Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Swansea – Everton 0-3 - Everton.is

Swansea – Everton 0-3

Mynd: Everton FC.

Ótrúlegur leikur að baki. Fjörutíu færi, þrjú mörk, rautt spjald, sláin, allavega tvisvar varið á línu. Fjörugur leikur og unun að horfa á þetta léttleikandi og sókndjarfa lið Everton sem virðist hafa tekið næsta skrefið í þróuninni og er farið að smella.

Hibbert, Gibson og Jelavic allir meiddir og Distin fékk að víkja fyrir Heitinga. Flestir reiknuðu með því að Neville tæki þá hægri bakvörðinn en Moyes tók þá ákvörðun að setja Coleman þar og halda Neville á miðjunni. Uppstillingin því: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman (fyrsti deildarleikur hans í hægri bakverði). Pienaar vinstra megin, Osman og Neville á miðjunni, Mirallas hægra megin. Anichebe frammi og Fellaini fyrir aftan hann. Bekkurinn: Mucha, Naismith, Gueye, Vellios, Duffy, Distin, Oviedo.

Það var ótrúleg einstefna í leiknum alveg frá fyrstu mínútu. Everton átti á fyrstu þremur mínútum fjögur skot að marki (þar af þrjú sem rötuðu á markið) og héldu boltanum um 75% fyrsta hluta leiks (um 25 mínútur, ef ég man rétt). Það tók auk þess Swansea um hálftíma að ná fyrsta færinu en þá var Everton búið að raða skotum á Swansea markið.

Það var kom því alls ekki á óvart að Everton skoraði fyrsta markið, en það kom á 21. mínútu. Baines tók aukaspyrnu af miðjum velli vinstra megin og sendi langa sendingu inn í teig á Fellaini, sem tekur boltann á kassann og niður og fer þannig framhjá einum varnarmanni sem reyndi að skalla frá. Hann er næstum búinn að missa boltann til næsta varnarmanns en náði á síðustu stundu að reyna að skalla á Anichebe en lokar augunum því varnarmaðurinn setur næstum fótinn í andlitið á honum en í hamaganginum slengir hann hendi í boltann sem berst til Anichebe sem klárar færið með sóma. Everton komið verðskuldað 0-1 yfir (verðskuldað miðað við spilamennskuna), þó markið hefði kannski ekki verið löglegt. Kannski áttum við það inni eftir að hafa tvö lögleg mörk dæmd af í síðasta leik. Gaman að sjá Anichebe nýta fjarveru Jelavic vel.

Ki hjá Swansea átti skotfæri af löngu færi en rétt framhjá. Hefði verið óverjandi fyrir Howard ef Ki hefði hitt á markið.

Annað mark Everton kom svo á 44. mínútu þegar Fellaini sendir upp hægri kantinn á Pienaar, sem brunar upp og sendir fyrir markið þar sem Mirallas er mættur fremstur og skýtur. Markvörðurinn Vorm ver boltann í slána en Mirallas fylgir þessu vel eftir og skallar í markið. 0-2 Everton og fyrsta deildarmark Mirallas fyrir Everton staðreynd, en það reyndist vera sjö þúsundasta mark Everton í deildinni.

Swansea var næstum búnir að minnka muninn rétt fyrir hálfleik þegar Rangel komst einn á móti Howard en Howard vel á verði og varði með fætinum. Rangel komst aftur einn á móti Howard hægra megin en fannst hann þurfa að hreinsa frá marki einhverra hluta vegna, frekar en að setja boltann í netið. Swansea virtist vera að komast inn í leikinn þó að manni fyndist að Everton hefði átt að vera búið að skora 4-5 sinnum og gera út um leikinn (nákvæmlega það sem maður hugsaði í síðasta leik líka).

Færunum fækkaði ekki í seinni hálfleik en Swansea komst aðeins meira inn í leikinn. Þeir áttu nokkur færi í seinni hálfleik, fyrst einn á móti markverði en Howard varði vel. Mirallas átti svo skot í slána og út stuttu síðar og Anichebe skaut í hliðarnetið upp úr því. Swansea í færi en Howard ver glæsilega. Þetta var farið að minna á borðtennis.

Dyer kom inn á og náði sér strax í gult spjald fyrir að tuða í dómaranum eftir að hafa brotið af sér. Hann átti svo skelfilega tæklingu á Baines sem hefði getað verið beint rautt spjald en fékk bara sitt annað gula spjald aðeins tveimur mínútum eftir fyrra spjaldið. Swansea því einum færri og farnir að láta skapið hlaupa með sig í gönur. Þeir komust í skyndisókn en Michu eyðilagði hana fyrir þeim með því að henda Osman í jörðina, einhverra hluta vegna.

Naismith kom inn á fyrir Mirallas og lífnaði aðeins yfir framlínunni við það. Fellaini átti skalla, eftir horn frá Baines, sem varnarmaður ver á línu. Hefði auðveldlega getað verið 0-3.

Ki átti frábært skot á einhverjum tímapunkti en Howard ver boltann niður og boltinn skoppar yfir markið.

Baines sendir fyrir markið þegar Everton komst í skyndisókn og aðeins markvörðurinn eftir en skotið frá Anichebe rétt fram hjá stönginni. Howard ver skalla frá Swansea manni. Færi á báða bóga.

Á ákveðnum tímapunkti var Everton komið með 28 tilraunir, 16 á markið en aðeins tvö mörk. Ótrúlegt. En þriðja markið lá í loftinu og kom loks á 82. mínutu.

Everton fékk aukaspyrnu rétt utan teigs vinstra megin. Baines sendir inn í teig, beint á kollinn á Fellaini sem er ekki í vandræðum með að skalla framhjá markverði Swansea.

Þegar 5 mínútur voru eftir voru Pienaar og Fellaini teknir út af, Pienaar fyrir Gueye, Fellaini fyrir Oviedo, fyrsti leikur hans, — en það var ekki mjög mikið markvert sem gerðist í lokin. 0-3 sigur í höfn. Everton hefur aldrei nokkurn tímann tapað fyrir Swansea (í neinni keppni) og það var aldrei hætta á því í þessum leik. Eina spurningin er af hverju Everton skoraði ekki 6 eða 7 mörk í leiknum, nóg var um færin!

Við þetta færðumst við upp í 2. sæti en ekki laust við að maður yrði enn meira frústreraður yfir því að dómarinn klúðraði málum í síðasta leik — enda hefði Everton þá komist á topp deildarinnar við þessi úrslit. Southampton og QPR næst (og Leeds í deildarbikarnum). Hver veit hvar Everton verður eftir þá leiki? Maður má láta sig dreyma. 🙂

Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Baines 8, Jagielka 7, Heitinga 6, Coleman 7, Pienaar 8, Osman 7, Neville 7, Mirallas 7, Fellaini 9, Anichebe 8. Varamennirnir (Gueye, Naismith og Oviedo) fengu allir sex. Hjá Swansea fékk markvörðurinn Vorm 7 og restin var í fjörkum, fimmum og sexum, nema Dyer sem fékk 3. Held þetta séu lélegustu einkunnir sem andstæðingar Everton fá í mjög langan tíma — en er ekki sagt að lið spila bara eins vel og andstæðingurinn leyfi? 😉

4 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Það er svo gaman að sjá liðið okkar á þessum stað í deildinni

  2. Finnur skrifar:

    Gaman? Það er unaðslegt! 🙂

  3. Finnur skrifar:

    Það er líka ansi erfitt, þegar ég hugsa aftur til leiksins, að velja mann leiksins. Mér fannst Anichebe, Fellaini, Howard, Baines, Pienaar og Mirallas allir vera frábærir í leiknum.

    Og Anichebe tölfræðin:

    United: Spilaði ekki.
    Villa : Spilaði ekki.
    Orient: Spilaði 93 mínútur, 1 mark. (bikar)
    W.Brom: Spilaði 22 mínútur, 0 mörk.
    Newcas: Spilaði 53 mínútur, 2 mörk. (tel með löglega markið - dæmt af)
    Swans.: Spilaði 95 mínútur, 1 mark.
    
    

    Mark í þremur af síðustu fjórum leikjum og mark að meðaltali hverjar 66 mínútur. Þessi drengur er „en fuego“!!