Norwich – Everton 2-2

Mynd: Everton FC.

Everton heimsótti Norwich í dag í fyrsta leik tímabilsins og jafnframt fyrsta deildarleik Everton undir stjórn Roberto Martinez.

Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Osman og Fellaini á miðjunni, Pienaar á vinstri kanti, Mirallas á hægri, Barkley fyrir aftan Jelavic frammi.

Everton var mun meira með boltann í fyrri hálfleik, yfir 70% en náði ekki að brjóta niður vel skipulagða two-banks-of-four vörn Norwich og skapa sér almennileg færi. Norwich menn greinilega hamingjusamir með það að liggja í vörn (stundum með 6 manna varnarlínu, eins og þulurinn kom inn á), lögðu höfuðáherslu á að fá ekki á sig mark og reiddu sig á skyndisóknir.

Byrjunin einkenndist af svolítilli taugaveiklun eins og eðlilegt er með upphafsleikinn og nokkuð um feilsendingar. Everton gekk illa að finna leið gegnum vörnina og manni fannst sóknirnar fjara helst til auðveldlega út í varnarþvögunni og of fáir boltar sem enduðu á rammanum. Mirallas átti skot utan teigs rétt fram hjá stönginni og Fellaini átti skot hátt yfir úr ákjósanlegu færi eftir horn en manni fannst sem lítið væri að gerast báðum megin vallar, sérstaklega þó hjá Howard en Norwich áttu aðeins tvö skot sem hittu á markið í öllum leiknum, skv. þeirri tölfræði sem ég hef lesið, og skoruðu tvö mörk (!!). Everton átti 20 skot í leiknum, þar af 7 á rammann.

0-0 í hálfleik eftir hálf bragðdaufar 45 mínútur.

Mirallas átti ágætis skot í hliðarnetið snemma í seinni hálfleik en það var Norwich sem komst yfir á 51. mínútu með fyrsta skoti sínu á rammann. Einhvern veginn tókst leikmanni Norwich að böðlast með boltann framhjá þremur leikmönnum Everton og endaði með skoti rétt utan teigs sem fór í stöngina innanverða og út aftur… aftur fyrir Howard og beint á sóknarmanninn aftur sem nú var kominn inn fyrir alla varnarlínuna og markvörðinn og skoraði auðveldlega í autt netið úr mun þrengra færi en fyrra skot hans. 1-0 fyrir Norwich.

Svarið kom þó aðeins 10 mínútum síðar og það átti ungliðinn Barkley með þvílíkri „remember the name!“ neglu utan teigs (sjá mynd) eftir góðan undirbúning frá Coleman.

Annað mark Everton kom þegar Jelavic komst í dauðafæri aðeins fjórum mínútum síðar þegar hann stakk sér inn í teig og fékk stungusendingu frá Pienaar inn fyrir en Ruddy varði meistaralega frá honum. Sem betur fer barst lausi boltinn til hliðar þar sem Coleman vann sprettinn gegn varnarmanni og þrumaði boltanum í opið markið. 2-1 fyrir Everton.

Hér sýndist manni Everton væri líklegra til að auka við forskotið þar sem Norwich átti oft í erfiðleikum með einfalt spil manna á milli og oft sem sóknir þeirra brotnuðu niður við einfalda tæklingu miðjumanna Everton.

Það fór því ekki svo að Everton bætti við marki því Norwich skoraði eitthvert mesta grísamark sem ég hef séð lengi. Sóknarmaður þeirra ætlaði aldeilis að skora glæsimark af löngu færi utan teigs hægra megin en hitti boltann svakalega illa (sneiðir hann til hliðar til vinstri og hefði líklega endað í innkasti). En ekki í þetta skiptið, því þessi skelfilega tilraun til skots varð að frábærri fyrirgjöf beint á kollinn á nýja markaskoraranum þeirra, Wolfswinkel, sem stýrði boltanum upp í samskeytin hægra megin. Staðan allt í einu orðin 2-2, þvert gegn gangi leiksins.

Ruddy reddaði þeim svo allhressilega undir lokin þegar hann varði boltann frá bæði Jelavic og Naismith (í dauðafæri í sömu sókninni) þannig að Everton tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og taka öll stigin þrjú.

Okkur hefur ekki gengið svakalega vel gegn Norwich undanfarin ár (sérstaklega á útivelli) og leikir við þá eiginlega verið lítið spennandi þannig að maður er ánægður með að vera búinn með þennan leik á útivelli án taps en ég verð að líta á þetta sem tvö stig töpuð frekar en eitt stig fengið.

Þetta var yfir svona meðallagi skemmtilegur leikur (af Norwich leik að vera) sem lofar vonandi góðu með skemmtanagildið fyrir framhaldið en Everton liðið var að spila nokkuð skemmtilegan bolta. Hlakka til að sjá meira þegar leikmenn verða búnir að stilla saman strengi betur.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Distin 7, Jagielka 6, Coleman 8, Pienaar 7, Osman 6, Fellaini 6, Mirallas 7, Barkley 8, Jelavic 6. Varamenn: Naismith 6, Kone 5 (fékk bara 9 mínútur), Anichebe 5 (fékk um mínútu).

Nokkuð sammála þessum einkunnum og fannst Barkley og markið hans standa upp úr. Þvílík negla! Gaman líka að sjá Jelavic koma sér í þvílík dauðafæri að þurfti algjöra meistaratakta til að sjá við honum, eins og Ruddy sýndi allavega þrisvar-fjórum sinnum í leiknum (ekki bara gegn Jelavic).

En ég væri til í meira svona. Náðum að brjóta niður varnarmúrinn nokkrum sinnum í leiknum og tvö mörk hefðu átt að nægja (og hefðu venjulega gert það). Það verða ekki öll lið á tímabilinu jafn heppin og Norwich liðið í dag.

15 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Hvar eru skoðanir manna? Þarf maður að fara annað til að fá response?

  2. Elvar Örn skrifar:

    MOTM Barkley

  3. Finnur skrifar:

    Ég held það skýrist nú af því að leikskýrslan var ekki komin (gamli maðurinn bauð okkur í sjötugsafmæli strax eftir leik þannig að mér gafst ekki tími til að koma leikskýrslunni frá mér). 🙂 En hún er komin núna. 🙂

  4. Finnur skrifar:

    Og já, svona til að svara þér (af hinum þræðinum), Elvar, þá var fín stemming á Ölveri. Það var varla þverfótað fyrir Stjörnumönnum sem höfðu hátt og mynduðu þétta varnarlínu við barinn en við fyrirgáfu þeim það enda flottir í bláu. 🙂 Mætingin ágæt, 15-18 manns að horfa saman á Everton leikinn. Það var líka rætt að standa fyrir ferð norður í koníaksstofuna til þín að horfa á leik saman. 🙂

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Djöfull er Barkley góður.

  6. Ingi Þór Eyjólfsson skrifar:

    Barkley var rosa góður, lélegasti maður liðsins var án efa Ozzie, missti boltan á slæmum stöðum og var ekkert ógnandi. En sammála, sóknarleikurinn var glimrandi og hálf svekkjandi að fá á sig 2 mörk miðað við possession og færi. Lofar góðu.

  7. Finnur skrifar:

    DailyMail birti mynd af því hvernig *allt* liðið nema — ironically — Barkley (sem annars átti frábran leik) hefði komið að markinu sem Coleman skoraði og hvernig boltinn gekk manna á milli.

    http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2396133/Norwich-City-2-Everton-2-Canaries-thank-Wolfman-share-spoils-dampener-Martinezs-big-day.html#ixzz2cJj7JLsu

    Martinez sagði jafnframt um Barkley: ‘We are very pleased with his overall contribution. Tactically he was outstanding’.

  8. Finnur skrifar:

    … og Barkley var valinn í liði vikunnar að mati BBC.
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/23746875

  9. þorri skrifar:

    því miður komst ekki á laugardagin.Ég les að þessi leikur hefði bara verið ágætur.En sárt að landa ekki sigrinum.En kemur næst er það ekki kv þorri evetonmaður.

  10. Finnur skrifar:

    Barkley náði ekki inn í lið vikunnar að mati Goal. En það gerði Coleman hins vegar.
    http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/08/20/4198968/premier-league-team-of-the-week-rampant-robin-van-persie

  11. Finnur skrifar:

    Já, heyrðu — takk fyrir þetta. Þetta fór alveg framhjá manni… 🙂

  12. þorri skrifar:

    Sælir félagar. Því miður kemst ég ekki til að sjá leikinn á laugadaginn kemur. Ég vona að okkar menn vinni leikinn á laugardaginn. Fyrir utan hann er á Goodison park það er bara skilyrði að vinna heima leikina ekki satt? Góða skemtun á laugardaginn. Vonandi að sem flestir mæti og veri með í stemmingunni. Þetta er frábær skemtun.