Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton vs. QPR - Everton.is

Everton vs. QPR

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við QPR á heimavelli á morgun kl. 14:00. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið því QPR eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, eru í næst-neðsta sætinu, aðeins stigi ofar en Reading og þurfa heil sjö stig til að jafna stigafjöldann í næsta lið fyrir ofan sig (Wigan — sem, nota bene, eiga leik til góða).

Síðasti leikur Everton endaði með jafntefli en það var ekki laust við að maður væri sammála Moyes með það að vera ósáttur við aðeins eitt stig af erfiðum útivelli gegn Tottenham liðinu sem er í baráttunni um meistaradeildarsæti.

Everton þarf nauðsynlega á stigunum að halda til að halda í við liðin fyrir ofan sig og reyna að setja smá spennu í samkeppninni um fjórða sætið. Það eru ekki nema 6 stig í það og Everton á leik til góða. Everton virðist auk þess vera að enda tímabilið jafn vel og oft áður en liðið vann síðustu þrjá heimaleiki og fékk auk þess fékk 10 stig af 12 mögulegum úr síðustu fjórum leikjum. Þess ber að geta að *engu* af liðunum 5 fyrir ofan Everton gekk jafn vel í síðustu fjórum deildarleikjum sínum: United, City, Chelsea og Arsenal fengu öll 9 stig hvert en Tottenham aðeins fjögur. Litli bróðir Everton (sem eru í sætinu fyrir neðan okkar menn) fékk 7 stig úr síðustu fjórum leikjum. Everton náði því (þegar síðustu fjórir leikir eru skoðaðir) að saxa á forskot liðanna fyrir ofan um að minnsta kosti 1 stig og auka forskotið á litla bróður um tvö stig. Þess má einnig geta að Moyes hefur mætt Harry Redknapp, stjóra QPR, 19 sinnum og haft betur 9 sinnum, 5 sinnum gert jafntefli og 5 sinnum tapað. Önnur random tölfræðistaðreynd: Leighton Baines hefur skapað fleiri færi fyrir samherja sína á tímabilinu (samtals 97) en allir aðrir leikmenn í efstu 5 deildum Evrópu.

Það er þó erfiður leikur fyrir höndum því Everton hefur ekki riðið feitum hesti frá viðureignum við QPR undanfarið. Þeir hafa náttúrulega spilað í neðri deildum þangað til nýlega og því hefur Everton aðeins leikið þrjá leiki (síðan 1996) gegn þeim en árangurinn er arfaslakur: Einn leikur tapaðist (á Goodison Park) og tveir enduðu með 1-1 jafntefli. Fyrir utan einn sigurleik árið 1995 hefur Everton ekki unnið QPR á heimavelli síðan í nóvember 1990, sem er sami mánuður og Margaret Thatcher, sem lést á dögunum, sagði af sér sem forsætisráðherra.

Fellaini og Pienaar eru lausir við leikbönn síðustu tveggja leikja og Hibbert er búinn að ná sér af meiðslum þannig að þetta verður fullskipað lið eftir því sem best er vitað. Hjá QPR er Bobby Zamora í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald og Shaun Wright-Phillips og Armand Traore eru meiddir. Gera verður ráð fyrir því að bæði Fellaini og Pienaar byrji leikinn eftir góða hvíld uppi í stúku nýlega. Líkleg uppstilling því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Pienaar og Mirallas á köntunum. Gibson og Osman á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Anichebe frammi.

Í hraðsoðnum fréttum undanfarinna daga er þetta helst:

– Jagielka mun taka við fyrirliðabandinu af Phil Neville, þegar sá síðarnefndi hættir í lok tímabils.
– Markið sem Leon Osman skoraði gegn Man City var valið mark mars-mánaðar af lesendum evertonfc.com síðunnar (hægt er að sjá markið hér).
– Derby leikurinn við litla bróður hefur verið færður aftur um einn dag, til 5. maí.
– Upptökuvélar verða staðsettar á marklínu í mörkunum á Goodison Park á næsta tímabili til að (meðal annars) koma í veg fyrir mistök eins og áttu sér stað tvisvar í leik Everton gegn Newcastle á tímabilinu (þar sem Everton skoraði fjögur mörk en dómarinn sá bara ástæðu til að láta tvö þeirra standa í leik sem endaði 2-2).
– U21 árs liðið gerði jafntefli við Fulham U21 1-1. Athygli vakti að Tony Hibbert var orðinn nógu góður til að spila leikinn eftir fjóra mánuði af meiðslum. Miðvörðurinn Shane Duffy kom Everton yfir og skoraði þar með fimmta mark sitt á tímabilinu. Þetta var jafnframt 11. leikur U21 árs liðsins í röð án taps.
– U18 ára liðið tapaði hins vegar 2-4 fyrir Norwich U18 í undanúrslitum Youth Cup í leik þar sem varnarmaður Everton Ibou Touray fékk rautt spjald (sjá vídeó).
– Jake Bidwell framlengdi lán sitt hjá Brentford um annan mánuð en þeir eru við það að komast upp í Championship deildina.

En hvað um það — það er komið að leik við QPR á morgun. Spái 2-1 sigri okkar manna. Jelavic með annað mark Everton eftir að QPR menn komast yfir, skora sjálfsmark og fá rautt (ekki allt í sömu sókninni). 🙂 Hver er ykkar spá?

Það er annars skyldumæting á Ölver á morgun og svo er árshátíð á Nítjándu um kvöldið. Strax farinn að hlakka til!

1 athugasemd

  1. Halli skrifar:

    Verðum að fá sigur til að gera kvöldið enn skemmtilegra. Ég ætla að setja 3-1 á þennan leik