Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Southampton – Everton 1-0 - Everton.is

Southampton – Everton 1-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 10. umferðinni í ensku úrvalsdeildinni með leik Everton á útivelli gegn Southampton kl. 15:00. Southampton voru fyrir leik á botni deildar og sigurlausir en Everton sá fram á að, með sigri, væru okkar menn komnir steinsnar frá efri hluta töflunnar.

Þær fréttir bárust fyrir leik að Garner verði frá í nokkrar vikur vegna bakmeiðsla en að auki voru Broja og Iroegbunam á meiðslalistanum. McNeil og Doucouré voru metnir tæpir fyrir leik og Doucouré var hvergi sjáanlegur en McNeil var hins vegar í byrjunarliðinu. Branthwaite og Harrison á bekknum.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, Mangala, Ndiaye, McNeil, Lindström, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Begovic, Branthwaite, O’Brien, Coleman, Patterson, Armstrong, Harrison, Beto.

Manni fannst ekki ýkja margir leikmenn á bekknum sem myndu geta breytt gangi leiksins ef Everton myndi lenda undir. Kannski helst Harrison og mögulega Beto. Restin var einn kjúklingur og leikmenn úr varnarlínunni, þar af tveir markmenn. Maður vonaði því að þetta myndi þróast vel. En þá að leiknum…

Southampton menn voru meira með boltann en gott skipulag hjá Everton sem voru sáttir við að vera án bolta og reyndu skyndisóknir um leið og þeir unnu boltann. Um leið og boltinn tapaðist settu þeir strax pressu á leikmenn Southampton, sérstaklega öftustu menn og Í einni slíkri pressu náðu þeir að þvinga fram mistök úr vörn Southampton. Komu svo boltanum á Calvert-Lewin en hann var strax kominn með mann í andlitið og náði ekki skoti.

Fyrsta færi Everton var skotfæri úr aukaspyrnu á 3. mínútu en beint á Ramsdale í marki Southampton. Engin hætta.

Ekki mikið að frétta þangað til á 22. mínútu þegar Everton fékk horn. McNeil sendi lágan bolta á Ndiaye sem lagði hann fyrir sig við hornið á vítateignum vinstra megin og reyndi skot, en yfir mark.

Ekkert að frétta hinum megin — ekki einu sinni tilraun á mark frá heimaliðinu fyrstu 40 mínúturnar, alveg þangað til Archer komst í skyndisókn og inn í teig hægra megin. Hann setti hins vegar boltann framhjá fjærstöng úr nokkuð þröngu færi, sem samt var líklega það besta í fyrri hálfleik. Ndiaye svaraði með hálf máttlausu skoti á mark sem Ramsdale þurfti samt að kasta sér niður til að verja.

Southampton áttu svo fína sendingu fyrir mark frá hægri sem Pickford náði að kasta sér á og slá út í teig áður en meiri hætta skapaðist.

0-0 í hálfleik.

Ein breyting í hálfleik. Lalana út af fyrir Aribo. Þulirnir sögðust hafa frétt frá þjálfarateymi Southampton að þetta væri taktísk breyting en ekki vegna meiðsla og spekúleruðu að þetta væri til að hjálpa varnarlínunni gegn skyndisóknum Everton.

Á 50. mínútu fékk Mangala frábært skotfæri við D-ið eftir að Young fann hann með fínni sendingu. Mangala náði að koma föstu skoti á mark sem Ramsdale þurfti að hafa sig allan við til að verja með annarri hendi. Boltinn fór í sveig upp á við og ofan á þaknetið, ekki mjög langt frá því að leka í netið. Southampton menn heppnir að hann náði að verja. Harrison og Beto komu svo inn á fyrir Ndiaye og Calvert-Lewin á 62. mínútu.

Á 66. mínútu náði Everton að koma háum bolta fyrir mark frá vinstri þar sem Keane náði skalla á mark og Ramsdale átti stórkostlega vörslu alveg út við fjærstöng niðri, varði boltann í innanverða stöng og út aftur. Þeir ráku svo saman í kjölfarið en boltinn fór út af alveg við stöngina. Aftur skall hurð nærri hælum hjá Southampton.

Á 77. mínútu áttu Southampton menn svo að fá rautt þegar Beto komst aftur fyrir Bednarek sem var aftasti maður og klippti Beto niður að aftan frá. VAR hins vegar ekki á sama máli. McNeil náði föstu skoti á mark úr aukaspyrnunni en Ramsdale varði.

Á 79. mín sendi McNeil háa sendingu inn í teig — alltof mikið að flýta sér fannst manni — en fann þar Harrison sem náði að koma boltanum framhjá Ramsdale, sem var í einhverju skógarhlaupi út úr markinu. En því miður skoppaði boltinn rétt framhjá hægri stöng utanverðri. Southampton menn stálheppnir, enn á ný.

Á 85. mínútu fékk Everton svo aukaspyrnu langt út á velli vinstra megin og McNeil afgreiddi boltann með snilldarbrag inn í teig hægra megin þar sem Tarkowski var við fjærstöng og sendi frábæran bolta fyrir mark, á Beto sem var upp við mark en hann skallaði point blank í slána og út aftur. Southampton menn stálheppnir þar, enn á ný. En í stað þess að lenda undir brunuðu þeir í skyndisókn og skoruðu. Ótrúlegt að horfa upp á þetta. 1-0 fyrir Southampton. Branthwaite kom inn á stuttu síðar fyrir Keane.

En Beto svaraði fyrir Everton á 89. mínútu þegar hann fékk stungu inn fyrir vörn Southampton, náði frábærri fyrstu snertingu, lagði boltann fyrir sig og þrumaði framhjá Ramsdale. Staðan orðin 1-1 — eða hvað? VAR kíkti á málið og sá að hnéð á Beto var rétt svo fyrir innan varnarmann. Spurning um 1-2 cm eða svo. Rangstaða líklega réttur dómur og staðan því enn 1-0. Southampton menn stálheppnir enn á ný.

Aðeins fjórum mínútum var bætt við, sem er algjör skandall því það fóru um 3-4 mínútur bara í að skera úr um rangstöðumarkið og búið að skipta út 7 leikmönnum í 5 hollum í seinni hálfleik og nokkuð um tafir. 

En Everton tókst ekki að jafna og því endaði 5 leikja taplaus ganga Everton í úrvalsdeildinni í dag, nokkuð óvænt og eiginlega ekki verðskuldað. Þetta var klárlega svona stöngin út dagur, allt féll með Southampton.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Young (6), Tarkowski (6), Keane (6), Mykolenko (6), Mangala (6), Gueye (6), Lindstrom (6), Ndiaye (7), McNeil (6), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Beto (6), Harrison (6)

Það segir ákveðna sögu að útileikmenn Everton fengu hærri einkunn í þessum leik en útileikmenn Southampton, þrátt fyrir að vera í tapliðinu — og markvörður Southampton var valinn maður leiksins.

6 Athugasemdir

  1. Eirikur skrifar:

    Veit ekki með Lindström. Og ef að DCL skorar ekki í dag þá veit ég ekki með þann mann🤔

  2. Eirikur skrifar:

    Beto hefur gert meira á 30 mín heldur enn DLC í allan vetur

  3. Eirikur skrifar:

    DCL á þetta að vera

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Af hverju kom þetta ekki á óvart? Það hefur svo sem ekkert verið hægt að kvarta yfir Keane í síðustu leikjum en að byrja ekki leik með sitt besta mögulega lið eru auðvitað bara fíflalæti, enda svo sem kannski ekki við öðru að búast af Dyche.
    Algjörlega óafsakanleg hörmungar frammistaða hjá liðinu í dag líkt og í síðasta leik en í þetta skiptið náðist ekkert grísajafntefli og engin merki um að það sé eitthvað að fara að breytast.
    Burt með Dyche!

    • Orri skrifar:

      Dyche er búinn að fá tæp 2 ár og það er ekkert að gera sig hjá liðinu ég sé ekki það jákvæða hjá liðinu sem sumir sjá enda hef ég ekki fengið útskýringar á því.

  5. Ari S skrifar:

    Er sammála um Dyche. en ég vil líka losna við DCL, ég er búinn að fá nóg af honum sem leikmanni Everton. Hann er flottur leikmaður og myndi eflaust standa sig vel í betra liði (sem spilar betur fyrir hann) En ég held það sé kominn tími á a’ð gefa Beto séns… í byrjunarliðinu meina ég. en þetta er bara það sem me´r finnst… kv. Ari

Leave a Reply