Síðasti dagur félagaskiptagluggans

Mynd: Everton FC.

Maður átti ekki von á neinu í upphafi gluggans. Nema kannski helst að missa engan hákarl úr liðinu og kannski fá einn til tvo að láni. Svo allt í einu kemur stórt tilboð í hollenskan landsliðsmann (Leroy Fer), öllum að óvörum og allt fer á fullt. Sá féll því miður á læknisskoðun og Twente vildi ekki tengja upphæðina við fjölda leikja, eins og Everton óskaði eftir. Þegar leit út sem það mál væri búið þá allt í einu spretta upp sögusagnir um að Everton nái kannski að setja samninginn þannig upp að þeir fái hann að láni til að byrja með. Ég sé ekki af hverju það ætti að breyta miklu fyrir Twente, en hvað veit ég. Vonandi gengur það upp en þangað til ég heyri það staðfest mun ég gera ráð fyrir að ekkert gerist á þeim vígstöðvum.

Annar sem var títtnefndur var sóknarmaðurinn Álvaro Negredo (Sánchez) frá Sevilla og sagt að Everton hafi boðið 10M punda en Sevilla vill ekki selja lykilmann úr liðinu. Þar við situr. Annar sóknarmaður var nefndur sem átti að vera til vara ef Negredo klikkaði en hefur ekki farið hátt, líklega bara sögusagnir.

Einn leikmaður fór þó frá Everton í glugganum en það var ungliðinn Anton Forrester. Forrester (18 ára) hefur fengið að verma bekkinn en aldrei leikið með aðalliðinu og hefði verið með lausan samning við lok tímabils. Hann fór á free transfer til Blackburn en Everton fær prósentur af kaupverðinu ef þeir selja hann til annars liðs.

En nú er bara að bíða og sjá hvort einhver detti inn. Ætli þetta verði ekki spenna langt fram yfir síðustu mínútu, líkt og síðast…

Uppfæri þessa frétt ef ég heyri eitthvað meira.

Uppfærsla 15:12: Gleymdi að minnast á að Baines, Jagielka og Osman voru allir valdir í landsliðshóp Englands, sem mætir Brasilíumönnum í vináttuleik í næstu viku.

Uppfærsla 15:41: Follow Everton greindi frá því að tveimur tilboðum Everton hefði verið hafnað í Negredo í dag, fyrst upp á 10M evra og svo 14M evra.

Uppfærsla 18:34: Sögusagnir eru um að tilboð Everton í hægri bakvörðinn John Stones hjá Barnsley hafi verið tekið en hann er aðeins 18 ára gamall en hefur spilað með U19 ára liði Englendinga. Hann mun því væntanlega fara í læknisskoðun á eftir. Klúbburinn hefur ekki staðfest þetta en fréttin birtist meðal annars á Sky Sport. NSNO sagði að þetta gæti verið samningur upp að allt að 3M punda þó ekki sé víst hversu mikið er að marka það. Toffeeweb sagði að Wigan hefði einnig náð samningum um hann við Barnsley þannig að það getur brugðið til beggja vona.

Uppfærsla 21:10: Hmm… Nú er sagt að ungliðinn Magaye Gueye sé á leiðinni til Brest í Frakklandi. Hann var ágætur á síðasta tímabili á köflum en hefur lítið sést í ár, enda ekki að fara að slá Pienaar úr liðinu. Sel það ekki dýrara en ég keypti það. Flokkast enn sem komið er undir sögusagnir.

Uppfærsla 21:45: Bluekipper segir að Gueye sé ekki að fara til Brest heldur franska liðsins Troyes og á láni (til að byrja með). Enn flokkað sem sögusagnir. Og talandi um sögusagnir: sama síða greindi frá því að þar sem samningaviðræður um Leroy Fer virðast ekki vera að skila árángri hafi þeir virkjað klausu í samningi miðjumannsins Mohamed Diame hjá West Ham sem ku vera 3.5M. Einnig flokkað undir sögusagnir þangað til annað kemur í ljós.

Uppfærsla 22:00: Sky Sports nú með Gueye fréttina líka. Segja reyndar að hann sé á leiðinni burt þar sem hann fái lítið af sénsum í framhaldinu þar sem Everton sé dottið út úr báðum bikarkeppnunum. #hágæðablaðamennska #aaawwwkward.

Uppfærsla 22:15: Jæja, þeir hjá Sky Sports sáu að sér og leiðréttu þessa vitleysu um bikarkeppnirnar. Ekkert sérstakt að frétta annars enn og maður bara á refresh takkanum að vita hvort eitthvað meira gerist.

Uppfærsla 22:20: Staðfest! Ungliðinn John Stones er orðinn leikmaður Everton. Leikmaður fyrir framtíðina.

Uppfærsla 22:28: Sögusagnir um Mohamed Diame bornar til baka af varaformanni West Ham. Segir engin tilboð hafi borist í Diame.

Uppfærsla 22:41: Markvörðurinn Jack Butland farinn til Stoke (var tilkynnt fyrir nokkru síðan). Sagt var að hann væri á radarnum hjá Moyes en flestir þjálfarar Úrvalsdeildarinnar voru líklega að fylgjast með honum. Hefði verið gaman að sjá hann í Everton treyjunni.

Uppfærsla 23:00: Glugginn er formlega séð lokaður. Það er samt ekki ljóst hvort einhver bætist við ennþá því fréttirnar um það birtast oft nokkuð eftir á.

Uppfærsla 23:10: BBC birti frétt um John Stones. Telja að samningurinn, sem er til 5 og hálfs árs sé í kringum 3M þegar allt er talið og að „Chelsea, Aston Villa, Sunderland, Manchester City og  Wigan hafi sýnt honum áhuga“. NSNO benti á að hann gæti líka spilað í miðvarðarstöðunni.

Uppfærsla 23:39: Afraksturinn úr glugganum líklega ljós: Einn unlingalandsliðsmaður inn (John Stones), einn lánaður út til að öðlast reynslu (Barkley) og einn farinn frá félaginu (ungliðinn Forrester sem aldrei hefur komið inn á fyrir aðalliðið). Everton kom manni á óvart (eftir hógværar yfirlýsingar Moyes) og lagði fram allavega tvö stór tilboð í spennandi menn en náðu ekki að landa þeim. Leroy Fer komst næst því en feilaði á læknisskoðun og Seville neitaði að selja Negredo. Maður óttaðist samt mest að missa hákarl úr liðinu eftir allar sögusagnirnar sem eru búnar að ganga um Baines og Fellaini, til dæmis, en enn einn glugginn sýnir að þetta voru allt saman hugarórar blaðamanna. Gibson og Mirallas virðast loksins að jafna sig af meiðslum sínum og fara vonandi að nýtast Everton (betur) í kjölfarið. Fylgist aðeins með þessi í viðbót en á ekki von á að meira gerist.

Uppfærsla 23:53: Fyrsta viðtalið við John Stones er hér.

Uppfærsla 23:59: Dramað ekki alveg búið, því Sky var að tilkynna að Gueye sé farinn að láni til Brest. Ekki staðfest af klúbbnum ennþá þó.

Uppfærsla 00:01: Jú, staðfest. Gueye farinn.

Uppfærsla 00:08: Fréttin komin frá klúbbnum um Gueye. Brest fékk hann að láni út tímabilið. Ekki rætt um hvað tekur við eftir það. Kannski möguleiki á sölu. Kannski kemur hann aftur reynslunni ríkari.

Uppfærsla 00:28: Jæja, þetta er orðið ágætt. Væntanlega ekki meiri fréttir á leiðinni og því tími til að leggjast í fletið. Villa á laugardaginn.

16 Athugasemdir

  1. Haraldur Anton skrifar:

    Maður er að refresa síðurnar og bíða og vona. Það er erfitt að fara frá tölvunni í dag.

  2. Gunnþór skrifar:

    verðum að taka miðjumann eða sóknarmann eða hvorutveggja.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Lítur út fyrir að við séum að fá John Stones 18 ára bakvörð frá Barnsley sem er svo sem ágætt en varla forgangsatriði.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Sammála, þessi John Stones tekur varla þátt í aðalliðinu fyrr en eftir a.m.k. ár þó maður viti aldrei. Verðum að fá amk einn til, en helst tvo og sammála Gunnþóri en spurning hvort við viljum varnasinnaðan miðjumann eða frekar kantmann sem ég held að gæti reynst betur og svo auðvitað sóknarmann.
    Við erum þó ágætlega staddir með kantana og ég er viss um að Oviedo getur tekið meiri þátt í aðalliðinu á vinstri kantinum. Svo er mjög slæmt að Coleman og Mirallas hafi verið frá á sama tíma, það hefur verulega veikt hægri kantinn finnst mér.
    Held að Moyes galdri fram eitthvað á lokamínútunum.

  5. Elvar Örn skrifar:

    Er samt mjög ánægður með að fá ungann efnilegan dreng sem þessi John Stones virðist vera, gleymdi að taka það fram. Hann er að kosta líklega um 3 millur punda svo hann getur varla verið neitt slor.

  6. Ari S skrifar:

    Já ég er spenntur fyrir Stones en maður veit ekkert hversu tilbúinn hann er… var að sjá þetta á skysportnews… en vonandi kemur eitthvað síðasta kl tímann.

  7. Ari S skrifar:

    síaðsta hálftímann átti þetta að vera… 🙂

  8. Finnur skrifar:

    John Stones: Staðfest.
    http://everton.is/?p=3763

  9. Ari S skrifar:

    Var að sjá viðtal við kappann fyrir utan Goodison, kom vel út. Þakkaði Wigan fyrir að gera tilboð í sig og sýndi þeim virðingu með því. Var greinilega mjög ánægður með að koma til okkar.

    Er enn ekki búin að gefa upp von um að eitthvað gerist þann stutta tíma sem eftir er…. 2-3 mín hehe. Eru ekki gluggi með lánssamninga degi lengur?

  10. Ari S skrifar:

    ÞEtta átti að vera í „John Stones keyptur – staðfest“

  11. Finnur skrifar:

    Lánsglugginn lokar á sama tíma, held ég. Allavega gerði hann það í fyrra (Ofoe átti að koma á láni, ef ég man rétt) en náðist ekki fyrir lok gluggans.

  12. Ari S skrifar:

    Já ok… 🙂

  13. Teddi skrifar:

    Takk fyrir, enn og aftur.
    Flott að geta séð þetta sem skipti mestu máli hérna!

    Nú er bara að gefa meiðsladraugunum frí og halda áfram að pota inn mörkum, þá detta úrslitin oftar okkar megin.

  14. Elvar Örn skrifar:

    Moyes sagði í viðtali fyrir skemmstu að Everton hefði boðið í Alvaro Negredo sem mér finnst besta mál, það segir manni að það ættu að vera einhverjir peningar til í sumar svo ekki sé talað um peningana sem klúbburinn halar inn við það að komast í Meistaradeildina 🙂

    Hvernig spá menn leiknum á morgun?

    Ég hef nokkrar áhyggur af ástandi Goodison vallar þar sem hann virkaði mjög laus í sér og háll í leiknum gegn WBA, vonum þó að það komi ekki að sök gegn Aston Villa.

    Jelavic skorar á morgun, bara finn það á mér og svo er svakalega stutt í að Mirallas fari að skora.

  15. Finnur skrifar:

    Sammála því, Elvar.

    Var að skella inn færslu fyrir leikinn á morgun.
    http://everton.is/?p=3785

    Endilega skellið inn spá ykkar þar.