Man United vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Á sunnudaginn kl. 11:00 leikur Everton á þriðja erfiða útivellinum í röð þegar þeir mæta United á Old Trafford. Við eigum mjög góðar minningar frá síðustu viðureign þar þegar Oviedo skoraði mark rétt undir lok leiks og batt enda á 21 árs eyðimerkurgöngu Everton með sigri á Old Trafford. Síðar á tímabilinu tókst Martinez svo að sigra þá heima líka og náði þar með tvennu gegn þeim á tímabilinu, sem hafði ekki gerst síðan 1969. Ef Everton sigrar á sunnudaginn verður það í þriðja skipti í röð gegn United, sem hefur ekki gerst síðan 1921 og í fjórða skipti í síðustu fimm leikjum gegn þeim.

Bæði lið hafa valdið nokkrum vonbrigðum í byrjun tímabils en United eru með 8 stig eftir 6 leiki: þar af 2 sigrar (gegn QPR og West Ham) og 2 jafntefli (Burnley og Sunderland). Everton er með 6 stig eftir 1 sigur (West Brom) og þrjú jafntefli (Arsenal, Liverpool og Leicester).

Mikið er um meiðsli í herbúðum United en Van Gaal hefur þurft að leita til ungliðanna til að manna vörnina hjá sér. Líklegt er einn þeirra, ungliðinn Paddy McNair, haldi áfram í miðverðinum, þrátt fyrir að Tyler Blackett sé kominn aftur úr banni en hann átti víst skelfilegan leik gegn Leicester þar sem United missti niður tveggja marka forystu og töpuðu 5-3. Fellaini, sem við þekkjum vel, er tæpur en gæti endað á bekknum. Herrera, Jones, Evans og Smalling eru allir meiddir og Rooney lét reka sig út af í síðasta leik þannig að hann verður í banni. Breiddin er þó næg í framlínunni hjá þeim en að öllum líkindum kemur Mata inn í staðinn og Van Persie og Falcao byrja í framlínunni. Vörnin þarf því að vera vel á verði og sýna styrkinn sem hún sýndi á Anfield. Veikleiki United er klárlega í varnarlínunni og líklegt að Martinez reyni að beita skyndisóknum gegn þeim, enda mikilvægt að nýta reynsluleysi McNair og félaga.

Verst er þó í því samhengi að enn vantar mikilvæga hlekki í sóknarlínuna hjá Everton en skarð Mirallas er erfitt að fylla. Pienaar hefur jafnframt verið mikilvægur hlekkur milli varnar og sóknar og slæmt að hafa ekki getað nýtt hann meira á tímabilinu, sem og Coleman sem hefur verið að glíma við vöðvameiðsli um nokkurt skeið.

Distin hefur einnig verið tæpur undanfarið, McCarthy var hvíldur í leiknum við Krasnodar vegna stífleika í lærvöðva og Oviedo og Kone báðir búnir að vera lengi frá. En góðar fréttir bárust um Barkley sem gæti farið að æfa aftur í næstu viku.

Coleman, Pienaar og McCarthy verða allir metnir á leikdegi og líkleg uppstilling: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Hibbert/Coleman (ef heill)/Browning, Barry, McCarthy, Besic/Pienaar (ef heill), McGeady, Lukaku, Naismith.

Það er vonandi að Europa League ferðalagið til Rússlands á dögunum sitji ekki í leikmönnum og menn verði reiðubúnir líkamlega og andlega í þennan erfiða leik. Á móti kemur að bæði Alex Ferguson og David Moyes, þegar þeir voru stjórar United, töpuðu fyrsta leik sínum gegn Everton. Eigum við ekki bara að vona að það haldi áfram með Van Gaal?

Í öðrum fréttum er það helst að Baines, Stones og Jagielka voru valdir í enska landsliðshópinn fyrir væntanlega leiki í Evrópukeppni landsliða og Garbutt í U21 árs liðið.

4 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  3-2 United í blóðugu Fellaini vs McCarthy battle.

 2. Orri skrifar:

  Ég er nú ekki vanur að vera gera lítið úr mínu liði.En að tala um að það geti verið þreyta í mönnum efir evrópuleik,ég blæs á það.Ef jafn þjálfaðir menn þola það ekki eiga þeir að leita sér að annari vinnu.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég var í einhverju bjartsýniskasti búinn að spá jafntefli en eftir að hafa séð leikinn gegn Krasnodar hef ég endurskoðað þá spá.
  Við eigum ekki séns!!
  Ég kalla það gott ef við sleppum með minna en þriggja marka tap.

 4. Finnur skrifar:

  Teddi missir af blóðugum bardaga Fellaini og McCarthy þar sem hvorugur er í byrjunarliðinu — og McCarthy ekki einu sinni í hóp.
  http://everton.is/?p=8100

%d bloggers like this: