Mynd: Everton FC.
Þá var komið að næst-síðasta leik tímabilsins hjá Everton, á heimavelli gegn Úlfunum. Everton átti enn séns á Evrópukeppni á næsta tímabili, en þurfti góð úrslit í dag — sérstaklega í ljósi þess að lokaleikurinn er gegn Manchester City og fá stig eru gefins þar. Það leit út fyrir að ganga brösulega til að byrja með að ná í stigin þrjú en hófst svo að lokum.
Uppstillingin var mikið til sama lið og hóf síðasta leik, nema hvað Rodriguez var ekki með (meiðsli/tæpur) og kom Gylfi því inn í byrjunarliðið. Yerry Mina er hins vegar orðinn heill og tók því stöðu Holgate í miðverðinum.
Uppstillingin: Pickford, Digney, Keane, Mina, Godfrey, Coleman (fyrirliði) Allan, Doucouré, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Olsen, Nkounkou, Holgate, Davies, Delph, Gomes, Bernard, Iwobi, King.
Gott var að sjá áhorfendur á pöllunum aftur, 6500 talsins, og greinilegt að það hafði jákvæð áhrif á leikmenn Everton, sem virkuðu ákafir og einbeittir í sínum aðgerðum frá upphafi. Gylfi sérstaklega virkur í upphafi leiks, elti alla bolta og sífellt að leita að glufum í svæðum til að senda í og var vel studdur af áhorfendum.
Everton átti fyrsta færið á 11. mín þegar Allan sendi flottan bolta fyrir mark frá vinstri kanti, sem Richarlison náði að skalla á mark en markvörður varði.
Wolves svöruðu á 14. mínútu með viðstöðulausu skoti af mjög löngu færi, eftir hreinsun úr teig en Pickford vel á verði og sló til hliðar.
Tvisvar reyndu leikmenn Everton langa sendingu fram á Calvert-Lewin inn fyrir miðverðina og í bæði skiptin skapaði það usla í vörn Wolves, en Ruddy sá við Calvert-Lewin í bæði skiptin.
Í kjölfarið náðu Wolves mjög sterkum tæpum 20 mínútna kafla þar sem þeir náðu að dóminera boltann en skapa lítið. Adam Traore, þeirra beittasti maður, var á hægri kantinum í stöðugri og strangri gæslu hjá Digne og Gylfa — og hægra megin hjá Coleman og Godfrey. Wolves náðu því ekkert að skapa nema hálffæri, alveg fram á 31. mínútu, þegar hár bolti var hreinsaður utar í teiginn þar sem Adam Traore lúrði og náði hættulegu skoti á mark. Pickford þó vel á verði og varði yfir slána og í horn.
0-0 í hálfleik.
Frábær byrjun á seinni hálfleik hjá Everton — fengu horn sem Gylfi afgreiddi með hárri sendingu inn í teig sem Richarlison skallaði á fjærstöng og inn. 1-0 fyrir Everton!
Örskömmu síðar komst Everton í skyndisókn sem endaði hjá Coleman sem var inni í teig hægra megin nálægt stöng, en skotið í bakið á Connor Cody og rétt framhjá marki. Wolves menn sluppu með skrekkinn þar.
Úlfarnir fengu færi á 54. mínútu þegar Richarlison, sem var á miðjusvæðinu, sendi beint á Traore, sem fór eins og raketta upp völlinn og slapp við alls konar tilraunir til tæklinga og brota frá varnarmönnum Everton. Fór framhjá þeim öllum en náði — sem betur fer — bara afar slöku lágu skoti beint á Pickford.
Richarlison setti Calvert-Lewin inn fyrir vörn Wolves með stungusendingu inn í teig hægra megin. Calvert-Lewin var klókur og ætlaði að lauma honum inn fyrir Ruddy við nærstöng (sem bjóst við skoti á fjærstöng), en Ruddy, fyrrum Everton maður og markvörður Wolves, sá við honum.
Gylfi var ekki langt frá því að bæta við marki á 76. mínútu þegar boltinn barst til hans við D-ið á vítateignum og hann hlóð í skot sem sveigði í átt að samskeytum hægra megin en fór rétt framhjá.
Aftur var Gylfi að verki á 80. mínútu með skoti utan teigs vinstra megin en breytti um stefnu af varnarmanni og fór rétt framhjá stöng.
Þrjár skiptingar í lokin: Davies kom inn á fyrir Coleman á 82. mínútu og Gomes inn á fyrir Gylfa á 85. mínútu. Holgate fyrir Doucouré var svo síðasta skiptingin, á 90. mínútu.
Wolves reyndu hvað þeir gátu til að jafna, en ekkert gekk hjá þeim. 1-0 sigur Everton því niðurstaðan og áhorfendur tóku afar vel undir með „It’s a Grand Old Team to Play for“ laginu þegar það var spilað í lokin.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Mina (7), Keane (8), Godfrey (7), Coleman (7), Doucoure (7), Allan (7), James (7), Digne (7), Sigurdsson (7), Richarlison (8), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Davies (6), Gomes (6), Holgate (6).
Úlfarnir voru með 6 á alla línuna (þmt. varamenn) fyrir utan þrjá í byrjunarliðinu þeirra sem fengu 5.
Maður leiksins var valinn: Michael Keane.
Þetta fer 0-2
Ég ætla að vera bjartsýnn í dag það er nú eða aldre. Þetta fer 2-0.
Jæja!! Þetta kom á óvart. Þokkaleg frammistaða en þetta er bara of seint.
Glæsilegur sigur. Fyrri hálfleikur var hörmung en seinni mun betri. Besti leikur Richardson sem ég hef séð frá honum í langan tíma. Keane og Mína finnst mér persónulega besta miðherjaparið saman í vörninni.
Synd að segja að það sé spilaður leiftrandi sóknarbolti hjá Everton þessa dagana. Heilt yfir höfum við spilað mjög varfærinn fótbolta og afskaplega lítið fyrir augað. Síðan þrátt fyrir að liggja í vörn hafa skyndisóknir verið mjög slakar og ekki skilað okkur miklu. Enn að öðru hvaða grín eru þessir nýju þriðju búningar
https://www.evertonfc.com/asone
Fyrirmyndin að þessum búning er gamli „The black watch“ búningur Everton eða St. Domingo eins og Everton hét upphaflega. Mér skilst að það hafi verið fyrsti búningur félagsins og var notaður fyrst 1880 ef mig misminnir ekki. Persónulega finnst mér þetta mjög flottur búningur og ekki skemmir að fyrirmyndin er frá upphafsárum félagsins.
Sælir félagar frá því Ancelote tók við ,þá finst mér sára liltar breytingar hjá honum.En ég vil gefa hönum meiri séns,sem og ég held að hann eigi eftir að gera mikla breytingu á liðinu. Eða ég vona það því þessi hópur er ekki að ná saman.Engan vegin kanski sára fári en meiri hlutin fynst mér ætti að selja.Sem sagt ég vil sjá mikla breitingu selja og fá nýja menn í staðinn því ég vil meina að liði á að vera í baráttuni í meistaradeildinni.hvað finst ykkur að við ætum að gera Ég er alla vega að gefast upp á þessu liði kv þorri
Góðan dagin félagar ég spyr er einhver möguleiki að vinna Man C
Já ef City teflir fram varaliði u.15, þá eigum við séns😉