Mynd: Everton FC.
Þá var komið að útileik gegn David Moyes og hans lærisveinum í West Ham. Þeir voru fyrir leik í 8. sæti Úrvalsdeildarinnar en aðeins 6 stigum frá Meistaradeildarsæti. Þeir höfðu þó verið brokkgengir í undanförnum leikjum og tapað stigum í öðru hvorum leik, en mynstrið sýndi að komið var að sigurleik hjá þeim og sú varð raunin í dag.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Godfrey, Keane (fyrirliði), Kenny, Van de Beek Holgate, Doucouré, Iwobi, Gray, Richarlison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Begovic, Holgate, Branthwaite, Price, Gordon, El Ghazi, Dele, Dobbin, Rondon.
Rétt fyrir leik var tilkynnt um að van de Beek hefði meiðst í upphitun og Holgate kom inn á fyrir hann í miðsvæðið. Maður hefði kannski átt von á að Dele Alli myndi detta inn í byrjunarliðið í staðinn, en svo er þó ekki. Segir kannski ákveðna sögu. En þá að leiknum…
Fín frammistaða frá Everton í fyrri hálfleik, héldu bolta vel og létu hann ganga. Virkuðu beittari og lítið að frá West Ham framan af. Náðu einu langskoti frá Bowen sem fór beint á Pickford á 11. mínútu og engin hætta. Þeir komust svo í skyndisókn aðeins mínútu síðar, sem endaði með því að þeir komust í stöðuna einn á móti Pickford en Pickford kom vel út og lokaði markinu. Það reyndist líklega besta færi þeirra í fyrri hálfleik.
Everton fékk hins vegar betra færi. Richarlison fékk stungusendingu djúpt af miðsvæðinu á 29. mínútu og komst einn á móti markverði. Náði að pota boltanum framhjá honum en miðvörður West Ham náði rétt svo að komast fyrir og láta brjóta á sér áður en Richarlison renndi honum í netið.
West Ham menn fengu aukaspyrnu hægra megin fyrir utan teig og náðu svoleiðis ótrúlegri neglu upp í samskeytin hægra megin, rétt svo yfir vegginn og óverjandi fyrir Pickford. Svolítið ósanngjarnt miðað við gang leiksins. 1-0 fyrir West Ham.
Á 39. mínútu sendi Pickford langa sendingu fram völlinn, beint á Richarlison sem náði frábærri fyrstu snertingu og komst inn í teig, inn fyrir vörnina, með miðvörð á hælunum en skotið frá honum rétt yfir slána. West Ham menn stálheppnir þar.
West Ham menn svöruðu með flottri sókn þar sem Antonio komst einn á móti markverði en Pickford kom vel út á móti og náði að þvinga Antonio of langt til hægri og skotið frá honum því í hliðarnetið.
1-0 fyrir West Ham í hálfleik. Hvorugt liðið skoraði úr dauðafærum sínum og því einungis geggjuð aukaspyrna sem skildi liðin að.
Fyrsta færi seinni hálfleiks fékk Everton þegar miðjumenn West Ham töpuðu boltanum og Iwobi brunaði með hann í áttina að teignum og renndi boltanum í hlaupalínuna hjá Calvert-Lewin. Hann náði skoti en boltinn sleikti slána ofanverða.
Stuttu síðar fékk Everton hornspyrnu en boltinn hreinsaður frá marki út í teig. Þar var hins vegar Holgate tilbúinn og þegar Richarlison lagði boltann fyrir hann þrumaði Holgate í hiðarnetið innanvert. Óverjandi fyrir Fabianski í markinu. 1-1!
Aðeins fimm mínútum síðar tapaði Iwobi boltanum á miðsvæðinu og West Ham menn sendu langan bolta fram á Antonio sem var á auðum sjó, komst inn í teig, einn á móti Pickford sem sá hins vegar við honum. West Ham menn hins vegar stálheppnir því frákastið fór beint á Bowen sem var á auðum sjó hinum megin í teignum. 2-1 fyrir West Ham.
Á 65. mínútu var þetta svo búið þegar Keane fékk sitt annað gula spjald fyrir að taka Antonio niður rétt utan teigs og þar með rautt. Við tók tveggja snertinga reitabolti frá West Ham sem nýttu sér liðsmuninn og hengu á boltanum.
Calvert-Lewin reyndi skot af löngu færi á 67. mínútu en beint á Fabianski.
Gordon kom inn á fyrir Calvert-Lewin á 78. mínútu og fór á hægri kant. Richarlison þar með einn frammi.
Everton gerði atlögu að marki West Ham á síðustu mínútunum en náðu ekki að jafna. Mykolenko átti skot af löngu sem fór rétt framhjá. Pickford meira að segja mættur fremstur í aukaspyrnu undir lokin, en jöfnunarmarkið kom ekki.
2-1 sigur West Ham staðreynd.
Þetta var svo sem ekki leikur sem maður átti von á neinu úr en næst er komið að algjörum bikarúrslitaleik þegar Everton heimsækir Burnley á þeirra heimavelli á miðvikudagskvöld.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Kenny (4), Godfrey (7), Keane (4), Mykolenko (6), Doucoure (7), Holgate (7), Iwobi (6), Richarlison (7), Gray (6), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Gordon (6).
Það er engin gæfa með Everton, VdB meiddur í upphitun. Þetta verður ljótt, þori ekki að spá hversu ljótt.
Jæja, þetta varð nú ekki eins agalegt og við mátti búast. Ég sá fyrir mér
West Ham rölta algjörlega óáreitt um miðjuna þar sem Doucoure yrði bara einn þar, en það var nú ekki alveg þannig.
Ef maður getur tekið eitthvað jákvætt út úr þessum leik þá er það kannski helst það að við töpuðum bara með einu marki, liðið spilaði sæmilega og gafst ekki upp og Keane verður ekki með í næsta leik.
Svona þegar ég hugsa betur út í þetta þá er það auðvitað týpískt Everton að Keane missi af leiknum gegn eina liðinu í deildinni sem spilar sóknarleik sem hentar honum að spila gegn.
Þokkalegur leikur hjá Everton klaufar að tapa þessum leik. Seinna mark West Ham var hrein gjöf og Keane gerir endalaust af mistökum. Vill prófa að setja inn Petterson í stað Kenny í næsta leik. Kenny getur ekki baun. Calvert- Lewin er algjörlega týndur kannski hefur hann ekki náð sér alveg. Vill halda Mykolenko inní í næsta leik fyrst Keane fer í bann sem er bara fínt. Spurning að spila 4-5-1 í næsta leik með Richarlisson frammi og setja Calvert-Lewin á bekkinn í byrjun.