Man United vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir á Old Trafford á sunnudag kl. 16:00 til að freista þess að sigra Manchester United sem um þessar mundir eru á toppi töflunnar með nokkurt forskort á næsta lið, Manchester City. Árið 2012 var gott ár fyrir Everton hvað árangur gegn United varðar en Everton náði fjórum stigum úr tveimur leikjum gegn þeim: 1-0 sigur Everton á Goodison í upphafsleik núverandi tímabils og svo 4-4 jafnteflið á útivelli sem Alex Ferguson sagði að hefði kostað þá titilinn í fyrra. Þess má reyndar til gamans geta að Everton er með sama árangur gegn hinu Manchester liðinu (City) á árinu 2012: sigur á heimavelli og jafntefli á útivelli. Lið og leikmenn United þarf vart að kynna og það er ekki mjög mikil ástæða til bjartsýni fyrir leikinn því lið almennt séð fara yfirleitt ekki heim með mörg stig í fararteskinu eftir viðureignir á Old Trafford en Everton vann þar síðast árið 1992. Með (ólíklegum) sigri gæti Everton náð Tottenham (í fjórða sæti) að stigum en með tapi gæti Everton misst Arsenal fram úr sér. Arsenal menn eiga leik á útivelli á morgun við Sunderland.

Moyes sagði að Everton myndi spila til sigurs í leiknum og líklegt að ekkert verði gefið eftir frekar en í 4-4 jafnteflisleiknum. Hann gladdi stuðningsmenn okkar einnig með því að Fellaini myndi ná leiknum og hefur hann því hrist af sér meiðslin sem hann hlaut gegn Aston Villa. Ef Fellaini skorar í leiknum verður hann fyrsti leikmaður Everton til að skora gegn United í þremur deildarleikjum í röð síðan tímabilin 1962/63 og 1963/64 þegar Roy Vernon tók það að sér. Fellaini var jafnframt fyrsti Everton leikmaðurinn í fyrra til að skora gegn báðum Manchester liðunum á útivelli á sama árinu.

Það verða allir að eiga góðan dag til að Everton eigi möguleika á að vinna United en það er sérstaklega mikilvægt að Fellaini sé heill fyrir leikinn því hann leikur yfirleitt frábærlega gegn United og hefur hrellt vörn United manna sérstaklega í síðustu tveimur leikjum, en vörnin hefur verið þeirra veikasti hlekkur. Stuðningsmenn United munu því örugglega ekki vera fegnir að sjá sméttið á Fellaini þegar hann gengur inn á völlinn. United hefur þó sýnt það hinum megin á vellinum að það þarf bara að skora fleiri mörk en andstæðingurinn en þeir eru komnir með 60 mörk í 25 leikjum í deild, sem er mikið til Van Persie að þakka, sem hefur skorað rúmlega þriðjunginn af þeim. Það segir sig sjálft að það þarf að halda honum í skefjum en hann var oft Everton þyrnir í síðu þegar hann lék með Arsenal.

Hægri bakvarðarstaðan hefur verið vandamál undanfarið því bæði Coleman og Hibbo hafa verið meiddir en aðrir komu heilir undan landsleikjatörn, að því er fregnir herma. Jelavic setti auk þess inn mark í landsleik fyrir Króatana, sem ætti að gefa honum aukinn styrk eftir að hafa fengið ágætis hvíld undanfarið. Árangur Everton manna í landsleikjunum má annars lesa um hér.

Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Osman og Gibson á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Jelavic (eða Anichebe) frammi. Ef Howard og Neville spila verður það 250. deildarleikur þess fyrrnefnda og 300. leikur þess síðarnefnda, en báðir eru fyrrum United menn. Næsti leikur Silvain Distin verður jafnframt hans 400. Úrvalsdeildarleikur en hann er fyrsti erlendi leikmaðurinn sem nær þeim áfanga.

Þetta verður afskaplega erfiður leikur, svo ekki sé meira sagt, enda United með mjög gott lið. Ég ætla að gerast nokkuð bjartsýnn og spá jafntefli, 2-2. Fellaini með annað, Mirallas með hitt.

Í öðrum fréttum er það helst að glæsimarkið sem Baines skoraði beint úr aukaspyrnu af löngu færi gegn Newcastle var valið mark janúarmánaðar af lesendum Everton síðunnar úti.

Og Everton U18 náðu loksins að spila áður margfrestuðum FA bikarleik við Port Vale U18 á útivelli í fimmtu umferð. Leikurinn var bráðspennandi en Port Vale komst tvisvar yfir, fyrst á 65. mínútu og svo í framlengingu en Everton jafnaði tvisvar og náði að komast yfir rétt undir lok framlengingar. Lokastaðan því 2-3 og George Waring, Matthew Pennington og Chris Long skoruðu mörk Everton.

Hvernig líst ykkur annars á leikinn við United og hvernig haldið þið að Moyes stilli liðinu upp?

23 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Tvennt sem ég gleymdi að minnast á:

    Sky tók saman tölfræði Everton undanfarið, bæði með og án þess að hafa Neville í liðinu og hún er nokkuð sláandi:

    Með Neville innanborðs: 12 sigrar, 7 jafntefli, 1 tap.
    Án Neville: 1 sigur, 5 jafntefli og 1 tap.

    Hitt sem ég ætlaði að minnast á er að það er engin klausa í samningnum hans Fellaini, eins og fréttamiðlar voru að japla á við félagaskiptagluggann. Fellaini kom inn á þetta í viðtali, þar sem hann sagðist einnig vera ánægður hjá Everton:
    http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2275457/Marouane-Fellaini-released-clause-denied.html#axzz2KJw2eFod

  2. Elvar Örn skrifar:

    Silvan Distin er reyndar ekki að ná 400 leiknum fyrir Everton heldur í úrvalsdeildinni í heild enda verið skemmst þeirra þriggja í klúbbnum eða frá 2009.

    Annars mjög líklegt byrjunarlið hjá þér og vona að Neville spili í hægri bak og Jagielka því í miðaverði og stór spurning hvort hann hafi Jelavic eða Anichebe frammi.

    Væri alveg sársaukalaust að sigra þá á Trafford í fyrsta skipti í yfir 20 ár og væri sterkt fyrir sjálfstraustið.

  3. Halli skrifar:

    Ég á mjög erfitt með að spá sigri í þessum leik en 1-1 eru góð úrslit og Neville setur hann

  4. Finnur skrifar:

    Mikið rétt, Elvar. Það leiðréttist hér með. Takk fyrir það.

  5. Halli skrifar:

    Ég er búinn að velta mikið fyrir mér hvernig ég mundi vilja hafa liðið en þetta er niðurstaðan

    Howard

    Neville Jags Distin. Baines

    Mirallas Fellaini Gibson Pienaar

    Anichebe. Jelavic

  6. Elvar Örn skrifar:

    Halli, það er náttúrulega ekki séns að Moyse stilli upp tveimur framherjum á útivelli gegn United og mjög ólíklegt að hann hafi Osman ekki í liðinu.
    Hann hefur reyndar notað Anichebe á kantinum en með Pienaar og Mirallas heila þá tel ég ólíklegt að Anichebe og Jelavic byrji báðir. Ég myndi reyndar byrja með Jelavic og eiga Anichebe tilbúinn á bekknum.

  7. Georg skrifar:

    Flott lið Halli en við þekkjum Moyes mjög vel og hann mun ekki hafa 2 frammi gegn Utd á old trafford.
    Ég held að Moyes muni byrja með þetta lið:
    Howard

    Neville Jags Distin. Baines

    Mirallas Osman Gibson Pienaar
    —————Feillaini
    ——–Anichebe eða Jelavic

    Moyes hefur vonandi lært þá lexíu að hafa Jagielka núna í miðverði í stað Heitinga sem hefur verið ótrúlega kærulaus á þessari leiktíð. Eina óvissan fyrir mér er hvort hann haldi sig við Anechebe eða gefi Jelavic sénsinn. Anichebe á skilið að vera inná eftir mark og stoðsendingu í síðasta leik.

    Ég ætla að vera gríðarlga bjartsýnn og spá 1-2 sigri everton. Mörk frá Fellaini og Jelavic.

  8. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Sorry en ég held að við töpum 3-0, Mirallas meiðist og draumurinn um 4. sætið endanlega úr sögunni.
    Hefðum við náð að styrkja liðið í janúar væri kannski ennþá von en með spurs og chelski 6 og 7 stigum á undan þá er það ekki séns.

    • Teddi skrifar:

      Bara 2-0 tap þar sem Rooney og Howard fá rautt fyrir smá fighting.

  9. Gunnþór skrifar:

    því miður held ég að Ingvar hafi rétt fyrir sér,sammála honum með það að hefðum við náð að bæta við sterkum miðjumanni nú í janúar þá hefði þetta verið stór séns að ná topp fjórum en menn verða að spila betur en í undannförnum leikjum til að það takist, kalt mat.vonandi er þetta bara bull í mér og menn fari á tærnar aftur og fari að spila léttleikandi fótbolta eins og var fyrr í vetur.Málið er að stjórarnir eru farnir að loka bara á vinsri vænginn hjá okkur og þá virðist ekki vera næg gæði í vissum leikmönnu hægra meginn til að leisa það.

  10. Elvar Örn skrifar:

    Svartsýnis hjal er þetta, United verður heppið með jafntefli en það styttist alltaf í sigur á Trafford eftir 21 árs bið.
    Sigur hjá Everton endurheimtir 5 sætið og það sem meira væri bara 8 stigum á eftir M. City sem er í 2 sæti. Gerum nú deildinni greiða og jörðum þessa djöfla.
    Jafntefli væri auðvitað frábært en þetta er besti hópur Everton í 20 ár svo það er kominn tími á grimmd og sigur.

  11. Elvar Örn skrifar:

    Svo eigum við eftir að spila við City, Chelsea, Tottenham og Arsenal svo það getur allt gerst.
    Eigum reyndar eftir lið fyrir neðan okkur líka eins og QPR og Liverpool en skiptir svosem ekki öllu.

  12. Ari G skrifar:

    Ég ætla að vera mjög bjartsýnn. Spái Everton vinni 3:1 enda reikna ég þá ekki með að utd verði ekki með sterkustu mennina í byrjun. Þeir hvíla örugglega Rooney og Persie. Spái Phil Neville í hægri bakverði, Anichebe frammi hitt verður það vanalega Heitinga á bekknum. Leikur Everton hefur ekki verið nógu sannfærandi undanfarið kannski er það spennan í liðinu veit ekki. Núna eru Everton komnir upp við vegg til að sýna hvort þeir hafi getu til að ná 4 sætinu sem þeir hafa auðvitað enda hefði ég haldið með liðinu yfir 40 ár nema ég hefði trú á því.

  13. Elvar Örn skrifar:

    Þarna erum við að tala saman, aðeins meiri bjartsýni í gangi hjá Ara G.
    Annars verður þetta bara varalið Man.Utd. sem við mætum.
    http://visir.is/ferguson-mun-stilla-upp-tveimur-lidum-/article/2013130209088
    svo ég segi bara eins og Ari, 1-3 easy sigur fyri Everton.

  14. Elvar Örn skrifar:

    Mirallas og Fellaini munu skora, alveg viss um það.

  15. Ari S skrifar:

    Enn og aftur ertu að slá í gegn Finnur með flottum skrifum 🙂 takk takk 🙂

    Segi það sama … svartsýnis hjal er þetta 🙂 Ég ætla að leyfa mér að spá sigri og það verður Fellaini sem að skorar eina mark leiksins. Van Persie verður rekinn útaf eftir að hafa verið jarðaður af Hei… ég meina Jagielka. Heitinga verður með og slær í gegn með góðum leik og jafnvel marki (ef það verður ekki Fellaini)

    Áfram Everton að eilífu!

    ps. Neville hefur nú þegar náð 500 leikjum í úrvalsdeildinni en mun ná þeim 300. fyrir Everton gegn sínum gömlu félgum á morgunn. Eins með Howard það verður hans 250. fyrir Everton.

    ps.ps. Er ekki Howard alltaf að setja met með hverjum einsta leik? Það er að hann hefur spilað samfellt í þó nokkuð marga leiki… veit þetta eihver? Ég er sjálfur ekki viss með þetta?

  16. Helgi Hlynur skrifar:

    Ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik. Og vil ég þakka fyrir þjónustuna á þessari síðu okkar, hún er bara helv,,, góð og ég er farinn að fara daglega hér inn.
    Held að Anichebe skori í dag, var búinn að afskrifa hann og fanst hann vera búinn að missa það en hann er búinn að vera frábær í síðustu leikjum. það ætti að kenna manni að ef Moyes hefur trú á mönnum þá er ástæða til þess og vonandi á það líka við um Heitinga og hann fari að koma sterkur inn núna aftur.

  17. Dyncla skrifar:

    Þetta verður mjög erfiður leikur. Öllum leikjum fóru gegn okkur í gær og svo eiga elsku nágranna okkar heimaleik á morgun gegn WBA lið sem eru ekki í sitt besta formi. Pressan er á okkur. COYB. Spá: 1 – 1.

  18. Finnur skrifar:

    Takk fyrir það, Ari. Ég sé að ég get næst bara crowd-source-að þessar greinar með því setja inn eitthvað bull og lagað svo greinarnar út frá ábendingum. 🙂

    Helgi Hlynur: Takk fyrir það. Láttu sjá þig og í þér heyra sem oftast.

    Á meðan við bíðum eftir leik er hér viðtal við Moyes:
    http://www.express.co.uk/sport/football/376725/David-Moyes-Manchester-United-no-longer-scare-us

  19. Finnur skrifar:

    Ari: Stoke í desember var 200. leikur hans í röð í deildinni, þessi er því 209. ef hann spilar.

  20. Ari S skrifar:

    takk Finnur…:)

  21. Hólmar skrifar:

    Þetta verður vonandi hörkuleikur. Þetta eru þau tvö lið sem hafa náð flestum stigum í deildinni eftir að hafa lent undir. Eigum við því ekki að vona að United skori fyrst, þá ættum við allavega að ná jafntefli. Tippa á 2-2 jafntefli, Rooney og Van Persie fyrir United, Pienaar og Jagielke fyrir okkar menn.

    COYB!