gula spjaldið sem að Alcaras fékk? Fannst þér það ekki rangt af dómaranum.

   Þessari spurningu þinni er ekki svaravert.

 19. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Farðu bara Martinez!! Í guðanna bænum farðu!!!

 20. Gunnþór skrifar:

  fyrir utann það vantaði aðalmótorana á miðjunna hjá Hull samt litum við út ens og lélegt pöbbalið.

 21. Gestur skrifar:

  Martinez burt og það strax

 22. Gunnþór skrifar:

  Ari minn síðan hvenær er evrópukeppnin bikarkeppni veit ekki betur en við séum búnir að vera að spila í riðli það sem af er vetri í evrópu,svo þetta rauða spjald kóronaði bara arfa slakan leik hjá Alcaras.

  • Ari S skrifar:

   Við fáum bikar ef við vinnum keppnina. BIKAR-keppni.

   • Diddi skrifar:

    við fáum líka bikar ef við vinnum deildina !!!! er það þá ekki líka BIKARKEPPNI ???? hættum nú svona útúrsnúningum og reynum að vera pínu málefnalegir 🙂

   • Finnur skrifar:

    Það er ýmislegt sem ég á erfitt með að skilja sem skrifað er í kommentakerfum, bæði hér sem annars staðar. Finnst samt hæpið að kalla seinni hluta Europa League keppninnar eitthvað annað en bikarkeppni þó fyrri hlutinn þar hafi vissulega verið riðlakeppni. Bikarkeppni (hélt ég allavega) að væri það sem menn kalla keppni með útsláttarfyrirkomulagi (liðið sem vinnur kemst áfram í næstu umferð). Það á við um Europa League þó um vissulega sé að ræða árangur í tveimur umferðum.

    Held samt að orku okkar sé þó betur varið í eitthvað annað en í svona hártoganir.

    • Orri skrifar:

     Ég er sammála Didda og Finni reynum að vera máefnalegir.Ég held að allt tal um bikara sé fjarlægur draumur hjá Everton því miður,það er eitthvað mikið að hjá okkar liði þessa vikurnar.

     • Ari S skrifar:

      Ég var nú bara að svara Gunnþór sem var að segja mig fara með rangt mál. Það er hann sem er ómálefnalegur ekki ég.

 23. Ari S skrifar:

  Ég vil frekar losna við nokkra leikmenn núna strax og kannski fá tvo þrjá nýja í jan., heldur en að reka Martinez á miðju tímabili. Mér finnst rétt að bíða og sjá hvað gerist til loka tímabilsins með það. Þetta er bara mitt álit.

  Ryan Shawcross yrði fínn… 🙂

 24. Ari G skrifar:

  Ég er orðlaus af hverju er Barry alltaf inná í öllum leikjum furðulegt burt með hann strax. Vill gefa Martinez sjens fram á sumar. Auðvitað þarf að hreinsa hressilega til og ég er viss um að vörnin stórlagast með Stones og Jagielka saman í vörninni hinir allir vonlausir Distin samt sástur af þeim. Skil ekki af hverju Besic og Mirallas voru teknir útaf hefði tekið Barry útaf og sett Oviedu inná í hálfleik og séð svo til. Vill aldrei sjá Barry inná í byrjum leikja og helst selja hann strax ef einhvert lið vill kaupa hann. Þurfum vængmenn strax kannski Milner til að redda okkur fyrir horn leigja hann eða kaupa hann.

 25. Georg skrifar:

  Martínez spilaði þennan leik í dag með 3 manna miðvarðarpar þar sem Alcaraz, Jagielka og Barry mynduðu þessa öftustu línu. Í svona leikkerfi þ.e.a.s. með 3 menn aftast með 2 wing back þá er gríðarlega mikilvægt að mínu mati að miðverðirnir séu með smá hraða, eins og þetta var í dag þá vorum við með Jagielka sem er mjög hraður, Alcaraz sem er ekki hraður og Barry sem virðist hlaupa þessa dagana með 15 kg lóð á eftir sér. Þetta bauð bara hættunni heim enda skora þeir 2 mörk í fyrri hálfleik og Barry hefði getað kostað okkur fleir mörk, ótrúlegt hvað hann hefur dalað gríðarlega á þessari leiktíð og sérstakalega í síðustu ca. 10 leikjum. Meiðsli hafa gefið honum tækifæri að vera með free pass inn í liðið leik eftir leik. Ég vill sjá hann úr liðinu og hafa Besic og McCarthy saman, en til þess þurfa þessir menn að vera heilir. Meiðsli hafa ekki verið að hjálpa okkur neitt. Skil svosem ekki af hverju Distin var ekki frekar í þessari þriggja manna vörn heldur en Barry sem var að spila úr stöðu.

  Miðað við að vera komnir 2 mörkum undir í fyrri hálfleik þá hefði ég vilja sjá Martínez breyta í t.d. 4-4-2, henda Barry útaf og hafa Lukaku og Kone saman frammi. Halda Mirallas inná! og setja hann á kantinn. Mirallas hefur verið einn af fáu sem hafa verið að skapa eitthvað upp á síðkastið og sama með hann þá hefur hann líka verið að meiðast leiðinlega oft á þessari leiktíð.

  Ég er ekki frá því að við verðum að fá okkur alvöru miðvörð í þessum glugga. Gríðarlega slæmt að Stones sé búinn að vera svona mikið meiddur. Distin er ekki eins solid og hann hefur verið síðustu ár enda ekki furða þegar menn eru orðnir 37 ára. Alcaraz er alltof mikill meiðslapési og er þannig skrokkur að hann er fyrir vikið of þungur og hægur.

  Barkley var einn af fáu í dag sem reyndi allavega að skora í þessum leik og var hann óheppinn að skora ekki, Oviedo kom ágætlega inn í þennan leik og hann á eflaust eftir að fá meiri sénsa í næstu leikjum. Við hefðum alveg getað skorað mörk í þessum seinni hálfleik en þetta er einfaldlega ekki að detta fyrir okkur þessa dagana. Finnst líka stórundarlegt að okkur er fyrirmunað að taka almennilega hornspyrnur. Allt of margar hornspyrnur frá okkur á þessari leiktíð sem ná ekki yfir fyrsta varnarmann í teyg sem er mér óskyljanlegt.

  Ég er bara nokkuð fegin því að næsti leikur í deildinni er heimaleikur á móti Man City, því við höfum ekkert að gera með að mæta slökum andstæðingum þegar við erum í þessari lægð. Það kæmi mér ekkert á óvart ef við tækjum þann leik, það er minni pressa á leikmönnum gegn sterkari andstæðingum heldur en að mæta þessum „skyldu sigurs liðum“ í þessu ástandi.

  Það myndi lyfta liðinu mikið upp andlega að vinna West Ham í FA cup á þriðjudaginn.

  Ég vona innilega að þessi svakalega lægð fari að fara af liðinu. En fyrir mér er nokkuð ljóst að fyrsta skrefið er að koma þessari vörn okkar í betra form þar sem það gengur hreinliega ekki að fá alltaf á sig 1-3 mörk í leik. Við erum búnir að halda hreinu í 3 leikjum af 20 í deildinni sem er skelfilegt. Mín trú er sú að ef við náum Stones og Jagielka heilum þá fari þetta að lagast og ekki myndi skemma að kaupa annan klassa miðvörð í liðið.

  Sammála mönnum að við verðum að reyna að halda þessu málefnalegu hérna á spjalli en ekki láta reiði okkar út í liðið smitast í rifrildi á milli okkar. Það er gott að menn hafi misjafnar skoðanir svo framalega sem við höldum þessu málefnalegu 🙂

  Áfram Everton!

  P.s. ég er ekki einn af þessum glory hunters sem hlaupa í burtu þó illa gangi. Ég horfi á alla leiki alveg sama hvernig gengur og mun alltaf styðja Everton!

 26. Diddi skrifar:

  góður Georg, flott greining 🙂

 27. Elvar Örn skrifar:

  Það er nú alveg merkilegt að við náum mesta spjallinu (flest komment) þegar illa gengur, væri nú allt í lagi að við reyndum að snúa því við líka.

  Ég sá reyndar bara fyrri hálfleik Hull-Everton en mér fannst Everton vera þar arfaslakir. Hvað sem hver segir um að liðið sé allt að spila illa þá er það nú einu sinni þannig að það er hægt að pikka ákveðna aðila sérstaklega út í því samhengi. Ég er t.d. alveg 100% sammála því að Gareth Barry var manna verstur í þessum Hull leik og bara með því að hafa hann útaf og annan inni í staðinn hefði leikurinn getað endað öðruvísi.

  Ef menn ætla í alvörunni að segja að Everton sé með lélegan hóp eða lélegt lið þá má sá hinn sami bara éta steypu. Þvílík endalaus vitleysa sem menn láta útúr sér hérna stundum. Það er alveg klárt að það þarf einhverjar breytingar en við græðum ekkert á því að selja 10 menn og kaupa 10 aðra í staðinn. Það væri gott að kaupa svona 3 leikmenn í janúar (eða fá að láni) en meira en það væri bara geðveiki. Nema menn vilji fara í QPR gírinn. Everton spilaði frábærlega í fyrra og það var á þeim mönnum sem eru í liðinu í dag og í raun er hópurinn breiðari en í fyrra.

  Við erum klárlega búnir að lenda í veseni varnarlega og hafa meiðsli þar verið að gera okkur grikk og menn að spila langt undir pari. Það væri nú gaman ef við gætum spilað með Jagielka og Stones í miðverði í t.d. 5 leikjum í röð. Alcaraz á ágætis moment en hann er bara ekki nógu góður held ég, þarna þarf nýjan mann. Distin er kominn á aldur líka svo það er klárt að við þurfum miðvörð. Þetta er NÝR LEIKMAÐUR nr.1.

  Coleman átti svakalega flotta spretti í leiknum gegn Hull og verið í þónokkurri lægð í seinustu leikjum sem og Baines en ef þeir komast í gang þá jafnast fáir á við þá. Við erum með gott backup fyrir Baines í Oviedo og Garbutt en backup fyrir Coleman er líklega bara Browning (man amk ekki eftir öðrum þar) eða þá Stones.

  Miðjan,, þar er Barry bara ekki að gera það sem hann gerði í fyrra og ég held við þurfum NÝJAN LEIKMANN nr. 2 í þá stöðu. Ég væri reyndar svakalega til í að sjá McCarthy og Besic spila saman í eins og 5 næstu leiki. Það er alveg klárt að við söknum McCarthy á miðjunni. Tel líka Gibbson vera betri en Barry í dag en hann er bara alltaf meiddur kall garmurinn.

  Lukaku, Kone, Naysmith, Eto’o ættu að duga sem framherjar og hefur Kone komið frekar ferskur inn verð ég að segja en klárlega þarf hann tíma til að komast í leikæfingu. Lukaku er að setja inn eitt og eitt en hann bara getur ekki tekið við sendingu eða unnið skallaeinvígi, hann þarf að bæta sig klárlega.

  Pienaar virðist alltaf meiddur og spurning hvort hann sé að fjara út og Atsu hefur verið alveg hörmun og McGeady ekki enn fundið taktinn, þarna tel ég vanta NÝJAN LEIKMANN nr. 3.

  Síðan er spurning með markið, gæti Robles komið til í næstu leikjum? Þarf aðeins að hugsa þetta betur.

  Það styttist í sigurleik svo eitt er víst og vonandi gerum við góða hluti í Evrópu keppninni og jafnvel í FA (er samt ekki bjarsýnn um FA).

  Ég fylgi mínu liði í gegnum súrt og sætt og horfi enn á alla leiki og mun gera áfram. Ég stend með Martinez þrátt fyrir gengið og veit að það er bjartara framundan.

  • Finnur skrifar:

   Vel mælt.

