Leicester – Everton 2-2

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin í fyrsta leik tímabilsins: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Stones, McCarthy, Barry, Pienaar, McGeady, Naismith, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Mirallas, Besic, Atsu, Osman, Coleman, Alcaraz. Barkley hvergi sjáanlegur og fréttirnar um meiðsli hans voru staðfestar af klúbbnum rétt fyrir leik.

Leikurinn fór sæmilega rólega af stað, Everton meira með boltann í öllum leiknum (63% á móti 37% hjá Leicester). Everton meira ógnandi í fyrri hálfleik en Leicester og klárlega að skapa sér fleiri hættuleg færi heldur en þeir. Sérstaklega leit þetta vel út á vinstri kantinum þar sem Baines og Pienaar náðu oft glæsilega saman og opnuðu vörn Leicester upp á gátt.

Og mark var ekkert minna en Everton verðskuldaði en það kom eftir skot frá Baines sem breytti um stefnu og barst til Distin (af öllum mönnu!) sem lét verja frá sér en boltinn barst til McGeady svolítið langt til vinstri í teig með markvörðinn fyrir framan sig og þrjá varnarmenn Leicester á línu en McGeady tók sig aldeilis til og smellhitti boltann upp í samskeytin hægra megin. 1-0 fyrir Everton. Verður líklega valið mark umferðinnar, gæti ég trúað.

En Leicester jöfnuðu strax upp úr horni og var nokkur heppnisstimpill á markinu þar sem Distin hreinsaði boltann beint í Leicester mann og boltinn barst til markaskorarans inni í teig sem setti hann framhjá Howard. 1-1.

Naismith kom boltanum aftur í netið strax í næstu sókn en markið réttilega dæmt af þar sem boltinn var farinn aftur fyrir endalínu þegar sendingin frá Baines kom fyrir markið. Ekkert við því að segja.

Everton var meira að banka á dyrnar en Leicester eftir jöfnunarmarkið og náðu góðri pressu í kjölfarið. Leicester fengu einhver færi eftir markið en loka-afurðin alltaf mjög döpur.

Baines vildi fá víti stuttu síðar þegar varnarmaður för röngu megin við hann þar sem hann var kominn upp að endalínu og Baines féll við; vildi meina að varnarmaðurinn hefði farið í hælinn á sér en dómarinn ekki á sama máli. Erfitt að sjá í endursýningu hvað var rétt í því.

Lukaku átti skalla úr ákjósanlegu færi en allt sem kom úr því var hornspyrna. McGeady átti tvo skot, það seinna yfir en það fyrra fast skot innan teigs á markið en varnarmaður Leicester henti sér fyrir skotið þannig að ekki reyndi á Schmeichel í markinu.

Naismith átti flott skot af löngu færi stuttu síðar en rétt framhjá stönginni. Hann bætti þó aldeilis um betur rétt fyrir lok hálfleiks þegar hann kom Everton 2-1 yfir. Löng sending á Baines upp vinstri kantinn, Baines gaf á Pienaar sem framlengdi á Naismith inni í teig og sá einfaldlega þrumaði boltanum í slána og í netið. 2-1 Everton og þannig var staðan í hálfleik.

Everton átt 11 skot í fyrri hálfleik, skv. tölfræði BBC, þar af 3 á markið. Leicester aðeins 4, tvö á markið. Leit bara nokkuð vel út hjá okkar mönnum í fyrri hálfleik, klárlega betra liðið og virtist nokkur getumunur á liðunum.

En það var eins og tankurinn kláraðist í seinni hálfleik hjá Everton því þetta voru hálf slakar 45 mínútur og mun minni munur á liðunum en í þeim fyrri — Leicester jafnvel betra liðið og meiri ákefð frá þeim og það var eins og þeir næðu að loka á öll almennileg færi. Tölfræði BBC sagði að aðeins eitt skot hefði ratað á mark í öllum seinni hlutanum og það þurfti endilega að vera okkar megin á vellinum.

Lukaku var reyndar hársbreidd frá því að komast inn í sendingu aftur á markvörð Leicester á 50. mínútu en það var lítið að gerast í sóknarleik Everton í seinni hálfleik þó oft hefði náðst góð pressa á Leicester liðið.

Það fór um mann þegar McCarthy virtist meiðast illa í tæklingu á 60. mínútu en harkaði það af sér og kláraði leikinn, sem betur fer.

Leicester hefðu áttu að jafna á 65. mínútu þegar þeir sendu stungusendingu inn fyrir Stones og komust maður á móti markmanni en skotið einfaldlega alltof of hátt — drap dúfu einhvers staðar á bílastæðinu fyrir utan.

Leikmaður Leicester hefði getað fengið rautt á 69. mínútu þegar Lukaku í skyndisókn við miðju náði að pota boltanum framhjá aftasta manni (öðrum miðverðinum) sem tók á það ráð að handleika boltann og breyta stefnunni sem gerði það að verkum að hinn miðvörðurinn komst í boltann á undan Lukaku. Lukaku hefði verið kominn einn gegn markverði ef þetta hefði ekki gerst og ég hélt að það þýddi rautt. Dómarinn virtist þó jafna þetta út þegar Barry braut á manni út við hliðarlínu sem annars hefði komist í dauðafæri (slapp við sitt annað gula).

Mér fannst dómarinn annars eiga slakan leik í dag þó ég verði að viðurkenna að yfirleitt hefði hallað á Leicester.

Martinez sá að menn voru farnir að þreytast, sérstaklega Pineaar og McGeady á köntunum og skipti inn Mirallas og Coleman fyrir þá eftir rúmar 80 mínútur. En svo kom mark frá Leicester á 85. mínútu og það var eiginlega annað álíka heppnismark og þeirra fyrra þar sem boltinn breytti um stefnu af Jagielka inni í vítateig og féll vel fyrir markaskorarann Chris Wood.

Everton setti ágætis pressu á Leicester og Lukaku átti skalla í lokin en leikurinn endaði 2-2. Klárlega tvö stig töpuð í upphafsleik tímabilsins, alveg eins og í fyrra. Þetta er leikur sem við hefðum þurft að klára því næstu tveir leikir eru mjög erfiðir.

Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég hef eiginlega pínulitlar áhyggjur af byrjuninni þar sem liðið virðist ekki í nægilega góðu formi, ef marka má þennan leik. Baines og Pienaar okkar bestu menn en þeir eiginlega bara hurfu í seinni hálfleik.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Distin 6, Jagielka 5, Stones 6, McCarthy 6, Barry 6, Pienaar 6, McGeady 7, Naismith 7, Lukaku 6. Varamenn: Mirallas og Coleman 5 (fengu lítinn tíma). Svipaðar einkunnir hjá Leicester, fimmur og sexur á línuna nema einn með 7 og einn með 8.

Arsenal heima næsta laugardag.

20 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Meiðsli hans staðfest:
  http://www.evertonfc.com/news/archive/2014/08/16/barkley-injury-blow
  … en ekki vitað hversu lengi hann verður frá. :/

 2. Ari S skrifar:

  Ég er enn að jafna mig eftir fréttirnar með Barkley en mér fannst liðið koma vel út í leiknum í gær og þá sérstaklega Pienaar í fyrri hálfleik. Alger heimsklassaleikmaður. Pínu svekkjandi að leikurinn skuli hafa endað með jafntefli en yfirallt fín byrjun, góð mörk hjá Naismith og McGeady. Byrjunin lofar góðu þó að leikurinn hafi endað með jafntefli.

 3. Halli skrifar:

  það er ekki gott að byrja tímabilið á jafntefli við nýliða en við byrjuðum svosem á 2-2 jafntefli í fyrra líka svo að við getum verið alveg róleg yfir þessu. Þvílíkt áfall að missa Barkley í svona meiðsli daginn fyrir mót

 4. Eiríkur skrifar:

  Alveg ömurleg niðurstaða, að fá á sig tvö mörk er hreint ótrúlegt miðað við gang leiksins.Stjórnuðum leiknum í fyrri hálfleik enn gáfum allt of mikið eftir í seinni. Hefði vilja sjá skiptingar mun fyrr. Og sorry Lukaku gat ekki neitt.
  Hvar er hann búinn að vera á undirbúningstímabilinu?
  Mér finnst ótrúlegt hjá klúbb eins og okkar sem sjaldan hefur verið í því að kaupa menn fyrir mikla peninga að eyða öllum þessum pening í Lukaku. Á ekki von á að hann standi undir væntingum eins og hann dalaði seinnihluta síðasta tímabils, enn ég vona að ég hafi rangt fyrir mér í þessu. Söknuðum þess að hafa ekki Coleman frá byrjun, lítil ógnun frá hægri. Enn það verða athyglisverðir næstu tveir laugardagar hjá okkar mönnum. Vona að Martinez sé með þetta allt á hreinu.

 5. Ari S skrifar:

  Eiríkur ertu að missa þig? Þetta eru í fyrsta lagi ekki þínir penignar og í öðru lagi…….hehe…

  En málið með Lukaku er að hann er ekki kominn í leikæfingu eftir HM er eiginelga nýbyrjaður að æfa og það var vitað mál að EF hyann myndi spila fyrsta leikinn þá væri hann ekki í nógu góði leikformi. Ég hef trú á því að aðalástæðan fyrir því að Martinez spilaði honum í gær er sú að við viljum fá hann í leikform sem fyrst.

  Mér finnst þetta skrifað úr munni einhvers sem er ekki stuðningsmaður Lukaku og Everton. Af hverju í ósköpunum mun hann ekki standa undir væntingum að þínu mati… ? Hvað hefru þú fyrir þér í því og eki koma með þetta bull um að Mourinho hljóti að vera gáfaðasti framkvæmdarstjórinn að þínu mati og viti miklu meira en Martinez um boltann… hehe

  Kær kveðja,

  Ari

  ps. eru mennekkert að hugsa um það hver það var sem að tæklaði Barkley…….?

 6. Finnur skrifar:

  Það skiptir voða litlu hver tæklaði Barkley — slysin gerast. Þetta tal um að Besic hljóti að hafa gert það… er ekkert annað en getgátur. Það getur alveg eins verið að Tyias Browning eða Tim Howard hafi gert það — eða að Barkley hafi lent illa eftir skallaeinvígi. Eða að Tony Hubber hafi gefið honum selbit. Við vitum voðalega lítið um þetta mál og það er eiginlega ekki það sem skiptir máli.

  En ég er hjartanlega sammála Ara með það að það er ekki hægt að dæma Lukaku út frá einum leik. Hann hefur nánast ekkert náð að spila á undirbúningstímabilinu þar sem hann hefur verið í lengra fríi en flestir í hópnum því hann var á HM. Martinez þarf að hugsa um meira en bara næsta leik og þeir sem fóru á HM þurfa hvíld. Þar af leiðandi byrja þeir seinna að æfa og verða ekki í jafn góðu leikformi og aðrir þegar tímabilið byrjar.

  Mig grunar að Martinez hafi ætlað að hafa Lukaku á bekknum og spila Naismith (sem skoraði tvö mörk í fjórum undirbúningsleikjum) frammi og nota Lukaku sem super-sub í lokin en þar sem Barkley meiddist rétt fyrir leik stillti hann upp Naismith í stöðu Barkley og Lukaku frammi og Lukaku fékk því heilan leik, sem var líklega aldrei ætlunin.

  Greining Executioner’s Bong á leiknum er annars hér:
  http://theexecutionersbong.wordpress.com/2014/08/17/tactical-deconstruction-leicester-2-2-everton/

 7. Ari G skrifar:

  Ég er alveg sáttur með spilamennskuna hjá Everton að mestu leiti. Gready mun betri en ég átti von á. Einn uppáhaldsmaðurinn minn Jagielka er greinilega ekki í sínu besta formi veit ekki hvað veldur því. Vonandi fáum við að sjá Atsu og Besic í næsta leik þekki þá ekkert.

 8. Gunnþór skrifar:

  þetta var ekki nógu góð frammistaða í seinni hálfleik sem gerði það að verkum að við töpuðum tveimur stigum.Ekki sáttur.

 9. Diddi skrifar:

  sammála Gunnþóri, óþolandi að bíða eftir jöfnunarmarkinu til að fara aftur í gang, áttum ekki marktilraun frá 45. mín til þeirrar 85 en þá allt í einu fórum við aftur að reyna. Tvö dýrmæt stig í súginn fyrir tóman drullusokkshátt 🙁

 10. Ari S skrifar:

  En þið vinir mínir Gunnþór og Diddi, sáuð þið ekki eitthvað jákvætt viðþennan fyrsta leik okkar? Svar óskast í stuttu máli… 😉

  Ég sá helling jákvætt, en við vorum slakir í seinni hálfleik.

 11. Diddi skrifar:

  jú Pienaar var frábær, en vörnin maður minn, þeir höfðu ekkert í stóru strákana að gera og í hvert sinn sem kom hár og langur bolti inná þá, þá fóru þeir algjörlega í panik 🙂 en þetta á bara eftir að lagast 🙂

 12. Finnur skrifar:

  Tengt umtalinu um frammistöðu Lukaku í leiknum…
  http://www.theguardian.com/football/2014/aug/17/leicester-city-everton-premier-league-match-report

  Það var ýmislegt jákvætt í þessum leik: fyrst og fremst það að Baines og Pienaar voru magnaðir upp vinstri kantinn. Einnig að Coleman sé orðinn nógu góður til að fá mínútur — það ætti að skerpa ógnunina í hægri kanti. McGeady átti magnað mark og leit vel út; en skiljanlega þreyttur undir lok spilatímans enda alltaf á sprettinum. Naismith leit sömuleiðis vel út og búinn að opna markareikninginn — ásamt McGeady: Tveir ódýrustu leikmennirnir í liðinu (báðir á free transfer ef ég man rétt)! 🙂

  Martinez þarf að skoða betur varnarleikinn og skerpa þar á (þmt. föstum leikatriðum) en mörkin sem liðið fékk á sig voru hálfgerð pinball mörk — boltinn að fara í leikmenn og breyta mikið um stefnu og gefa varnarmönnum lítinn tíma bil að bregðast við. Útkoman úr því er alltaf svolítið random.

  Það verður samt að benda á í því samhengi að ég man bara eftir einu skipti í öllum leiknum þar sem Leicester náðu að opna vörn Everton illa úr opnu spili (það var færið þar sem sóknarmaður þeirra lúðraði boltanum upp í stúku). Mér sýnist eftir að hafa horft á aðra leiki í umferðinni (t.d. Arsenal og hjá litla bróður) að liðin eru með ýmislegt sem þarf að skerpa á svona í upphafi tímabils. Arsenal menn virkuðu klunnalegir á köflum í sínu spili og þeirra lykilmenn að gera mistök án pressu. Og vörn litla bróður okkar leit ekki beysin út á löngum köflum því Southampton opnuðu hana upp á gátt mörgum sinnum í leiknum. Þeir gátu bara ómögulega klárað færin sín (skölluðu framhjá opnu marki í einu tilviki og áttu eitt skot í neðanverða slá til að mynda).

  (yppi öxlum)

 13. Gunnþór skrifar:

  Fyrri hálfleikur fanta góð splamennska gégn arfaslöku fótboltaliði,seinni hálfleikur var ekki til útflutnings hjá okkar liði,hvað höfum við séð svona seinni halfleiki oft?of oft.

 14. Gunnþór skrifar:

  En Finnur Liverpool og Arsenal fengu 3 stig þrátt fyrir lélegan leik við ekki þar liggur munurinn.

 15. Diddi skrifar:

  „svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“ það skiptir mig engu máli hvernig varnarleikur annarra liða er og það er annar vettvangur til að ræða það á 🙂

 16. Finnur skrifar:

  Ég var einfaldlega að reyna að benda á að öll lið eru á þessum tímapunkti með helling af hlutum sem þarf að laga.

 17. Ari S skrifar:

  Leicester City vamn síđustu deild sem teir voru i med yfirburdum

 18. Gestur skrifar:

  hvar er hægt að horfa á Everton á Akureyri , verð þar um helgina

 19. Gestur skrifar:

  takk fyrir , strákar

 20. Elvar Örn skrifar:

  Gestur, við (Ég og Georg amk) horfum líklega á hann heima hjá mér amk, ert velkominn. Hann er líklega sýndur einnig á pöbbum bæjarins geri ég ráð fyrir. Þitt er valið, verðum í bandi er líklega kominn með e-mailið þitt.

%d bloggers like this: