Everton – Juventus 1-1

Mynd: Everton FC.

Upptakan af leiknum er komin í loftið, sjá hér en hraðspóla þarf 40 mínútur til að sjá leikinn.

Þau ykkar sem vilja vita hvernig leikurinn fór (spoiler alert) geta haldið áfram að lesa.

Uppstilling 3-5-2: Tim Howard í markinu, miðverðirnir þrír voru Sylvain Distin, Phil Jagielka og John Stones. Leighton Baines og Seamus Coleman á vængjunum, Darron Gibson og Marouane Fellaini á miðjunni, Steven Pienaar og Kevin Mirallas vinstra og hægra megin og Victor Anichebe frammi.

Fyrsti leikur Everton í International Champions Cup 2013 fór fram á AT&T Park í San Francisco að kvöldi til, Everton í bláu og Juventus í gulu. Carlos Tevez í framlínunni hjá Juventus og þeir stilltu upp í 3-5-2 einnig. Bæði lið pressuðu framarlega á vellinum til að hindra spilið frá öftustu línu og leikurinn fór rólega af stað, Everton með áætis byrjun á leiknum.

Everton skoraði úr aukaspyrnu strax á 6. mínútu. Pienaar með spyrnuna frá vinstri kanti eftir brot frá Carlos Tevez. Pienaar sendi á fjærstöngina og þar var Jagielka mættur fremstur og virtist við fyrstu sýn láta boltann fara og boltinn endaði í netinu. Endursýning sýndi hins vegar bæði að hann snerti boltann og var rangstæður þannig að markið var dæmt af. En Everton þá orðið sterkari aðilinn í leiknum og farnir að banka allfast á dyrnar.

Juventus ekki að skapa sér nein færi, tóku skot af mjög löngu færi á 13. mínútu en boltinn í varnarmann. Juventus fengu engan frið á boltanum fyrir leikmönnum Everton sem pressuðu vel og unnu oft boltann af þeim. Juventus með fá svör og fóru um tíma að dúndra boltanum fram þar sem þeir komust lítið áleiðis með því að spila honum eftir jörðinni milli manna gegnum miðjuna. Graeme Sharp sem lýsti leiknum hafði á orði að óvenjulegt væri að sjá enska liðið fara betur með boltann en ítölsku meistarana.

Annað langskot frá þeim á 17. mínútu en engin hætta (beint á Howard). Tvær rangstöður síðan í röð á Juventus, Everton með þetta allt undir kontról. Flott spil milli Baines og Pienaar skapaði hættu en fyrirgjöf Baines frá vinstri of há.

Þulirnir lásu upp kveðju frá meistara Elvari á 23. mínútu, sem vaknaði upp um miðja nótt á afmælisdegi sínum til að horfa á leikinn. 🙂 Gaman að þessu. 🙂

Pienaar með skot á 24. mínútu frá vinstri horni vítateigs, ætlaði að skjóta upp í markvinkilinn en boltinn fór rétt yfir slána. Everton leit úr fyrir að vera mun líklegra til að skora en Juventus en svo fengu Juventus allt í einu dauðafæri eftir hornspyrnu — sóknarmaður Juve einn á móti Howard en hann lúðraði boltanum langt fram hjá þegar virtist auðveldara að skora. Besta færi leiksins. Þeir áttu svo skot af löngu færi á 31. mínútu en boltinn framhjá markinu. Þeir virtust aðeins að komast betur inn í leikinn eftir nokkuð slaka byrjun og náðu fyrirgjöf frá hægri sem Howard greip. Svo byrjaði Everton að pressa aftur, fengu  í kjölfarið nokkrar aukaspyrnur, horn og eitthvað um skot af löngu færi en ekkert kom úr því.

Stones átti glæsilegan skalla í innanverða stöng og út aftur eftir aukaspyrnu á 42. mínútu. Spurning um millimetra. Pressan var slík á ítölsku meistarana að það var ekki hægt að sýna þetta aftur fyrr en nokkrum mínútum síðar. En það var síðasta færið í fyrri hálfleik, markalaust eftir 45 mínútna leik.

Fyrri hálfleikur lofaði góður og þetta var flottur leikur hjá okkar mönnum. Lítið að gera hjá Howard, vörnin haldið nokkuð auðveldlega og Everton með stjórn á miðjunni. Anichebe mjög erfiður viðureignar frammi og Everton mun líklegra liðið til að skora. Stones og Pienaar (eða kannski Jagielka) báðir óheppnir að skora ekki.