  • halli skrifar:

   Ì djúpa miđjumanninn vil ég láta Barkley spila með playmaker hlutverk og þà eigum við Besic og Gibson til vara og þurfum ekki að kaupa mann í þà stöđu. Ì miđvörđinn vill fá Simon Kjær frà Lille 24 àra og frábær mađur og hann og Stones framtíðarmenn. Þannig ađ èg væri til ì einn hrađan vængmann til viđbòtar og svo framtíðar markmann næsta sumar.

 28. Gestur skrifar:

  Liðið verður aldrei betra en það spilar hverju sinni. En auðvitað ætti það að geta spilað betur. Flottar greinar hér að ofan og skemmtilegt að lesa hvernig menn sjá þetta með sýnum augum. Töfralausnir eru sjálfsgt ekki til en þegar Martinez setti þá Besic og Barkley saman á miðjuna á móti QPR fannst mér vera meiri hreyfing og spil á liðinu síðan reyndi Martinez það ekki aftur.

 29. Gunnþór skrifar:

  Hef ekki séð nein skrif hér um að menn telji Everton liðið illa skipað eða að menn ætli sér að hætta stuðningi við liðið,(getur kannski hafa farið fram hjá mér). Staðreyndin er sú að liðið er að spila hörmulega og sá sem heldur öðru fram má bara éta steypu. Áhugaleysi lykilmanna, einbeitingarleysi finnst mér allsráðandi í okkar hóp og þegar þannig er komið hljóta að vakna upp spurningar hvað veldur. Liðið er ekki að verjast sem lið frá aftasta manni til fremsta manns og það örlaði á því strax á síðasta tímabili að við vorum opnari varnalega hjá Martinez heldur en hjá Moyes en á móti kom að við vorum að spila skemmtilegri bolta sem krefst meiri hraða, úthalds og gæði. Spurningin er sú hvort við séum með nógu marga leikmenn sem hafa þessi gæði sem þarf í deild, BIKAR og Evrópu sem við vorum ekki í á síðasta tímabili. Að lokum vill ég hvetja menn til að vera óhræddir að tjá sig hér á þessari síðu hvort menn séu sammála eða ósammála um liðið Okkar og menn þurfa ekki að vera hræddir um að vera stimplaðir lélegir eða góðir everton aðdáendur. ÁFRAM EVERTON

 30. þorri skrifar:

  Frábærar greinar hjá þeim Elvari og Georgi. Ef þetta eru ekki harðir EVERTON menn þá veit ég ekki hvað. Ég sá ekki Hull leikinn en hinir fyrir jól. Mér fannst spilamennskan hjá okkar mönnum vera nokkuð góða en hítt að varnarleikurinn hjá okkur. Það þarf að vinna í því að laga hann. Er sammála því að halda Martínes. Og skoða og fá menn að láni út þetta tímabil. Það er líka fínt að menn noti vefin til að tjá sig og lesa líka aðrar greinar. Mér finnst það æðislegt að menn spjalli við aðra um sítt á okkar liði. Ég er ekki alveg sáttur með liðið þá varnarlega séð og ég held að sé allveg sama hver er að spila vörina það fer bara allt í gengum hana. Soldið sárt en vonandi fer þetta allt að koma. Sem harður everton maður þá stend ég með okkar mönnum OG SEGI ÁFRAM EVERTON!

 31. Einar G skrifar:

  Sammála við segjum áfram Everton 😉 Ef það er eitthvað sem hefur kennt manni að vera aðdáandi í 30 ár þá er það að það birtir alltaf upp um síðir 😉

 32. Diddi skrifar:

  okkar gamli magnaði framherji sagði þetta um spilamennsku okkar og að við létum Lukaku vera of einangraðan og sendum boltann ekki nóg á hann til að nýta hann sem best : “But there is no point in having him up there if we are going to pass it along the back, into midfield, back again, into left-back, across to right-back, back again and he’s doing little shuttles at the top end of the pitch wondering ‘when is the ball going to arrive at me?’”

%d bloggers like this: