Aston Villa vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Aston Villa á morgun (lau) kl. 14:00 í öðrum leik tímabilsins 2012/13. Everton fékk óskabyrjun í erfiðum fyrsta leik gegn næstum-því-meisturum Man United þar sem Fellaini var gjörsamlega óstöðvandi og (ásamt frábærri frammistöðu allra Everton leikmannanna — Jagielka, Distin, Hibbert, o.s.frv.) lagði grunninn að 1-0 sigri á nágrönnunum.

Væntingarnar eru því miklar fyrir næsta leik en það er (eins og nefnt hefur verið) ekki hægt að dæma neitt eftir fyrsta leikinn enda hefur Everton liðið verið þekkt fyrir það á undanförnum tímabilum að gefa allt í leikina við stóru liðin en eiga svo í erfiðleikum með liðin sem (á pappír) eiga að vera lakari lið (og í sumum tilfellum mun lakari). Það verður spennandi að sjá hvort Everton liðið nær upp sömu stemmingu gegn Aston Villa og gegn United en sigur í leiknum á morgun mun gefa góða vísbendingu um hvað er í vændum í framhaldinu.

Ef fyrsti leikurinn þótti erfið prófraun þá er sú næsta ekki síðri því Villa er ákveðið draugalið fyrir Everton en það eru heil átta tímabil síðan Everton vann síðast á Villa Park (skv. tölfræði frá klúbbnum)! Í 6 af síðustu 7 leikjum þessara liða hefur Everton komist yfir en Villa náð að jafna. Everton hefur auk þess aðeins sigrað í sínum fyrstu tveimur leikjum tímabilsins frá stofnun Úrvalsdeildar (fyrst 93/94 og svo 07/08).

Sigur í leiknum á morgun yrði hundraðasti sigurleikur Everton á útivelli í Úrvalsdeildinni og tvö-hundraðasti sigur Moyes í öllum keppnum við stjórnvölinn hjá Everton. Ef Everton skorar væri það þrjú-hundraðasta mark Everton gegn Villa, en engin tvö lið hafa mæst jafn oft í ensku deildinni, 194 sinnum, allt í efstu deild, sem kemur ekki á óvart því ekkert lið hefur leikið fleiri tímabil í efstu ensku deildinni en Everton.

Uppstilling leiksins verður líklega nákvæmlega sú sama og í leiknum gegn United, nema ef vera skyldi að einhver hafi meiðst en bæði Jelavic og Distin gætu verið tæpir, ef marka má síðasta leik. Jelavic virtist hafa tognað á læri (nema það hafi bara verið krampi) og Distin virtist fá högg á bakið. Kannski Naismith/Anichebe/Vellios fái þá séns frammi og Heitinga (sem kjörinn var leikmaður síðasta tímabils) er augljós kostur í miðverðinum. Moyes sagði að Mirallas væri enn á eftir öðrum leikmönnum Everton liðsins þegar kemur að leikformi, en hann (Mirallas) var meiddur í hluta undirbúningstímabilsins. Ég reikna því ekki með að Mirallas komi inn á nema í mesta lagi í síðasta þriðjungi leiksins. Mirallas gæti líka leikið á hægri kanti en ég sé ekki að Osman verði tekinn úr liðinu þar sem hann stóð sig mjög vel gegn United (var mjög nálægt því að skora í allavega tveimur færum — sláarskot og glæsileg markvarsla) og Osman hefur auk þess gengið mjög vel að skora gegn Aston Villa (5 mörk á ferlinum). Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka og Hibbert Norris. Miðjan: Nevilla og Gibson. Pienaar vinstra megin, Osman hægra megin. Jelavic frammi og Fellaini fyrir aftan hann. Hjá Villa eru Richard Dunne, Marc Albrighton, Samir Carruthers, Gary Gardner og Gabby Agbonlahor meiddir og Alan Hutton og Stephen Warnock í útlegð. Darren Bent var einnig sagður hafa meiðst í vikunni en ætti að vera orðinn góður.

Þó að Villa, undir stjórn nýs framkvæmdastjóra (Paul Lambert), hafi tapað fyrsta leiknum og aðeins (án hans) unnið einn af síðustu 13 heimaleikjum ætla ég að stilla væntingum í hóf eins og gegn United. Þrátt fyrir að við ættum að vinna bæði heima og úti á síðasta tímabili væri ég sáttur við jafntefli og hæstánægður með 0-1 sigur. Spái marki hjá okkar mönnum frá Osman og/eða Coleman en bendi á að Darren Bent hefur skorað þrjú mörk í þremur leikjum sínum gegn Everton fyrir Villa.

Myndasafn af mörgum eftirminnilegum atvikum úr leikjum gegn Aston Villa sem félagið rifjaði upp má sjá hér.

Í öðrum fréttum er það helst að hægt er nú að kaupa (og selja) miða á Everton leikina beint af öðrum Everton aðdáendum, í gegnum StubHub, frá og með leiknum við Newcastle. Hvað ætli mörg félög á Englandi bjóði stuðningsmönnum sínum að skiptast á miðum sín á milli beint, án þess að taka smá þóknun?

Það var frábær mæting og stemming á Ölveri á leiknum gegn United og við vonumst til að sjá sem flesta aftur á morgun.

10 Athugasemdir

  1. Haraldur Anton skrifar:

    Verð vaknaður eldsnemma til að taka góðan hjólarúnt og mættur á fyrir 3 áfram Everton 🙂

  2. Finnur skrifar:

    Hljómar vel, en þú þarft að vera mættur fyrir 2 að íslenskum tíma! Leikurinn er 3 að enskum tíma. 🙂

  3. Elvar Örn skrifar:

    Þrír miðlar segja Niang M’Baye hafi samið við Everton en Arsenal og Milan voru einnig að bera víjurnar í hann og var hann á trial hjá Arsenal fyrr í sumar og hjá okkur nú fyrir skemmstu. Magnað ef satt reynist en hann er 17 ára Frakki/Senegali sem spilar með Caen í Frakklandi og er gríðarlegt efni að sögn. Verðmiðinn hefur verið 6m£ en nú er talað um 2m£, en þar er stórmunur á. Moyse ekki vanur að leggja mikinn pening í unga leikmenn.
    Fréttir fyrr í dag sögðu hann á leið til Milan svo það er ekkert víst í þessu.

    Hvernig væri nú að taka svo Villa á útivelli?

  4. Finnur skrifar:

    Whaaaat!? Ég finn bara þetta…
    http://www.mirror.co.uk/sport/football/transfer-news/everton-transfer-news-mbaye-niang-1278577
    Hvaða aðra miðla fannstu?

    2M punda hljómar mun betur en 5-6M punda sem upphaflega var talað um…

  5. Elvar Örn skrifar:

    Sá það fyrst hér og þeir vitna í eigin heimildann.

    http://efcfeelinblue.com/niang-set-to-sign/?utm_source=rss&utm_medium=rss&utm_campaign=niang-set-to-sign

    Svo á Mirror og þriðja vitnaði að mig minnir í Mirror, sem er ekki áreiðanlegasti miðllinn.

    Þegar Cahill fór og Mirallas kom voru heimildarmenm á bluekippet og fleiri stöðum komnir með fréttina c.a. deginum áður en var tilkynnt formlega.

    Svo er Adam Johnson farinn til Sunderland, hefði viljað hann.

  6. Halli skrifar:

    Spenntur.is

  7. Elvar Örn skrifar:

    Komið nú á sky, nohhh

    http://www1.skysports.com/football/news/11671/8016656

    Sjáumst á Ölveri.

  8. Georg skrifar:

    Elvar ég var að fara henda þessum link inn af skysports. Vonandi að við náum að landa honum. Alltaf gaman að fá unga og efnilega leikmenn, án þess að vita mikið um kauða, en það er talað mjög vel um hann. 1 klst í leik og spennan magnast, bið að heilsa öllum sem mæta á Ölver.

  9. Georg skrifar:

    Fáum við annað Hibbert mark í dag? Frábært myndband beint úr stúkunni fyrir aftan markið þegar hibbert skoraði.

  10. Halli skrifar:

    Flottur sigur í dag hjá okkar mönnum