Chelsea vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton á leik gegn Chelsea á Stamford Bridge á laugardaginn kl. 12:45. Þetta verður væntanlega gríðarlega erfiður leikur eins og árangur Everton gegn þeim á útvelli undanfarin ár sýnir en okkur er það að góðu kunnugt að Moyes tókst aldrei að vinna Chelsea úti með Everton. Nú er þó komið að því að Martinez reyni sig þar.

Okkur hefur svo sem gengið ágætlega á móti Chelsea heima: tvö töp, eitt jafntefli og fjórir sigrar, sá síðasti fyrr á þessu tímabili þegar Naismith tryggði Everton 1-0 sigur. Þess má geta að Naismith hefur nú skorað í síðustu tveimur leikjum gegn Chelsea í röð og er jafnframt búinn að skora fjögur mörk í síðustu fimm leikjum Everton. Naismith er, eins og Liverpool Echo tók saman, kominn með besta markahlutfall per mínútu á tímabilinu af öllum leikmönnum Everton (sem hafa leikið fleiri en einn leik). Naismith er með mark hverjar 164 mínútur sem hann spilar, sem er betra en Lukaku (182) og töluvert betra en Mirallas (398). 72% skota rata á markið hjá Naismith (sbr. 62% hjá Lukaku og 49% hjá Mirallas) og 40% færa sem Naimsith hefur fengið verða að marki (Lukaku 20%, Mirallas 11%). Er furða þó einhverjir velti því fyrir sér hvort Lukaku komist í liðið aftur þegar hann verður orðinn heill? 🙂 Það má allavega segja að Naismith hafi verið afskrifaður of snemma.

Þess má auk þess til gamans geta að Traore varð (í FA bikarleiknum gegn Swansea) næstfljótasti leikmaðurinn í sögu Everton til að skora mark fyrir félagið. Sá fljótasti: Tony Cottee með mark eftir 34 sekúndur á móti Newcastle, en það var árið 1988.

Enginn hefur bæst við meiðslalistann svo vitað sé þannig að líkleg uppstilling er svipuð og gegn Swansea, nema hvað Naismith verður líklega frammi (Traore á bekknum) og Howard kemur örugglega inn fyrir Robles. Sem sagt: Howard, Baines, Distin, Jagielka og Coleman í vörn, Barry og McCarthy á miðjunni, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Naismith frammi. Lukaku og Alcaraz eru orðnir góðir af sínum meiðslum en sá fyrrnefndi getur ekki spilað gegn Chelsea þar sem hann er að láni frá þeim og sá síðarnefndi er ekki að fara að slá Jagielka/Distin úr liðinu strax. Meiðsli Naismith gegn Swansea reyndust ekki alvarleg og hann er sagður heill.

En þá að öðru en leikdagur hefur verið settur fyrir bikarleikinn gegn Arsenal: kl. 12:45 þann 8. mars. Arsenal tóku þá undarlegu ákvörðun að skera niður fjölda miða sem Everton fær úthlutað úr 9000 niður í rétt rúmlega 5000. Stuðningsmenn Everton hefðu (ef 9000 miðar væru í boði) getað fyllt bæði efra og neðra svæði sem ætlað er útiliði en ástæðan sem gefin var var sú að þeir óttuðust að Everton stuðningsmenn myndu kasta blysum yfir í stúkuna fyrir neðan — á eigin stuðningsmenn (aha, yeah right). Í staðinn ætla þeir að fylla efri stúkuna af Arsenal mönnum, sem fá þá að kasta lauslegum hlutum niður á Everton stuðningsmennina, eins og gerst hefur í fyrri leikjum. Ákveðinn tvískinnungur í gangi þar…

Af ungliðunum er það að frétta að U18 ára lið Everton sigraði Sheffield United U18 2-0 og komust þar með í 8 liða úrslit FA Youth Cup. Mörkin skoruðu Courtney Duffus and Gethin Jones en hægt er að sjá helstu atvik leiksins hér. Martinez lét hafa eftir sér í viðtali við Daily Mail að ungstirnið George Green úr U18 ára liðinu væri leikmaður að sínu skapi og lofaði hann mjög. Að mínu mati er hann einna mest spennandi leikmaðurinn úr unglingaliðinu og vel þess virði að fylgjast grannt með honum.

6 Athugasemdir

 1. Georg skrifar:

  Þetta verður erfið leikur fyrir okkar menn, það er komin mikil pressa á okkur að fá eitthvað út úr þessum leik og þá helst 3 stig ef við ætlum okkur að halda í við liðin í efri partinum. Á móti hafa Chelsea tapað 4 stigum í síðustu 2 leikjum svo þeir eru líka undir pressu að fá 3 stig. Eins og ég hef reyndar komið inn á áður er að þó að illa fer í þessum leik þá eigum við mjög „þægilegan“ mars mánuð sem gæti breytt stöðunni verulega. Hinsvegar ef ég þekki Martínez rétt þá er hann að fara að mæta á Starford Bridge til að vinna leikinn ekki til að gera jafntefli eða læsa í vörn. Þetta er munurinn undir stjórn hans vs. Moyes. Mæta á þessa útivelli til að reyna að vinna.

  Las áhugaverð grein í tímaritinu Kjarninn sem ég mæli með að þið lesið, þetta er um Man Utd, Moyes, Everton og Martínez og margt til í því sem penninn þar er að skrifa. Þetta byrjar á bls. 74. Hér er linkurinn: http://kjarninn.is/kerfi/wp-content/uploads/2014/02/2014_02_20.pdf

  Naismith hefur komið mörgum á óvart í vetur en hann virðist vera með gott lag á liðinum sem eru neðar í deildinni heldur en þeim sem eru á svipuðum stað og við eða ofar. Því er kominn tími á að hann sýni að hann sé í raun tilbúinn í stóru leikina líka.

  Ég vill sjá liðið með hugarfar sigurvegarans í þessum leik og hirða 3 stig, eitthvað sem Moyes tókst ekki að gera með okkur!

 2. Finnur skrifar:

  Duncan Ferguson er formlega orðinn einn af aðstoðarmönnum Martinez (var áður við stjórn hjá U18 ára liðinu):
  http://www.bbc.com/sport/0/football/26267968
  Ekki amalegt að hafa þennan nagla í búningsklefanum. 🙂

 3. Diddi skrifar:

  ég held að EVERTON vinni þennan leik 1-2 og Gerard með 1 og Mirallas 1 og Lampard auðvitað með markið fyrir þá 🙂

 4. Halli skrifar:

  1-1 Mirallas

 5. þorri skrifar:

  Sælir félagar er dálítið smeikur um leikin.Vonandi vinnum við hann.Því það er Evrópusæti í húfi.Við seigjum því ÁFRAM EVERTON

 6. Finnur skrifar:

  Hafði ekki tíma fyrr en nú til að lesa greinina sem þú sendir, Georg. Takk kærlega fyrir hana — skemmtileg lesning! 🙂

%d bloggers like this: