
Mynd: Everton FC.
Everton mætti West Ham í gærkvöldi á Soldier Field í Chicago, í öðrum leik sínum á Premier League Summer Series æfingamóti nokkurra enskra úrvalsdeildarfélaga. Hægt er að horfa á allan leikinn hér (fyrir þau okkar sem keyptu áskrift).
Uppstillingin: Travers, Mykolenko, Keane, O’Brien, Patterson, Gueye (fyrirliði), Iroegbunam, McNeil, Armstrong, Ndiaye, Beto.
Varamenn: Pickford, Tyrer, Tarkowski, Alcaraz, Garner, Clarke, Onyango, Heath, Thomas, Barry, Chermiti.
Sem sagt, þrjár breytingar frá leiknum við Bournemouth í sömu keppni, en Pickford, Garner, og Alcaraz tóku sér sæti á bekknum fyrir Travers, Keane, og Armstrong. Armstrong byrjaði leikinn á hægri kanti, McNeil á vinstri og Ndiaye í holunni. Ndiaye og McNeil skiptu svo um kanta síðar í leiknum.
West Ham með 14 útileikmenn á bekknum plús einn markvörð, Everton með 9 útileikmenn og tvo markverði.
Byrjunin lofaði ekki góðu því að eftir aðeins mínútu var Keane búinn að færa West Ham dauðafæri á silfurfati, með slakri sendingu (frá hægri kanti) aftur á markvörð, beint á fremsta mann West Ham, en Travers í marki Everton kom honum til bjargar og varði skotið í horn.
Lítið að gera eftir það, þangað til West Ham menn fengu aukaspyrnu rétt utan teigs um 10 mínútum síðar, sem Ward-Prowse tók og boltinn nánast sleikti stöngina vinstra megin áður en hann fór út af. Mjög nálægt því að skora glæsimark þar.
En það kom í hlut Everton að skora fyrsta mark leiksins og það var Harrison Armstrong að þakka, fyrst og fremst. Hann komst inn í slaka sendingu varnarmanns West Ham á miðjunni og brunaði fram í skyndisókn. Komst alla leið inn í teig og dró að sér tvo varnarmenn en sendi stutt til hliðar á Gueye, sem kom á „overlap-inu“ hægra megin við hann og skoraði framhjá Foderingham, markverði West Ham. 0-1 fyrir Everton!
West Ham reyndu í kjölfarið skot af löngu færi utan teigs hægra megin, en Mark Travers varði vel.
Á 36. mínútu bjuggu bakverðir okkar til fínt færi þegar Patterson sendi langan háan bolta fyrir af hægri kanti, beint á Mykolenko sem var mættur á fjærstöng og náði fríum skalla, en tókst ekki að koma boltanum á markið. Hefði getað gert betur þar, enda óvaldaður.
West Ham náðu hins vegar að jafna á 41. mínútu þegar Travers, í marki Everton, reyndi að kýla bolta út úr teig, við vítateigsjaðarinn, en tókst það ekki. Náði einhvern veginn að slá boltann í hausinn á sjálfum sér og boltinn datt fyrir Paqueta sem potaði í autt netið áður en varnarmaður næði að blokkera. Mjög óheppilegt mark, en Travers hafði annars átt flottan hálfleik og varið afskaplega vel í nokkur skipti.
1-1 í hálfleik og Moyes gerði tvær breytingar á liðinu í hálfleik, Barry kom inn á fyrir Beto, Alcaraz fyrir Iroegbunam og Garner fyrir Patterson.
West Ham voru betri í seinni hálfleik og manni fannst Everton ekki komast almennilegea í gang og voru stundum værukærur. Eins og þegar Bowen náði að stela boltanum af Armstrong aftarlega á velli og komast einn á móti Keane, sem náði að blokka skotið frá honum.
West Ham komst hins vegar yfir í leiknum á 64. mínútu eftir að þeir unnu 50/50 skoppandi bolta á miðjunni, brunuðu í sókn og skoruðu með skoti af nokkuð löngu færi. Þar var sóknarmaðurinn Fullkrug að verki en hann tók skot um leið og boltinn rúllaði inn í teig vinstra megin og smellhitti hann alveg út við stöng hægra megin. 2-1 fyrir West Ham.
Tvöföld skipting hjá Everton í kjölfarið — Chermiti inn á fyrir Ndiaye og Tarkowski inn á fyrir Gueye á 69. mínútu.
Bakvörðurinn Wan-Bissaka fékk frábært færi á 79. mínútu þegar hár bolti barst til hans inni í teig Everton, hægra megin við mark og hann reyndi fast skot, óáreittur, en hitti bara hliðarnetið. Hinum megin reyndi O’Brien skalla á mark, en markvörður varði. Heath kom svo inn á fyrir McNeil á 80. mínútu.
Á 87. mínútu náði Everton að skapa dauðafæri þegar O’Brien komst vel framarlega, upp hægri kant, og sendi frábæran bolta fyrir mark. Þar var Barry mættur fremstur og reyndi að teygja sig í boltann til að pota í netið, en hitti ekki. Þar hefði staðan átt að vera 2-2.
West Ham menn fengu svo frábært færi í lokin, á 89. mínútu, eftir að Tarkowski tapaði boltanum úti á velli og eftir smá darraðadans inni í teig náðu West Ham menn skoti á mark sem Travers varði vel.
Það reyndist síðasta færið í leiknum og West Ham vann því þennan æfingaleik 2-1.
Ég er drullu hræddur um að Everton falli í vetur