Everton – West Ham 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton náði góðum heimasigri í dag gegn West Ham í fjórða sætinu í kaflaskiptum leik. Everton mun betri en West Ham í fyrri hálfleik en West Ham jöfnuðu af harðfylgi. Everton náði að komast yfir aftur þegar leið á leikinn en forskotið ekki mikið og maður nagaði neglurnar fram til loka.

Uppstillingin fyrir leikinn: Howard, Hibbert, Jagielka, Distin, Coleman, McCarthy, Osman, Barkley, Mirallas, Naismith, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Eto’o, Besic, Atsu, Browning, Garbutt, Ledson.

Sem sagt: Enginn Barry né Baines (Hibbert í vinstri bakverði) en McCarthy heill og Mirallas orðinn góður af sínum meiðslum og það eru frábærar fréttir!

Leikurinn byrjaði með látum þegar Barkley setti Mirallas inn fyrir vörn West Ham á 45. sekúndu en Mirallas hárfínt rangstæður. Everton komst vel í takt við leikinn frá upphafi og virkuðu frískir. Everton með boltann 80% fyrstu 10 mínúturnar en á þeim tíma virtist sem leikjaplan West Ham væri að bomba boltanum inn í teig við hvert tækifæri og vona að Andy Carroll væri vel staðsettur.

Lukaku átti hálfslakt skot á 14. mínútu eftir flotta sendingu frá Naismith en hefði betur gefið hann til baka því Naismith hefði verið í dauðafæri. Naismith fékk svo sjálfur gullið tækifæri til að skora eftir sendingu frá Coleman en sendi boltann hátt upp í stúku. Osman hafði þá sett Colemann upp hægri kantinn inni í teig og Coleman komist upp að endalínu og gefið lágan bolta fyrir en afgreiðslan hjá Naismith — með engan mann í sér — var ekki nægilega góð.

Naismith gerði mun betur þegar hann náði skot á mark stuttu síðar úr þröngu færi en boltinn fór af ökklanum á markverði West Ham og út. Boltinn barst að lokum út fyrir teig og var lagður upp fyrir Hibbert á vinstri kantinum í ákjósanlegu skotfæri en skotið langt frá því að ná á markið. Kannski eins gott því leikvellinum yrði rústað ef hann skorar í keppnisleik og klúbburinn á enn töluvert í að flytja á nýjan leikvang.

En stuttu síðar þá var Lukaku búinn að koma Everton yfir. Það var smá heppnisstimpill á markinu því Barkley átti skot í átt að hægri stöng sem West Ham menn hentu sér fyrir og blokkeruðu. Boltinn barst upp í loftið og beint á Lukaku sem lúrði við stöngina vinstra megin og afgreiddi hann snyrtilega í netið. 1-0 fyrir Everton.

Andy Carroll náði loks skalla á mark Everton á 30. mínútu en færið of langt og krafturinn lítill — engin hætta þar. Auðvelt fyrir Howard. Amalfitano hjá West Ham átti svo slakt skot framhjá marki. West Ham menn aðeins að færa sig upp á skaftið.

Jenkinson gerði vel í að leika á varnarmann Everton og skapa færi fyrir Carroll inni í teig en sendi aftur fyrir hann og Carroll náði rétt svo að láta sig falla, teygja sig í boltann og senda hann hátt yfir.

Vörnin greinilega farin að virka svolítið ótraust á þeim tímapunkti og maður hafði áhyggjur af því að Evert0n væri að fara að hleypa West Ham betur inn í leikinn.

En þá kom Lukaku boltanum aftur í netið á 36. mínútu en var, því miður, réttilega dæmdur vel rangstæður. Það versta þó við þetta var eiginlega að hann tók dauðafærið af Barkley sem ég er ekki viss um að hafi verið rangstæður þegar þeir fengu stungusendinguna inn fyrir — það var allavega tæpt. Hefði viljað sjá Lukaku halda sig til hlés og Barkley taka skotið.

Stuttu fyrir hálfleik fór McCarthy svo í grjótharða tæklingu á leikmanni West Ham, náði reyndar boltanum fyrst en steig svo á ristina á andstæðingnum og tók hann niður. McCarthy virtist fyrst ætla að sleppa við spjald og West Ham menn alveg brjálaðir (og uppskáru spjald sjálfir fyrir mótmæli) en dómarinn ákvað svo að gefa McCarthy spjald. Gult var það en hefði getað verið rautt.

1-0 fyrir Everton í hálfleik.

West Ham byrjuðu seinni hálfleik af nokkrum krafti en svo róaðist þetta. West Ham með tvöfalda skiptingu á 50. mínútu, Jarvis og Zarate — og báðir áttu eftir að vera Everton þyrnir í síðu. West Ham fengu horn stuttu síðar og Andy Carroll þrumaði boltanum í brjótkassann á Barkley… og heimtaði að sjálfsögðu víti. Fékk ekki.

West Ham jöfnuðu á 56. mínútu með algjöru grísamarki: Zarate (eða var það Jarvis?), nýkominn inn á, átti skot utan teigs, tveir varnarmenn tækluðu en náðu ekki til boltans sem fór í hælinn á Jagielka og yfir Howard. Staðan 1-1 og West Ham greinilega að vaxa ásmegin.

McCarthy átti skot af löngu færi á 58. mínútu en rétt framhjá samskeytunum.

Mirallas átti svo slaka tæklingu aftan í mann West Ham og fékk verðskuldað gult spjald en ekki fyrr en West Ham maður (James Tomkins) var búinn að hlaupa að honum og hrinda honum og reyna svo að fiska Mirallas út af með því að þykjast hafa fengið svarið frá Mirallas í andlitið þegar Mirallas greinilega ýtti til baka í brjótkassann. Þulirnir ensku ósáttir við það að West Ham maðurinn hefði ekki fengið rautt fyrir hrindinguna og eftir leik afsakaði Tomkins sig og sagðist sjá eftir atvikinu.

West Ham liðið mikið betri í seinni hálfleik en þeim fyrri og höfðu yfirhöndina á köflum. Voru mjög baráttuglaðir og skipulagðir en náðu ekki að skapa mikið af almennilegum færum þó háu boltarnir inn í teig sköpuðu oft svolítinn glundroða í vörninni okkar.

Mirallas skipt út af á 65. mínútu fyrir Eto’o og var það kærkomið því Mirallas hafði ekki náð að setja mark sitt nógu vel á leikinn og í hættu á að fá rautt. Eto’o aftur á móti kom með fína spretti þann hálftíma sem hann fékk að spila og náði stoðsendingu í sigurmarkinu þegar Everton komst í skyndisókn — Lukaku brunaði upp miðjuna, var klipptur niður af Collins, miðverði West Ham, sem leit út fyrir að vera síðasti maður í vörn West Ham. Eto’o kom á sprettinum og náði boltanum, hljóp upp hægri kantinn og sendi frábæra sendingu á Osman sem var frír inni í teig og skoraði á 73. mínútu. Osman hélt upp á nýjan samning með marki á dögunum og í þetta skiptið hélt hann upp á fjögur hundraðasta leik sinn með Everton — einnig með marki. Eftir á að hyggja grunar mig að ef Everton hefði ekki skorað þá hefði Collins verið rekinn út af.

Hurð skall nærri hælum á 75. mínútu þegar Howard varði skot úr algjöru dauðafæri frá West Ham manni alveg upp við markið. Var Everton að fara að missa þetta niður í lokin, enn eina ferðina, hugsaði maður?

Besic inn á fyrir Barkley á 79. mínútu og svo er varla hægt að hafa leik án meiðsla hjá Everton þessa dagana því Naismith fór út af meiddur á 87. mínútu. Akkúrat það sem við þurftum, fleiri meiðsli. Atsu inn á fyrir hann.

Fimm mínútum var bætt við vegna meiðsla og þær mínútur voru afar taugatrekkjandi. Eto’o og Osman náðu reyndar að sundurspila vörn West Ham með einföldu þríhyrningaspili en Eto’o skaut framhjá í algjöru dauðafæri. Fyrir vikið nagaði maður neglurnar restina af leiknum yfir því hvað West Ham myndi gera en þetta hafðist.

Ljúfur baráttusigur. Tvö stig í fjórða sætið, þrjú ef Arsenal vinna á eftir.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Hibbert 6, Distin 7, Jagielka 6, Coleman 6, McCarthy 6, Osman 9, Mirallas 5, Naismith 6, Barkley 6, Lukaku 8. Varamenn: Eto’o 7, Besic 6, Atsu 6. Tveir í byrjunarliði West Ham með 7, restin með 6 á línuna (fyrir utan Cole, með 5).

13 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Góður sigur í dag og stórleikur hjá Osman. Gríðarlega góður sigur gegn erfiðu liði West Ham sem eru með ekta Sam Allardyce stimpil á sér. Þetta var fyrsti sex stiga leikur okkar í vetur gott að fá 3 stig í dag 🙂

    Takk fyrir umsögnina Finnur 🙂

    • Ari S skrifar:

      Og samspilið hjá Eto’o og Osman þegar sá fyrrnefndi skaut framhjá er eitt af því besta sem ég hef séð… if only… bara að hann hefði skorað… 🙂

  2. þorri skrifar:

    ÞETTA var ágætisleikur og góður sigur

  3. Finnur skrifar:

    Og Osman í liði vikunnar að mati BBC: http://m.bbc.com/sport/football/30168875

  4. Orri skrifar:

    Erum við öll ekki bara ákaflega sátt við úrslitin í þessum leik.Ekki spillti fyrir ða þeir rauðu steinlágu í dag,þau úrslit gefa mér góðan svefn í nótt.

  5. Finnur skrifar:

    Þeir voru að tapa sér í vandlætingu yfir því að hlutlausir voru að spá því fyrir tímabilið að Liverpool myndu eiga í erfiðleikum með að ná í Champions League sæti án Suarez. Gleraugun og allt það #yppiröxlum#…

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Enginn glæsibragur á þessum sigri en 3 stig í hús og það er nú það sem skiptir mestu máli. West Ham eru engir aumingjar þannig að það var ekkert gefið að við myndum vinna þá en sem betur fer hafðist það.

  7. Ari G skrifar:

    Þokkalegur leikur hjá Everton ekki meir. Vonandi verður Baines ekki lengi frá. Mundi hvíla Barkley er greinilega ekki alveg tilbúinn getur komið inná í seinni hálfleik. Sama með Mirallas en vonandi fer hann fljótlega í gang. Osman stóð sig mjög vel en vörnin finnst mér ekki nægilega sannfærandi það lagast þegar Stones kemur aftur. Distin er greinilega ekki kominn í sitt rétta form ennþá en það kemur.

  8. Gestur skrifar:

    Það er rétt, þetta var bara þokkalegur leikur. Fannst Barkley ágætur fyrstu 20mín. en svo var hann alveg út á þekju. Mirallas var að koma úr meiðslum og það var samt gott að sjá hann ínná, alltaf vinnandi. Hibbert kallinn skilaði bara ágætu dagsverki, komst betur og betur inn í leikinn. Frábært hjá Lukaku að skora og flott mark hjá Osman. En eins og ég hef sagt áður það vantar vel spilandi miðjumann í þetta lið. Nú verður gaman að sjá hvernig Matrinez skila á fimmtudag, mikilvægur leikur fyrir Everton

  9. Elvar Örn skrifar:

    Flott að ná sigri í dag, erum bara 2 stigum frá 4 sæti, ekki svo slæmt miðað við ömurlega byrjun á leiktíðinni.
    Frábært að sjá Mirallas aftur en boy oh boy hann var ekki líkur sjálfum sér, en maður fyrirgefur honum það klárlega, hann um koma til. Held það bara sé eins með Barkley, hann þarf bara meiri tíma enda missti hann af fyrstu leikjum tímabilsins, held við græðum lítið að henda honum bara á bekkinn, kappinn þarf leikæfingu. Osman með einn sinn allra besta leik í langan tíma og svakalega kom Eto’o sterkur inn, átti hreint mögnuð tilþrif og agarlega yfirvegaður á boltanum.

    Tottenham um næstu helgi, úti að mig minnir og svo tveimur vikum síðar mætum við Man City á útivelli, áhugaverðir leikir verð ég að segja.

    Nú er bara að vona að Everton gangi áfram vel í Evrópukeppninni og eins og ég hef komið að áður þá á Everton eftir að leika 11 leiki til áramóta, þokkalegt álag þar.

    Myndi vilja sjá Ovieido detta núna inn ef Baines kemur ekki strax inn en annars lítur þetta ágætlega út hjá okkur.

    Er planað að fara á annan leik í vetur??

  10. Finnur skrifar:

    Næsti leikur einhvern tímann eftir áramót — ekkert ákveðið. Annars gengur svo vel að redda miðum á Everton leiki fyrir fólk hér heima undanfarið að maður fer bara að verða smeykur við að þú eigir eftir að lenda í vandræðum með að finna einhvern til að fara með þér! ;D

    Haraldur Örn er kominn með þrjá leiki á tímabilinu (ef ég tel rétt), ég kominn með tvo og á leið á þann þriðja í febrúar (Everton – Leicester). Just sayin’. 🙂

  11. Ari S skrifar:

    Ég horfði á 20 mínútna samantekt úr leik Everton gegn West Ham á heimasíðu Everton. Þetta er nú bara alls ekkert slæmt og eiginlega bara miklu betra en mér fannst á laugardaginn 🙂 Ég tók saman færi okkar í leiknum.

    Sendingin hjá Barkley til Mirallas í byrjun leiks. Frábær. Hefði alveg getað endað með marki.

    Skot hjá Lukaku þar sem hann snýr sér í skotinu og á markmanninn hefði getað hitt hann betur. Sú sókn hefði alveg getað endað með marki.

    Hibbert gefur á Osman sem á frábæra sendingu á Coleman sem gefur síðan á Naismith og það má segja að hann hafi verið í dauðafæri…. skaut yfir markið. Sú sókn hefði alveg getað endað með marki.

    Osman á syrpu rétt við hægra vítateigshornið og gefur á Naismith sem að nær skoti en boltinn rúllar eftir línunni,. Sú sókn hefði alveg getað endað með marki.

    Stungusending Naismith á Barkley/Lukaku þar sem báðir voru rangstæðir. Sú sókn hefði alveg getað endað með marki.

    Markið hjá Lukaku, ekki gleyma því.

    Seinni hálfleikur:

    Skot frá McCarthy þar sem hann kom upp vinstra megin. Sú sókn hefði alveg getað endað með marki.

    Markið hjá Osman, ekki gleyma því

    Lukaku með skot rétt utan við vítateig hægra megin. yfir. Sú sókn hefði alveg getað endað með marki.

    Coleman á skot frá vinstri sem endar með horni. Sú sókn hefði alveg getað endað með marki.

    Eto’o með hornspyrnu gefur stutt á Atsu sem gefur hann aftur á Eto’o sem á sendingu á Osman sem tekur einn hring með boltann og gefur hann á Eto’o sem gefur stungusendingu á Osman og fær hann aftur og á skot framhjá. Þessi sókn ÁTTI að enda með marki. Eitt af því allra fallegasta og flottasta sem ég hef séð til Everton.

    Og svo má ekki gleyma skotinu sem að Hibbert átti. Hefði veirð flott að sjá hann inni þar.