Tottenham – Everton 2-0

Ég held það sé ansi stór pöntun (eins og sá enski segir) að ætlast til þess að við næðum sigri gegn Tottenham á útivelli í dag með um sex lykilmenn frá vegna meiðsla. Við erum með minnstu breiddina líklega í allri deildinni og bekkurinn fer bráðum að líkjast drengjakór ef fram fer sem horfir að einu mennirnir sem eftir eru koma beint úr ungliðaakademíunni. Við jafnframt í vandræðum með að svo mikið sem hitta á rammann undanfarna leiki en Tottenham í keppni um titilinn eftir að hafa verið á mikilli siglingu undanfarið (aðeins tapað heima fyrir Man City).

Það skal þó ekki tekið af Tottenham að þeir eru með sterkt sem lék mjög vel í gær, barðist um alla bolta og áttu sigurinn skilið. Við töpuðum fyrir Newcastle fyrir nokkru síðan á tímabilinu en þeir voru þá (eins og Tottenham nú) á mikilli siglingu og að blanda sér í toppbaráttuna eftir fantagóða byrjun á tímabilinu. Mér fannst Newcastle ekki eiga sigurinn skilið þá og (metið út frá þeim leik) skildi ég eiginlega ekki almennilega af hverju þeim hefði gengið svona vel (enda dalað síðan þá). Tottenham aftur á móti átti sigurinn skilið og ég get vel skilið af hverju þeir eru jafnir Man United að stigum. Meira að segja má halda fram að ef bara leikir þessara tveggja liða gegn okkur eru skoðaðir þá gæti maður metið það sem svo að Tottenham eigi eftir að enda hærra en Man United. En það er margt sem getur breyst.

Einhver Tottenham leikmaðurinn lét hafa það eftir sér fyrir leikinn að Redknapp, stjóri Tottenham, væri ekki mikið fyrir taktísku hlið fótboltans og það væri lítið sem ekkert lagt upp með slíkt fyrir leiki. Redknapp gæti lært þar ýmislegt af Moyes sem er lunkinn við að taka bitið úr leik andstæðinganna og frústrera þá með taktík sinni. Gareth Bale var slakari en venjulega og var nokkrum sinnum pakkað saman af Neville, eins og gerðist reglulega í tveimur síðustu leiki sem þeir hafa mæst. Einnig var Adebayor, framherji þeirra (sem hefur verið iðinn við að skora á tímabilinu), einfaldlega glataður og var skipt út af fyrir Pavlyuchenko.

Því miður (fyrir okkur) var Saha eignlega alveg jafn slæmur upp við mark Tottenham en það er ótrúlega frústrerandi að sjá færin hjá honum sem fara forgörðum þessa dagana. Hann gerði reyndar ágætlega í upphafi leiks þegar hann var næstum búinn að lauma inn marki með skoti utarlega í vítateginum (en skaut rétt framhjá hægra megin) en eftir því sem leið á leikinn versnaði frammistaðan hjá honum. Anichebe átti spretti þar sem hann nýtti sér styrk sinn vel til að halda boltanum frammi eða vinna hornspyrnu en að öðru leyti komst hann ekki í ákjósanleg færi.

Pressan var mestmegnis frá Tottenham en við vörðumst vel og náðum með góðri baráttu að takmarka færin þeirra þannig að (eins og á móti Arsenal) þurfti gott einstaklingsframtak til að skilja liðin að — og það gerðist tvisvar. Það fyrra kom á 35. mín þegar Lennon náði að nýta sér hvernig boltinn skoppaði á hægri kantinum til að komast fram hjá Baines, sem var næstum búinn að ná að komast fyrir sendinguna en Lennon brunar inn í teig og nær skoti framhjá fjórum leikmönnum Everton sem eru tæklandi í allar áttir til að koma í veg fyrir skotið (sjá mynd). Skotið ekki sérstakt en nóg til að skora. Hitt markið var glæsimark upp úr engu eftir þvílíkt dúndurskot af löngu færi hjá Assou-Ekotto (svipar pínu til sigurmarks Newcastle gegn okkur), en boltinn breytti stefnu af Tim Cahill og fór framhjá Howard. Lítið yfir því að kvarta.

Við áttum einhver færi, Saha átti annað skot framhjá og Donovan yfir. Það lifnaði svo eitthvað yfir leik okkar manna þegar Drenthe kom inn á fyrir Anichebe á 68. mínútu en við náðum samt ekki að komast aftur inn í leikinn. Við áttum í erfiðleikum með að koma okkur í almennileg færi (eða allavega að klára þau sem við fengum). Ísl. þulurinn benti reyndar á að við áttum að fá eina vítaspyrnu undir lokin (sá enski sagði tvær) en fengum ekki (við sem heima sátum vildum fá tvær og Tottenham líklega eina í leiknum) en við hefðum þurft tvö mörk til að fá eitthvað út úr þessum leik og það var lítið sem féll með okkur. Við komumst ekki einu sinni frá þessum leik án þess að lenda í meiðslum en miðvörðurinn Distin, kletturinn í vörninni hjá okkur, meiddist og var skipt út fyrir ungliðann Duffy á 59. mínútu. Þetta er nokkuð sem við megum alls ekki við, enda nýbúin að missa hinn miðvörðinn, landsliðsmanninn Jagielka, í margar vikur í meiðsli. Duffy stóð sig svo sem ágætlega, bara vonandi að hann meiðist ekki líka!

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Neville 7, Distin 8, Heitinga 6, Baines 6, Fellaini 6, Donovan 7, Bily 5, Cahill 6, Anichebe 6, Saha 5. Varamenn: Shane Duffy 6, Drenthe 7, Gueye 6. Tottenham kom mjög vel út úr einkunnagöfinni, með nær eingöngu sjöur og áttur.

Comments are closed.