Aðalfundur og hugleiðingar um vörnina

Mynd: Everton FC.

Aðalfundur Everton á Íslandi var haldinn á Ölveri síðasta laugardag, rétt fyrir Liverpool leikinn og þótti heppnast vel. Þau ykkar sem skráð eru á póstlista Everton stuðningsmanna og kvenna hafa þegar fengið aðgang að fundargerðinni en þið hin getið haft samband til að fá aðgang. Margt kom fram á fundinum, meðal annars var nýr varaformaður kjörinn (Halldór Sigurðsson — sem við bjóðum kærlega velkominn í stjórn!), skýrsla stjórnar fyrir síðastliðin tvö ár lagðist vel í fundargesti og lagabreytingar sem auglýstar voru fyrir fund voru samþykktar einróma. Einna mesta lukku vakti þó vídeóið sem sýnt var fyrir aðalfund:


En þá að öðru sem hefur blundað í mér að skoða. Mikið hefur verið rætt um varnarlínuna okkar á tímabilinu enda liðið búið að fá á sig flest mörk allra liða í deildinni á tímabilinu. Ég fór að gamni aðeins í saumana á fyrstu átta leikjum tímabilsins og kíkti sérstaklega á hvernig miðvarðarpörin okkar hefðu staðið sig.

Martinez er nefnilega búinn að prófa fjóra miðverði saman í þremur mismunandi útgáfum. Distin og Jagielka voru, eins og við þekkjum vel, fyrsti valkostur á öllu tímabilinu í fyrra sem og í upphafi núverandi tímabils. Jagielka og Stones hafa einnig fengið að spila sæmilega mikið af mínútum á þessu tímabili og Distin og Alcaraz fengu heilan leik í deildarbikarnum á dögunum.

Tölfræðin er nokkuð áhugaverð:

Miðvarðarpar Mörk og spilatími Mark per
Distin + Alcaraz 3 mörk per 94 mínútur
31 mín
Distin + Jagielka 13 mörk per 384 mínútur
30 mín
Jagielka + Stones   2 mörk per 279 mínútur
149 mín

 

Eins og taflan sýnir þá líður ekki nema rétt um hálftími (!) að meðaltali á milli marka sem Everton fær á sig þegar Distin er í miðvarðarstöðunni, sama hvort hann er með Jagielka sér við hlið eða Alcaraz.

Allt annað er uppi á teningnum hjá Jagielka og Stones, hins vegar, því með þá í þeirri stöðu þarf að bíða í einn og hálfan fótboltaleik eftir að sjá Everton fá á sig mark. Og það sem meira er, þessi tvö mörk sem þeir hafa fengið á sig hingað til komu beint úr aukaspyrnu — sem alls ekki er hægt að kenna þeim um (Gibson gaf aukaspyrnuna á móti Wolfsburg, Baines aukaspyrnuna gegn Liverpool).

Hér er þó ekki meiningin að hrauna yfir Distin enda er hann enn með sprettharðari miðvörðum í deildinni, þrátt fyrir háan aldur. Það eiga þó allir sína slæmu kafla sem líða yfirleitt hjá en rétt þó að leyfa Stones að sýna hvað hann getur við hlið Jagielka í miðverðinum, enda hefur hann fyllilega unnið sér það inn — og er okkar framtíðar miðvörður. Það er þó kannski nokkuð til í því sem Martinez hefur sagt um Jagielka, nú síðast eftir mark hans gegn Liverpool, að hann hafi sætt nokkuð ósanngjarnri gagnrýni eftir HM í sumar.

Gaman væri einnig að sjá Tyias Browning meira í hægri bakverði en þar virðist enn einn efnilegi varnarmaðurinn vera á leið upp úr U21 árs liðinu.

5 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Jagielka á að vera í liðinu, það er að mínu mati „möst“.

  Mér fannst (fyrir síðasta leik) hálf skrýtið að stilla upp liði (í huganum) og hafa Jagielka ekki með en hann hafði fram að síðasta leik ekki veirð að sýna góða leiki og virkað vægast sagt óöruggur og mistækur.

  En eftir síðasta leik og þá aðallega hvernig Jagielka endaði þann leik fyrir Everton þá er ekki spurning… hann er fysta val í miðvörðinn.

  Stones er eiginlega búinn að spila sig inn í Everton liðið og það er eiginlega of dýrmætt að halda honum utan við það.

  Distin hefur verið frábær fyrir okkur og mun örugglega sætta sig við að vera þriðji kostur í miðvörðinn… sem er kostur 🙂

 2. Ari S skrifar:

  … og Alcaraz fjórði kostur þó að aukið sjálfstaust myndi gera hann mun betri leikmann að mínu mati.

 3. Diddi skrifar:

  í fyrra voru Distin og Stones lengi saman og náðu frábærum árangri þar sem talað var um að Distin hefði stjórnað honum og sagt honum til……þannig að það er greinilega flott sett 🙂

 4. Gestur skrifar:

  glæsilegur fundur og áhugaverð tölfræði

 5. Halldór Sig skrifar:

  Það er engin spurning að Stones er á hraðri uppleið og ég spái því að innan fárra ára verður hann orðin miðvörður nr.1 í enska landsliðinu. Hann er nú þegar farinn að sína mikil gæði og sjálfstraust þrátt fyrir ungan aldur.

%d bloggers like this: