Crystal Palace vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton liðið heimsækir Crystal Palace á morgun kl. 15:00 en þessum nýliðum í deildinni hefur gengið afar illa frá því að þeir komust upp — sem þýðir náttúrulega að maður er hálf smeykur við að þeir fái loks smá meðbyr í leiknum á morgun. Engin ný meiðsli hrjá hópinn okkar en spurningarmerki var sett við Lukaku eftir meiðslin sem hann hlaut gegn Tottenham en hann er heill og ætti að geta spilað. Meiðsli Kone, sem var þegar á meiðslalistanum, líta út fyrir að vera verri en áætlað var og hann því jafnvel frá út tímabilið (ásamt Gibson) en Alcaraz þarf smá meiri tíma. En hópurinn er óbreyttur — því engin ný meiðsli litu dagsins ljós eftir Tottenham leikinn. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Jagielka, Distin, Coleman. McCarthy og Barry á miðjunni, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. McCarthy þarf að gæta sín sérstaklega í leiknum því hann er einu gulu spjaldi frá því að missa af leiknum við litla bróður.

Hjá Palace er sóknarmaðurinn Adlene Guedioura frá (brotin rifbein og gat á lunga) og sömuleiðis miðjumaðurinn Jonathan Williams, Paddy McCarthy, sóknarmaðurinn Glen Murray og varnarmaðurinn Jack Hunt.

Þetta gæti orðið áttunda tap Crystal Palace í röð (ef Everton vinnur) en Palace menn hafa ekki unnið nema einn leik það sem af er tímabils (gegn Sunderland við upphaf tímabils). Þeir mæta Everton liði sem hefur ekki fengið á sig mark í fjóra klukkutíma samtals og hafa fengið 16 stig af 21 í síðustu 7 deildarleikjum þannig að maður verður að gera kröfu um sigur ef Everton á að ná að halda pressu á liðin fyrir ofan sig.

En þá að öðrum fréttum en Lukaku var á dögunum valinn leikmaður september-mánaðar, þrátt fyrir að hafa misst af fyrsta leiknum í september (þar sem sá leikur var á móti Chelsea). Hann skoraði þrjú mörk í þremur leikjum þar á eftir — sigurmörk gegn bæði West Ham og Newcastle — og reyndar tvö gegn Newcastle í sínum fyrsta leik á Goodison Park. Einnig má geta þess að hægt er að velja besta mark októbermánaðar hér sem og að Baines, Jagielka og Barkley voru valdir í enska landsliðshópinn sem mætir Chile og Þjóðverjum í vináttuleikjum.

Það er hlé á deildarleikjum U21 árs liðsins og Alan Stubbs fór með ungliðana til Skotlands á smá mini-tour en þar gerðu þeir 2-2 jafntefli við St. Mirren U21 (Chris Long og Hallam Hope skoruðu mörkin) og unnu Kilmarnock 2-3 (John Lundstram, Chris Long og Jonjoe Kenny með mörkin). U18 ára liðið vann jafnframt Norwich 1-0 með marki frá Courtney Duffus.

Everton raðaði inn viðurkenningunum á Northwest Football Awards en Everton in the Community samtökin fengu þrjár viðurkenningar á dögunum: Community Club of the Year, Community Initiative of the Year, Best Club Marketing Campaign fyrir ‘Make It Everton’ og að auki var Toni Duggan valin leikmaður ársins í kvennadeildinni.

Í lokin er hér greining Executioner’s Bong á fyrstu 10 leikjum tímabilsins en margt athyglisvert er þar að finna. Hver er ykkar spá fyrir leikinn á morgun?

10 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ættum að vinna en þar sem okkar menn hafa þann leiða ávana að vera aumingjagóðir + það er að detta í landsleikjahlé, og Everton líka dálítið gjarnir á að senda mann súrann og svekktann í þau, held ég að við töpum á morgun. Spái 2-1 fyrir Palace.

  2. Finnur skrifar:

    Við reyndar hættum að vera aumingjagóðir um leið og Barry fór að spila með okkur — þannig að ég lýsi því yfir að hann sé nýja írska lukkutröllið okkar. Ég ætla að spá sigri, annaðhvort 1-2 eða 1-3 (get ekki ákveðið mig). Palace menn skora þó í fyrri hálfleik. 🙂

  3. Hallur j skrifar:

    Látið ekki svona þetta verður léttur 5-0 leikur

  4. Teddi skrifar:

    Svo við förum ekki í hæstu hæðir eftir sigra í næstu tveimur leikjum;) þá höfum við spennu í þessu. 0-1 og Baines með markið á ’70 úr aukó.

  5. Gunni D skrifar:

    Jæja, fáum við fyrstu þrennuna hjá Lukaku?

  6. Halli skrifar:

    Gulli landliðsmarkmaður spáir 5-0 fyrir Everton og Lukaku með öll á fótbolta.net í gær ég ætla að halda með honum

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Eitt held ég reyndar að sé 100% öruggt. Ef McCarthy spilar fær hann gult spjald og missir af derbyleiknum.

    • Halli skrifar:

      Það vona ég svo sannarlega að hann sleppi í dag þvi að hann er lykilmaður í leik eins og Darby er

  8. Halldór S Sig skrifar:

    Ég spái 0:2 fyrir okkur Mirallas og svo setur Gerard Deulofeu sitt fyrsta fyrir Eve.

  9. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin:
    http://everton.is/?p=5956