Óbreytt lið í seinni hálfleik. Juventus byrjuðu hálfleikinn betur en þann fyrri, en náðu ekki að skapa hættu. Pienaar náði að stela boltanum af varnarlínu Juventus og skaut föstu skoti utan teigs sem fór framhjá á 49. mínútu.

Mirallas átti dauðafæri á 51. mínútu og komst einn á móti markverði. Distin átti langa sendingu sem datt vel fyrir Mirallas sem tók sprettinn inn fyrir en markvörður varði. Everton hélt pressunni uppi en Juventus komust svo í skyndisókn sem Stones afgreiddi vel. Juventus aðeins að bæta í, áttu skot sem blokkerað var af varnarmanni og svo fyrirgjöf frá vinstri en enginn sóknarmaður þar til að taka við því. Komust inn fyrir vörnina en dæmdir rangstæðir eftir að sóknarmaðurinn komst einn inn fyrir hægra megin. Skýringin á uppgangi Juventus líklega sú að Pienaar var utan vallar að láta líta á skurð á haus.

Juventus áttu flott skot á 56. mínútu en Howard með frábæra markvörslu, kastaði sér til vinstri og sló boltann frá með útréttum höndum.

Stuttu síðar voru Everton menn komnir í skyndisókn, Gibson sendi langa sendingu upp hægri kantinn þar sem Mirallas kom á sprettinum, lék á varnarmann og skaut með vinstri fæti lágt niðri í hægra hornið. Enginn séns fyrir markvörðinn og Everton komið 0-1 yfir. Markið er þó að miklu leyti Anichebe að þakka en hann vann boltann á góðum stað og skóp þannig skyndisókn.

Allur Juventus varamannabekkurinn sendur að hita upp í kjölfarið. Oviedo inn á fyrir Baines. Osman inn á fyrir Gibson.

Vörn Everton þurfti að taka á öllu sem þeir áttu þegar Juventus komust í færi á 68. mínútu. Stones reddaði okkar mönnum með frábærri skriðtæklingu þegar Juventus maðurinn átti bara eftir að setja boltann í markið og Howard átti flotta markvörslu frá sóknarmanni Juventus beint fyrir framan markið. Þeir áttu svo skot í hliðarnetið hægra megin nokkru síðar. Stones átti aðra frábæra tæklingu inni í teig þar sem hann afvopnaði sóknarmann Juventus algjörlega. Ungliðinn okkar, sem á síðasta tímabili var að spila fyrir Barnsley, skyndilega orðinn allt í öllu í vörninni hjá Everton. Frábær leikur hjá honum.

Everton komst í skyndisókn á 72. mínútu þegar Pienaar sendi upp hægri kant á Mirallas sem brunaði upp og hafði Coleman til hægri við sig en ákvað rétt framan við teiginn að senda háa fyrirgjöf fyrir markið þar sem Oviedo átti frábæran skalla en markvörður varði mjög vel. Oviedo átti líka flott skot utan teigs stuttu síðar en rétt yfir.

Þremur leikmönnum Juventus skipt inn á.

Pienaar komst í algjört dauðafæri einn á móti markverði þegar Anichebe vann skallaeinvígi og varnarmaður Juventus átti slæma sendingu sem Pienaar komst inn í. Brunaði upp að markverði en setti boltann rétt framhjá markinu. Fær varla betra færi en þetta.

Tevez með skot af löngu færi sem Howard varði með annarri hendi útréttri. Hann átti svo aðra flotta markvörslu frá sóknarmanni inni í teig sem reyndi að skjóta upp í hægra hornið en Howard vel á verði.

Everton átti skyndisókn á 78. mín: Pienaar með sendingu á Mirallas sem lagði hann fyrir sig inn í teig og skaut á markið en varið í horn. Jagielka skallaði fyrirgjöfina á markið en ekki of erfitt fyrir markvörðinn.

Juventus jafnaði á 79. mínútu þegar sóknarmaður brunaði upp hægra megin, sendi fyrir markið lágt aftur fyrir sig og Osman snerti boltann aðeins en ekki nóg til að hreinsa. Boltinn barst til Asamoah sem var við vítateigsjaðarinn vinstra megin og fékk frítt skot á Howard, niðri í hægra hornið og óverjandi fyrir hann. 1-1 og 10 mínútur eftir en í þessari keppni er ekki framlengt heldur farið beint í vítaspyrnukeppni ef jafnt er eftir venjulegan leiktíma.

Tveir teknir út af hjá Juventus á 83. mínútu (þmt. Tevez). Everton með aukaspyrnu langt utan teigs en beint á markvörðinn.

Barkley inn á fyrir Anichebe og hann var næstum búinn að senda Pienaar einan inn fyrir í fyrstu sókn sinni. Juventus maður komst í dauðafæri en ekkert kom úr því. Barkley, rétt utan teigs, átti á 89. mínútu erfitt skot fyrir markvörðinn, en sá síðarnefndi varði og það reyndist lokafærið. Staðan 1-1 eftir 90 mínútur og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Everton með fyrstu vítaspyrnuna.

Osman steig upp á vítapunktinn, skaut föstu skoti til vinstri en í góðri hæð fyrir markvörðinn sem varði! Slæm byrjun á vítaspyrnukeppninni fyrir okkar menn. Juventus menn skoruðu auðveldlega úr sinni fyrstu spyrnu, hátt upp í vinstra hornið og Howard í vitlaust horn. 1-0 Juventus.

Barkley með næstu spyrnu, svipuð og sú sem Osman tók (vinstra megin), markvörður giskaði á rétt horn en spyrnan alveg upp við stöngina og boltinn því í netið. Juventus maðurinn stillti upp en þegar hann ætlaði að fara að skjóta hljóp áhorfandi inn á völlinn og sparkar boltanum beint í fangið á Howard. Þegar áhorfandinn hafði verið fjarlægður skaut Juventus maðurinn í hægra hornið. Howard giskaði á rétt en náði ekki að verja. 2-1 Juventus.

Mirallas næstur með örugga vítaspyrnu uppi hægra megin. Markvörðurinn í vitlaust horn og staðan því aftur jöfn en Juventus með yfirhöndina. Næsta spyrna frá þeim uppi í vinstra hornið, Howard í rétt horn en náði ekki að verja. 3-2 Juventus.

Jagielka með fjórðu spyrnu Everton og sendi markvörðinn í vitlaust horn og skoraði í hægra hornið. Juventus maðurinn stillti upp og skoraði í vinstra hornið, Howard í öfuga átt. 4-3 Juventus.

Oviedo varð að skora úr næstu spyrnu og hann gerði það, sendi markvörðinn í hægra hornið (frá sér séð) og skoraði í mitt markið. Andrea Pirlo stillti sér upp í mögulega síðustu vítaspyrnu Juventus en hann brenndi af, hitti ekki einu sinni markið!! Staðan jöfn eftir fimm spyrnur! 4-4. Mikill léttir.

Stones á vítapunktinn og tók ískalda spyrnu, chip hátt upp í hægra hornið og markvörðurinn í vitlaust horn. Everton komið með yfirhöndina. Juventus stillir upp… og skorar auðveldlega uppi í hægra hornið. Howard giskaði þó á rétt horn. 5-5.

Coleman stillti upp og skoraði auðvledlega niðri í hægra hornið og sendi markvörðinn í vitlaust horn. Juventus stillir upp en Howard varði sína fyrstu vítaspyrnu í keppninni!!

Everton sigraði því Ítalíumeistarana, 6-5 lokastaðan úr vítaspyrnukeppni eftir 1-1 jafntefli! Þetta leit illa út í byrjun vítaspyrnukeppninnar en fór vel á endanum. Þetta lítur mjög vel út eins og er, leikmenn skarpir og með mjög góð tök á leiknum gegn sterkustu andstæðingunum hingað til á undirbúningstímabilinu. Greinilega góðir hlutir sem Martinez er að leggja upp með þeim og lofar góðu fyrir framhaldið.

Margir sýndu mjög góða frammistöðu, liðið lék almennt séð vel og verðskuldaði sigurinn, sérstaklega eftir frammistöðuna í fyrri hálfleik sem var mjög góð. Flæðið gott, miðjan sterk og leikmenn virðast höndla nýtt leikkerfi ágætlega. Juventus komust aðeins betur inn í leikinn í síðari hálfleik, sem varð fyrir vikið jafnari. Mirallas valinn maður leiksins, Howard mjög traustur í markinu og átti nokkrar glæsilegar markvörslur. Miðverðirnir okkar flottir, sérstaklega John Stones sem er með stáltaugar greinilega og var óheppinn að skora ekki. Fellaini reyndist Juventus erfiður á miðjunni og Gibson átti margar glæsilegar sendingar fram á við. Baines og Coleman flottir sem og Pienaar. Mirallas sýndi enn og aftur að hann er óútreiknanlegur match-winner. Anichebe átti mjög góðan leik frammi og spilaði nær allan leikinn. Osman líklega veiki punkturinn í dag, hefði átt að hreinsa í aðdraganda marks Juventus og brenndi af vítaspyrnu. Barkley mjög líflegur þegar hann kom inn á og Oviedo sömuleiðis.

Laun erfiðisins eru leikur við sigurvegarann úr viðureign Real Madrid og LA Galaxy. Flott byrjun hjá Everton á mótinu!

15 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Hlustið vel á c.a. 23 mínútu leiksins er Twitter kveðja frá mér 🙂

 2. Ari S skrifar:

  Náð’enni…. til hamingju með afmælið Elvar 🙂

 3. Finnur skrifar:

  Já, til hamingju, Elvar! 🙂

 4. Orri skrifar:

  Þessi úrslit er góð afmælisgjöf til okkar Elvars.Til hamingju með daginn Elvar.

 5. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  til hamingju með daginn báðir félagar, Elvar og Orri. Miðað við þessi úrslit þá mættuð þig eiga afmæli nokkrum sinnum á ári:-)

 6. Elvar Örn skrifar:

  Já til hamingju með daginn Orri, vissi ekki að þú ættir afmæli, flottur dagur 🙂

  Þetta var bráðskemmtilegur leikur og í raun vaknaði ég ekki til að horfa á leikinn Finnur heldur fór ég ekki að sofa fyrr en um kl. 06:00, hehe.
  Ég horfði reyndar á hann aftur (er í sumarfríi) með Haraldi og Georg (brothers in arms) í hádeginu í dag þar sem þeir höfðu ekki úthald í að vaka um nóttina enda ungir og þreklausir með eindæmum.

  Ég verð að segja að maður leiksins að mínu mati er klárlega John Stones, hann átti mjög solid leik og nokkrar stórbrotnar rennitæklingar sem komu í veg fyrir mark og jafnvel mörk. Hann átti frábærann skalla í innanverða stöng andstæðinganna og óheppinn að skora ekki þar.
  Einnig var vítaspyrnan hans ein sú kaldasta sem ég hef séð lengi og sérstaklega í ljósi þess að chipparinn hann Pirlo var nýbúinn að brenna af sinni vítaspyrnu.
  Vörnin var reyndar alveg mögnuð og Jagielka og Distin áttu að mínu mati frábærann leik einnig. Í heild mjög góð frammistaða hjá Everton og með þriggja manna varnarlínu þá fara bæði Baines og Coleman framar og þeir eru akkúrat bakverðirnir í þá vinnu þar sem þeir eru báðir magnaðir framávið.
  Osman voru mislagðar fætur eftir að hann kom inná en gerði svosem bara tvenn mistök sem gaf mark og síðan klikkaði hann í vítaspyrnunni. Við unnum svo best að fyrirgefa honum strax.
  Howard var flottur í markinu og varði 3-4 sinnum mjög vel og er ég viss að ekki hefðu allir gert svo vel í hans stöðu.
  Fellaini og Gibson verða ekki alveg eins mikið áberandi framávið við þessa uppstillingu en þeir eru báðir öflugir varnarlega vil ég meina.
  Mirallas þótti mér bara ok í fyrri hálfleik en hann var mjög líflegur í þeim seinni og Anichebe var kannski of mikið að tuddast og hugsaði ekki nógu mikið um boltann, en hann átti þó sín moment.
  Pienaar fannst mér bara lala svona heilt yfir en átti fáeinar fínar sendingar en missti boltann of oft og jeminn þessi maður á svo erfitt með að skjóta á rammann, fékk t.d. dauðafæri einn á móti markmanni og skaut framhjá.
  Barkley fékk 3 mínútur og átti stórhættulegt skot um 15 sek fyrir leikslok, þennan dreng vil ég sjá byrja næsta leik.

  Það verður gaman að sjá hver sigrar í viðureign Real Madrid og LA Galaxy og auðvitað draumur að fá Real Madrid í næsta leik. Á maður að vaka í nótt eftir honum?

  Ég er amk viss um að vaka á laugardagsnótt (sunnudagsmorgun) þegar við eigum næsta leik gegn áðurnefndu sigurliði og hefst leikur að ég held um kl. 02:30 (menn fara bara heim snemma af djamminu 🙂 )

 7. Finnur skrifar:

  > þar sem þeir höfðu ekki úthald í að vaka um nóttina enda ungir og þreklausir með eindæmum.

  Nákvæmlega. 🙂

  Youth is wasted on the young.
  – George Bernard Shaw

  > Við unnum svo best að fyrirgefa [Osman] strax.

  Það er gott að ná þessum mistökum úr kerfinu á undirbúningstímabilinu. 🙂

  > Howard var flottur í markinu og varði 3-4 sinnum mjög vel og er ég viss að ekki
  > hefðu allir gert svo vel í hans stöðu.

  Já, hann er kominn með almennilega samkeppni um stöðu sína núna og nýjan stjóra til að sanna sig fyrir. Kannski það kveiki aðeins í honum. Svo hjálpar að hann er á „heimavelli“ þarna fyrir vestan og greinilegt að myndavélarnar fylgdust með honum. Hann var mjög flottur í markinu í leiknum og ekki við hann að sakast í jöfnunarmarkinu.

  > Fellaini og Gibson verða ekki alveg eins mikið áberandi framávið við þessa uppstillingu

  Auk þess sem Fellaini vill vera aftarlega og Gibson sækir boltann oft mjög aftarlega á vellinum til að koma honum í spil.

  > Anichebe var kannski of mikið að tuddast

  Ég er ekki sammála því, held þetta hafi verið öfugt. Hann var oft togaður niður þar sem þeir réðu illa við hann. Og það sem meira er, með menn eins og Baines og Mirallas (og jafnvel Jelvaic) með sínar eitruðu aukaspyrnur gæti þetta orðið mjög stórt framlag Anichebe til liðsins — að halda boltanum og sækja brotin rétt utan teigs. Mig minnir að Anichebe hafi sótt brotið sem gaf markið á 6. mínútu (sem dæmt var af). Hann nær líka spjöldum á miðverðina sem gerir það að verkum að þeir þurfa að fara að taka vettlingatökum á honum og öðrum í liðinu ef þeir eiga ekki að lenda í vandræðum.

  > jeminn þessi maður [Pienaar] á svo erfitt með að skjóta á rammann, fékk t.d. dauðafæri
  > einn á móti markmanni og skaut framhjá.

  Mikið rétt. Hann og Osman eru báðir haldnir þessu. Annaðhvort skora þeir glæsimörk eða að boltinn drífur varla að marki tja eða endar á bílastæðinu. Gallinn er bara að stundum virkar þetta eins og Osman á móti City og Pienaar á móti Fulham/Reading (man ekki hvort?) þannig að það er ekki hægt að banna þeim þetta. 🙂

  > og hefst leikur að ég held um kl. 02:30 (menn fara bara heim snemma af djamminu 🙂 )

  Ef það er raunin þá held ég að maður vaki eftir honum. 🙂 Ekki er reyndar búið að staðfesta tímann á evertonfc.com.

  • Elvar Örn skrifar:

   Á heimasíðu keppninnar (spurning hvort þetta sé official síðan) eru dagsetningar og tímasetningar komnar, veit ekki betur en að það standi.
   http://internationalchampionscup.com/

   Samkvæmt því á síðan lokaleikurinn að vera á fimmtudag eftir viku (aðfaranótt föstudags hér á klananum) en tímasetningarnar eru 6:30pm (01:30 að Ísl tíma) um þriðja sæti og kl 9:00pm (04:00 Ísl tíma) um fyrsta sæti.
   Ef svo lygilega vildi til að við vinnum leikinn nú um helgina þá held ég að maður sofni bara snemma og vakni kl. 4 til að horfa á leikinn, ekki myndi maður missa af möguleika á að sjá klúbbinn í beinni að vinna fyrsta bikar í langan langan langan tíma.

   En eitt er víst að það verður horft á næsta leik nú um helgina og plís gefið okkur Real Madrid sem mótherja.

 8. Finnur skrifar:

  Og já, til hamingju með daginn, Orri! 🙂

 9. Ari S skrifar:

  Til hamingju með daginn Orri 🙂

 10. Finnur skrifar:

  Stones var búinn að prófa sig áfram með þessa spyrnu af vítapunktinum á æfingum og ekki alltaf tekist (félagar hans sögðu að hann myndi aldrei reyna þetta fyrir framan stóran hóp áhorfenda, en pilturinn er með stáltaugar — sérstaklega þar sem spyrnan tókst ekki alltaf hjá honum).
  http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/08/01/stones-i-d-been-practicing
  🙂

 11. Georg skrifar:

  Ástandið á mínum bæ var þannig að konan þurfti að mæta í vinnuna í nótt og ég var með strákinn minn, ég var vaknaður kl 6 í morgun á sama tíma og Elvar fór að sofa haha. Ég hefði eflaust látið mig hafa það og horft á leikinn í nótt hefði ég ekki verið í þessari klemmu haha

  Mjög flottur leikur hjá okkar mönnum. Þetta lítur mjög vel út þessa stundina og gaman að sjá hvað liðið spilaði vel gegn gríðarlega sterku liðið Juventus. Menn virðast finna sig vel í 3-4-3 leikkerfinu, kemur manni pínu á óvart hvað menn eru fljótir að koma sér inn í nýtt leikkerfi. John Stones klárlega maður leiksins að mínu mati þó Mirallas hafi átt mjög góðan seinni hálfleik, algjör match winner gullmoli sem Mirallas er, hann á eftir að blómstra á þessu tímabili ég er alveg viss um það. En þvílíkur þroski sem Stones sýndi í þessum leik. Hann var mjög rólegur á boltanum og var að spila boltanum mjög vel á samherja sína, svo vann hann öll einvígi í leiknum sem komu nálægt honum og átti svo glæsilega tæklingu til að bjarga marki, svo var hann hársbreidd frá því að skora mark í venjulegum leiktíma með skallanum í innanverða stöng. Svo kórónaði hann þroska sinn og þor með að chippa boltanum svona stórglæsilega úr vítinu. Að mínu mat lán í óláni að Alcaraz hafi meiðst þar sem Stones fær sénsinn núna til að sanna sig sem hann hefði hugsanlega ekki fengið hefði Alcaraz verið heill.

  Kannski ef það er eitthvað sem má setja út á Martínez í leiknum þá var það hvað hann setti Barkley seint inn á. Ég hefði viljað sjá hann koma inn á fyrir Pienaar og fá allavega 20-30 mín en ekki bara 3 mín. Hann kom gríðarlega sterkur inn á þessar 3 mín og var nálægt því að leggja upp hætturlegt færi og átti flott skot og skoraði svo örugglega úr vítinu sínu. Vonandi að hann fái að byrja næsta leik sem verður vonandi á móti Real Madrid.

  Spennandi tímar framunand. Svo bíður maður spenntur eftir að sjá Gerard Deulofeu spila.

  Nýr þjálfari, nýtt leikerfi, nýir leikmenn, ungir leikmenn að stíga upp og breikka hópinn. Þetta lítur mjög vel út þessa stundina.

  Til hamingju með daginn Elvar og Orri, ekki leiðinlegt að fá sigur á ítalíumeisturunum í afmælisgjöf.

 12. Ari S skrifar:

  Talandi um Anichebe… Ég sá bara hluta af leiknum, t.d. markið sem við skoruðum og svo „sá“ ég kveðjuna frá Elvari…… 🙂

  Juve var í sókn eða allavega með boltann og það var Anichebe að mér sýndist sem að hreinlega tók boltann af leikmanni Juve og upp úr því kom markið okkar…. hann var flottur í þessum leik. Átti byrjunaina á sókninni sem gaf okkur markið…

 13. Georg skrifar:

  Það er rétt Ari, Anichebe gerir mjög vel og fer vel afturfyrir miðjuna til að hirða boltann af leikmanni Juventus, hann sendir svo boltann á Gibson sem á mjög góða sendingu á Mirallas sem klárar þetta eins og hann er svo frægur fyrir.

  Anichebe gefur okkur öðruvísi hættur fram á við, það er gaman að sjá að hann er að þroskast mikið. Hinsvegar finnst mér ennþá vanta lykilatriðið í þennan leikmann og það er að skora mörk. Hann var mjög duglegur í leiknum og varnarmaður Juventus braut af honum trekk í trekk þrátt fyrir að ekki var dæmt brot í nema örfá skipti. Það er mjög erfitt að eiga við þennan skrokk. Nú er spurning þegar við erum farnir að spila með 2 leikmenn rétt fyrir aftan hann (Mirallas og Piennar í þessum leik) hvort það muni nýtast Anichebe betur. Ef hann er ekki að skora mörk þá er mjög mikilvægt að hann nýtist okkur þannig að hann leggji upp fyrir samherja sína.

 14. Elvar Örn skrifar:

  Everton mætir Real Madrid og nú er skráður tími kl 5pm sem er miðnætti hér á laugardaginn. Sjáum hvað setur.
  Verður magnaður leikur.

%d bloggers like this: