Newcastle vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Gleðilegt nýtt ár, lesendur góðir! Þegar litið er aftur til ársins 2012, sést glögglega sá stöðugi framgangur sem einkennt hefur Everton liðið undir David Moyes. Hvert ár, nánast undantekningar-laust, hefur liðið tekið framförum og Moyes. Það var þungt hljóðið í mönnum þegar Arteta var seldur en Moyes nýtti peningana vel, eins og alltaf, og stendur nú uppi með betra lið. Goal tók saman stigafjölda liða í úrvalsdeild árið 2012, frá janúar til desember 2012 og fann út að Everton væri í fjórða sæti ef deildin hefði byrjað í janúar og eru aðeins Man U og Man C með fleiri stig eftir árið. Nú er bara að vona að meiðsl og bönn setji ekki frekari strik í reikninginn en ef Everton nær öflugum seinni hluta tímabils, eins og oft vill verða, er aldrei að vita hversu langt þeir ná. Hægt er að sjá helstu svipmyndir frá Everton árinu 2012 í myndaseríu frá klúbbnum af þeim atvikum sem stóðu upp úr.

Næsti leikur er á morgun (mið) kl. 20:00 á útivelli gegn Newcastle, liðinu sem kom einna mest á óvart í fyrra, toppaði snemma og var í efsta sæti framan af (ef ég man rétt), en dalaði svo og rétt missti af Champions League sæti undir lokin (meðal annars vegna 2-0 taps gegn Everton í síðasta leik). Fyrri leikur liðanna var fjörugur og almennt mat óháðra að Newcastle hafi verið stálheppnir að taka eitt stig úr leiknum en tvö mörk voru ranglega dæmd af Everton og leikurinn endaði 2-2 (myndin hér að ofan sýnir viðbrögð Anichebe við því). Það verður erfitt verkefni að sækja þrjú stig á heimavöll Newcastle því Everton hefur jafnan gengið nokkuð illa þar. Aðeins 18 leikir af 80 hafa unnist, á móti 43 töpuðum (19 jafntefli) en frá árinu 2000 hefur Everton aðeins unnið þar tvisvar (síðast 2010/11). Newcastle hefur á móti unnið 6 og fjórum sinnum orðið jafntefli.

Þær slæmu fréttir bárust að meiðsli Gibson, sem tóku sig upp aftur í sigurleiknum gegn Wigan, væru nógu alvarleg til að hann yrði frá næstu fjórar vikur.  Hann verður því baksviðs næstu vikurnar að spila nýjasta Fifa leikinn við Mirallas, Neville, Hibbert og Coleman, sem einnig hafa verið meiddir undanfarið. Líklegt má þykja að Moyes bjóði Hitzlsperger áframhaldandi samning, fyrst ekki er hægt að treysta á að hafa Gibson og Neville til taks á næstu vikum, en skammtíma-samningur „hamarsins“ ku vera laus á næstunni. Og talandi um samninga: Coleman skrifaði undir fimm og hálfs árs samning við Everton sem nær til sumarsins 2018. Hann hefur staðið sig vel í hægri bakverðinum í fjarveru Hibbo og Neville og náð góðu sambandi við Mirallas á hægri kantinum — sem hefur gefið fólki von um að þar myndist annar „Bainaar öxull“. Moyes var kátur með samninginn í viðtali fyrir leikinn og sagði að Coleman ætti hann fyllilega skilið.

Fellaini lýsti því yfir að hann myndi ekki yfirgefa Everton á meðan samningurinn gildir — til 2016 — væri krafta hans óskað og að hann hefði flutt til Manchester þar sem hann fékk engan frið fyrir kvenkyns aðdáendum í Liverpool. Hann er sem betur fer laus úr þriggja leikja banni en öll merki benda hins vegar til þess að Neville verði ekki með þannig að ég ætla því að skjóta á eftirfarandi uppstillinginu: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Jagielka (í neyðar-bakverði). Hitzelsperger og Osman á miðjunni. Pienaar á vinstri kanti, Naismith á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Það er hálf ósanngjarnt að taka Anichebe út af eftir frammistöðuna í síðasta leik og kannski freistast Moyes til að setja Jelavic á bekkinn til að skerpa á honum en á síður von á því enda er eins og alltaf sé von á marki frá honum þó svo hann eigi slakan leik. Neville er þó líklega ekki langt frá og verður metinn á leikdegi. Ef svo er ætti Everton að geta hætt að spila Jagielka í hægri bakverðinum. Hjá Newcastle eru fjölmargir frá: Anita, Ben Arfa, Cabaye, Gosling, Guiterrez, Simpson, Ryan Taylor, Steven Taylor og Vuckic. Allir meiddir. Demba Ba er augljóslega maðurinn til að gæta en hann hefur skorað helming marka Newcastle (13 af 26) og skoraði bæði mörkin gegn Everton fyrr á tímabilinu. Hann á sem stendur í samningaviðræðum við önnur lið þannig að vonandi verður hann ekki með hugann við leikinn.

Allra augu verða einnig á vörn Newcastle, en þeir hafa fengið á sig 11 mörk í tveimur tapleikjum í deild úti í röð (gegn Arsenal og United) og verða væntanlega staðráðnir í að gera betur fyrir framan eigin áhorfendur en stjóri þeirra, Alan Pardew, kenndi þreytu um og viðurkenndi að sumir á bekknum hefðu ekki einu sinni verið leikhæfir. Þeir hafa ekki komið inn í mótið af sama krafti og í fyrra en einhver hafði á orði að þeir hefðu komið á óvart í fyrra en nú væri búið að kortleggja þá. Skulum vona að það sé rétt. BBC benti á að þeir hefðu verið í frjálsi falli síðan Alan Pardew skrifaði undir framlengingu á samningi til 2020. Þeir hafa m.a. tapað 5 af síðustu 6 leikjum í öllum keppnum og á þeim tíma aðeins unnið QPR 1-0 á heimavelli. Þeir eru nú í 15. sæti eftir 20 leiki, tveimur stigum fyrir ofan liðið í fallsæti. Everton er fyrir leikinn í 6. sæti með 33 stig eftir 20 leiki og getur með sigri komist upp fyrir Arsenal í 5. sæti en Arsenal menn misstigu sig lítillega í dag þegar þeir gerðu jafntefli gegn Southampton (og þóttu heppnir en Southampton komst í 1-0 og gerðu svo sjálfsmark).

Ég ætla að vera bjartsýnn sökum meiðslastöðu Newcastle og spá 2-1 sigri okkar manna. Distin með skallamark (það er kominn tími á hann!) og Naimsith með mark úr frákasti. Hvað segið þið?

12 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Gleðilegt ár. Hræðilegt að þurfa að nota Jagielka í hægri bakverðinum. Spurnig hvort Everton ætti að taka sjensinn og hafa Anichebe og Jelavic og fórna Þjóðverjanum Newcastle eru ekki sterkir varnarlega og sókn besta vörnin. Ég mundi vilja kaupa Lescott 6 til 8 millur hann er mjög góður i hægri bakverðinum og auðvitað líka í miðverðinum með Jagielka. Lescott á kannski 5 góð ár eftir og mér finnst í lagi að spæsa 6 til 8 millur i hann vonandi heimtar hann ekki 90000 pund á viku.

  2. Ari G skrifar:

    Gleymdi öðru Fellaini getur spilað líka sem aftasti varnarmaður treysti honum mun betur en Þjóðverjanum og svo treysti ég ekki Heitinga heldur. Allt í lagi að prófa þetta í einum leik og hafa Anichebe og Jelavic frammi og Osman fyrir aftan þá.

  3. Finnur skrifar:

    Þú meinar sem aftasti *miðju*maður? 🙂

  4. Orri skrifar:

    Ég óska öllu Everton fólki gleðilegs árs.Ég ætla bara að von að dómarinn ráði ekki úrslitunum á morgun,líkt dómarinn gerði fyrri leik okkar gegn Newcastle.Er ekki rétt að spá okkur mönnum 2-0 sigri.

  5. Ari G skrifar:

    Já auðvitað sem aftasti miðjumaður ekki varnarmaður til að hjálpa Heitinga og Distin. Hann er frábær líka í þessarri stöðu. Það yrði magnað að ´hafa Lescott og Jagielka saman næstu 5 ár í miðju varnarinnar.

  6. Ari S skrifar:

    Skil ekki þessa fordóma út í Heitinga. Vilja menn bara að hann fari ? Hann var okkar besti leikmaður á síðasta tímabili….. Ég er samt sammála að hann hefur ekki verið að standa sig vel á þessu tímabili en það er líka vegna þess að hann fær lítið að spila….ekki bara af því að hann sé svo lélegur eða slakur….

    Áfram Everton, sigur í dag ekkert annað!

    Ég vil ekki sjá Lescott!

  7. Ari G skrifar:

    Skil þig vegna Heitinga hann var góður síðasta tímabil en hann hefur aldrei heillað mig. Til að hann fái að spila meira þarftu að fórna einhverjum hverjum?. Efast um að Everton nái að landa Lescott vegna launakrafna en hann hefur alltaf heillað mig kannski er 30 ára frekar hár aldur. En Everton þarf mann til framtíðar í hjarta varnarinnar með Jagielka. Distin á kannski eftir að gera einn árs samning í sumar. Vonandi finnur Moyes ódýran og góðan varnarmann með Jagielka og ÉG vill líka góðan hægri bakvörð finnst Hibbert og Neville ekki nógu góðir en hef trú á Coleman. Auk þess einn góðan sóknarmann ef Everton ætlar að ná 4 sætinu verða þeir að auka breiddina.

  8. Finnur skrifar:

    Demba Ba verður ekki með…
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/20883771

  9. Ari S skrifar:

    Menn að kenna miðvörðunum okkar um þetta fyrsta mark hjá Newcastle.. mér fannst þetta eginlega vera Baines að kenna?

  10. Ari S skrifar:

    Þeir sem eru að lýsa meina ég….

  11. Finnur skrifar:

    Fjórir leikmenn að horfa á boltann. Allir sekir að hluta til.

  12. Ari S skrifar:

    Já kannski skilningsleysi hjá mivörðunum, Baines ekki heldur nógu vakandi…. en þetta var líka það eins „slæma“ sem hann gerði í leiknum. Var valinn maður leiksins en mér fannst Anichebe koma vel til greina þar líka.

    Markið hjá Baines var náttúrulega bara tórkostlegt, ég sagði við sjálfan mig….. nú skorar hann beint… (segi það samt alltaf he he ) og það gerðist!

    Og undirbúningurinn að seinna markinu okkar var frábær, mér fannstflott hvað Jelavić gerði vel í fyrirgjöfinni, Fellaini kom þarna aðeins við sögu og átti ágætis „comeback“ eftir bannið.

    Mjög sáttur við kvöldið og fínt að Chelsea fékk ekkert stig því þá er tapið gegn þeim búið að þurrkast út……. 🙂

    Gleðilegt ár, ekki slæm byrjun á 2013……. 🙂