Sunderland – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mættu Sunderland á útivelli í deildinni í dag og skiptu liðin stigunum með sér bróðurlega sem þegar uppi var staðið var líklega sanngjarnt. Bæði lið fengu færi til að klára leikinn, Everton líklega aðeins betri en tókst ekki.

Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, McCarthy, Barry, McGeady, Eto’o, Barkley, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Hibbert, Gibson, Naismith, Besic, Atsu, Osman.

Sunderland byrjuðu af krafti og náðu stífri pressu á Everton, fengu horn og fínan skalla að marki frá Connor Wickham en sá hitti ekki markið. Lið Sunderland leit sprækara út en oft áður og maður hafði á tilfinningunni að þeir myndu verða sterkari aðilinn í leiknum en eftir nokkrar mínútur náðu Everton að komast almennilega inn í leikinn, halda boltanum vel og setja pressu á Sunderland.

Tveimur mínútum síðar spiluðu Eto’o og Lukaku sig gegnum vörn Sunderland en skotið frá Eto’o úr fínu færi alls ekki gott. Unun að horfa samt á undirbúninginn sem byrjaði eiginlega við miðju en með einföldum sendingum og þríhyrningaspili skildu þeir eftir hvern varnarmanninn á fætur öðrum. Sunderland svöruðu með skalla rétt yfir mark úr horni, aftur frá Wickham.

Barkley átti skot á mark af löngu færi stuttu síðar en hafði ekki erindi sem erfiði en svo á 10. mínútu fór Barry út af meiddur og Gibson inn. Ekki alveg það sem þurfti.

Sunderland menn reyndu að fiska afar ódýrt víti en dómarinn vildi ekkert með það hafa og gaf réttilega gult fyrir leikaskaraskap. Everton brunuðu bara í sókn og Lukaku náði skalla á mark en skallinn arfaslakur eins og nær allar afgreiðslur Everton í leiknum.

Sunderland með fínt færi sem Distin hreinsaði frá, líklega þeirra besta færi í leiknum. Og hinum megin var McGeady alls ekki langt frá því að skora með frábæru skoti af löngu færi sem fór rétt framhjá samskeytunum og markvörður Sunderland gat því andað léttar.

Barkley og McGeady komust í gegn og inn í teig með fínu samspili sín á milli en varnarmenn Sunderland köstuðu sér fyrir skotið frá Barkley. Þar hélt maður að Everton væri að komast yfir.

Hætta skapaðist svo fyrir framan mark Everton þegar Gibson lét stela af sér boltanum við D-ið á vítatignum en ekkert kom úr því.

0-0 í hálfleik. Everton með boltann nær 60% tímans.

Barkley átti tvö skot snemma í seinni hálfleiknum, það fyrra arfaslakt og ákvarðanatakan hjá Barkley klárlega röng — hefði átt að framlengja á samherja, en seinna skotið fór allavega á markið en varið.

Lukaku komst svo inn í sendingu á miðvörð og komst á hlaupinu einn á móti markverði en fór mjög illa með það færi, missti boltann of langt frá sér og leyfði markverði að komast í boltann. Staðan hefði átt að vera 0-1 þar ef Lukaku hefði bara náð að klára færið. Hefði líklega gert það á hvaða öðrum degi sem er en hann átti heldur slakan leik í dag, átti slæmar sendingar og virkaði hálf áhugalaus á köflum.

Lukaku gerði þó vel síðar þegar hann lék á varnarmann vinstra megin í teig og náði skoti en í utanverða stöngina og út af. Hann átti svo stuttu síðar annan skalla á mark, en lítill hætta.

Á 66. mínútu gaf Baines aukaspyrnu á stórhættulegum stað, rétt utan vítateigs fyrir miðju, og það fyrsta sem maður hugsaði var: það má bara alls ekki gefa Sebastian Larsson svona skotfæri, hann er það frábær aukaspyrnusérfræðingur. Og það var eins og við manninn mælt, óverjandi fyrir Howard og Sunderland komnir 1-0 yfir. Þeir höfðu helst verið hættulegir úr föstum leikatriðum og kannski við hæfi að markið kæmi úr einu slíku.

McGeady út af fyrir Naismith, sem kom nokkuð á óvart því manni fannst McGeady (ásamt Eto’o) einna líklegastur til að geta brotið upp leikinn og breytt gangi hans.

Eto’o var hins vegar ekki hættur því tvisvar setti hann Coleman inn fyrir vörnina með frábærum stungusendingum, í fyrra skiptið var Coleman næstum búinn að setja boltann á Lukaku í dauðafæri upp við mark en varnarmaður hreinsaði í horn. Seinna skiptið, hins vegar, gaf það okkar mönnum víti því Coleman var klipptur niður af Connor Wickham inni í teig í dauðafæri. Ekkert annað en víti og Sunderland stálheppnir að sleppa við rautt. Baines tók vítið, ekki besta afgreiðslan sem maður hefur séð frá honum en boltinn fór undir markvörðinn og inn. Staðan orðin 1-1 eftir 76 mínútur.

Osman kom inn á fyrir Barkley á 85. mínútu en Everton menn virtust ekki nógu líklegir til að bæta við og Sunderland meira ógnandi. Þeir voru ekki langt frá því að taka öll þrjú stigin í lokin, þegar Fletcher fékk fyrirgjöf en virtist ekki átta sig á því að hann þurfti bara að pota inn.

Umdeilt atvik gerðist svo rétt fyrir lok venjulegs leiktíma þegar Howard virtist hafa tekið boltann með hendi utan teigs þegar hann lagðist á boltann alveg við teiglínuna og skýldi boltanum með líkama sínum þar sem boltinn rann ekki nógu hratt inn í teiginn en endursýning sýndi að dómarinn hafði rétt fyrir sér að dæma ekkert á það. Áhorfendur og leikmenn Sunderland þó algjörlega brjálaðir yfir þeirri ákvörðun.

McCarthy kórónaði svo frábæran leik með því að bjarga á línu í uppbótartíma.

Everton fékk síðasta tækifæri leiksins til að komast yfir þegar Coleman tók á sprettinn upp allan kantinn en ekkert kom úr því. 1-1 jafntefli því staðreynd. Sjötti taplausi leikurinn í röð en með jafnteflinu hleypti liðið Newcastle og Stoke, sem bæði unnu í dag, fram úr sér en komust upp fyrir Liverpool, sem töpuðu í gær og færðust Everton því niður um eitt sæti í umferðinni, í það tíunda.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Distin 7, Jagielka 7, Coleman 7, McCarthy 8, Barry 5, McGeady 7, Eto’o 6, Barkley 7, Lukaku 6. Varamenn: Gibson 7, Naismith 6, Osman 6. Mjög svipaðar einkunnir hjá Sunderland.

24 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  það er stórslys ef við vinnum ekki öruggan sigur í dag. Að bera saman þessi lið sem mætast, þá er bara fyndið að þau séu í sömu deild 🙂

 2. Orri skrifar:

  Við erum á beinu brautini.4-0 fyrir okkur og málið dautt.

 3. halli skrifar:

  Grátlega sterkt byrjunarlið hjà okkur

 4. Diddi skrifar:

  Ingvar, ef þetta verður enn einn liverpool factorinn þá vonar maður hér eftir að liv..pool vinni leiki sína 🙂

 5. Diddi skrifar:

  skemmtilegur leikur, fótboltinn 🙂

 6. Einar G skrifar:

  Þetta er ekki einleikið hjá okkar mönnum. Mér fannst pínku eins og menn væru ekki að leggja sig fram. Reyndar voru margir sem stóðu sig vel. Til að mynda fannst mér Coleman góður í seinni hálfleik. McGeady var ágætur á köflum en ef hann hefði verið lengur inn á þá hefði hann nælt sér í rautt. Eins og mér finnst nú Barkley góður þá spilaði hann eins og hann væri í fýlu og þá sérstaklega út í Baines, það var eitthvað ekki í lagi þarna, hann passaði sig þvílíkt að senda hann ekki á Baines, spilaði sig frekar í rugl inn á miðjuna. Lukaku og Eto fínir en hlutirnir fóru ekki að gerast fyrr en Naismith kom inn. Hrikalega var flott líka þegar Howard lagðist á boltann 😉 Hefðum svo mikið þurft þrjú stig í dag…

 7. Ari G skrifar:

  Þokkalegur leikur hjá Everton ekki meir. Finnst samt Eto’o og Lukaku ekki ná nógu vel saman allavega fannst mér þeir eru nógu góðir í dag. Vörnin þokkaleg Gready besti maður Everton og besti leikur Barkleys síðan hann kom úr meiðslum. Hef miklar áhyggjur af Barry finnst hann samt ofmetinn leikmaður samt góður en MaCarthy er samt mun betri mín skoðun.

 8. Halli skrifar:

  Barry er fótbrotinn samkvæmt samfélagsmiðlunum og það eru ekki góðar fréttir. Mér fannst MaCatrhy okkar besti maður í dag en innkoma Gibson skelfir mig ef rétt reynist að Barry sé brotinn. Enn einu sinni er það þessi hæga uppbygging á sóknarleiknum sem verður okkur að falli við erum of fyrirsjáanlegir, þetta svo að koma alltaf inn á miðjuna fyrir framan teiginn og lúðra boltanum þaðan upp í stúku eða að varnarmenn blokki skotin er ekki að virka vel. Vissulega eru ljósir punktar í þessu líka Coleman var í flottum hlaupum í seinnihálfleiknum og samspil Eto’o og Lukaku í fyrri var konfekt. Lukaku á að klára færi eins og hann fékk í seinni hálfleik alltaf.

 9. Kolbeinn skrifar:

  AF HVERJU Í ÓSKÖPUNUM FÉKK WICKHAM EKKI RAUTT? Coleman kominn einn í gegn og á bara markmanninn eftir??!!?? Hann fékk ekki einu sinni gult spjald!
  Svo var McCarthy heppinn að fá ekki seinna gula fyrir að handleika knöttinn, það hefði verið dýrt. Annars var hann maður leiksins að mínu mati, mjög góður í leiknum.

  • Gunni D skrifar:

   Ég er nokkuð viss um að þér hefði fundist þetta vera flott tækling ef þetta hefði verið hinumeginn á vellinum. Ég sá þetta allavega þannig.Boltinn fyrst.

 10. Gunnþór skrifar:

  þetta er allan tíman rautt spjald í vítinnu hann kom aldrei við boltann,dómarinn mun fá mínus stig í skýrsunni eftir þennan leik.Við eigum allan tímann að vinna svona leik það er lágmarkskrafa,mér er alveg sama um úrslit hjá öðrum liðum.

 11. Ari S skrifar:

  Lágmarkskrafa hjá mér er að menn leggi sig fram og geri sitt besta, alltaf. Mér er alveg sama um úrslit hjá öðrum liðum.

  Er ég heppinn að hafa ekki séð leikinn í dag?

 12. Orri skrifar:

  Ég verð bara að segja það að menn verða leggja sig meira fram en í leiknum í dag.Við stuðnigsmenn Everton eigum meira skilið en svona leik.En lítum á björtu hliðarnar,við erum komnir upp fyrir Liverpool.Ég er sammt ofur bjartsýn á framhaldið í vetur hjá mínum mönnum.

 13. Gestur skrifar:

  Everton vantar miðjuspilara, Barkley er ekki að hönlda þetta hlutverk einn. Fannst miðjan vera mjög léleg í dag , áhugalaus eins of þið sögðuð.

 14. Elvar Örn skrifar:

  Baines meiddur, sem og Gibson.
  Ekki góðar fréttir og ég var að sjá það að næsti leikur Everton er 22 nóv og það eru 10 leikir eftir til áramóta. Svakalegt prógram og vonast maður bara til þess að meiðslalistinn lengist ekki.

 15. Teddi skrifar:

  Jagielka meiddist líka en virtist bara vera smá hnjask. Spái því að Baines og Jagielka verði báðir klárir á laugardaginn.

 16. Elvar Örn skrifar:

  Flott mark hjá Ryan Ledson með Enska U-18 landsliðinu:
  http://sabotagetimes.com/reportage/watch-everton-prodigy-score-outrageous-free-kick-england-u-18/?

%d bloggers like this: