Liverpool – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Fyrri hálfleikur var fjörugur þó ekkert mark væri skorað. Liverpool voru meira í sókn og beittari í tilburðum en vörn beggja liða hélt. Everton fékk nokkrar skyndisóknir og eitthvað af færum en sérstaklega virkaði vel að senda upp kantinn á Lukaku sem oft hristi af sér Liverpool leikmann auðveldlega og skapaði usla. En oft þegar boltinn nálgaðist teig brotnaði þetta niður hjá okkar mönnum og mikið um feilsendingar, reyndar hjá báðum liðum.

Uppstillingin: Howard, Baines, Jagielka, Stones, Hibbert, McCarthy, Barry, Besic, Mirallas, Lukaku, Naimisth. Hibbert fékk pláss í byrjunarliðinu, öllum að óvörum þar sem Coleman var ekki orðinn heill fyrir leikinn. Og það var hálf undarlegt að sjá Besic í sama liði og Barry og McCarthy en hann virtist komast ágætlega frá sínu.

Upphafsmínúturnar voru okkar mönnum erfiðar því Liverpool byrjuðu leikinn af krafti og settu sterka pressu á Everton sem náðu þó að verjast og svo settla þegar leið á.

Everton gerði reyndar tilkall til vítis strax á fjórðu mínútu en ekkert dæmt. Manni fannst þetta nú ekki mikið brot við fyrstu sýn þangað til maður sá endursýninguna en þar sást að varnarmaður Liverpool reif í hann. Liverpool gerði tilkall til vítis strax hinum megin vallar þegar Barry handlék knöttinn en dómarinn dæmdi ekkert. Tvö dómaramistök strax á upphafsmínútunum. Martin Atkinson að dæma (sá sem rak Rodwell út af fyrir leikaraskap Suarez um árið). Barry var reyndar stálheppinn að fá að vera áfram inn á því hann fékk fljótt gult í leiknum og hefði hæglega getað látið reka sig út af fyrir brot.

Ógæfan dundi svo yfir okkar menn á um 20. mínútu þegar Mirallas, sem var rétt að komast í takt við leikinn, virtist togna í miðjum spretti þegar hann var að keyra á vörn Liverpool og bruna inn í teig. McGeady inn á fyrir hann. Ég sagði fyrir leik að ég vonaðist eftir leik án meiðsla og dómaraskandala en hvorugt gekk eftir.

Balotelli og Lukaku skiptust svo á því allan hálfleikinn að skjóta slökum skotum af löngu færi beint á markvörðinn. Lítið að koma út úr því.

Baines fékk líklega besta færi hálfleiksins þegar hann stal boltanum af varnarmönnum Liverpool og stökk inn í teig og komst einn upp að marki. Hefði líklega átt að skjóta upp í þaknetið þar sem Mignolet settist að sjálfsögðu um leið og Baines afgreiddi boltann, en því miður reyndi Baines fyrirgjöf á Lukaku, sem hefði verið í dauðafæri fyrir opnu marki en varnarmaður Liverpool náði að komast á milli, hreinsa og frábært færi fór þar með forgörðum.

Liverpool fengu þó fleiri færi en Everton (og mikið fleiri hornspyrnur) en Howard stóð pliktina með prýði í markinu, varði einu sinni frábærlega skalla frá Lallana og einu sinni frá Sterling sem var kominn í gegn, svo dæmi séu tekin.

0-0 í hálfleik, sem er eitthvað sem enginn átti von á af þessum tveimur liðum sem hafa verið þekkt fyrir slaka vörn á tímabilinu.

Færin voru betri í fyrri hálfleik en þeim seinni og aðeins rólegra yfir. Liðin áttu mikið af lélegum sendingum sem eyðilagði mörg færi og varnarmenn duglegir að lesa stungusendingar inn í teig og brjóta niður sóknir.

Balotelli átti hálf aumkunarverða tilraun til að fiska víti í byrjun seinni hálfleiks; Greinilega búið að matreiða ofan í hann gömul vídeó af Suarez. Hélt um andlitið eins og hann hefði verið sleginn en endursýning sýndi að þetta var ekkert annað en leikaraskapur.

Stuttu síðar fékk Lallana svo algjört dauðafæri þegar sending kom á fjærstöng fyrir mark en Balotelli eyðileggur færið með því að þvælst fyrir svo að skallinn fór forgörðum. Gætum ekki beðið um betri varnarmann, sagði einn Everton maðurinn í salnum.

Naismith átti skot af löngu, en beint á Mignolet en það var svo á 63. mínútu að fór að draga til tíðinda. Barry tæklaður í lappirnar aftan frá sem er ekkert annað en klárt gult spjald en dómarinn sá ekki einu sinni ástæðu til að dæma. Þremur sekúndum síðar brýtur Baines á einhverjum Liverpool manninum og þá náttúrulega dæmir Martin Rowan Atkinson brot. Aukaspyrnuna tekur Gerrard, glæsileg aukaspyrna sem Howard getur bara breytt stefnu en ekki stöðvað alveg. 1-0 fyrir Liverpool og þó Liverpool hefðu verið betri aðilinn í leiknum fram að því var heldur súrt að lenda undir eftir enn ein dómaramistökin í leiknum.

Lukaku var þó næstum búinn að jafna strax en hann fékk háan bolta inni í teig en náði ekki stýra boltanum í netið. Liverpool svaraði strax með skoti frá Balotelli sem Howard varði í slá. Brjálað að gera báðum megin. En svo datt þetta svolítið niður, Liverpool héldu boltanum vel og Everton áttu í erfiðleikum með að byggja upp góðar sóknir, voru sjálfum sér verstir með slökum sendingum manna á milli. Lukaku þar fremstur í flokki líklega.

Browning skipt inn á fyrir Hibbert og Eto’o fyrir Besic og báðir komust vel frá sínu. Eto’o kom með smá nýja vídd í sóknarleikinn en Lukaku hafði verið mistækur og oft klúðrað sendingum. Þess má geta að Browning varð aðeins annar scouser-inn frá upphafi til að spila sinn fyrsta leik með aðalliðinu í Merseyside derby leiknum, hinn var Ted Taylor, markvörður Everton, fyrir um 87 árum síðan.

Maður var pínulítið farinn að örvænta þegar aðstoðardómarinn tilkynnti að þremur mínútum yrði bætt við. En svo kom markið rétt undir lok leiks. Everton í bullandi sókn, varnarmaður Liverpool hreinsar fyrirgjöf með því að skalla út úr teig. Og hver kemur á hlaupinu langt fyrir utan teig annar en fyrirliðinn okkar, Phil Jagielka? Sá svoleiðis smellhitti boltann sem söng í netinu, fór í neðanverða slána rétt við samskeytin. Óverjandi fyrir Mignolet í markinu!

Beint fyrir framan Kop stúkuna. Þarf eitthvað að ræða þetta frekar?

 

Og Everton voru ekki hættir, vildu greinilega taka öll þrjú stigin því Lukaku fór illa með bakvörð Liverpool sem braut á honum upp við endalínu alveg við vítateiginn hægra megin. Baines tók spyrnuna stutt og meðfram jörðinni á Barry inni í teig sem reyndi að stýra boltanum í netið í fyrstu snertingu en hann endaði í hliðarneti.

1-1 því lokastaðan. Aldrei leiðinlegt að skora jöfnunarmark á lokamínútunum, sérstaklega ekki eins stórglæsilegt og þetta.  Anfield hefur verið erfiður útivöllur fyrir okkar menn gegnum tíðina og ekkert að því að taka stig úr þessum leik.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Jagielka 7, Stones 6, Hibbert 6, McCarthy 7, Barry 6, Besic 5, Mirallas 6, Lukaku 6, Naismith 6. Varamenn: Eto’o 7, McGeady 6, Browning 6. Leikmenn Liverpool fengu 6 á línuna eins og hún lagði sig, nema Lallana og Balotelli (huh?) sem fengu 7.

Howard átti flottan leik í markinu, myndi ég segja, Jagielka var magnaður en hann og Stones náðu vel saman í vörninni og áttu oft flottar tæklingar — og sama má reyndar segja um McCarthy. Mér fannst Besic fínn, átti ekki skilið fimmu en Barry eins og tifandi tímasprengja. Lukaku átti góða spretti innan um arfaslakar sendingar.

21 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Ekki unnið á Anfield í 15 ár, púff þetta gæti orðið strembið.
    Reyndar stillti Moyse alltaf liðinu upp þannig gegn 4 efstu að maður var alltaf vonlaus/vonlítill fyrir leik. Hann stillti alltaf upp gríðarlega varnarsinnuðu liði og úr takti við uppstillingar í öðrum leikjum. Af þeim sökum vann hann ekki að mig minnir yfir 80 leiki í röð gegn þessum 4 liðum í deildinni (að mig minnir Liverpool, United, Arsenal og Chelsea). Það er glæpsamlegt.

    Hef reyndar ofurtrú á leikskilningi Martinez og hann virðist ætla sér að vinna alla leiki eða gefur amk liðinu möguleika til þess. Bæði lið átt í basli í upphafi leitíðar svo það getur allt gerst.

    Það er erfitt prógramm hjá Everton að mæta Liverpool og United í deildinni í næstu leikjum og fyrir svartsýna þá er útlitið hrikalega svart næstu vikurnar. En sigur í dag gæti breytt svakalega miklu að því ógleymdu að Everton kæmist ofan við Liverpool í deildinni með sigri.

    Nú er fundur að byrja hjá ykkur og við Norðanmenn biðjum bara að heilsa og góða skemmtun í dag.

  2. Diddi skrifar:

    vonandi skorar Hibbert í dag 🙂

  3. Ari G skrifar:

    Hissa að sjá Hibbert í byrjunarliðinu annars er ég sáttur að haf Jagielka og Stones saman í hjarta varnarinnar. Geri ráð fyrir að Naismith verði færður á vinsri væng þótt mér finnst hann mun betri fyrir aftan Lukaku. Besic verður þá sennilega fyrir aftan Lukaku betri þar er of mistakur í vörninni og brýtur oft kaufalega af sér en ég hef samt trú á honum. Vonandi getur Coleman spilað sem fyrst Hibbert er langt frá því að vera nógu góður til að byrja í leik á bara að vera aukamaður á bekknum til að að leysa af ef einhver meiðist.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Barry úti á þekju í fyrri hálfleik. Það væri bilun að setja ekki Gibson inná í hálfleik ef ekki á að fara illa.
    Gott hjá Everton að vera með 0-0 í hálfleik og þó Everton sé meira með boltann þá er Liverpool hættulegri framávið í þessum fyrri hálfleik amk.

    Allt getur gerst i seinni hálfleik en hrikalegt að missa Mirallas útaf en gott þó að hafa McGeady tilbúinn að koma inná.

    Væri sturlað er Hibbert myndi skora, ekki það að ég búist við því en það væri stórbrotið að vinna 0-1 á Anfield með marki frá Hibbert.

  5. Diddi skrifar:

    Vandræðalegt að sjá Hibbert framávið, hreinlega vandræðalegt. En hann er góður varnarlega. Þvílíkt mark hjá Jag og þvílíkur tími til að smella honum, tek eitt stig með þökkum eftir þennan leik 🙂

  6. albert gunnlaugsson skrifar:

    Þessi drengur Adam Lall­ana á auðvita að vera í blárri skyrtu! Hvað eru menn að hugsa þarna 🙂 Hann var bestur af þeim rauðu í dag!

  7. Ari G skrifar:

    Ég fannst spilamennska Everton mjög léleg framávið. Finnst þetta lélegasti leikur Everton á tímabilinu nema vörnin var ok en sóknin var hræðileg eins og hún hefur verið góð undanfarið svona Moyes stíll á þessu í dag. Howard bestur Barry lélegastur. Browning vá sá á eftir að vera góður svona ungur verður örugglega frábær fljótur framtíðarmaður Everton. Hræðilegt að missa Mirallas í meiðsli hefði kannski getað skorað þarna.

  8. Gunnþór skrifar:

    Sammála Ara í öllu,þessi strákur er góður og á eftir að verða betri,Stones flottur varnarlega en sendingarnar hjá honum voru ekki nógu góðar,flott stig úr því sem komið var.

  9. Ari S skrifar:

    Stones var góður í leiknum, komu ekki þessar slæmu sendingar frá honum ekki eftir að hann hafði sótt framávið…? Ég man það ekki jsálfur en minnir það.

    Mér fannst gaman að sjá Hibbert í hægri bak en ég fékk það samt á tilfinninguna að þetta væri kveðjuleikur hjá honum á meðan Browning fékk eldskírn sína og stóð sig vel.

    Diddi það var eiginlega enginn á hægri kantinum í dag… erfitt fyrir Hibbert að vera í þessu hlaupi upp og niður 🙂

    Á endanum voru þetta fín úrslit og markið hjá Jagielka hlýtur að koma sjálftraustinu í lag hjá honum… 🙂

    ps. gaman að því að það John Stones er fæddur daginn eftir að Tyias Browning fæddist…

  10. Orri skrifar:

    Ég er ákaflega stolltur af mínum mönnum eftir leikinn í dag. Eftir því sem að Höddi Magg á stöð 2 sagði í fréttunum áðan var 2 vítaspyrnum sleppt á okkur (ekki í fyrsta skipti). Ég held að við sjáum fram á mjög bjarta tíma hjá okkar liði í vetur ef heldur fram sem horfir. Mönnum hefur verið tíðrætt um framistöðu Howards í haust ég held að menn ættu að endurskoða þær vangaveltur. Everton gladdi mig í það minnsta í dag svo ég er mjög bjartsýn á leikinnn við Mannsarana um næstu helgi, þar sem Ingvar er á fjöllum í dag verð ég að spá úrslitum á undan honum í þeim leik 3-1 fyrir okkur.

  11. Ari S skrifar:

    Martin Rowan Atkinson?

    🙂

    • Finnur skrifar:

      Já, Martin Atkinson var svo grátbroslega lélegur í leiknum að hann minnti mig á Mr. Bean. Mig grunar að hann sé ekki með fulla sjón því hann virðist aðeins dæma á þriðja hvert brot og hallaði kannski aðeins meira á Liverpool ef eitthvað var, þegar litið er til heildarfjölda brota sem hann sleppti.

      Lykilatriðin voru: vítaspyrna á Liverpool (brot á Lukaku) og ein líka á Everton (hendi á Barry). Barry hefði hæglega getað fengið gult þar (og þar með rautt) og aftur seinna þegar hann braut illa á leikmanni Liverpool. Atkinson hunsaði þó bæði atvik og sleppti svo algjörlega augljósu broti + gulu á Liverpool mann (held það hafi verið Balotelli) örfáum sekúndum áður en þeir fengu aukaspyrnuna sína (þegar Balotelli fór aftan í ökklana á Barry og náði þannig af honum boltanum með brotlegum hætti).

      Þetta eru allt lykilatrið sem hefðu, ef Atkinson hefði ráðið við verkefnið, haft afgerandi áhrif á leikinn. Og þá eru ótaldar allar aukaspyrnurnar sem hann sleppti sem höfðu minni áhrif á útkomuna. Það hefði þó verið gaman að sjá hvernig leikurinn hefði þróast ef Lukaku hefði fengið vítaspyrnuna á 4. mínútu.

      Ég held því einfaldlega að Martin Atkinson sé einhver lélegasti dómarinn í ensku Úrvalsdeildinni. Ég á allavega erfitt með að benda á einhvern sem er lélegri.

      Fínn leikur samt; ánægður með skipperinn okkar og Stones — það blundar í mér löngun til að renna yfir tölfræðina hjá Stones og Jagielka við tækifæri; grunar að hún komi til með að sýna að liðið fær á sig langsamlega fæst mörk þegar þeir eru saman í hjarta varnar. Vil jafnframt fá að sjá meira af Browning í hægri bakverði, allavega á meðan Coleman er meiddur. Browning höndlaði þennan leik mun betur en ég átti von á — og sama má segja um Besic, sem ég hafði áhyggjur af (spjaldalega séð).

      • Halldór Sig skrifar:

        Í heildina fannst mér hann ekkert arfaslakur, fyrir utan þessi nokkru atriði fannst mér hann hafa tök á leiknum. Hann var ekki að láta þetta endalausa þras upp í stúkunu hafa áhrif á sig t.d. það eru nefninlega margir dómarar sem þola ekki þessa pressu. Þetta er án efa með erfiðari leikjum til að dæma. Mér fannst að aðstoðardómarnir hefðu geta tekið meira þátt í leiknum fyrir utan að veifa innköst og rangstöður. T.d. þegar brotið var að Lukaku var aðstoðardómarinn í betri aðstöðu til að sjá brotið og átti klárlega að veifa víti.

        • Finnur skrifar:

          Jæja já? Menn bara nýkjörnir í stjórn og strax komnir með derring!? ;D

  12. Halldór Sig skrifar:

    Takk fyrir góðan fund í dag. Gaman að sjá hversu vel er haldið utan um klúbbinn og ég hlakka til að taka þátt í starfinu næstu 2 árin.

    Okkar menn byrjuðu af krafti og létu finna fyrir sér, en eftir að Barry braut af sér og fékk gult slökuðu þeir aðeins á pressuni. Liverpool voru mikið meira ógnandi fram á við en það má þakka Howard fyrir að fyrri hálfleikurinn hélst markalaus. Mér fannst sérstaklega Sterling hættulegur og að mínu mati var hann maður leiksins, drengurinn hefur allt að bera. Ég tók eftir að Besic fékk bara 5 hjá sky en mér fannst hann vera einn af okkar bestu mönnum í fyrri hálfleiknum, en ekki eins áberandi í seinni. Mér líst mjög vel á þennan strák og ég hef trú á að hann verði öflugur og góður leikmaður.
    Mér fannst vanta aðeins meiri hraða í leik okkar manna en þeir voru að halda boltanum ágætlega á köflum þrátt fyrir slakar sendingar inn á milli. En frábær endir á leiknum með þessu ótrúlega marki. Maður vill auðvitað alltaf 3 stig en ég er þakklátur fyrir að þetta stig sem við náðum í dag.

  13. Ari G skrifar:

    Hlakka til næstu leikja með Everton. Vonandi halda þeir áfram með sóknarboltann sem þeir hafa sýnt nema í Liverpoolleiknum. Mun skemmtilegra að horfa á bullandi sóknarleik. Vill hvíla Barry í næstu leikjum prófa að setja Browning í bakvörðinn í næsta leik ef hann er í hópnum í UEFA og Atsu og Gready á vængunum fyrst Mirallas er meiddur. Besic eða Gibson geta leyst Barry af. Stones og Jagielka eru fínir saman hvíla Distin fyrst hann er aðeins meiddur.

  14. Finnur skrifar:

    Greining Executioner’s Bong á leiknum :
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2014/09/28/tactical-deconstruction-liverpool-1-1-everton/

    Skemmtileg lesning að vanda.

  15. Finnur skrifar:

    … og Jagielka var valinn í lið umferðarinnar að mati BBC
    http://www.bbc.com/sport/0/football/29401917
    Með valinu fylgdi frasinn: „Good to have you back, Phil“. Orð að sönnu.

  16. Finnur skrifar:

    Finnst svolítið skondið að lesa bitur komment rauðnefja um jöfnunarmarkið eftir leikinn. Komment á borð við „Þótt að Jagielka mundi [sic] reyna þetta milljón sinnum þá mundi [sic] hann aldrei ná þessu aftur“. Sérstaklega í ljósi þess að þetta er alls ekki í fyrsta skipti á ferlinum sem hann nær þessu!

  17. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja það var gott að fá stig, meira en maður þorði að vona.
    Ég sá ekki leikinn en mér hefur skilist að vörnin hafi batnað en lítið verið að gerast fram á við bara þessar venjulegu sendingar til hliðar og til baka í óratíma án þess að ógna nokkuð. Það er gott og blessað að vilja halda boltanum og spila honum á jörðinni upp völlinn, en við gerum það svo hægt að andstæðingarnir hafa nægan tíma til að stilla upp vörninni sinni og loka öllum glufum.
    En ef að vörnin er að lagast hef ég trú á að það fari að ganga betur, spái sigri gegn Krasnodar og 2-2 gegn manure.

    Og ekki vera að gera lítið úr Rowan Atkinson. Hann er örugglega betri dómari en Martin Atkinson eða Twatkinson eins og hann er stundum kallaður.