Everton – Swansea 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton náði ekki að nýta sér þó nokkra yfirburði gegn liði Swansea í dag en leikurinn endaði með jafntefli. Engin voru mörkin skoruð en nóg til að tala um, bæði rautt spjald og beiðnir um vítaspyrnur.

Uppstillingin í leiknum: Howard, Baines, Jagielka, Alcaraz, Coleman, Barry, McCarthy, McGeady, Barkley, Naismith, Eto’o. Varamenn: Joel, Hibbert, Lukaku, Besic, Atsu, Osman, Pienaar. Gylfi náði að jafna sig af meiðslunum í nára og var í byrjunarliði Swansea.

Fyrsta færi leiksins kom eftir aðeins 20 sekúndur en það kom eftir að Coleman lék auðveldlega á vinstri bakvörð bakvörð Swansea (Tyler), sem fékk oft að kenna á sóknum Everton upp hægri kantinn og átti fá svör. Boltinn barst til McGeady sem átti fyrirgjöf sem var hreinsuð frá. Boltinn lenti þó hjá Eto’o en skot hans varið.

Swansea svaraði að bragði með skoti yfir markið en þeir áttu ekkert skot sem rataði á rammann allan fyrri hálfleik. Bony komst í dauðafæri á 5. mínútu en skaut framhjá. Hefði átt að gera mun betur þar einn á móti markverði. Fjörug byrjun á leiknum.

McGeady átti skot af löngu færi stuttu síðar en varið í horn. Barkley opnaði svo vörn Swansea vel með sendingu upp hægri kantinn til McGeady (aftur fyrir Tyler) en fyrirgjöf McGeady hreinsuð frá. Boltinn barst til Barry sem náði skot á mark en beint á Fabianski.

Flottar fyrstu 15 mínúturnar hjá Everton sem settu strax pressu á Swansea og eina svarið sem Swansea hafði voru skyndisóknir. Ein slík endaði með skoti frá Shelvey utan teigs sem Alcaraz blokkeraði með hendi – og hefði réttilega átt að dæma víti. Kevin Friend að dæma — heldur óvenjulegt af honum að dæma ekki andstæðingum Everton í vil. Og hann átti eiginlega, fyrir utan þessi mistök ágætan leik, sem maður er ekki vanur að segja heldur.

Everton settu strax pressu á Swansea í staðinn örfáum augnablikum síðar og McGeady átti skot í hönd varnarmanns Swansea, líklega þó ekki víti (ekki ásetningur).

Everton mun beittari og náðu góðri pressu á Swansea allan hálfleikinn, héldu boltanum yfir 70% og náðu oft að skapa usla í vörn Swansea. Markið lá stöðugt í loftinu en ekki hafðist það. 6 tilraunir frá Everton, þrjár á markið.

Ekki löngu fyrir hálfleik fór Alcaraz út af fyrir Besic en Alcaraz leit út fyrir að vera illa tognaður eða handarbrotinn en kom í ljós að hann hafði meiðst á öxl í samstuðu inni í teig Swansea. Besic fór því á miðjuna og Barry í miðvörðinn.

Everton liðið hélt þó áfram stöðugri pressu á Swansea alveg til loka hálfleiks. En, markalaust í hálfleik.

Ég lenti í smá vandræðum með útsendinguna fyrstu 10 mínútur síðari hálfleiks (er á ferðalagi) en náði að sjá Shelvey klúðra ákjósanlegu skotfæri eftir góðan undirbúning frá Bony á 50. mínútu.

Bony var svo skipt út af tíu mínútum síðar, enda búinn að vera að leika sér pínulítið að eldinum, með gult spjald á bakinu.

Swansea komust betur inn í leikinn í síðari hálfleik og Everton fékk eina af sínum fáu skyndisóknum á 63. mínútu (ekki margar skyndisóknir þegar pressan er jafn mikil og í fyrri hálfleik) sem endaði með því að McGeady átti skot hægra megin rétt framhjá fjærstönginni.

Pienaar og Lukaku inn fyrir Naismith og McGeady á 67. mínútu.

