Everton – Man City 0-3

Mynd: Everton FC.

Það er risaleikur á dagskrá á Goodison Park í dag þegar Everton tekur á móti Manchester City kl. 13:00 að íslenskum tíma.

Southampton menn féllu í gær þegar þeir töpuðu á heimavelli fyrir Fulham, því nú komast þeir ekki upp úr fallsæti — þó þeir vinni báða leiki sína sem eftir eru. Leeds og Nottingham Forest þurftu að vinna en náðu allavega að forðast tap, þannig að öll liðin fjögur fyrir ofan Southampton (Everton, Nottingham Forest, Leeds og Leicester) eru í erfiðri stöðu og það þarf mjög lítið að breytast til að þetta líti mjög svart út (fyrir liðin sem enn eru ekki fallin).  

Everton og Leicester eiga leik til góða á hin liðin, en Leicester spila á morgun við Liverpool.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Holgate, Mina, Tarkowski, Patterson, Gana, McNeil, Garner, Doucouré, Iwobi, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Lonergan, Keane, Coady, Onana, Gray, Welch, Maupay, Simms.

Sem sagt, Holgate kemur inn fyrir Mykolenko, sem er hvergi sjáanlegur. Onana og Gray á bekknum sem er annars frekar þunnskipaður í dag — tveir markmenn og tveir kjúklingar þar á meðal.

City menn náðu fljótt sterkum tökum á leiknum, eins og kannski var viðbúið af þessu liði þeirra. Voru með boltann 80% fyrstu 20 mínúturnar og þar af nánast eingöngu inni í vallarhelmingi Everton. En þeir náðu ekki að skapa sér eitt einasta færi og Haaland náði bara að snerta boltann einu sinni fyrsta hálftímann, og það var með skalla inni í eigin teig. Everton vörnin hélt vel og virtust meira að segja líklegri til að skapa sér dauðafæri því skyndisóknir þurftu oft bara herslumun í sendingum til að menn væru komnir í ákjósanlega stöðu. 

Athyglisvert atvik átti sér stað eftir um korters leik þegar leikmaður City sló til Mina, sem féll í grasið. Dómari sá ekkert athyglisvert við það — ekki einu sinni gult spjald, að því er mér sýndist. Svolítið spes.

Everton komst í flotta skyndisókn á 34. mínútu, þar sem Garner fann Calvert-Lewin upp við vítateig og hann komst framhjá miðverði og var mjög nálægt því að komast í stöðu, einn á móti markverði, en Kyle Walker rétt náði að bjarga í horn. Boltinn kom hátt fyrir mark í hornspyrnu og Tarkowski reyndi að skalla, framhjá marki hélt maður — eða hvað? Nei, boltinn barst til Holgate, sem var á auðum sjó á fjærstöng en náði ekki að athafna sig og skaut framhjá, enda hafði hann lítinn tíma til að hugsa.

Ekkert hafði gengið hjá City að skapa sér færi í rúman hálftíma en á tveimur mínútum gerði Gundogan út um vonir Everton. Byrjaði á að skora fáránlegt mark eftir háa sendingu í teig, náði frábærri fyrstu snertingu með lærinu og svo skaut hann aftur fyrir sig, með bakið í markið, framhjá Pickford. Í næstu sókn náði hann svo hárri fyrirgjöf frá vinstri á Haaland inn í teig, og hann skallaði náttúrulega inn. 0-2 fyrir City og þannig var það í hálfleik.

Ein breyting í hálfleik — Maupay kom inn á fyrir Calvert-Lewin, en Calvert-Lewin kenndi sér einhverra smá meins í baki og Dyche tók engan séns — enda fyrir öllu að halda Calvert-Lewin heilum fyrir síðustu tvo leikina.

Á 51. mínútu fengu City menn aukaspyrnu rétt utan teigs og hver steig fram til að taka það annar en Gundogan, sem smellhitti boltann upp í vinstra hornið. Óverjandi fyrir Pickford. Staðan orðin 0-3.

Holgate er líklega fimmti valkostur í stöðu vinstri bakvarðar (ef allir væru heilir) og hann átti í miklum vandræðum með Mahrez allan leikinn og var að lokum skipt út af, ásamt Gueye, fyrir Onana og Coady á 56. mínútu. Þar með skipti Dyche yfir í þrjá miðverði og færði liðið framar á völlinn, þ.m.t. Patterson í wingback stöðu á hægri kanti. 

Leikur Everton batnaði snögglega við þetta og þeir komust í skallafæri eftir hornspyrnu á 66. mínútu, Tarkowski náði flottum skalla á mark en Ederson náði rétt svo að verja í slána og yfir. Annað skallafæri kom upp úr því færi, þegar Mina skallaði í jörðina og rétt yfir markið.

Gray kom inn á fyrir Garner á 76. mínútu, en restin af leiknum var hálfgerður reitabolti, allavega hvað City varðaði. Everton beinskeyttari en tókst ekki að skapa sér almennileg færi.

Lokaniðurstaðan: Everton 0 – Gundogan 3.

Þetta var svo sem ekki leikur sem maður átti von á miklu úr, þannig að þetta verður barátta fram að lokaleik, eins og mann grunaði.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (5), Patterson (6), Mina (6), Tarkowski (7), Holgate (5), Garner (6), Gueye (6), Iwobi (6), Doucoure (6), McNeil (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Maupay (6), Coady (6), Onana (6), Gray (6).

13 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Holgate????

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Maupay inn fyrir DCL í hálfleik……Það á ekki einu sinni að reyna.

  3. Eirikur skrifar:

    Í stöðunni 0-2 er skynsamlegt að hvíla DCL. 3 stig úr seinustu 2 er það sem þarf.

  4. Eirikur skrifar:

    4 áttu þetta að vera. Og síðan ekki að fá á okkur fleiri mörk.

  5. ARI S skrifar:

    Það er pottþétt í lagi með hann. Skiptingin á honum og Maupay var svona eins og þegar bixþjálfarar henda hvíta handklæðinu inná… (*mín skoðun)

  6. Finnur skrifar:

    Það væri geðveikt að fá fjögur stig úr síðustu tveimur leikjum — en maður á erfitt með að sjá að úrslit falli þannig með okkar liði í lokaleikjunum tveimur. Ég held samt að þrjú stig nægi, ef Leicester vinnur ekki sinn leik annað kvöld.

    Því þá þurfa Leeds að vinna báða sína leiki (West Ham úti og Tottenham heima) til að ná upp fyrir Everton. Eða gera jafntelfi og vinna annan leikinn með tveggja marka betra markahlutfalli en sigurleikur Everton endaði. En ég sé það ekki gerast, miðað við gengi þeirra undanfarið.

    Tvö stig hjá Everton kalla á hjartalyf því það setur liðið í mikla hættu á að falla. Leeds þarf þá bara að vinna annan af sínum tveimur leikjum 1-0 til að jafna bæði stig og markatölu Everton. Þá væru Leeds ofar í töflunni því þeir hafa skorað fleiri mörk en Everton. Nottingham Forest gætu þá reyndar komið Everton til bjargar, ef þeir tapa síðustu tveimur leikjum sínum. Sem er alveg möguleiki, því þeir eiga erfiðan leik gegn Arsenal heima, sem Arsenal verða að vinna eftir tap gegn Brighton í kvöld, og útileik gegn Crystal Palace, sem vilja örugglega enda sitt tímabil á jákvæðum nótum fyrir framan eigin áhorfendur. Voru ekki Forest menn líka skelfilegir á útivelli? Minnir það.

    Hins vegar er Leicester stóra óvissan í þessu. Ef þeir vinna á morgun er voðinn vís því þeir eru þá komnir í bílstjórasætið. Allt annað eru góðar fréttir fyrir Everton, því Everton þarf þá bara þrjú stig til að Leicester verði að vinna báða leikina sína sem eftir eru.

    Þetta verður eitthvað. May you live in interesting times…

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Það er skrifað með stórum stöfum í skýin að Leicester vinni á morgun. Gamli Vardy hendir í þrennu og gerir út af við CL drauma Liverpool og veru Everton í efstu deild.

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Sú skelfilega staðreynd sló mig með blautri tusku í morgun þegar það rifjaðist upp fyrir mér að bæði Leeds og Leicester eiga eftir að spila við West Ham, sem getur ekki blautan.
    Bæði liðin eru pottþétt að fara að vinna West Ham og Leeds á þar að auki heimaleik gegn Tottenham í lokaumferðinni, Tottenham getur heldur ekki blautan.
    Við verðum þess vegna að fá sex stig úr þessum tveimur leikjum annars förum við niður.
    Sumir halda kannski að þar sem bæði Wolves og Bournemouth eru hólpin verði þeir leikir auðveldari en hvenær hefur Everton unnið leiki sem á pappír eiga að heita auðveldari? Ég held bara aldrei.
    Ég er ansi smeykur um að Brighton leikurinn hafi bara verið dauðateygjur fallins risa.

  8. Finnur skrifar:

    Jæja, þetta lítur betur út núna eftir leik kvöldsins.

    Mér sýnist einn sigur í viðbót ætti að vera nóg fyrir Everton. Þá geta Leicester aðeins forðast fall með því að vinna báða sína leiki og Leeds þurfa að vinna báða (eða fá amk. fjögur stig og líka hentugri markatölu). Ég minni á að á botni formtöflunnar í síðustu 10 leikjum sitja:

    16 Chelsea 
    17 Nottingham Forest
    18 Leeds
    19 Leicester
    20 Southampton

    Ég sé ekki miklar líkur á að Leicester fari á útivöll til Newcastle og taki þrjú stig. Þeirra eini sigurleikur í síðustu 10 leikjum var gegn Úlfunum í fyrsta heimaleik þeirra núverandi stjóra. Hann hefur ekki unnið leik á útivelli með þeim frá því hann tók við.

    Ég sé heldur ekki Leeds, sem hefur tapað 6 af sínum síðustu 10 leikjum, forðist tap tvo leiki í röð og nái þar að auki að vinna annan þeirra (þeir hafa ekki unnið í 7 leikjum í röð núna). En ef svo ólíklega vill til að þeir fái fjögur stig, þá þurfa þeir líka að vinna upp smá markatölumun á Everton í síðustu tveimur leikjunum. 

    Fjögur stig frá Everton í viðbót myndi gulltryggja þetta að öllum líkindum, því þá þurfa Leeds (eins og Leicester) að vinna báða sína leiki. En það er eiginlega mjög svipuð staða hjá þeim og ef Everton fær bara þrjú stig í viðbót. 

    Fótboltinn getur hins vegar verið óútreiknanlegur. Það þarf náttúrulega að landa þessum þremur stigum og Bournemouth leikurinn heima er dauðafæri þar.

    Leikjaplan annarra liða lítur allavega verr út en leikjaplan Everton.

    Svo má ekki gleyma heldur að Nottingham Forest væru í vandræðum ef Everton fengju þrjú stig, því þá verða þeir að vinna amk. annan leik af sínum tveimur. Þá er ekkert spes að eiga eftir Arsenal heima og Crystal Palace úti. Veðbankar setja Nottingham Forest í meiri hættu en Everton á að falla, eftir leik kvöldsins.

  9. Finnur skrifar:

    Ég hef eiginlega samt mestar áhyggjur af því að Calvert-Lewin verði ekki heill í næstu tveimur leikjum, enda fór hann út af í síðasta leik. Það gæti breytt öllu fyrir Everton.

  10. Finnur skrifar:

    Þetta eru MJÖG góðar fréttir fyrir Everton, í baráttunni sem er framundan í næstu tveimur leikjum.
    https://www.skysports.com/football/news/11671/12882876/everton-financial-charges-fast-track-request-from-rival-clubs-rejected-by-premier-league

    Mjög slæmar fréttir, hins vegar, fyrir Leeds og Leicester.