Krasnodar – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Krasnodar á útivelli í öðrum leik Europa League í H riðli og lauk leiknum með jafntefli. Ólíklegt að nokkur stuðningsaðili Everton komi til með að kaupa þennan leik á DVD en aðalmálið var að ná jafntefli eða betra og það hafðist.

Uppstillingin fyrir Krasnodar: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Hibbert, Gibson, Barry, Atsu, McGeady, Osman, Eto’o. Sem sagt: Fimm breytingar frá derby leiknum.

Krasnodar spiluðu 4-3-3 og reyndu að pakka vel á miðjuna þegar þeir voru ekki með boltann, pressuðu vel, beittu skyndisóknum grimmt og reyna að brjóta niður flæðið í leiknum þegar Everton hafði boltann — og tókst það bara nokkuð vel. Varnarmenn Everton áttu erfitt með að finna lausa miðju/sóknarmenn og virtust, ásamt miðjumönnunum, alltaf reyna að gera einfaldan hlut flókinn.

Það fór um mann oft í fyrri hálfleik því Krasnodar átti fín færi þó að Everton hefði, eftir á að hyggja, átt betri færin í fyrri hálfleik — ef mark Krasnodar er undanskilið.

Krasnodar byrjuðu að krafti, skutu viðvörunarskoti yfir markið strax á 2. mínútu og fengu svo flott færi á 4. mínútu þegar þeir brunuðu upp völlinn eftir að Osman missti boltann á slæmum stað. Sendingin fyrir markið fór hins vegar aftur fyrir sóknarmanninn og færið því forgörðum.

Stones virtist meiðast á 7. mínútu en harkaði það af sér og átti flottan leik.

Krasnodar sóttu meira í fyrri hálfleik og áttu hættulega fyrirgjöf á 10. mínútu sem ekkert kom úr en þeir náðu flottu skoti á 16. mínútu sem Howard varði glæsilega.

Þetta voru mjög erfiðar fyrstu 20 mínútur leiksins þar sem maður sá fram á stórtap ef ekkert myndi breytast. En Everton komst betur inn í leikinn eftir það og McGeady, sem var einna líflegasti leikmaður Everton í leiknum, átti frábært skot utan teigs á 22. mínútu sem hefði legið í horninu niðri við nærstöng ef markvörður Krasnodar hefði ekki varið stórglæsilega í horn. Barry átti einnig flott skot aðeins tveimur mínútur síðar sem einnig var varið glæsilega og Stones fékk frían skalla inni í teig en skallaði rétt framhjá samskeytunum, örfáum mínútum síðar — og markvörðinn stóð hreyfingarlaus á línunni.

Atsu fékk næsta dauðafæri, komst einn á móti markverði en í stað þess að skjóta sendi hann lélega sendingu út í teig á engan. Fjögur færi í röð sem Everton fór illa með og þó það hefði verið nokkuð gegn gangi leiksins þegar þar var komið sögu hefðu Krasnodar líklega ekki getað kvartað yfir því að fá á sig mark/mörk úr þeim færum.

Þeir svöruðu þó með marki á 42. mínútu þegar miðjumaður sendi inn í teig og Jagielka náði að koma boltanum frá öðrum sóknarmanni en skapaði færi inni í teig fyrir næsta sóknarmann sem var einn á móti markverði. Alltof auðvelt — 1-0 Krasnodar og þannig var staðan í hálfleik. Everton með betri færin fram að því en Krasnodar með mun betri spilamennsku — saknaði maður McCarthy ansi mikið í leiknum. Atsu út í hálfleik, Lukaku inn.

Lukaku kom með pínulítið ferskan blæ inn í leikinn en minna var um almennileg færi í seinni hálfleik. Vörnin hjá Everton virkaði ekki alltaf traustvekjandi og stundum skapaðist glundroði en hún hélt þó. Wanderson, sem hafði komið inn í seinni hálfleik fékk þeirra besta færi þegar hann náði að böðla sér inn í teig og skjóta að marki en boltinn í ofanverða slána.

Lukaku náði skoti á marki úr þröngu færi hinum megin en uppskar bara horn þar sem markvörðurinn var vel á verði.

Everton jók pressuna töluvert undir lok leiks og maður hafði á tilfinningunni að Krasnodar væru að þreytast eftir hafa haldið uppi stífri pressu allan leik með miklum hlaupum. Og á 80. mínútu kom sending frá Baines inn í teig, beint á Eto’o sem var óvaldaður og lagði hann í netið. Fyrsta markið sem Krasnodar fær á sig á heimavelli í Evrópuleik, frá upphafi.

Og eftir þetta var Everton líklegri til að skora en Lukaku átti skalla rétt fyrir lok leiks sem markvörður varði með því að slá hann til hliðar.

Leikurinn fór því 1-1 en enginn meistarabragur var á leik Everton í kvöld. Þeir gerðu þó nóg til að fá stig og hefðu jafnvel getað stolið sigrinum í lokin. Önnur vikan í röð þar sem spilamennskan er ekki upp á marga fiska á erfiðum útivelli, en sætu stigi landað í lokin.

Wolfsburg og Lille gerðu með sér jafntefli í sínum leik þannig að Everton er enn efst í riðlinum eftir tvo leiki.

Staðan eftir tvær umferðir í Europa League

12 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Utter shite!!! Eins og Bretarnir segja.

  2. Ari S skrifar:

    Frábær úrslit… 🙂

    Góður endasprettur gaf Everton stig i erfiðum útileik þar sem að heimaliðið var mun betra allann leikinn nema síðustu mínuturnar. Þetta voru virkilega góð úrslit og gott að menn lögðu ekkert of mikið á sig… mátti ekki sprengja sig fyrir sunnudaginn.

    Gott mál… 1-1

  3. Teddi skrifar:

    Vesen á þér Ari, skorar ekkert á móti þínu liði. 🙂

    Sáttur við úrslitin og það að enginn meiddist.

  4. Georg skrifar:

    Það var mjög flott að ná stigi þar sem við vorum ekki að finna okkur í þessum leik, auk þess að spila á útivelli eftir langt ferðalag.

    Það var ekki fyrr en seint í leiknum að við fórum að reyna að sækja til að skora. Það kom mér verulega á óvart vitandi að það er erfiður útileikur gegn Man Utd á sunnudag að Martínez hafi einungis notað eina skiptingu. Ég hefði gjarnan vilja sjá t.d. Oviedo og Naismith koma inn á eða jafnvel Besic. Við vorum að ströggla lengi vel og því kom mér á óvart að hann hafi ekki gert neina breytingu fyrir utan skiptinguna í hálfleik þegar hann setti Lukaku inn á fyrir Atsu sem fann sig engan veginn.

    Fannst við sakna svolítið skapandi leikmanna í leiknum. Það vantar svolítið mikið í sóknarleikinn þegar Coleman, Mirallas, Pienaar og Barkley eru allir frá.

  5. Gestur skrifar:

    þarna fékkst gott stig inn, sá ekki leikinn.

  6. halli skrifar:

    Það er einsog Martinez líti á þessa keppni til að vinna bikar og það er vel. Gott stig á erfiðum útivelli. Erum efstir í riðlinum og fögnum því. Sigur í þessari keppni gefur sæti í CL

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gott að fá stig úr því sem komið var en mikið hrikalega er spilamennska okkar manna léleg.
    Menn virka þreyttir, áhugalausir, latir og hugmyndasnauðir og vörnin er ein taugahrúga, þar fyrir utan gerast allar okkar aðgerðir á hraða snigilsins.
    Það er leiðinlegt að segja það, en stundum er hundleiðinlegt að horfa á Everton.
    En ég, eins og aðrir stuðningsmenn held í vonina um að þetta batni en sú von er farin að veikjast.

  8. Diddi skrifar:

    Sammála þér Ingvar hvað hraðann varðar í sóknaraðgerðum en mér finnst nú vörnin vera að braggast, þó að þetta mark sem við fengum á okkur í dag hafi verið svolítið klaufalegt, en usssssssss, það má ekki minnast á þetta 🙂

  9. Einar G skrifar:

    Það má víst ekki vanþakka stig á erfiðum útivelli eftir langt ferðalag. EN vá hvað þetta var hrútleiðinlegur leikur. Okkar menn gátu ekki mikið. Held svei mér þá að Hibbert hafi verið bestur á vellinum.

  10. Finnur skrifar:

    Jú, mikið rétt. Skemmtilegur var leikurinn alls ekki og vörnin klaufaleg í markinu — og reyndar á öðrum köflum líka. Sóknin ber þess greinileg merki að máttarstólpa vantar ennþá, sbr. Coleman, Barkley, Pienaar — og Lukaku í fyrri hálfleik. En, stigið er það sem skiptir máli og það hafðist á erfiðum útivelli án þess að þurfa að stilla upp okkar sterkasta liði.

    Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2014/10/03/tactical-deconstruction-fc-krasnodar-1-1-everton/
    Þeir benda á að 7 stig í Europa League riðlinum var í öllum tilfellum nóg í fyrra til að komast upp úr riðlunum, þannig að það vantar bara einn sigurleik af þeim fjórum leikjum sem eftir eru til að ná því.

  11. Gestur skrifar:

    ekki má gleyma Mirallas sem máttarstolpa í sóknarleiknum

  12. Finnur skrifar:

    Ha? Mirallas? Hver er það?

    Segi svona. Jú, mikið rétt hjá þér! Gleymdi honum í upptalningunni, hann átti að sjálfsögðu að vera þar líka.