West Brom – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

West Brom og Everton áttust við fyrr í dag og það ríkti bjartsýni í herbúðum Everton aðdáenda, enda þrír glæsilegir sigurleikir (í þremur leikjum) að baki og markatalan 9-1, okkar mönnum í vil. Fullskipað lið hjá okkur og eftir frammistöðuna í leiknum við Aston Villa var tilefni til bjartsýni. Þó Everton hafi verið á mikilli siglingu fyrir leikinn var ljóst að þetta yrði erfiður leikur, enda West Brom búnir að vera sterkir á heimavelli og, fyrir leikinn, ekki fengið á sig mark í 6 af 8 síðustu heimaleikjum.

Sama lið mætti West Brom og algjörlega yfirspilaði Aston Villa í síðasta deildarleik. Howard í markinu. Baines, Distin, Jagielka, Neville í vörninni. Gibson og Osman á miðjunni, Pienaar á vinstri kanti, Naismith á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Ég hafði svolitlar áhyggjur fyrir leikinn þar sem Gibson dró sig út úr írska landsliðshópnum en í ljós kom að það var ekki vegna meiðsla.

Everton byrjaði leikinn ágætlega, hélt boltanum vel og lét hann ganga, sífellt að leita að glufum í vörn West Brom. Everton var með boltann að mig minnir 60% fyrri hálfleiks en West Brom voru vel skipulagðir í vörninni, eins og vitað var að þeir yrði. Í raun var þetta svipað og gegn Aston Villa, nema færin létu á sér standa núna (og þegar þau komu voru menn ekki nógu einbeittir).

Það var lítið að gerast fyrsta hálftímann í leiknum — annað en að bæði Pienaar og Gibson virtust meiðast illa, fyrst Pienaar í tæklingu leikmanns WBA og síðar Gibson sem virtist togna í sendingu í einni sókninni. Meiðsli Pienaars voru þó ekki alvarleg, sem betur fer, og hann hélt áfram en Gibson þurfti að fara út af á 17. mínútu. Mjög blóðugt að missa hann út af, líklega ákveðinn vendipunktur í leiknum. Hibbert kom inn á í staðinn og tók hægri bakvörðinn en Neville tók stöðu Gibson.

Það liðu svo 13 mínútur þangað til fyrsta færið leit dagsins ljós. Frír skalli frá Shane Long í slána eftir fyrirgjöf og boltinn út aftur. Fellaini átti stuttu síðar skalla sem fór hárfínt yfir slána hjá West Brom. Færi WBA var betra en má segja að hurð hafi aldeilis skollið nærri hælum hjá báðum liðum. Jelavic átti svo skalla í vinstra hornið sem hefði orðið glæsimark ef einhver kraftur hefði verið á skallanum en markvörðurinn varði auðveldlega. Lítið annað gerðist þangað til WBA fékk færi rétt fyrir hálfleik sem Howard varði meistaralega. 0-0 í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik manni færri þar sem dómarinn sendi Fellaini út af að skipta um teip á sokkunum sínum (varð að vera með blátt teip, mátti ekki vera með hvítt!?!) og dómarinn sá ekki ástæðu til að bíða í 1-2 mínútur á meðan það var gert. Lét bara menn stilla upp og hefja leikinn. Dómarinn fannst manni annars eiga slæman dag í dag, þar sem hann virtist ekki þekkja reglurnar um hindrun, dæmdi stundum brot á þá sem brotið var á (til dæmis fyrir að það eitt að láta andstæðinginn stíga á ristina á sér) eða gaf útspark þegar boltinn fór í varnarmann og út af. Þó þetta kæmi niður á báðum liðum, var þó eitthvað meira um heimadóma, en ekkert sem hægt er að segja að hafi skipt sköpum í leiknum.

Það gerðist annars voðalega lítið fyrstu 10 mínútur seinni hálfleiks, þangað til Fellaini fékk sendingu inn í teig og gerði það sem hann gerir svo vel, leggur boltann fyrir sig með kassanum, snýr sér snöggt inni í teig og skýtur… en boltinn framhjá.

Mirallas kom inn á á 62. mínútu á hægri kantinn (fyrir Naismith) og var líflegur það sem eftir lifði leiks. Skemmtilegur leikmaður þar á ferð. Eitt af hans fyrstu verkum var að setja upp færi, sendingin fann reyndar engan á nærstönginni en boltinn barst beint fyrir fæturnar á Fellaini á fjærstönginni og fékk frítt skot að marki með aðeins markvörðinn til að koma boltanum framhjá en Fellaini lúðraði boltanum hátt upp í stúku. Ótrúlegt að horfa upp á þetta hjá þessum öfluga leikmanni. Á þeim tímapunkti fór maður að halda að þetta væri ekki að fara falla okkar megin í leiknum.

Og það reyndist rétt því West Brom brunaði upp í skyndisókn upp vinstri kantinn og náði sendingu fyrir markið og Shane Long potaði boltanum inn af stuttu færi. Mirallas átti skot sem var varið stuttu síðar en að öðru leyti vorum við bara að safna spjöldum á þeim tíma og ekki beint líklegir til að jafna. West Brom pakkaði rútunni fyrir framan markið og ætluðu greinilega að hanga á 1-0 sigrinum og lítið gekk að brjóta þá niður. Everton fór að færa sig upp á skaftið og reyna að opna aðeins leikinn og fyrir vikið gefa færa á sér.

West Brom skoraði svo annað mark með skalla upp úr horni á 82. mínútu þegar Brunt stingur af Fellaini í teignum og nær fríum skalla á markið og skorar. Endursýning sýndi reyndar að leikmaður West Brom hefði hindrað Howard í markinu. Dómarinn dæmdi ekkert á það og því 2-0 West Brom.  Ég held þetta sé þriðja ef ekki fjórða skipti sem Fellaini er í eigin vítateig að reyna að dekka mann andstæðinganna en er algjörlega út á þekju. Eins og hann er öflugur í sköllunum hinum megin er ótrúlegt að við séum að fá svona mörg mörk úr hornum frá mönnum sem hann á að vera að dekka.

Á lokamínútunum fékk Fellaini annað færi fyrir opnu marki en fékk boltann í hælinn á sér og boltinn barst frá marki. Ótrúlega frústrerandi. Ekki hans dagur og ekki hægt að kvarta yfir tapi ef menn nýta ekki færin sín — en West Brom áttu sigurinn skilið.

Manni sýndist að Everton liðið væri með betri og tekknískari leikmenn en West Brom, leikmenn sem gætu látið hlutina gerast en einhvern veginn brotnaði sóknin alltaf niður á lokakaflanum, fyrirgjöfin of há, menn ekki vakandi fyrir boltanum eða lokasending inni í teig ekki nógu nákvæm. Manni fannst burðarásarnir í liðinu á borð við Pienaar og Fellaini ekki vera að gefa 100% sem er annað en það sem við höfum séð í undanförnum leikjum. Pienaar sagði eftir leikinn að þetta hefði verið hans versta frammistaða í blárri skyrtu. Ég á erfitt með að muna eftir jafn slæmum leik hjá Fellaini líka…

Einkunnir Sky Sports: 6 á línuna, nema Howard sem fékk 8 og varamaðurinn Mirallas fékk 7. West Brom fékk 7 á nær alla línuna, nema ein sexa og fjórar áttur. Döpur frammistaða hjá okkar mönnum eftir frábæra frammistöðu í síðustu þremur leikjum. En, ef við lítum á björtu hliðarnar má segja að ef okkur hefði verið boðið fyrir tímabilið þrír sigrar í fyrstu fjórum leikjunum hefðum við væntanlega gripið það fegins hendi. Nú er bara að vona að Gibson nái að nýta hvíldina vel og verði tilbúinn í Newcastle leikinn eftir rúmar tvær vikur.

11 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Rakst á skemmtilegt vídeó af nýja miðjumanninum okkar (Vadis Odjidja)…

  2. Haraldur Anton skrifar:

    Þetta hjálpaði manni ekkert í vinnunni.

  3. Gunnþór skrifar:

    þetta er ekkert flókið hibbert og neville eiga ekki að spila saman inná vellinnum það er margreynt.erum svo geldir sóknarlega með þá tvo saman inná því miður.

  4. Ari skrifar:

    Mér finnst Gibson vera gífurlega mikilvægur fyrir liðið. Hann gerir alla leikmenn betri í kringum sig. Ég veit ekki alveg af hverju en það er ekki tilviljun að okkur hefur gengið vel síðan að hannkom til liðsins.

    Held áfram að vera bjartsýnn þrátt fyrir ósigur okkar gegn West Brom. Vonandi er Gibson ekki mikið meiddur, hans er sárt saknað það kom í ljós gegn WBA.

    Gunnþór, ég viet ekki alveg hvort ég eigi að skrifa undir það sem þú sagðir um Neville & Hibbert en þeir eru ekki skapandi það er öllum ljóst.

    Fellaini hefur beðist afsökunar á gengi sínu í leiknum og lofar betri leik næst.

    „Sorry guys for today … Next time, I will do better ! „

  5. Finnur skrifar:

    Kannski ágætt að fá landsleikja-„hvíld“ núna, svo Gibson nái að jafna sig.

    En að öðru: Executioner’s Bong tók fyrir nýja manninn aðeins ítarlegar en síðast:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/09/02/everton-scout-report-vadis-odidja-ofoe-analysis/

    „Vadis is a defensive midfielder by trade who has in recent times developed more into an attacking midfielder. His form playing in this role last season led to him being nominated for the Jupiler Pro Player of the Year award after his best season at Brugge.“

  6. Finnur skrifar:

    Við könnumst ekkert við þetta ástand, er það nokkuð?
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/19466521

  7. Finnur skrifar:

    Þetta er hins vegar öllu verra (og ekki jafn algengt):
    http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/09/03/pienaar-out-of-south-africa-squad

  8. Finnur skrifar:

    Slæmar fréttir fyrir Pienaar (sjá síðustu frétt), en Baines ætti nú að fá tækifæri með enska landsliðinu þar sem Cole var að meiðast:
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/19460608

  9. Gunnþór skrifar:

    baines er betri bakvörður en Cole finnst mér í alla staði,ég er kannski pínu hlutdrægur en þetta er staðreynd.

  10. Finnur skrifar:

    Það tók einhver saman tölfræðina þeirra, man ég, og þá kom út að Cole er aðeins betri varnarlega en Baines en Baines var aftur á móti betri sóknarlega (mörk og lykil/stoðsendingar). Cole er auk þess að komast á aldur (31 ef ég man rétt), með brothættan ökkla og reglulega frá vegna þess en Baines hefur verið að taka heilu tímabilin hvíldarlaust.