Everton – Celta Vigo 1-3

Mynd: Everton FC.

Everton mætti tekknísku, fljótu og og skemmtilegu liði Celta Vigo í gær í nokkuð fjörugum vináttuleik þar sem boltinn barst svolítið markanna á milli.

Uppstillingin í þessum síðustu leikjum er farin að líkjast meira því sem við eigum að venjast og gefur ákveðin fyrirheit (þó enn vanti t.d. Mirallas og Lukaku) um það hverjir byrja inn á í fyrsta leik, sem nálgast nú óðfluga. Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Stones, Hibbert, McCarthy og Barry á miðjunni, Osman og McGeady á köntunum, Barkley fyrir aftan Naismith frammi.

Leikurinn byrjaði rólega með lítið af færum en Celta Vigo pressaði framarlega allan leikinn og reyndu að riðla uppbyggingu spils frá vörn og fram á við. Á 5. mínútu náðu Celta Vigo flottri sókn og sköpuðu svolítinn glundroða í vörn Everton en alltaf var einhver mættur til að blokkera skot frá þeim. Everton sneri bara vörn í sókn og skoraði stuttu síðar þegar Barkley fann Baines á hlaupinu á vinstri kanti, og sá sendi lága sendingu fyrir markið utarlega á Naismith sem framlengdi (kannski óvart) á McGeady sem var óvaldaður á fjærstöng og lagði boltann framhjá markverði Celta Viga. 1-0 fyrir Everton.

Það má segja að þetta hafi verið svolítið gegn gangi leiksins en Everton komst meira inn í leikinn við markið og áttu tvö flott færi, annars vegar skalli yfir mark úr aukaspyrnu frá Barkley (sem Hibbo hafði unnið glæsilega á kantinum) og Hibbo var svo aftur að verki, stöðvaði sókn Celta Vigo og í skyndisókn Everton náði McGeady að komast upp kantinn og senda fyrir en Barkley brenndi af í ákjósanlegu færi.

En eins og málshátturinn segir: „Ég hef lært svo mikið af mistökum mínum að ég er að spá í að gera fleiri“ — og það var mottóið hjá ungliðunum okkar, John Stones og Ross Barkley, en Celta Vigo nýttu sér í þrígang mistök frá þeim og skoruðu helst til auðveld mörk.

Það fyrsta kom þegar Everton var að reyna að byggja upp sókn en Barkley missti boltann á hættulegum stað ekki langt utan teigs og Celta Vigo komust þá skyndilega í sókn og þeirra besti maður, Nolito, skoraði. Stuttu síðar lét Stones svo ræna af sér boltanum þar sem hann var aftastur og sóknarmaður Celta Vigo (aftur Nolito) komst einn á móti Howard og vippaði auðveldlega yfir hann og skoraði. Þrennuna skoraði svo Nolito eftir að Barkley hafði aftur misst boltann frá sér og Celta Vigo komust í sókn. Það var þó nokkur heppnisstimpill á því marki því boltinn breytti um stefnu af bakinu á John Stones. Staðan skyndilega orðin 1-3.

Celta Vigo höfðu undirtökin í leiknum eftir það og Howard átti allavega eina flotta markvörslu einhvers staðar í millitíðinni. Hálfgert ráðleysi fylgdi í kjölfarið og leikmenn örugglega fegnir að komast í búningsklefa og ráða ráðum sínum.

1-3 staðan í hálfleik.

Einkunnir fyrir hálfleikinn: Howard 6, Baines 6, Distin 7, Stones 6, Hibbert 8, McCarthy 7, Barry 7, Osman 6, McGeady 7, Barkley 6, Naismith 6. Vel Hibbert mann hálfleiksins — hann lítur út eins og Chuck Norris á vellinum og ætlar greinilega ekki að hleypa Coleman í liðið aftur. Átti nokkrar mjög flottar tæklingar sem brutu upp sóknir Celta Vigo og var liðtækur frammi líka. Gaman að sjá mark frá McGeady líka — það verður fróðlegt að sjá hvað hann kemur til með að gera í Úrvalsdeildinni i haust og vetur en hann lofar góðu.

Celta Vigo gerðu tvær breytingar í hálfleik, Everton fimm og tók nokkurn tíma fyrir Everton að finna rétta tempóið en Celta Vigo byrjuðu af krafti.

Inn á í hálfleik: Robles, Besic, Duffy, Browning, Gibson. Út af: Howard, Baines, Hibbert, Barry, Osman.

Sýndist uppstillingin í seinni vera nær 4-3-3 án bolta en með bakverðina hátt uppi í sóknum (3-5-2). Uppstillingin: Robles, Browning (vinstri bakvörður), Distin, Duffy, Stones (hægri bakvörður), Besic, Gibson og McCarthy á miðjunni, Barkley og McGeady fyrir aftan Naismith frammi.

Byrjunin á seinni hálfleik lofaði ekki góðu því Distin virkaði hálf sofandi og gaf næstum mark tvisvar. Stuttu síðar var komið að Duffy að missa boltann og næstum gefa mark. Ekki mest traustvekjandi varnarleikur sem maður hefur séð, en kannski ágætt að ná þessu úr kerfinu á undirbúningstímabilinu. Maður átti síður von á að leikurinn myndi batna við að skipta út stóru nöfnunum fyrir minni, en það — ásamt áherslubreytingu skilaði betra spili, allavega fram á við og mun minna að gerast hjá liði Celta Vigo í seinni.

Barkley átti jafnframt mun betri leik í seinni hálfleik og tók oft flott og hættuleg hlaup á vörn Celta Vigo. Eitt skiptið fann hann Naismith inni í teig vinstra megin sem lék á einn varnarmann en potaði boltanum rétt framhjá stönginni.

Besti kafli Everton í loknum kom á síðasta þriðjungi leiks og Barkley átti til dæmis skot í slána eftir að hafa hlaupið á vörnina án bolta og fengið stungu. Sú sókn endaði svo með glórulausri tveggja fóta tækling á McCarthy sem hefði verið rautt í ensku deildinni en sá slapp með gult.

Besic átti flott skot rétt yfir upp úr horni og síðar var skot Naismith glæsilega varið í horn en dæmt útspark. Glórulaus tækling á Browning fylgdi stuttu síðar — dómarinn að því er virtist að missa tökin á leiknum.

McGeady fékk svo tækifæri til að bæta við marki þegar hann vippaði yfir markvörð Celta Vigo sem kom hlaupandi á móti honum en rétt framhjá stönginni. Óheppinn að skora ekki.

Rétt fyrir leikslok fengu leikmenn Celta Vigo dauðafæri þegar þeir náðu flottri stungu inn fyrir en skotið rétt framhjá.

Lokastaðan 1-3.

Ágætis æfing gegn flottu og skemmtilegu — en kannski pínulítið grófu liði Celta Vigo. Gott að allir virðast hafa sloppið við meiðsli. Hefði verið gaman að sjá Everton allavega jafna en það eru ekki mörkin sem skipta máli.

Einkunnir í seinni: Robles 6, Browning 7, Distin 6, Duffy 7, Stones 7, Besic 7, Gibson 7, McCarthy 6, Barkley 8, McGeady 7, Naismith 6.

 

2 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Ég hlakka til að sjá þennann leik. Sérstaklega verður gaman að sjá Besic spila og fróðlegt verður að sjá Lukaku og ástandið á honum. Naismith verður frábær eins og hans er von og vísa eftir góðverk vikunnar hjá honum. Spurning hvort að Galloway fái nokkrar mínútur, hann á víst að spila með unglingaliðinu fyrst um sinn en hann hefur reynslu í meistaraflokki…

 2. Elvar Örn skrifar:

  Everton orðaðir við Nolito hjá Celta Vigo fyrir leikinn en hann skoraði síðan þrennu. Spái því að hann verði seinustu kaup Martinez í sumar.

  Fannst Besic, Duffy og Browning koma sterkir inn í hálfleik. Stones var ekki nógu sterkur í þeim fyrri og þó Hibbert hafi heilt yfir gert margt gott þá var hann of oft úr stöðu sem gerði Stones erfitt fyrir í fyrri hálfleik.
  Barkley mjög líflegur á köflum og McGeady einnig.

  Jagielka og Coleman greinilega öflugra par en Stones og Hibbert, fannst einnig of lítið koma útúr köntum og sókn en með Mirallas, Pienaar og Lukaku mun það breytast verulega þegar leiktíðin byrjar.

  Já best að gleyma ekki Gibson, hann virðist nokkuð sharp á miðjunni svo verður áhugavert að sjá hvort að Kone og Oviedo taki þátt í vetur.

%d bloggers like this: