Everton – Crystal Palace 2-3

Þessi skýrsla er í boði meistara Georgs sem sá um hana í fjarveru ritara. Þökkum honum (aftur) kærlega fyrir og gefum honum orðið:

Eftir frábær úrslit gegn Wolfsburg mættu Everton Crystal Palace á Goodison Park og endaði leikurinn 2-3 fyrir Crystal Palace.

Uppstillingin: Howard, Baines, Jagielka, Distin, Stones, Barry, McCarthy, Osman, Atsu, Eto’o, Lukaku. Varamenn: Robles, Gibson, McGeady, Mirallas, Naismith, Besic, Alcaraz.

Everton mætti með nokkuð breytt lið til leiks frá síðustu tveimur leikjum. Coleman var meiddur og færði Stones sig í bakvörð og Distin kom inn í miðja vörnina. Mirallas, McGeady og Naismith fóru allir á bekkinn í stað Eto’o, Atsu og Osman.

Fyrsta alvöru sóknin var var á 6. mínútu en þá nær Atsu að spóla sig í gegnum vörn Crystal Palace og fer framhjá Speroni í markinu en skotvinkilinn var svo þröngur að hann skaut framhjá.

Á 9. mínútu sendir McCarthy góða sendingu í gegnum miðjuna á Osman sem sér Lukaku á hlaupinu og sendir boltann í gegnum vörn Crystal Palace, Lukaku gerði allt rétt og smellti boltanum í nær hornið. Staðan 1-0 og aðeins eitt lið á vellinum.

Everton byrjaði leikinn af miklum krafti þar sem Everton var til að mynda 81% með boltann þegar um 20. mínútur voru liðnar af leiknum og í raun benti ekkert til þess að Crystal Palace væri að fara gera nokkuð í leiknum.

Vendipunktur leiksins má segja að hafi verið eftir 29 mínútur, Leon Osman kemst í mjög gott skotfæri eftir að Atsu gerir mjög vel inn í teig Crystal Palace en Osman skaut beint á markið, í endursýningu sást að Everton hefði alveg átt tilkall til vítis þar sem varnarmaður Crystal Palace rekur olnbogann í boltann þegar Atsu var að reyna komast fram hjá honum. Á meðan endursýning stóð yfir geistist Crystal Palace upp í sókn og fékk vítaspyrnu, eftir algjöran klaufagang í vörn Everton en Stones, Jagielka og Howard voru allir í kringum boltann en sóknarmaður Crystal Palace nær að smegja sér á milli og dettur við það og fær vítið. Jedinak steig á punktinn og skoraði örugglega fram hjá Howard. Staðan 1-1.

Markið virtsti stuða Everton liðið svolítið enda hafði Crystal Palace varla komist yfir miðju í leiknum og aðeins eitt lið var á vellinum fram að þessu.

Crystal Palace komst svo nokkuð nálægt því að setja annað mark fyrir hlé en Bolasie nær boltanum af Atsu og skýtur á markið, Stones nær að hoppa fyrir boltann en boltinn skaust í slána og út.

Fyrstu mínútur seinni hálfleiks voru eins og upphafsmínútur, Everton mun meira með boltann. Stones átti mjög flott hlaup upp völlinn og sendi frábæra sendingu í gegnum vörn Crystal Palace í lappir Eto’o sem setti boltann framhjá.

Fyrsta sókn Crystal Palace í seinni hálfleik var á 53. mínútu og endaði með marki. Kelly sendir boltann fyrir markið og Howard virðist misreikna úthlaupið sitt og nær ekki boltanum og Campell skallar boltann í markið, staðan orðin 1-2 fyrir Palace.

Stuttu síðar á Atsu flott hlaup upp völlinn og fór framhjá tveimur varnarmönnum Palace, sendir boltann fyrir og Lukaku skýtur á markið en varnarmaður fer fyrir boltann, Barry tekur frákastið en á slakt skot yfir markið.

Á 64. mínútu komu Naismith og Mirallas inn fyrir Atsu og Stones, og var hugsunin greinilega að setja meira púður í sóknarleikinn.

Það var svo á 69. mínútu sem Osman var að dunda sér með boltann rétt fyrir utan vítateig Everton, Puncheon sér tækifæri og tekur boltann af Osman, sendir boltann til hliðar á Bolasie sem leggur boltann í fjærhornið, staðan því orðin 1-3 yfir Palce!

Eftir þetta lá mikið á Palace mönnum, þar sem Everton gerði allt til að ná að minka muninn. Þessi mikla pressa Everton skilaði sér svo á 83. mínútu þegar McCarthy var felldur inn í vítateig. Baines skoraði af öryggi úr spyrnunni. Staðan 2-3.

Everton gerði allt hvað þeir gátu að jafna leikinn en svo varð ekki. Lokastaðan 2-3. Gríðarlega svekkjandi úrslit eftir 2 flotta sigurleiki.

Það má segja að Everton hafi séð alfarið um þetta tap, þar sem Everton gerðu misstök í öllum mörkum Palace á meðan gekk illa að klára færin. Everton er því búið að fá á sig 13 mörk í fyrstu 5 umferðunum sem er mikið áhyggjuefni. Martínez þarf greinlega að fara endurskoða varnarleik liðsins, ekki bara öftustu 4 heldur hvernig allt liðið er að verjast frá fremsta manni.

Næsti leikur er svo gegn Gylfa og félögum í Swansea á útivelli á þriðjudag í Carling Cup.

13 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  McCarthy með sendingu á Osman sem gaf glæsisendingu á Lukaku sem að skoraði fyrsta markið. 1-0 á 9. mín. Glæsilega gert.

 2. Ari S skrifar:

  Crystal Palace jafnar upp úr þurru… Everton hefur sótt allannn tímann, samskiptaleysi á milli varnar og markmanns þegar leikmaður Crystal Palace slapp í gegn og Howard felldi hann… víti sanngjarn dómur. 1-1 á 31. mín.

 3. Ari S skrifar:

  Leikur endar. Everton 2 Crystal Palace 3.

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Meira ruglið!!

 5. Gestur skrifar:

  þessi vörn er alveg skelfilega léleg, það hefði átt að kaupa varnarmann.

 6. Gunni D skrifar:

  Hvernig er það, er meistari Hibbert ekki á launaskrá hjá okkur? Ég bara spyr. Það er bara allt í ruglinu ef Coleman er ekki með.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Það mátti svo sem búast við þessu. Þarna var tækifæri til að stökkva upp fyrir okkar „ástkæru“ nágranna og vera þannig í aðeins betri stöðu þegar kemur að fyrri derbyleiknum um næstu Helgi. En eins og venjulega, þegar möguleiki er á því, þá runnu okkar menn á rassgatið. Að maður skuli ekki vera búinn að venjast þessu.
  Vítið og annað mark palace vil ég skrifa á Howard og það þriðja skrifa ég á Osman. Osman fannst mér reyndar vera lélegur í dag og ég skil ekki hvernig hann fékk að klára leikinn.
  Þetta var líka versta frammistaða hjá Howard sem ég hef séð.
  Nú er Everton búið að fá á sig 13 mörk í 5 leikjum og ef svona heldur áfram þá getum við alveg gleymt því að hugsa um topp 10 hvað þá topp 4.

  • Gunni D skrifar:

   Akkúrat, þegar okkar helstu keppinautar s.s. man u,spurs og poollarar eru á rassssssgatinu, þá þurfum við að vera það líka. Í stað þess að taka fram úr þeim, þá bíðum við alltaf eftir þeim. ÖMurlegt.

 8. Ari G skrifar:

  Leikur mistaka 3 mistök 3 mörk. Vill samt ekki vera svona svartsýnn eins og flestir hér. Everton á eftir að komast á rétta braut alveg viss um það. Héld að Evrópukeppnin taki því miður sinn toll frá deildinni enda vill ég að Martinez noti frekar varamenn núna í Evrópukeppninni en sitt sterkasta lið í deildinni. Verum bjartsýnir þetta getur ekki versnað í varnarleiknum í dag.

 9. Ari S skrifar:

  Góður nafni, ég er sammála þér. Við skulum anda með nefinu kæru félagar og ekki gefast upp á bjartsýninni.

 10. þorri skrifar:

  Það er gott að heyra að menn standi með sínum mönnum. Það er sárt að tapa heima. Ég hef ekki trú á öðru en Martínes takist að laga vörnina og verði bara betri og koma svo EVERTON MENN OG KONUR.

 11. Halli skrifar:

  Ég get ekki sagt að allt sé svona ömurlegt í leik Everton en þessi mistök sem menn gera kosta leikinn. Tölfræði Crystal Palace í leiknum er náttúrulega frábær 3 skot á mark 3 mörk skoruð 24 prósent með boltann 3 stig unnin. En frammistaða leikmanna eins og Howard, Osman og Stones valda ákveðnum áhyggjum hann Atsu átti spretti en kom lítið út úr því sem hann var að gera. Besti maður vallarins nr 7 hjá Crystal Palace. En í enda dagsins var þetta bara einn fótboltaleikur og það kemur dagur eftir þennan dag.

 12. Gestur skrifar:

  já þetta var bara einn leikur en Everton er búið að leika 6 leiki,
  skora 15 mörk og fá á sig 14 mörk. Það segir sig sjálft að það þarf annað hvort að skora meira eða reyna að verjast betur til að árangurinn verði betri. Það er margt gott að gerast á vellinum en meðan við skorum ekki meira en andstæðingurinn þá er brekkan brött upp töfluna.

%d bloggers like this: