Everton vs Porto (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Everton leikur vináttuleik við Porto klukkan 15:00 að íslenskum tíma en þetta er góðgerðarleikur fyrir Osman og aðeins örlítill þakklætisvottur fyrir að hafa eytt öllum ferlinum með Everton, nokkuð sem gerist æ sjaldnar nú til dags. Osman kom upp í gegnum Everton akademíuna og var partur af liðinu sem vann FA Youth Cup 1998 (líkt og Hibbert). David Moyes, þáverandi stjóri Everton, gaf honum sinn fyrsta byrjunarleik með aðalliðinu gegn Wolves undir lok 2004/05 tímabilsins og Osman launaði honum það með marki eftir þriggja mínútna leik. Osman hefur nú leikið 322 leiki með Everton og skoraði í þeim 41 mark. Og ekki má heldur gleyma framlagi hans bak við tjöldin því hann er einn mesti sprellikarlinn í hópnum og aldrei langt í brosið. Hægt er að sjá 10 flottustu mörk Osman á Everton TV með því að smella hér.

Búist er við að hákarlarnir, sem fóru á HM í Brasilíu, séu komnir aftur úr fríum og taki þátt í þessum leik, menn á borð við Jagielka, Baines og Barkley og einnig mjög líklegt að Besic sjáist í fyrsta leik sínum með Everton. Tim Howard verður ekki með en ætlar að heiðra Osman með því að fylgjast með leiknum af pöllunum, ásamt Lukaku. Coleman missir af leiknum en Luke Garbutt ætti að verða orðinn heill.

Ekki er veitur aðgangur að beinni útsendingu af leiknum gegnum Everton TV og óljóst hvort honum verði yfirhöfuð sjónvarpað, þannig að eini sénsinn til að sjá hann verður líklega að mæta á Goodison Park og kaupa sig inn — og styrkja um leið gott málefni.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 komust í 0-1 yfir gegn Leeds U21 í vináttuleik sem leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli.

4 Athugasemdir

 1. Georg skrifar:

  Það kemur manni svolítið á óvart að Everton skuli ekki hafa rétt á að sýna leikinn á evertontv, kannski er þetta til að fjölmenna á völlinn en þeir eiga samt aðdáendur um allan heim sem gefast ekki kostur að fara á leikinn. Góðgerðarleikur Hibbert sá maður á sínum tíma en hreinlega man ekki hvort það hafi verið evertontv eða eitthvað stream. Hér er linkurinn á wiziwig fyrir leikinn. Þeir tala þar um að 9 stöðvar hafi tilkynnt að varpa leiknum og ætti það að koma í ljós ca. 1 klst. fyrir leik hvort það reynist rétt. http://www.wiziwig.tv/broadcast.php?matchid=271734&part=sports

 2. Finnur skrifar:

  Elvar sagði þetta eftir góðgerðarleik Hibbert:

  „Flottur leikur og gaman að sjá þetta í beinni á netinu, þó ekki í neitt sérstökum gæðum. Við Georg horfðum á þetta í betri stofunni.“
  http://everton.is/?p=1741#comment-149

  Það verður því kannski hægt að ná honum á netinu núna líka.

 3. Elvar Örn skrifar:

  Ég man ekki betur en að hann (Hibbert Testimonial) hafi verið sýndur live á EvertonTV án þess að það hafi verið auglýst. Eitt er þó víst að við horfðum á leikinn í beinni.

%d bloggers like this: