Everton vs. Sunderland

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Sunderland á öðrum í jólum kl. 15:00. Leikurinn er á Goodison Park en Sunderland menn hafa ekki riðið feitum hesti frá þeim viðureignum síðustu tæpa tvo áratugi. Síðasti sigur þeirra á þeim velli kom í nóvember 1996 þegar Michael Bridges var að spila fyrir þá en síðan þá hafa liðin leikið fjórtán leiki, Everton unnið níu og Sunderland náð fimm jafnteflum (markatalan 37-9, Everton í vil).

Sunderland hafa náð ágætis árangri í deildarbikarnum á tímabilinu (unnu Chelsea í fjórðungsúrslitum á dögunum) en eru sem stendur á botni Úrvalsdeildarinnar með 10 stig eftir 17 leiki. Þeir hafa átt í mestu erfiðleikum með að ná sér í stig en öðru hverju hefur þetta smollið saman hjá þeim (á heimavelli hingað til) eins og þegar þeir náðu að sigra Man City á heimavelli, 2-1 og Newcastle 2-1 nokkrum vikum áður. Þetta eru þó einu sigrar þeirra á tímabilinu og stigin fjögur sem upp á vantar (fyrir stigin 10) eru þrjú jafntefli á útivelli og eitt heima. Vonandi að leikmenn Everton mæti rétt stemmdir í leikinn, sem hefur stundum skort upp á í „minni leikjunum“. Það væri ágætt fyrir þá að rifja upp 7-1 leikinn (sjá vídeó) gegn Sunderland árið 2007. 🙂

Everton fóru í gegnum erfiða törn á dögunum en stóðust þá raun með prýði, 14 stig af 18 stigum mögulegum eftir sigra gegn Man United og Swansea á útivelli, jafntefli gegn Arsenal á útivelli, Liverpool á heimavelli og stórsigra gegn bæði Stoke og Fulham. Formtaflan (síðustu 6 leikir) lítur því mjög vel út en Everton er þar í öðru sæti með eingöngu lið Man City fyrir ofan sig (þeir með 16 stig af 18 mögulegum).

Everton er aðeins tveimur leikjum frá því að fara taplaust á heimavelli í gegnum allt dagatalsárið 2013 og það væri gaman að ná því og helst sigra bæði Sunderland og Southampton, sem eru næstu leikir á heimavelli. Árangurinn heima og heiman er ekki síður athyglisverður (aðeins eitt tap í deild), sérstaklega þegar horft er til þess að aðeins Roma og Bayern Munchen hafa tapað færri leikjum á tímabilinu í sínum deildum. Seamus Coleman er jafnframt markahæsti varnarmaðurinn í Evrópu. Gaman að því.

Martinez sagðist ætla að stokka aðeins upp í liðsuppstillingunni, fyrir törnina sem er nú í gangi (3 leikir á fimm dögum) til að fríska upp á hópinn þannig að erfitt verður að spá fyrir um liðsuppstillingu. Hibbert og Baines eru sagðir heilir og sömuleiðis Pienaar og Distin sem fengu högg í leiknum við Swansea. Líkleg uppstilling: Howard, Oviedo/Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barry og McCarthy á miðjunni, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. Þetta er því bara spurning hvern/hverja hann velur til að hvíla. Grunar sterklega að við fáum að sjá Jelavic í leiknum, líklega í byrjunarliðinu.

Nokkuð hefur verið rætt um janúargluggann og líkurnar á því að Heitinga fari frá félaginu aukast dag frá degi. Hann er örugglega orðinn langþreyttur á að fá ekkert að spila og sagðist til dæmis alveg vera til í að prófa ítalska boltann. Jelavic er annar sem sagður er farinn að hugsa sér til hreyfings og Martinez sagðist skilja það vel. Það verður þó að finna menn í staðinn fyrir þá. Tveir leikmenn sem Martinez segir að séu ekki til sölu eru Baines og Barkley, en hann sagði að sá síðarnefndi yrði ekki seldur þó Gareth Bale summa fengist fyrir hann.

Í öðrum fréttum er það helst að U21 árs liðið spilaði gegn Wolves U21 í bikarnum og komust tvisvar yfir en töpuðu leiknum eftir að hafa fengið á sig tvö mörk undir lok leiks. Chris Long skoraði bæði mörkin fyrir Everton. Sama var uppi á teningnum hjá U18 ára liðinu, sem komust yfir gegn Middlesbrough U18 með marki frá Harry Charsley en sá leikur fór 1-2 fyrir Middlesbrough.

Robert Elstone, Everton Chief Executive, leit yfir árið sem er að líða og Roberto Martinez sendi stuðningsfólki um allan heim jólakveðju í viðtali. Klúbburinn sendi frá sér jólalag (Bring me Sunshine), sem þótti mjög vel heppnað og Everton TV birti 10 bestu vídeóin fyrir árið 2013. Skemmtilegt framtak.

Það er annars uppselt á leikinn við Sunderland (og næstu tvo þar á eftir reyndar líka) og það verður því örugglega frábær stemming á pöllunum.

Vinsamlegast athugið jafnframt að leikir Chelsea, Tottenham, Southampton, Newcastle og Arsenal eru allir sýndir í beinni á Ölveri kl. 15:00 (6 leikir í einu!) þannig að við hvetjum ykkur öll til að fjölmenna og mæta tímanlega til að tryggja að við missum ekki salinn.

7 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Það var frábær stemming síðast á Ölveri. Mæti að sjálfsögðu. Spái 2-0 sigri Everton, Jelavic og McCarthy með mörkin.

 2. Diddi skrifar:

  5 – 0, Lukaku 2, Jelavic 1, Barkley 1 og Stones 1

 3. Gunni D skrifar:

  Ég er alltaf að bíða eftir þrennunni. Góða skemmtun!!!

 4. Halli skrifar:

  3-1 Jelavic 2 og Jags. Með þessum sigri förum við uppfyrir Liverpool og það er góð skemmtun

 5. Gunnþór skrifar:

  4-2 Barkley 2,Lukaku 1.Distan 1.

 6. Orri skrifar:

  Við verðum bara vinna þennan leik,Það myndi halda öðrum liðum á niður á jörðini.Ég held reyndar að þetta verði erfiður leikur en vonandi verður þetta öruggt hjá okkur.Éigum við ekki að segja 4-0 Það sama hver skorar mörkin.

 7. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin: http://everton.is/?p=6259
  Þau ykkar sem mæta á Ölver, munið að mæta tímanlega!

%d bloggers like this: