Liverpool vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Áður en við vindum okkur í umræðuna um derby leikinn er rétt að minna á aðalfund Everton á Íslandi sem haldinn verður á Ölveri á laugardaginn kl. 10:15 (rétt fyrir leik). Þetta er fundur sem á erindi við okkur öll sem fylgjum Everton að málum og mikilvægt að við mætum sem flest, hvort sem við erum skráð í félagið eður ei.

En þá að derby leiknum! Liðin eru á svipuðu róli í neðri hluta deildar eftir 5 leiki sem er byrjun á tímabili sem helst er hægt að lýsa sem bæði rólegri og mistækri hjá báðum liðum, gegn svipuðum andstæðingum að styrkleika. Liverpool eru með 6 stig eftir þessa 5 leiki en Everton með 5 stig og markatalan svipuð: -2 hjá okkar mönnum en -1 hjá þeim því Everton er búið að skora fjórum mörkum fleiri en Liverpool en fá á sig fimm mörkum meira (þar eru mörkin 6 frá Chelsea ansi stór partur af reikningsdæminu). Áhorfendur beggja liða hafa því, það sem af er tímabils, fengið að horfa upp á sóknarbolta með mjög svo misjöfnum árangri og frekar lekum vörnum, svo vægt sé til orða tekið, með óvenjulega mikið af mistökum einstakra liðsmanna.

Ég fór að gamni að skoða hverjir hafa skorað mörkin fyrir liðin tvö á undanförnum tímabilum í derby leikjunum og þar kom ýmislegt í ljós. Í síðustu 7 innbyrðis leikjum þessara tveggja liða (á síðustu þremur tímabilum sléttum) hafa fimm leikmenn skorað fyrir hvort lið. Liverpool er þegar búið að selja tvo af þeim (Carroll og Suarez — þar sem sá síðarnefndi, að sjálfsögðu, var hvað langiðnastur af öllum við að skora gegn Everton). Sá þriðji hjá þeim er líkast til meiddur (Sturridge) og ólíklegt að hann byrji. Eftir standa Gerrard — sem á þessu tímabili hefur bara skorað úr tveimur vítum — og Coutinho, sem enn á eftir að skora. Erfitt að segja hvort hann taki þátt í leiknum en fylgismenn Liverpool hafa pínulítið hraunað yfir hann að undanförnu. Gerrard er þó með skylduleik þarna þar sem hann á alltaf góðan leik gegn Everton, enda það lið sem hann studdi sem strákur.

Fjórir af fimm markaskorurum Everton gegn Liverpool eru enn hjá félaginu (allir nema Jelavic) og allir eru mjög líklegir til að taka þátt: Mirallas (með 3 mörk það sem af er tímabils), Naismith (3), Lukaku (2) og Osman sem reyndar á enn eftir að skora á tímabilinu. Ekki skemmir fyrir að Lukaku hefur skorað mark í síðustu tveimur deildarleikjum í röð, Mirallas hefur skorað þrjú mörk í síðustu fjórum leikjum Everton og Naismith skoraði þrjú mörk í fyrstu þremur deidarleikjum Everton.

Sterling er markahæstur hjá þeim í augnablikinu og klárlega sá sem líklegastur er til að skora en hann er með þrjú mörk á tímabilinu. Þeir kusu hins vegar að nota hann í 120 mínútur+vító (með mjög svo misjöfnum árangri) gegn Middlesbrough í deildarbikarnum á meðan Everton spilaði með varaliðið. Balotelli hefur aftur á móti ekki skorað mark í Úrvalsdeildinni síðan í nóvember 2012.

Sóknarleikurinn hefur verið í góðum málum hingað til (næstflest mörk skoruð í deildinni) en varnarleikurinn er klárlega áhyggjuefnið hjá okkur fyrir þennan leik og bara spurning hvort leikmenn mæta til leiks með Crystal Palace viðhorfinu (sem endaði með 2-3 tapi) eða Wolfsburg viðhorfinu úr leiknum þar á undan (þar sem vörnin og Howard sáu til þess að Wolfsburg voru heppnir að skora eitt mark — úr aukaspyrnu — í 4-1 sigurleik okkar manna).

Ekki skemmir fyrir að það er nokkuð að rofa til í meiðsladeildinni hjá okkar mönnum en Oviedo og Gibson eru heilir þó þá vanti meiri leikæfingu. Kone er heill en þarf nauðsynlega mínútur og Pienaar og Coleman verða metnir á leikdegi. Sá eini af þeim þó, sem hér eru upp taldir og liggur á að fá í liðið strax er Coleman. Pienaar og Baines ná afskaplega vel saman en við sáum það í nákvæmlega sama leik á síðasta tímabili að það er ekki gott að henda honum inn á strax eftir meiðsli. Barkley er auk þess á góðu róli, viku á undan áætlun í bata að mati Martinez. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Jagielka, Stones/Distin, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas, McGeady, Naismith, Lukaku.

Í síðasta leik á Tannfield hefði maður vilja sjá Everton liggja aftar á velli og leyfa Liverpool að senda sín á milli þangað til búið væri að svæfa áhorfendur og keyra svo á þá með skyndisóknum, líkt og Martinez lagði spilið upp svo frábærlega í 2-0 sigurleik gegn United en núna er þetta eiginlega meira spurning. Það vantar alveg sprengikraftinn í þetta Liverpool lið frá því í fyrra og það virkar mun þunglamalegra þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig Martinez leggur þetta upp. Suarez er náttúrulega farinn frá þeim, Sturridge meiddur og Sterling ekki upp á sitt besta í augnablikinu.

Látum þetta þó nægja í bili af derby leiknum. Í öðrum fréttum er það helst að Everton U21 unnu Southampton U21 á útivelli 1-3 (sjá vídeó).

Sjáumst á aðalfundi félagsins fyrir leik. Það er skyldumæting!

3 Athugasemdir

 1. Ingi skrifar:

  Liverpool fær 3 víti og Gerrard skorar þrennu . væri alveg typical.

 2. Halli skrifar:

  Ég hvet allt stuðningsfólk Everton á Íslandi til að mæta á aðalfund félagsins á morgun kl 10.15 á Ölver í Glæsibæ og fara yfir málefni stuðningsfélagsins og horfa svo á leik Liverpool og Everton í kjölfarið.

  Er ekki bara þægileg tilhugsun að fara á mæta félagi sem fékk 15 mörk á sig í síðasta leik.

  BK Kallinn er alltaf jafn bjatsýnn við vinnum þennan leik 1-3 Lukaku 2 og Barry 1, 3 stig í hús

 3. Diddi skrifar:

  ég treysti Martinez alveg til að koma með sigurleik gegn þeim rauðu á morgun 🙂

%d bloggers like this: