Everton Englandsmeistarar U18

Mynd: Everton FC.

Unglingalið Everton gerði sér lítið fyrir og sigraði Man City U18 í úrslitaleik um enska meistaratitil leikmanna undir 18 ára aldri. City menn fengu besta færi fyrri hálfleiks en í seinni hálfleik skoruðu Everton eina mark leiksins og hefðu reyndar geta bætt við marki úr mjög svo ákjósanlegu færi. Lokatölur urðu því 1-0 en hægt er að sjá útdrátt úr leiknum hér. Mark Everton skoraði Harry Charsley og gamla kempan Kevin Sheedy var að vonum kátur með sína menn í viðtali við Everton TV. Þetta kemur til með að reynast þeim frábært veganesti í baráttunni um sæti í aðalliði Everton.

En þetta voru alls ekki einu góðu fréttirnar af ungliðum Everton því Ryan Ledson og Jonjoe Kenny hjálpuðu enska U17 ára landsliðinu að ná í úrslit Evrópumóts landsliða en enska U17 liðið mætti Portúgal U17 í kvöld og unnu 2-0. Þeir koma til með að mæta annaðhvort Skotlandi U17 eða Hollandi U17 í úrslitunum á miðvikudaginn.

En þá að aðalliðinu. Sigur Arsenal á Hull í úrslitum FA bikarsins eru mjög góðar fréttir fyrir Everton þar sem það þýðir að liðið þarf ekki að fara í umspil heldur fer beint í deildarkeppni Europa League. Fyrsti leikur í þeirri keppni er 18 september og vonumst við hér heima að sjálfsögðu til þess að hægt verði í næstu ferð á vegum klúbbsins að ná bæði Evrópuleik og heimaleik í deild.

Í öðrum fréttum er það helst að harðjaxlinn Tony Hibbert er brátt með lausan samning og hefur því að sjálfsögðu lagt fram kröfur sínar í drögum að nýjum samningi sem klúbburinn þarf nú að vega og meta án tafar. Vonandi framlengja þeir samninginn við þennan leikmann Everton sem er eins og Osman — leikmaður sem fylgir bara einum klúbbi að málum, en slíkt er alltaf að verða sjaldgæfara og sjaldgæfara í boltanum nú til dags, því miður.

Í lokin má svo nefna að gamla kempan Peter Reid (sem hefur unnið bæði deild, FA bikar, góðgerðarskjöldinn og Evrópukeppni með Everton) hafði ekkert nema fögur orð að segja um varnarmann okkar, John Stones, sem fyrir ekki svo löngu lék með Barnsley en hefur nú með frábærri frammistöðu á tímabilinu náð á jaðar aðal-landsliðsins enska sem fer til Brasilíu, og það aðeins 19 ára að aldri. Vel gert!

3 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Til hamingju allir með titilinn

 2. Finnur skrifar:

  Kevin Sheedy benti á staðreynd sem gerir þennan titil jafnvel enn sætari:
  „We had five schoolboys on the field on Saturday, whilst most of the City side were second-year scholars, so that says plenty about the strength in depth that we have at youth level here.“
  http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/everton-fc-title-winning-super-kids-7137390

 3. þorri skrifar:

  flottur hópur hjá Everton og efniviðurinn er til staðar.Þið eruð æðislegir strákar til hamingju allir.kv þorri

%d bloggers like this: