Brighton – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar hefst með nokkrum leikjum, þar á meðal viðureign Brighton og Everton á heimavelli þeirra fyrrnefndu. Everton liðið er í 10. sæti fyrir leikinn og hafa ekki tapað leik í síðustu þremur í röð — eru með 5 stig af 9 mögulegum. Brighton, sem eru tveimur sætum neðar, eru hins vegar sigurlausir í síðustu þremur, með tvö stig af 9 mögulegum. Með sigri gæti Everton komist í 7. sætið, og þar með upp fyrir Liverpool. Það er þó auðveldara um að tala en í að komast, því að Brighton hafa aðeins tapað einum á heimavelli á leiktíðinni en það var gegn Aston Villa.

Uppstillingin: Pickford, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Ndiaye, Dewsbury-Hall, Armstrong, Barry.

Varamenn: Travers, Coleman, Patterson, Iroegbunam, Alcaraz, Röhl, McNeil, Dibling, Beto.

Hvorugur af vinstri bakvörðum Everton (Mykolenko og Aznou) eru í hóp í dag og ekki víst hvernig brugðist verður við því. Það eru þrír miðverðir í byrjunarliðinu, en mögulegt líka að O’Brien og Garner verði notaðir í bakvarðarstöðunum í fjögurra manna varnarlínu. Það verður fróðlegt að sjá líka hvar Armstrong spilar en það verður líklega á kantinum þar sem Dewsbury-Hall verður líklega í holunni. Barry leiðir línuna í dag. Iroegbunam er jafnframt á bekknum, en hann hefur verið frá um skeið.

Lítið að gerast fyrsta korterið en svo fóru Brighton menn að færa sig upp á skaftið. Fengu skallafæri á 15. mínútu eftir horn en Welbeck, nálægt marki, skallaði framhjá vinstra megin. Mitoma komst svo einn á móti Pickford efitr laglegt spil í gegnum vörnina, en setti boltann framhjá marki hægra megin.

En eftir það lítið að gerast báðum megin. Everton greinilega að reyna að loka vel á Brighton, ekki að láta lokka sig út úr stöðum og gera þá (og áhorfendur) frústreraða. Eitt mark gæti verið nóg til að vinna þetta.

0-0 í hálfleik.

Everton með fyrsta færi seinni hálfleiks á 50. mínútu þegar Dewsbury-Hall reyndi skot við vítateigsjaðarinn vinstra megin. Náði að koma boltanum framhjá markverði en boltinn skoppaði rétt framhjá fjærstöng einnig. Everton átti einnig næsta færi þegar O’Brien sendi háan bolta inn í teig frá hægri, á kollinn á Branthwaite, sem skallaði í átt að fjærstöng, en Tarkowski var aðeins of seinn að mæta á staðinn og pota inn.

Á 67. mínútu fékk Everton dauðafæri þegar Barry komst inn í slaka sendingu aftur og brunaði einn með boltann inn í teig. Varnarmaður Brighton náði að hlaupa hann uppi en Barry sá hlaup frá Dewsbury-Hall og sendi stutta sendingu til hliðar á hann. Dewsbury-Hall þurfti bara að setja hann framhjá markverði en markvörður náði að verja glæsilega. Brighton menn sluppu aldeilis með skrekkinn þar. 

Stuttu síðar skapaði Everton glundroða í vítateig Brighton og Tarkowski var næstum búinn að ná að pota boltanum inn í markið en einhvern veginn náðu Brighton að halda það út. Tvö bestu færi leiksins, líklega. 

En á 72. mínútu náðu Brighton menn svo að komast 1-0 yfir, pínu gegn gangi leiksins eftir ágætlega útfærða sókn. 

Moyes gerði þrefalda breytingu á liði Everton til að reyna að hrista aðeins upp í þessu: Alcaraz, Iroegbunam og Dibling inn á fyrir Dewsbury-Hall, Armstrong, og Gana. Stuttu síðar náðu Brighton menn hins vegar að koma boltanum í netið á 82. mínútu eftir aukaspyrnu, en markið dæmt af vegna rangstöðu.

Beto og Patterson komu svo inn á fyrir Barry og Branthwaite á 89. mínútu. Keane átti svo skot á mark á 90. mínútu — tók skot viðstöðulaust eftir sendingu og náði að koma boltanum á mark, en markvörður varði. 

6 mínútum bætt við leikinn og þetta virkaði hálf máttlaust í uppbótartíma en þegar komið var fram á síðustu sekúndurnar komst Everton í sókn sem lauk með því að O’Brien náði skot á mark (vinstra megin í teig). Varið frá honum en frákastið fór til Beto sem skoraði!! VAR kíkti á það hvort Tarkowski (?) hefði blokkerað sjónlínu markvarðar þegar O’Brien skaut, en komst að þeirri niðurstöðu að markið skyldi standa. Everton þar með ennþá taplausir á þessum velli frá því fyrir covid.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.

3 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Þetta kallast að jafna í Blálokin

  2. Eirikur skrifar:

    Bara sáttur með stigið🤗

  3. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Var orðinn alveg vonlaus um að næðist nokkuð út úr þessum leik, en kom þá ekki Beto og bjargaði stiginu. Til hamingju með daginn Beto. Mér finnst liðið hafa verið frekar dapurt í síðustu tveimur leikjum, vonandi hressast þeir.

Leave a Reply