Lukaku – smá tölfræði

Mynd: Everton FC.
Fyrir um ári síðan birtist listi yfir 10 hæstu markaskorarana á táningsaldri frá upphafi í Úrvalsdeildinni ensku. Lukaku var þá nýbúinn að skora sitt 13. mark en hann átti eftir að skora 17 deildarmörk þegar uppi var staðið. Listinn er athyglisverður…
25 mörk – Robbie Fowler | Liverpool | 1994/95
18 mörk – Michael Owen | Liverpool | 1997/98
18 mörk – Michael Owen | Liverpool 1998/99
17 mörk – Romelu Lukaku | West Brom (í láni frá Chelsea) | 2012/13
17 mörk – Nicolas Anelka | Arsenal | 1998/99
12 mörk – Robbie Keane | Coventry City | 1999/2000
12 mörk – Robbie Fowler | Liverpool | 1993/94
11 mörk – Wayne Rooney | Manchester United | 2004/05
10 mörk – Kevin Gallen | QPR | 1994/95
10 mörk – Emile Heskey | Leicester City | 1996/97
10 mörk – Jermain Defoe | West Ham | 2001/02
Þegar listinn var birtur varð Lukaku því (sem lánsmaður hjá West Brom) aðeins einu marki frá því að verða markahæsti táningur í hæstu deild Englands síðan 1999. En eins og við þekkjum vel, þá skoraði hann á sínu næsta tímabili 15 mörk með Everton sem gerir samtals 32 deildarmörk á fyrstu tveimur tímabilum sínum í ensku Úrvalsdeildinni.
Mér lék því forvitni að vita, hversu oft þessir herramenn hér að ofan náðu að komast yfir 30 marka múrinn á tveimur tímabilum í röð og horfi þar bara til deildarmarka (tölfræðin skekkist t.d. ef leikmenn skora mörg mörk í bikarkeppni gegn liði í neðri deild).
Robbie Fowler (Wikipedia) átti fjögur frábær tímabil í byrjun þar sem hann náði auðveldlega yfir 30 mörk (yfir tvö tímabil) en svo aldrei aftur. Og það sem meira er, hann skoraði aldrei jafn mörg deildarmörk eftir þessi fjögur fyrstu tímabil sín og Lukaku skoraði á nýliðnu tímabili með Everton (15). Og komst eiginlega bara tvisvar sinnum nálægt því (fyrst 14 mörk og síðar 12 með Leeds).
 
Michael Owen (Wikipedia) náði nokkuð reglulega yfir þrjátíu mörk (á tveimur tímabilum) á ferli sínum en einhvern vegin vildi það til að hann náði aldrei upp í 20 deildarmörk á einu tímabili (stoppaði alltaf á 19). Þannig að 17 deildarmörk hjá Lukaku var aðeins tveimur mörkum frá besta árangri Michael Owen í deild (19 mörk) fyrr og síðar.
Nicolas Anelka (Wikipedia) er fljótafgreiddur: 32 deildarmörk Lukaku á tveimur tímabilum í röð er einfaldlega betri árangur en Anelka náði nokkurn tímann á öllum ferli sínum (Anelka náði tvisvar upp í 30 en fór aldrei yfir það). Og Anelka náði aðeins einu sinni á ferlinum yfir 17 mörk (náði 19 max).
Robbie Keane (Wikipedia) náði aldrei að skora meira en 16 mörk á einu tímabili (Lukaku er þegar búinn að bæta það) og komst því aldrei nær 30 marka múrnum en upp í 27 (Lukaku með betri árangur þar nú þegar).
Wayne Rooney (Wikipedia) hefur tvisvar sinnum á einu tímabili skorað yfir 20 mörk (26 mörk 2009/10 og 27 tveimur tímabilum síðar) þannig að hann hefur nokkrum sinnum farið vel yfir 30 marka múrinn á tveimur tímabilum. En meðalfjöldi deildarmarka hjá honum á tímabili eru 16 mörk, sem vill svo til að er nákvæmlega sama meðaltal og hjá Lukaku á síðustu tveimur tímabilum.
Ég finn ekki nákvæmar upplýsingar um Kevin Gallen (Wikipedia) en mér sýnist á öllu sem hann hafi verið að rokka upp og niður deildir á sínum ferli.
Emile Heskey (Wikipedia) náði aðeins einu sinni meira en 10 mörkum á einu tímabili (14 mest) þannig að hann var aldrei nálægt því að rjúfa 30 marka múrinn.
Jermaine Defoe (Wikipedia) náði einu sinni 13 mörkum á tímabili og einu sinni 18 en aldrei tveimur mjög góðum tímabilum í röð. 22 er það næsta sem hann komst yfir tvö tímabil.
En hvað segir þessi tölfræði svo um Lukaku og framtíðarhorfurnar? Voðalega lítið, svo sem, en skemmtilegar pælingar engu að síður. Lukaku hefur átt tvö flott tímabil en þarf að ná að sýna jafn góðan eða betri árangur reglulega á næstu tímabilum.

Comments are closed.

%d bloggers like this: