Baráttan um Bítlaborgina

Mynd: Everton FC.

Það eru ekki nema örfáir dagar í derby leikinn Everton – Liverpool, en dómari flautar til leiks á laugardaginn kl. 12:45. Með sigri getur Everton komist í 2.-3. sæti og náð Liverpool að stigum en ef leikurinn tapast komast Liverpool tímabundið á topp deildarinnar. Þetta verður að teljast ágætis tími til að mæta þeim, því einhvern veginn hefur það æxlast svo að landsleikjahrinan hefur líklega tekið mun meiri toll af þeirra leikmönnum en af okkar:

Howard lék í 90 mínútur með Bandaríkjunum en hann er markvörður þannig að maður hefur ekki stórar áhyggjur af því. Bakverðirnir Baines og Coleman sátu báðir á bekknum í gær og verða ljónhungraðir í að fá að spretta aðeins úr spori. Distin kemur alveg hvíldur til leiks en Jagielka lék allan leikinn gegn Þjóðverjum í gær (og þótti standa sig mjög vel). Miðjumennirnir: Pienaar og Barry koma báðir úthvíldir til leiks, hinn ungi McCarthy spilaði rúman hálfleik með Írum en Mirallas og Lukaku í framlínunni léku megnið af heimaleik Belgíu við Japan. Þess má geta að sá síðarnefndi lagði upp mark fyrir Mirallas í þeim leik. Ungstirnið Barkley fékk aðeins 20 mínútur með Englandi og þar sem lítið var um ferðalög (England átti, eins og Belgía, heimaleik og Írarnir fóru ekki lengra en til Póllands) þá má líta svo á sem byrjunarliðið komi ekki þreytt undan þessari landsleikjahrinu. Kannski helst Lukaku og Mirallas en þeir eru báðir ungir og hungraðir í hlaup. Sama með bekkinn: Jelavic átti heimaleik gegn íslensku strákunum okkar og spilaði ekki nema örfáar mínútur, Osman hvíldi alveg og Heitinga (sýnist mér) hafi hvílt í heimaleik líka. Helst kannski að maður hafi áhyggjur af Belgunum okkar en ef Mirallas er þreyttur þá eigum við táninginn Deulofeu sem var sjóðandi heitur í leik U21 liðs Spánar sem fóru mjög illa með Bosníu U21, sigruðu 1-6, eins og sjá má hér, en Deulofeu var allt í öllu í leiknum, fór illa með vörn Bosníu, lagði upp mörk og skoraði sjálfur.

Að auki litu engin ný meiðsli dagsins ljós í landsleikjahrinunni — þvert á móti: samkeppnin er að aukast um stöður í liðinu, því Hibbert og Alcaraz hafa jafnað sig af sínum meiðslum og eru farnir að æfa á fullu, þó ekki sé búist við þeim í þessum leik. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar, Barry, McCarthy, Mirallas/Deulofeu, Barkley, Lukaku.

Leikmenn Liverpool áttu heldur strangara prógram, en af þeim sem standa upp úr hjá þeim lék Sturridge í gær allan leikinn gegn Þjóðverjum, þrátt fyrir að hafa þurft að hætta æfingu vegna meiðsla stuttu fyrir leik. Suarez var í byrjunarliðinu sem átti leik við Jórdan kl 23:00 í kvöld og þarf að ferja hann með prívatvél til Liverpool svo hann þurfi nú ekki að ferðast með almúganum og geti mætt til æfinga á morgun. Gerrard, missti af landsleiknum við Chile vegna meiðsla og einhvers staðar las ég að hann hefði þurft sprautu til að geta spilað megnið af landsleiknum við Þjóðverja í gær. Það er því spurning í hvernig ástandi þeir þrír mæta til leiks á laugardaginn.

Gengi Everton á tímabilinu hefur verið ágætt hingað til og flott að sjá að menn hafa tekið nýjum þjálfara og nýjum áherslum vel, haldið dampi og náð mörgum góðum úrslitum. Þrisvar sinnum hafa þeir haldið hreinu í röð enda lítið rót verið á baklínunni sem hefur staðið sig vel. Erfiðlega hefur þó gengið að skora í síðustu tveimur leikjum (gegn Tottenham og Crystal Palace) en við eigum þá bara inni mark/mörk á laugardaginn. Everton er taplaust í deild á heimavelli á öllu dagatalsárinu 2013; síðasta tapið var gegn Chelsea undir lok árs 2012, sem var jafnframt eina liðinu sem tókst að vinna á Goodison Park í deildinni það tímabilið. Tottenham og West Brom eru jafnframt einu liðin sem hafa komist frá Goodison með stig (eitt hvort) á þessu tímabili — Tottenham áttu líklega stigið skilið en West Brom mun síður. Það er því vonandi að ljónagryfjan Goodison Park skili þremur stigum um helgina.

Leikirnir tveir í fyrra við Liverpool enduðu báðir með jafntefli, 2-2 heima og 0-0 úti. Við áttum að vinna útileikinn þar sem mark Distin var ranglega dæmt af (fyrir það eitt að markvörður þeirra hljóp á Anichebe) og í heimaleiknum hefði ég viljað sjá Suarez út af með rautt fyrir þrjú spjald-verð atvik, þar af tvær líkamsárásir. En, það verður ekki aftur tekið. Það er nýtt tímabil núna, vona bara að allir komi heilir frá þessum leik og liðin einbeiti sér að fótbolta en ekki brotum, eins og stundum vill verða (hjá báðum liðum).

Klúbburinn rifjaði upp nokkra skemmtilega derby leiki, sjá vídeó af leiknum 2010 (vídeó), 2006 (vídéo), 2004 (vídéo) og ekki má gleyma tímabilinu 1995/6 (vídeó –þessi leikur var kallaður „Kanchelskis derby leikurinn“). Klúbburinn hefur einnig fjallað um nokkrar af Derby hetjunum forðum daga: Kevin SheedyGraeme SharpDanny Cadamarteri og Kevin Campbell en síðasti linkurinn vísar einmitt á frægt vídeó af leik þar sem Francis Jeffers og markvörður Liverpool voru reknir út af fyrir slagsmál og Gerrard sömuleiðis (fyrir líkamsárás á Kevin Campbell). Spurningin er hvort ný hetja Everton líti dagsins ljós um helgina — ef svo er grunar mig að það verði Barkley eða Deulofeu. 🙂

En þá að öðru: Markið sem Pienaar skoraði gegn Hull var kjörið mark októbermánaðar, en hægt er að sjá markið og hin mörkin hér. Og U21 árs liðið sigraði Middlesbrough 2-3 á útivelli í bikarnum (sjá vídeó), með mörkum frá Matthew Kennedy og tveimur frá Chris Long.

6 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Átti nú ekki von á að segja þetta en það er líka bráðskemmtileg og málefnaleg upphitunargrein á forsíðu kop.is þessa stundina — sem ég hvet Everton-liða til að lesa (og muna: ekkert troll í kommentakerfinu þeirra í kjölfarið, takk fyrir). Tek hattinn ofan fyrir Eyþóri Guðjónssyni, sem skrifaði greinina.

 2. Elvar Örn skrifar:

  Sjáumst í hádeginu á Laugardaginn á Ölveri. Við Georg komum frá Akureyri og leggjum í hann rétt fyrir kl. 8 um morguninn. Vonast til að sjá sem flesta, gömul andlit sem ný. Að vísu er það nú svo að allir Everton menn sem ég þekki eru með gömul andlit, hehehe nei grín bara grín.
  Sjáumst drullu hressir eftir tvo daga.

 3. Halli skrifar:

  Það eru mjög fínir gaurar þar innan dyra einnig það er bara svolítið djúpt á því.

  Að leik helgarinnar það verða ekki miklar breytingar á okkar liði. Vörnin sú sama, miðjan Barry og McCarthy og vonandi heldur Barry áfram að spila deildarleiki án þess að tapa „SNELLINGUR“. Ég held að mig langi til að sjá Deulofeu á hægri kantinum en ég veit ekki hvort Pienaar eða Mirallas ættu að hvíla og svo Barkley og Lukaku frammi. Þessi leikur fer 2-1 og Baines skorar úr víti og Deulofeu fíflar vörnina þannig að þeir vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara varnarmenn Liverpool. Daniel sturlaði skorar fyrir þá.

  Kv

  Halli

 4. Halli skrifar:

  C.O.Y.B

 5. Hallur j skrifar:

  Sælir félagar ég er frekar stressaður fyrir þennan leik og eiginlega svartsyn enda er ég ekki buinn að jafna mig eftir hörmungina sem síðasti leikur var
  verðum við ekki að treysta á að liðið muni sýna allar sýnar bestu hliðar á laugardaginn
  annars óska ég öllum góðrar skemtunar á árshátiðinni ég kem næst

 6. Finnur skrifar:

  Það fór ekki hátt í umræðunni í gær fréttin um það að Liverpool hafi rekið yfirmann þjálfunar (e. head of coaching) og yfirmann unglingaakademíunnar (e. academy director). Rakst á þetta í eins konar neðanmálsgrein í frétt um meiðsli Jose Enrique, vinstri bakvarðar þeirra:
  http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/25032506

%d bloggers like this: