Arsenal vs. Everton

Við mætum Arsenal á útivelli á laugardaginn kl. 15:00 en þetta er fyrsti leikur okkar við Arsenal eftir söluna á Arteta til þeirra. 

Þetta verður erfiður leikur enda Arsenal liðið komið á beinu brautina eftir arfaslaka byrjun á tímabilinu og Van Persie farinn að skora að vild, að því er virðist. Arsenal er jafnframt það lið sem okkur virðist alltaf ganga einna verst gegn en tölfræðin segir hlutföllin vera 18% : 15% : 67% (S:J:T) á heimavelli þeirra og þarf að fara 9 leiki aftur í tímann til að finna síðasta sigurleik gegn þeim — 17 leiki ef við teljum bara leiki við þá á útivelli (tímabilið 95/96!). Löngu kominn tími til að breyta því.

Arsenal tryggði sér áframhaldandi þátttöku í Meistaradeildinni á þriðjudaginn siðastliðinn þó svo þeir hafi tapað fyrir Olympiakos 3-1 í leik þar sem þeir misstu bæði markvörðinn Fabianski og vinstri bakvörðinn Santos í meiðsli. Þar að auki eru Carl Jenkinson, Kieran Gibbs og Bacary Sagna einnig á sjúkralistanum hjá þeim en það gerir það að verkum að það verða lítt reyndari menn í bakverðinum báðum  megin hjá þeim, sem við getum vonandi nýtt okkur. Hjá okkur voru Distin, Neville og Rodwell á bekknum í síðasta leik og því nálægt því að vera leikfærir eftir meiðsli (Rodwell sérstaklega sem kom inn á) og Saha verður líklega fær í leikinn (eftir létta tognun) en óvíst með Drenthe. Anichebe er eftir sem áður meiddur, eftir því sem næst verður komist.

Í öðrum fréttum er það helst að U23 ára landsliðsmarkvörður Bandaríkjanna, Sean Johnson (22 ára), æfir þessa vikuna með Everton. Kannski ekki skrýtið þegar litið er til þess að markvarðarþjálfari bandaríska landsliðsins er Chris Woods sem einnig þjálfar þá Howard (aðalmarkvörð bandaríska landsliðsins) og Heinnemann (varamarkvörð bandaríska landsliðsins) hjá Everton.

Comments are closed.