Það virtist þó ekki hafa tilætluð áhrif því Swansea uxu inn í leikinn og náðu að skapa pressu á Everton. Maður hafði smá áhyggjur af því að þeir væru loks að ná undirtökunum. En þá eyðilagði Shelvey það algjörlega fyrir þeim þegar hann lét reka sig út af við að stoppa hlaup McCarthy í átt að vítateig á 71 mínútu. Hefði betur sleppt því (í fyrri hálfleik) að sparka boltanum burtu eftir að aukaspyrnan var dæmd á hann, sem gaf honum fyrra gula spjaldið.

En við tóku einhverjar mest frústrerandi mínútur sem ég hef horft á Everton spila í nokkuð langan tíma.

Það var eins og menn væru alltof mikið að flýta sér og gerðu sig seka um alltof mikið af slæmum sendingum í flýti sem og brotum við að reyna að ná boltanum aftur — jöfnuðu næstum brotafjölda Swansea (munurinn hafði verið þó nokkur) og þetta gerði það að verkum að Swansea menn gátu talið niður mínúturnar til loka. Hefði viljað sjá Everton byggja upp spil meira frekar en að koma bolta á fremsta mann og nýta betur hægri kantinn (sem var greinilega veikleiki Swansea í leiknum).

Jagielka átti einn skalla upp úr aukaspyrnu frá Baines, en lenti á þaknetinu. Þetta var líklega eina fasta leikatriðið sem ég sá Baines afgreiða í öllum leiknum. Allar hornspyrnurnar inn í teig voru slakar (yfirleitt á fyrsta mann) og allar aukaspyrnurnar hættulausar. Tek þó fram að hann var fínn að öllu öðru leyti.

Swansea menn með næst-besta árangur allra varna í deild (Southampton þeir einu sem eru með betri árangur — greinilega náð að smella vel saman eftir að Lovren fór) og þetta var stig sem Swansea menn sóttu af harðfylgi með vel skipulagðri vörn.

Þeir verða klárlega kátari með stigið en okkar menn verða (aðeins sjötta stig Swansea gegn Everton frá upphafi) og mjög gott tækifæri hjá Everton til að klifra upp töfluna farið forgörðum. Everton í 9. sæti, jafnir á stigum við United sem eiga erfiðan leik á morgun og stigi á eftir Liverpool sem tapaði í dag. Ekki nema fjögur stig í þriðja sætið.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Alcaraz 6, Jagielka 7, Coleman 8, McCarthy 7, Barry 6, McGeady 7, Naismith 6, Barkley 6, Eto’o 6. Varamenn: Lukaku 6, Besic 7, Pienaar 5. Svipaðar tölur hjá Swansea (sexur og sjöur).

20 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Pitchside preview fyrir Swansea leikinn…
  http://www.evertonfc.com/evertontv/archive/2014/11/01/pitchside-preview-everton-v-swansea
  (Fyrir þau okkar sem eru bara að bíða eftir að leikurinn byrji).

 2. Ari S skrifar:

  Ég á von á því að Alcaraz muni eiga stórleik, reyndar er ég alveg öruggur með það… 🙂

  Áfram Everton!

  • Diddi skrifar:

   alveg stórleik !!!!!! 🙂

   • Ari S skrifar:

    Hann stóð sig vel alveg þangað til hann meiddist. Þú ert alltaf að toppa þig í leiðinlegheitum Diddi. Alveg eins og smákrakki hehe 😉

 3. Ari S skrifar:

  Antolín Alcaraz Viveros leikur númer 30 hjá Everton. Var í byrjunarliði í dag. Byrjaði mjög vel þegar hann fór illa með Gylfa á 2. mínútu, blokkeraði Bony á 4. mínútu, komst inn í sedningu á 5. mínútu. Átti reyndar fáránlega sendingu til baka í hornið þar sem enginn var ekki einu sinni samherji. Blokkeraði skot frá Bony á 20. mínútu og varði síðan gtt skot með hendi á 20. mínútu… stuttu seinna meiddist hann og fór með sjúkrabíl a´spítala. Kannski sumir hérna verði ánægðir með það, sérstaklega Diddi leiðinlegi…. 😉

  kær kveðja,

  Ari

 4. Ari S skrifar:

  Hvað var Barry (miðvörður) að hugsa á 50. mínútu?

 5. Gestur skrifar:

  vona að Everton ætli ekki að kaupa meira af leikmönnum eins og Besic, kom ekkert útúr honum, hann er ekki tilbúinn að spila í eftu deild.

  • Ari S skrifar:

   Gestur, slakur leikur hjá McCarthy og Barkley var eiginlega meira áberandi… 🙂 Besic var ekki slakastur.

   Og ef að dómarinn hefði ekki stoppað leik Everton manna eftir glæsilega sendingu frá Besic á hægri kantinn og við skorað út frá því þá er ekki víst að þú hefðir sagt þetta 🙂

   • Finnur skrifar:

    Besic fær 7 hjá Sky Sports. Ég sá nú ekki mikið að hans leik.

    Hvað um það. Skýrslan komin.

 6. Ari S skrifar:

  Everton v. Swansea í %

  Posession 67-33
  Shots 17-8
  Shots on target 3-0
  Corners 11-0
  Fouls 10-15

  Sæmilegir yfirburðir en sofandaháttur á miðjunni eftir að Alcaraz fór útaf þar sem þurfti að breyta miklu í liðsskipan eftir það, er að mínu mati ein skýring á því að ekki tókst að skora.

 7. Elvar Örn skrifar:

  Þokkalega pirrandi leikur. Everton er búið að skora í öllum leikjum deildarinnar til þessa og það var bara ekkert að ganga upp ídag.
  10 hornspyrnur eða álíka og þær voru allar ömulegar, hvað er í gangi þar. Baines ekki alveg að finna sig og sorglegt hve lítið við vorum að ógna á mark gestanna.
  Ég skrifaði um það fyrir skemmstu að sigur í þessum leik kæmi liðinu í góða stöðu, það er jú niðurstaðan, við hefðum verið í 6 sæti og 2 stigum frá þriðja sæti sem hefði verið geðveikt,,,,,,en neiiiii ekki frekar en fyrri daginn.

  Eins og ég sagði pirrandi leikur og lítið að ganga upp. En ekki tap í dag og við sjáum hver staðan verður eftir nokkra leiki. Ekki má gleyma því að við hefðum hoppað yfir Liver….úl og það hefði nú hvatt menn áfram hefði maður haldið.

  Vörnin góð heilt yfir og jú gott að halda hreinu og fengum ekkert skot á mark ef ég man rétt en sjaldgæft að sjá Everton ógna svona lítið miðað við seinustu leiki.

  Grrrr, einn pirraður.

 8. Ari S skrifar:

  Ég er nokkuð sammála sky einkuninni, nema kannski að Barkley hefði mátt fá 5 og McCarthy 6. Það er ljóst að viðmegum ekki við því að missa Barry af miðjunni. allavega ekki á meðan að aðrir miðjumenn virðast hreinlega ekki vera tilbúnir að taka við af Barry. (þá á ég við þá leikmenn sem voru inn á í dag)

 9. Ari G skrifar:

  Hvar er Distin er hann týndur ég spyr bara. Besic hefur aldrei heillað mig má alveg fara í janúar. Everton getur notað Gibson á miðjunni hann er alveg góðu góður í byrjunarliðið. Þessi leikur heillaði mig ekki allt of bráðir í sóknarleiknum. Svakalega sakna ég Mirallas enda snillingur. Samt þetta er á rétti leið og ég hef ekki áhyggjur af framhaldinu. hjá Everton.

 10. Orri skrifar:

  Svona strákar.Það kemur leikur eftir þennan leik.Það þíðir ekkert að gráta Björn bónda nú er bara safna liði,og berjast.

 11. Ari S skrifar:

  Já það mættu fleiri vera eins go þú Orri minn 🙂 Alltaf jákvæður 🙂

  Skil ekki alveg þetta Besic tal eftir leikinn í dag.

  McCarthy var hræðilegur og Barkley hlægilegur í leiknum t.d. þegar hann kiksaði þarna úti á kantinum.

  Samt væla menn um Besic!!!???

 12. Elvar Örn skrifar:

  Er ennþá pínu pirraður, bara bjór gæti bjargað því,,hmmm.

 13. Diddi skrifar:

  löngu búinn að laga pirringinn með bjór 🙂 og ég var ekki pirraður á Besic, finnst hann reyndar flottur og vaxandi fyrir okkur 🙂

 14. Teddi skrifar:

  Of margir með alltof margar snertingar á boltann þegar þeir fengu hann, endalaust soloista-barningur hjá t.d. Eto’o og Barkley.

%d bloggers like this: