Swansea – Everton 3-0 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Everton mættu Swansea í þriðju umferð deildarbikarsins á útivelli í kvöld og það var ljóst á liðsuppstillingu að Martinez ætlaði sér ekki langt í þeirri keppni. Hann hlýtur að hafa metið það svo að leikjaálagið sé alveg nóg af að spila í deild, FA bikar og Europa League þó að deildarbikarinn bætist ekki ofan á, sem er að vissu leyti skiljanlegt þó sem áhorfandi vilji maður náttúrulega alltaf sjá liðið vinna alla titla sem í boði eru — þó slíkt sé náttúrulega ekki raunhæft.

Martinez gerði hvorki meira né minna en sjö breytingar á liðinu frá síðasta leik en leikinn byrjuðu: Howard, Garbutt, Distin, Alcaraz, Hibbert, Oviedo (á vinstri kanti), Gibson og Besic á miðjunni, Atsu á hægri kanti og McGeady fyrir aftan Eto’o. Bekkurinn: Robles, Kone, Lukaku, Mirallas, McCarthy, Osman, Browning. Margir að fá sinn fyrsta byrjunarleik á tímabilinu og einna athyglisverðast að sjá Oviedo detta beint í byrjunarliðið eftir skelfilegt tvöfalt fótbrot á seinni helmingi síðasta tímabils. Kærkomið að sjá hann heilan sem og að fá Kone í hópinn aftur.

Everton voru þó sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, mun betri að halda boltanum og skapa sér færi. Voðalega lítið að gerast hinum megin vallar hjá Swansea mestan part hálfleiks.

Eto’o komst í ákjósanlegt skotfæri á 10. mínútu við D-ið á vítateignum, kom á hlaupinu en skotið slakt og hitti ekki markið. Atsu brenndi svo af eftir að hafa komist í gegn á 13. mínútu. Báðir að fara illa með færin sín. Swansea náðu pressu á 15. mínútu en náðu ekki skoti á markið.

Besta færi Everton í leiknum kom svo á 18. mínútu þegar Oviedo sótti aukaspyrnu á vinstri kanti sem skapaði dauðafæri fyrir Alcaraz alveg upp við markið en markvörður Swansea varði frábærlega í horn. Þarna hefði staðan átt að vera 0-1 fyrir Everton.

Besic átti næstu tvö skot en hvorugt rataði á markið — kallinn að stilla miðið.

En það kom svo í hlut Dyer hjá Swansea að skora fyrsta mark leiksins á 27. mínútu úr fyrsta og eftir því sem ég best merkti eina almennilega færi þeirra í fyrri hálfleik. Alltof oft hefur maður séð þetta undanfarið, ekkert að gerast hjá andstæðingunum og Everton átt að vera komið einum til tveimur mörkum yfir en í staðinn fá þeim mark í andlitið í það sem reyndist eina skot Swansea sem rataði á markið í öllum hálfleiknum. 1-0 Swansea gegn gangi leiksins. Líklega má skrifa markið á Hibbert (og kannski smá á Besic líka) en þeir tveir misstu manninn framhjá sér og inn í vítateig. Hibbert átti annars helst til slakan leik í hægri bakverðinum — líklega lélegasti leikur hans sem ég hef upplifað nokkuð lengi.

Besic hélt áfram að stilla miðið stuttu síðar en í þetta skiptið fór skotið rétt yfir markið á 30. mínútu.

1-0 fyrir Swansea í hálfleik. Eto’o skipt út af fyrir Lukaku.

Leikurinn var nokkuð jafnari í seinni hálfleik en Everton byrjaði af nokkrum krafti og átti fyrsta hálf-færið. McGeady með skot rétt yfir slána á 51. mínútu. Gylfi svaraði strax á næstu mínútu með flottum skalla sem Howard varði glæsilega.

Eftir um klukkutíma leik var Oviedo skipt út af og McCarthy inn. Greinilega ákveðið fyrirfram að Oviedo fengi bara 60 mínútur enda að vinna sig í form eftir meiðslin.

En varnarmistökin héldu áfram og í þetta skiptið kom það í hlut Distin sem skallaði fyrirgjöf frá Swansea-manni yfir Howard og í neðanverða slána. Distin stálheppinn að skora ekki sjálfsmark en Gylfi var fljótastur að bregðast við og slengja fæti í boltann. Ómögulegt fyrir Howard að verja sem lá í grasinu eftir að hafa reynt að verja skallann frá Distin. 2-0 Swansea eftir 65. mínútna leik.

Á þessum tímapunkti afskrifaði maður þessa keppni og vonaðist bara eftir að ná öllum mönnum heilum fyrir leikinn á laugardaginn, þó líklegt sé að ekki verði ýkja margir úr þessum leik sem kom við sögu þar. Og það virðist hafa gengið eftir.

Lukaku var þó ekki hættur því hann komst í dauðafæri einn á móti markverði á 78. mínútu eftir frábæra tæklingu McCarthy sem setti Lukaku einn á móti markverði sem var fljótur  að hugsa og náði að tímasetja hlaup sitt út úr teig frábærlega og hreinsa í innkast. Mátti engu muna þar, örlítið seinni í hlaupið og hann hefði misst Lukaku framhjá sér/brotið illa á honum.

McGeady út af á 80. og Osman inn á. Shelvey átti svo skot á 85. mínútu sem Howard varði vel í horn en Swansea innsiglaði sigurinn stuttu síðar þegar Routledge kom þeim í 3-0 með skoti af löngu færi. Hann fékk að færa sig nær og nær teignum og enginn kom á móti honum — Gibson „ballwatching“ og gaf honum skotleyfið utan teigs og boltinn söng í netinu. Game over.

Gibson átti reyndar sjálfur skot rétt undir lok leiks en ekki náði Everton að svara og þar með var það ævintýri úti. Swansea menn vel að sigrinum komnir. Hefðbundin dagskrá heldur áfram á laugardaginn með derby leik við litla bróður og rétt að minna á aðalfundinn sem verður þar á undan! Það er skyldumæting fyrir ykkur öll sem fylgið Everton að málum! 🙂

19 Athugasemdir

 1. Ari G skrifar:

  Frábært gott að hvíla bestu leikmennina. Ég hefði líka skipt um markvörð eina sem ég er ekki sáttur með í liðsuppstillingunni. Svo mætti Kone koma inná í hálfleik ef hann er í lagi til að hvíla Eto’o

 2. Ari S skrifar:

  Ég sá síðari hálfleikinn (mestan partinn af honum en ekki alveg allann) , mikið af „nýjum“ mönnum í liðinu en samt ekkert að gerast hjá okkar mönnum í leiknum, allir virkuðu mjög hikandi og hræddir en mjög jákvætt að Oviedo er byrjaður aftur, reyndar alveg frábært 🙂

 3. Gestur skrifar:

  jæja þá er best að vera ekki neikvæður – þetta var alveg frábær úrslit

 4. Gunnþór skrifar:

  JÆJA er ekki gott að fara byrja tímabilið?

 5. Elvar Örn skrifar:

  Svakalega mikið af breytingum fyrir þennan leik og ég er nú bara ekki frá því að Martinez sé hálf feginn að taka ekki þátt í þessari litlu-bikarkeppni meir. Engin afsökun en mér fannst það augljóst af uppstillingu liðsins þar sem fjölmargir menn voru að byrja sinn fyrsta leik og ljóst að fæstir þeirra væru leikfærir í 90 mínútur.
  Hibbert átti sök í fyrsta markinu, Distin í öðru og Gibson í því þriðja.

  Enn og aftur er Everton að spila betur þegar andstæðingarnir skora gegn gangi leiksins en í heild var þetta nokkuð kaflaskiptur leikur. Jákvæðu punktarnir voru Besic og Garbutt, ekki viss að aðrir fái plús frá mér.

  Var svakalega hræddur við vallar aðstæður þar sem Everton virðist eiga í stórvandræðum á hálum velli (í rigningu) og spilar ekki til samræmis við það.

  Tap kom mér ekki á óvart miðað við uppstillingu og um að gera að rífa sig í gang í næsta leik sem er gegn smáliðinu Liverpool.

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var náttúrulega alveg frábært hjá okkar mönnum, stórkostleg spilamennska, frábær varnarleikur og taktík og innáskiptingar óaðfinnanlegar. Þetta er nú heldur betur gott veganesti fyrir derby-leikinn á laugardaginn.

  Ha?? Hvað?? Hvað meinið þið?? Töpuðum við 3-0 fyrir varaliði Swansea????? Ég bara trúi þessu ekki…..NOT!!!
  Hvenær ætlar þessi ofurjákvæði stjóri okkar að átta sig á að það er eitthvað mikið að hjá okkur.
  Og ekki bara átta sig á því heldur gera eitthvað í því.
  Þetta hafði hann að segja eftir leikinn.

  Everton manager Roberto Martinez insisted some of the individual performances from some of his players went some way towards making up for the Blues’ Capital One Cup exit.

  Goals from Nathan Dyer, Gylfi Sigurdsson and Marvin Emnes ended the Toffee’s League Cup campaign but Martinez remained philosophical after the defeat.

  He said: „It was a game that came down to whoever could take their chances.

  „I thought we started really well and stopped Swansea from enjoying that normal, controlling football that they have.

  „We had two very good opportunities to score the first goal and it could have been really different.
  Once you concede, you don’t want to lose the game by small margins. Hvern fjandann á maðurinn við?? Er hann að meina að það sé betra að fá rassskell heldur en að tapa með einu marki?? Þetta finnst mér alveg furðulegt comment hjá honum.

  „We got back into the game, created a couple of chances but the scoreline reflects that Swansea were very clinical and we were not.“

  Martinez fielded almost an entirely different line-up to the one that played Crystal Palace on Sunday, with only Tim Howard, Christian Atsu and Samuel Eto’o keeping their places in South Wales.

  But the Spaniard was pleased with some of the displays from those who were given an opportunity.

  He added: „I was disappointed with the result but not with the night. When you make eight changes to the line-up you are looking at individual performances among everything that’s happening to try and win the football match.

  „Some individuals performed in a fantastic manner and I know that they will help the team going forward.

  „To see players like Bryan Oviedo and Darron Gibson coming back after eight and 11 months out with injury was very pleasing. Then you had Tony Hibbert coming in and playing 90 minutes, the same with Antolin Alcaraz, Luke Garbutt making his first start for the senior side, which is a real example of trying to bring through young players.

  „So the night was very positive in terms of certain aspects.

  The only disappointment was the scoreline at the end.“
  Og það er nú einu sinni það sem þessi leikur snýst um senjor Martinez ef þú skildir ekki hafa fattað það.

  • Finnur skrifar:

   Úbbs… plúsaði óvart kommentið í stað þess að ýta á Svara. 🙂

   > Once you concede, you don’t want to lose the game by small margins.

   Hann er að benda á það að þegar þú ert undir í bikarkeppni þá ætlastu til þess að liðið liggi ekki í vörn og verji þá stöðu að vera bara marki undir. Þú krefst þess að sjálfsögðu að leikmenn gerist áræðnari í sóknartilburðum, til þess að auka líkurnar á að jafna sem að sama skapi þýðir að þeir gefa á sér færi og gætu fengið á sig fleiri mörk. Hélt það lægi í augum uppi að það skiptir voða litlu máli hvort leikurinn endar 1-0 eða 3-0.

 7. Finnur skrifar:

  Veit ekki hvort það var það að ég er nýbúinn að upplifa algjörlega geggjaða stemmingu á Europa League á Goodison Park en ég átti satt best að segja erfitt með að peppa upp í mér einhverja spennu gagnvart deildarbikarnum. Sleppti meira að segja að mæta á Ölver, aldrei þessu vant. Ég er eiginlega mest svekktur yfir að hafa séð varaliðið okkar missa niður þetta „rönn“ á móti Swansea, sem höfðu fyrir leikinn aldrei unnið Everton — í einum einasta keppnisleik frá upphafi tíma.

 8. Ari S skrifar:

  Slakaðu á Ingvar minn, þetta er nú bara mjólkurbikarinn og það voru gerðar 8 breytingar á liðinu frá því í síðasta leik. Nokkrir voru að spila sinn fyrsta leik og Oviedo og Gibson sinn fyrsta leik í marga mánuði. Viltu kannski fá Moyes aftur?

  kær kveðja,

  Ari

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Nei Ari ég slaka ekki á. Þó þetta sé „bara mjólkurbikarinn „þá gefur sigur í honum Evrópusæti og þetta er keppni sem við höfum ALDREI unnið.
   Og nei ég vil ekki Moyes aftur, en ég vil fá einhvern sem kann að þjálfa og skipuleggja vörnina. Ég er ekki að segja að Martinez eigi að fara en mér sýnist hann þurfa hjálp.

   Um næstu helgi verð ég vonandi að elta rollurassa upp í sveit. Ég segi vonandi því mig langar ekki að upplifa þá niðurlægingu sem er í vændum á laugardaginn. Og ég veit að ef ég verð heima þá álpast ég til að horfa í þeirri von að nú gangi betur.

   • Gunni D skrifar:

    Það er nú hámark svartsýninnar að bóka tap fyrirfram!! Get bara ekki orða bundist.

 9. Gestur skrifar:

  Merkilegt hvað menn benda á að þetta er bara mjólkurbikarinn eða þetta er nú bara einn leikur. Ég hef bara mjög miklar áhyggjur af næstu þremur leikjum og ég tala nú ekki um næsta leik, með þessari spilamennsku getur það ekki endað vel. Everton er búið að fá á sig flest mörk í fyrstu 5 leikjunum frá stofnum úrvalsdeildarinnar. Vonandi hættir Everton að bæta það met.

 10. Ari S skrifar:

  Gestur ertu þá ósáttur við þessar breytingar sem að Martinez gerði, ertu ósáttur við að hann sé að rembast við að auka breiddina í okkar félagi? Ertu ósáttur við að Gibson og Oviedo voru notaðir í þessum leik? Getur ekki verið að mjólkurbikarinn haf nýst okkur vel í að láta reyna á þessa leikenn? Vörnin er „vond“, það er bara þannig. Samskiptaleysi eða slæmt form á leikmönnum, spurning en það hlýtur nú að fara að lagast.

  Auðvitað hef ég líka smá áhyggjur af því að við töpum næstu þremur leikjum, kannski töpum við bara næstu tíu leikjum og Martinez verður rekinn. En það er líka hægt að vera jákvæður og leyfa sér að hlakka til, það ætla ég að gera og fyrirfram þá BÝST ég við jákvæðum úrslitum. Ef að við förum vel út úr þessum leikjum þá verða allir happy. Eins mikið og mig langar að fara í réttir þá ætla ég að horfa á næsta leik og hlakka til en kvíði ekki. Ef að við förum illa út úr þessum þremur leikjum og töpum þeim stórt þá mun ég samt halda með Everton.

  kær kveðja,

  Ari

 11. Gestur skrifar:

  Ari , auðvitað er ég ekki ósáttur við þessar breytingar og hvað þá að reyna að auka breiddina og leyfa mönnum að spila. Ég er ósáttur með að tapa og fá svona mörg mörk á okkur.

  Hver er að tala um að hætta að halda með Everton?

 12. Halli skrifar:

  Ég hef átt svolítið erfitt með að tjá mig um þennan leik það eru svo mörg atriði til að taka á.Ég held að Howard hafi haldið sæti sínu í þessum leik af því að Martinez treystir ekki Robles en að spila Howard þessa dagana er eins og að vera með DR. Jekyll and MR Hyde í liðinu. Tony“okkar“Hibbert þetta er búið.Alcaraz ég held að þið vitið flestir mína skoðun afhverju að selja Duffy og halda þessum. Distin búinn að vera í uppáhaldi hjá mér en orðin spurning hvort að það þurfi að rotera honum meira til að fá meiri hvíld handa honum. Garbutt ljósið í myrkrinu í gær ég held að hann taki jafnvel betri horn heldur en Baines. Gibson gerði sig sekan um mikil mistök í 3 markinu en hann er að spila sig inn í þetta og við viljum fá hann í leikæfingu. Besic hann hefur ekki verið að heilla mig í þessum leikjum sem eru búnir en hann er ungur og við höfum tíma til að bíða eftir honum ég er svolítið spenntur fyrir honum. Oviedo mikið var gaman að sjá hann aftur á vellinum í gær en hann var svo hræddur ef menn nálguðust þá hoppar hann upp í stað þess að vera áræðinn og taka hlaupin ég skil hann vel þetta kemur. McGeady fínn reyndi mikið en fékk ekki mikla hjálp og á meðan Eto’o var inná þá var hann alltof djúpur og oft enginn inní teig þegar það átti að fara að senda fyrir og þá verða menn alltaf að bakka. Atsu ég veit ekki hvað skal seigja hér hann hefur alls ekki heillað mig ég spyr mig eigum við ekki bara jafn góðan eða betri ungling til að gefa þessar mínútur til dæmis Matt Kennedy. Eto’o hann er góður í fótbolta og ég held að hann eigi eftir að gefa mikið til liðsins í vetur en mér fannst eins og hann væri ekki með sitt hlutverk á hreinu í gær alltof djúpur sótti boltann mikið niður á miðjuna og svo var enginn inni í teig til að gefa á. Varamenn + skiptingar Lukaku inn fyrir Eto’o sem er bara eðlilegt þegar þú ert undir og ætlar að ná í sigur en hann kannski komst aldrei almennilega í takt við leikinn en djöflast í varnarmönnum allan tímann. McCarthy inn fyrir Oviedo ég er ekki viss um að Martinez hafi viljað þessa skiptingu en í þessari stöðu þá verður þú að skila inná góðum manni Oviedo hefur sennilega bara átt að spila 60 mín en Martinez hefur örugglega viljað hvíla McCarthy allan leikinn og ætlað einhverjum öðrum að leysa hann af mitt mat McCarthy er frábær.
  en svo kemur síðasta skiptingin það eru 10 mín eftir McGeady út og Osman inn hvað átti Osman að gera á þessum 10 mín eða öllu heldur hvað gerði hann á þessum 10 mín ekkert. Ok leikurinn er tapaður og við erum að tala um að spila mönnum í form afhverju spilar þá Kone ekki þessar 10 mín til að koma honum í form. Ég er ekki sáttur með að detta út út bikar sem gefur dollu í skápinn og rétt til þess að spila í Evrópu en það þýðir ekkert að gráta upp með hökuna við erum EVERTON

  • Elvar Örn skrifar:

   Shit Halli

   Ég er að hugsa um að senda þér „ENTER“ takkann í pósti fyrst þinn er týndur, hehe. Ég var bara í pínu basli með að lesa þetta.

   En að öllu gríni slepptu þá skil ég að það séu skiptar skoðanir varðandi þennan leik en menn geta varla verið annað en sammála um að Martinez ætlaði sér ekki lengra í þessari keppni. Hann færi annars aldrei að setja inn alla þessa menn sem ekki höfðu spilað í mánuði eða ár. Góð æfing fyrir þá og þessi keppni búin, ég er ekki ósáttur við það.

   Hinsvegar skil ég vel að menn séu ósáttir með leikina í deildinni og þá sérstaklega vörnina þar sem liðið er bara helvíti góðir framávið amk í mörkum talið. Sigur gegn Crystal Palace hefði komið liðinu í 8 stig sem væri 2 minna en annað sætið, hefði ekki verið ósáttur við þá stöðu. En það kom ekki sigur og því sitjum við neðarlega í deildinni og erfiður leikur framundan og líklega erfiðir leikir. Við verðum komnir uppfyrir miðja deild eftir 10 umferðir og þá skulum við fara að ræða saman. Leikurinn gegn Liverpool getur breytt miklu uppá framhaldið en þeir hafa verið okkur gríðarlega erfiðir seinustu árin.

   Frammistaða Everton í Evrópubikarnum er ljósi punkturinn í þessu og vonandi heldur það áfram.

   Sammála Halla að Oviedo kom vel út í þessum leik og Gibson var ekki slæmur nema það andartak þegar hann bakkaði upp í stúku þegar seinasta markið kom.

   Hefði viljað sjá einhvern annan en Osman koma inná þar sem hann átti slæman leik gegn Palace.

   Hvernig spá menn leiknum gegn Liferpúl?

   • Ari S skrifar:

    Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á leikinn á fyrsta heimavelli okkar Everton manna, Anfield. Við vinnum 3-5 í flottasta leik ensku úrvalsdeildarinnar hingað til þar sem að varnir eru aukaatriði og sóknir aðalatriði, með mörkum frá Lukaku (3) Hibbert og Naismith.

    kær kveðja,

    Ari

 13. Ari S skrifar:

  Gestur ég verð eiginlega að spyrja þig að því sama… hver talaði um að hætta að halda með Everton?

 14. Ari G skrifar:

  Ég er alveg hættur að skilja söma hér. Ég ætla vona eð engum dettur í hug að vilja láta Martinez fara. Everton hefur ekki spilað skemmtilegri fótbolta í marga áratugi og mér er skítsama þótt vörnin hafi ekki verið nógu góð það tilheyrir meiri sókn verri vörn. Ég hef engar áhyggjur af Everton þótt vörnin standi sig ekki nógu vel núna aðalatriðin er að vinna leiki það kemur verið bara rólegir. Vilja menn frekar bakka í vörn og spila upp á 0:0 eða 1:0 mér finnst skemmtanagildið skipta meira máli mín skoðun. Ég spái Everton 4-7 sæti í vor er áfram bjartsýnn.

%d bloggers like this: