Mögulegir mótherjar Everton í Europa League

Mynd: Everton FC.

Á mánudaginn, 15. desember, verður dregið í 32ja liða úrslitum Europa League keppninnar og því rétt að skoða aðeins mögulega mótherja. Everton liðið vann sinn riðil og fá því fyrst útileik (19. febrúar) og síðan heimaleik (þann 26. febrúar) á móti einu af eftirtöldum liðum sem sjá má hér að neðan. Listinn er í röð eftir „Evrópustuðli“ UEFA (sem miðast við árangur viðkomandi liðs í Evrópukeppni undanfarin fjögur ár — „sterkasta“ liðið fyrst):

Ajax 57.829
PSV Eindhoven 57.829
Sevilla 56.357
Villarreal 50.857
Anderlecht 45.840
Celtic 38.030
Roma 37.635
Trabzonspor 36.360
Dnipro Dnipropetrovsk  34.999
BSC Young Boys 29.055
Torino 18.135
Guingamp 14.783
Aalborg 10.460

Í 32ja-liða úrslitum mætast ekki lið frá sama landi þannig að leikur við Tottenham (Evrópustuðull: 82.164) og Liverpool (Evrópustuðull: 44.164) getur ekki verið á dagskrá (sú regla gildir ekki í 16 liða úrslitunum). En það er erfitt að velja óskamótherja…

Partur af Europa League upplifuninni er að sjá Everton leggja að velli sterkustu mótherjana úr Evrópu sem völ er á hverju sinni og skv. því ætti maður að óska þess að sjá Ajax, PSV, Sevilla, Villereal eða Anderlecht mæta á Goodison Park og lúta í lægra haldi fyrir Everton.

En partur af manni vill líka að vegurinn að úrslitum sé greiður og dragi ekki athyglina frá deild of mikið — og því kannski rétt að óska eftir einu af liðunum í neðstu sætunum (Álaborg, Guingamp eða Torino) þar sem þau lið eru með áberandi lélegastan árangur (á pappír) í Evrópu.

Trabzonspor eða Dnipro Dnipropetrovsk, eru tvö lið sem maður vill kannski losna við (fyrir hönd liðs okkar) þar sem um erfiðari ferðalög er að ræða.

Hvað finnst ykkur? Hver er ykkar óskamótherji?

5 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    ég vil Gulu kafbátana í Villareal, við eigum harma að hefna og vonandi verður dómarinn ekki í aðalhlutverki eins og Collina forðum 🙂

  2. Ari S skrifar:

    Ég er sammála Didda vini mínum, Villareal. Ekkert annað.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ef ég mætti velja þá yrði það Aab. Annars er mér nokkuð sama bara að við komumst áfram.

  4. ólafur már skrifar:

    Villareal ( Gulu Kafbátarnir ) eða Celtic

  5. Finnur skrifar:

    Niðurstaðan komin:
    http://everton.is/?p=8474