Ævisaga Osman

 Mynd: Everton FC.

Everton.is barst hugleiðing frá einum félagsmanni um ævisögu Leon Osman sem mér fannst rétt að birta hér. Ég fór ekki varhluta af útgáfu ævisögu hans og er satt best að segja pínulítið forvitinn að vita hvað í henni stendur svo maður öðlist betri skiling á því hvernig daglegt líf innan klúbbsins hefur verið undanfarin áratug(i). Sökum anna hafði ég þó ekki ætlað mér að fjalla um bókina sérstaklega á þessari síðu en það breyttist þó þegar eftirfarandi pistill barst, sem birtist hér í heild sinni (skoðun gestapenna):

Leon Osman hefur verið hjá Everton síðan hann var tíu ára gamall og fékk nýlega ágóðaleik eftir meira en tíu ára feril í aðalliði Everton en Osman var sá leikmaður sem David Moyes valdi oftast í lið sitt þau ellefu ár sem hann var framkvæmdarstjóri þar.

Nú er að koma út bók þar sem Leon Osman skrifar um það sem á daga hans hefur drifið… og hefur margt vakið þar athygli, til dæmis ádeila á Tim Cahill og einnig gerir hann lítið úr Per Krøldrup segir hann ekki hafa kunnað að skalla boltann betur en sjö ára gamall krakki.

Hér er smá brot úr bókinni, í lauslegri þýðingu:

Eftir því sem leið á tímabilið varð það deginum ljósara að samningur David Moyes við Everton var að renna út.

Talað var um að hann gæti hugsanlega hætt eftir tímabilið. Aðrir sögðu að hann væri að draga það á langinn að semja við félagið til að þrýsta á meiri pening til leikmannakaupa.

Á endanum, þegar tveir leikir voru eftir af tímabilinu var það tilkynnt að honum hafi verið boðið starf sem framkvæmdarsjóri Manchester United, sem eftirmaður Sir Alex Ferguson.

Eftir að það hafði verið staðfest kallaði Moyes á sex af leikmönnum aðalliðsins á sinn fund á Thistle hótelinu í Haydock – mig, Phil Neville, Phil Jagielka, Tony Hibbert, Leighton Baines og Tim Howard.

Við óskuðum honum allir til hamingju með þetta afrek og glöddumst með honum. Áttum fína kvöldstund saman….

Mér var mikið í mun að leika okkar síðasta heimaleik gegn West Ham, jafnvel þó að ég væri ekki alveg í nógu góðu standi vegna þess að við vorum að kveðja David Moyes.

En það sem mér þótti skrýtnast við þennan dag var það sem gerðist í lokin. Phil Neville sem hafði verið okkar fyrirliði í nokkur ár kom út á völl og fékk sína heiðurskveðju réttilega. Næstur á eftir honum kom David Moyes og fékk hann mikið og gott lófaklapp og heiðruðu stuðningsmenn hann vel og lengi. Þetta hefði átt að vera lokin en hver kom síðastur inn á völlinn? Tim Cahill!

Hann hafði komið til að horfa á leikinn og hefði átt að vera heiðraður fyrstur, en kom síðastur rétt eins og hann væri aðalmaðurinn þennann dag. Ég trúði þessu ekki. Þetta var ótrúlegt.

Tim Cahill hefði átt að hafna því boði að vera síðastur að mínu áliti. Hann hafði verið ótrúlegur fyrir Everton, einn af bestu kaupum okkar en þetta var stund Neville og Moyes, en ekki hans.

Við fórum allir út að borða um kvöldið og eitt sinn stóð Cahill upp til að fara á salernið og þegar hann sneri til baka þá stóðum við allir og klöppuðum fyrir honum, klöppuðum hann upp. Honum líkað það ekki!

… brot úr bók Leon Osman í lauslegri þýðingu.

Skoðanir á útgáfunni?

2 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Ég held að þetta verði skemmtileg lesning, Osman er grallari mikill; einna fjörugastur í hópnum og ég er pínu spenntur fyrir þessari bók.

  Koldrup tilvitnanirnar komu mér ekki á óvart, enda er hann talinn meðal verstu kaupum í Ensku fyrr og síðar og lék bara einn deildarleik með félaginu. Cahill tilvitnanirnar komu mér aðeins meira á óvart en hann hefur í raun rétt fyrir sér — þetta var dagur Moyes og kannski svolítið skrýtið að Cahill kæmi út í lokin, þegar maður hugsar um það. En ég veit það ekki. (yppi öxlum) Ég tók ekki eftir þessu á sínum tíma (þegar Cahill gekk inn)…

 2. Ari S skrifar:

  Mér finnst frekar lélegt hjá honum að reyna að auka söluna á bókinni með því að gera lítið úr Cahill, alger óþarfi að mínu mati.

  Það er samt nokkuð ljóst að Leon Osman á David Moyes mikið að þakka og kannski ekki skrýtið að hann verji kallinn svona.

  Per Kroldrup fór frá Everton eftir að hafa spilað 1 leik með félaginu og komst ekki í lið eftir það. En spilaði síðan í 6 ár með Fiorentina sem að segir eitthvað um getu hans og einnig spilaði hann 33 landsleiki með dönum.

%d bloggers like this: