
Mynd: Everton FC.
Félagaskiptaglugginn á Englandi stendur til mánudagsins 1. september en einhver tími verður gefinn, eftir það, til að klára þá pappírsvinnu fyrir samninga sem er í vinnslu. Þessum þræði er ætlað að halda utan um staðfest kaup og sölur sem og slúður, ef við rekumst á eitthvað. Endilega hafið samband í kommentakerfinu ef eitthvað vantar í upptalninguna. Allar tölur eru í breskum pundum hér að neðan, nema annað sé tekið fram.
Afraksturinn hingað til:
Leikmenn komnir: Adam Aznou (Bayern Munchen, ótilgreind upphæð), Mark Travers (Bournemouth, ótilgreind upphæð), Thierno Barry (Villareal, 27M), Charly Alcaraz (Flamengo, 12.6M).
Leikmenn farnir: Dominic Calvert-Lewin (samningslok), Abdoulaye Doucoure (samningslok), Ashley Young (samningslok), Asmir Begovic (samningslok), Joao Virginia (samningslok), Neal Maupay (3.4M Marseille), Mason Holgate (samningslok), Billy Crelin (samningslok).
Framlengdir samningar: Jarred Branthwaite (til júní 2030), Michael Keane (til júní 2026), Idrissa Gana Gueye (til júní 2026).
2025-07-31 Skv. frétt á Sky Sports gerði Everton 27M punda tilboð í kantmanninn unga, Tyler Dibling, sem Southampton hafnaði. Það er kannski til merkis um hversu markaðurinn verður meira og meira klikkaður með tímanum að Southampton létu hafa eftir sér fyrr á árinu að Dibling, sem nú er 19 ára, væri til sölu fyrir 100M punda. Dibling á tvö ár eftir af samningi sínum en nú er rætt um að 40M punda gætu freistað Southampton. Hljómar samt eins og pínu galið verðmat fyrir 19 ára gutta…
2025-07-31 Í samantekt á föstudagsslúðri BBC kom svo fram að Everton myndi sýna þolinmæði fram að lokum leikmannagluggans til að klára lán á kantmanninum Douglas Luiz hjá Juventus.
2025-07-30 David Moyes sagði í viðtali við BBC að félagið þurfi að herða róðurinn á leikmannamarkaðinum.
2025-07-29 Skv. samantekt BBC á þriðjudagsslúðrinu er Everton fyrst og fremst að horfa til Douglas Luiz hjá Juventus, og að Jack Grealish er til vara.
2025-07-29 Everton staðfesti í dag kaup á Adam Aznou, vinstri bakverði Bayern Munchen, en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við Everton (til júníloka 2029). Hann er fjórði leikmaðurinn sem Moyes fær til liðsins í glugganum.
2025-07-29 Skv. frétt á Toffeeweb seldi klúbburinn kvennalið Everton til Roundhouse Capital Holdings, en það er félag í eigu Friedkin hópsins, sem á Everton. Í fréttinni kemur fram að þetta skapi hagnað (á pappir) upp á 60M punda, sem hægt er að nota til að réttlæta (gagnvart PSR) fjárfestingu á leikmannamarkaði fyrir karlaliðið.
2025-07-29 Skv. frétt á Sky Sports er Everton í samningaviðræðum við Manchester City um að fá Jack Grealish að láni, en þeir hafa ekki gert upp hug sinn hvort vilji sé til að lána leikmanninn eða selja.
2025-07-28 Skv. mánudagsslúðri BBC (sem þau kalla þriðjudagsslúður, einhverra hluta vegna) hefur Everton áhuga á að fá Jack Grealish að láni frá Manchester City, en eigi þar einnig í samkeppni við West Ham og Napoli. Einnig kom þar fram að áhugi væri á Ainsley Maitland-Niles hjá Lyon, og var Douglas Luiz hjá Juventus einnig nefndur (aftur).
2025-07-28 Skv. mánudagsslúðri BBC hefur ítalska liðið Atalanta áhuga á að kaupa Beto.
2025-07-27 Skv. sunnudagsslúðri BBC er talan 7,8M punda nefnd í tengslum við væntanleg kaup Everton á Adam Aznou og Malick Fofana, miðjumaður hjá Lyon er einnig nefndur, en hann skoraði 11 sinnum fyrir Lyon á síðasta tímabili og átti fimm stoðsendingar.
2025-07-27 Í frétt á BBC var haft eftir Moyes að Everton hefði boðið í Adam Aznou hjá Bayern Munchen, en það var ekki að heyra á honum að komið væri í ljós hvort því hefði verið tekið. En hann bætti við að hann þyrfti 5-6 leikmenn í viðbót við þá þrjá sem hefðu skrifað undir í glugganum.
2025-07-26 BBC greindi frá því í fimmtudagsslúðrinu að Everton hefði enn áhuga á Douglas Luiz frá Juventus (og að samkeppnin um hann væri enn hörð). Það kom svo fram í föstudagsslúðrinu að hann hefði ekki mætt á fyrstu æfingu Juventus. Í laugardagsslúðrinu var Everton svo orðað við Tyler Dibling, 19 ára kantmanni Southampton, og í frétt á mbl.is var Adam Aznou hjá Bayern Munchen orðaður við Everton á ný.
2025-07-22 BBC tók saman slúðrið í bresku pressunni og þar kom fram að Everton væri á höttunum eftir 19 ára vinstri bakverði Bayern Munchen, en hann heitir Adam Aznou og er frá Marokkó. Í sömu andrá var Samuel Lino, 25 ára brasilískur kantmaður hjá Atletico Madrid, einnig nefndur. Svo má geta þess að í samantektinni deginum áður hjá þeim, var japanski kantmaðurinn Takefusa Kubo einnig nefndur, en hann er 24ra ára leikmaður Real Sociedad.
2025-07-17 BBC tók saman það helsta sem pressan á Bretlandi var að fjalla um, er varðar úrvalsdeildina, og þar var nefnt í sunnudags-dálknum að Jordan Pickford væri við það að skrifa undir fjögurra ára samning. Í föstudags-dálkinum nefndu TeamTalk að Everton hefði lagt inn 35M Evra tilboð í Douglas Luiz hjá Juventus, en að samkeppnin um hann væri hörð. Þar var einnig rætt að Everton hefði áhuga að fá Jack Grealish hjá City að láni.
2025-07-15 Everton staðfesti í dag kaup á markverðinum Mark Travers frá Bournemouth. Kaupverðið var ekki gefið upp en hann er þriðji leikmaðurinn sem Moyes festir kaup á í þessum glugga. Samningur hans við Everton er til fjögurra ára, eða til júníloka 2029. Læt fylgja frétt af mbl.is með skondinni fyrirsögn. Vonandi verður þessi markvörður betri en Engin í markinu, eins og Bjarni Fel hefði orðað það (hlekkur).
2025-07-14 Skv. frétt á Liverpool Echo er Mark Travers, 26 ára markvörður Bournemouth, á leiðinni í læknisskoðun hjá Everton.
2025-07-09 Everton staðfesti í dag kaup á sóknarmanninum unga, Thierno Barry, frá Villareal fyrir ótilgreinda upphæð, sem BBC segir að séu 27M punda. Thierno Barry skrifaði undir fjögurra ára samning, eða til júníloka 2029. Barry mun hafa haft klásúlu í sínum samningi upp á 34.5M punda, en Everton náði að lækka þá tölu um 7M punda. Þess má geta að hann er einn af aðeins tíu U23 leikmönnum sem hafa náð að skorað meira en 10 mörk í topp 5 deildum Evrópu, og þegar kemur að skallaeinvígum er hann í fyrsta sæti í spænsku deildinni — og í öðru sæti yfir toppdeildir Evrópu.
2025-07-08 BBC birti frétt þess efnis að Thierno Barry, sóknarmaður Villareal, væri á leið í læknisskoðun hjá Everton, með það fyrir augum að ganga frá 27M punda félagaskiptum. Sky Sports sögðu slíkt hið sama á gluggavaktinni — og bættu við að Beto væri á óskalistanum hjá Leeds.
2025-07-08 BBC birti einnig frétt í dag um að Everton hefði áhuga á miðjumanninum, og skoska landsliðsmanninum, John McGinn hjá Aston Villa, en að Unai Emery væri ekki á þeim buxunum að samþykkja þá sölu. Sky Sports voru einnig með sömu frétt á gluggavakt sinni og bættu við að Moyes vildi fá Mark Travers, markvörð frá Bournemouth, sem kemur líklega ekki á óvart, þar sem eina samkeppnin sem Jordan Pickford hefur í augnablikinu er frá kjúklingi sem kom úr unglingaliðinu (Harry Tyrer).
2025-07-07 Everton staðfesti í dag að Idrissa Gana Gueye hefði framlengt samning sinn um eitt ár hjá Everton (til júní-loka 2026) og að möguleiki væri á að framlengja um eitt ár eftir það.
2025-07-05 Everton staðfesti í dag að Michael Keane hefði framlengt samning sinn við Everton um eitt ár.
2025-07-02 BBC birti frétt um áhuga Everton á sóknarmanninum Thierno Barry. Bæði Sky og BBC hafa birt þessa frétt núna, þannig að líkurnar á þessum kaupum hafa aukist til muna.
2025-07-02 Skv. yfirliti Everton eru aðeins 18 skráðir aðalliðs-hópi Everton í augnablikinu, þannig að ég held við megum gera ráð fyrir að það verði eitthvað um kaup í sumar. Það verður líka fróðlegt að sjá hvort menn í yngri kantinum, sem hafa ekki fengið mörg tækifæri, eins og Armstrong og Chermiti, fái að spreyta sig?
2025-07-02 Skv. gluggavakt BBC skrifaði Kenny Tete undir nýjan samning við Fulham, þannig sú félagaskipti virðast úr sögunni. En það skyggir þó ekki á gleðina við það að Jarred Branthwaite var að framlengja sinn samning við Everton, sem Everton staðfesti í dag, og hann er því samningsbundinn félaginu til júní 2030.
2025-06-30 Skv. frétt á Sky Sports hefur Everton áhuga á Thierno Barry, sem er franskur landsliðsmaður með U21 ára liði þeirra. Hann er sóknarmaður Villareal og ku vera 195 cm á hæð, þannig að hann gæti reynst skeinuhættur í loftinu!
2025-06-22 Everton var sterklega orðað við hægri bakvörðinn og hollenska landsliðsmanninn, Kenny Tete, hjá Fulham. Mbl sagði að munnlegt samkomulag hefði náðst, en Kenny verður samningslaus í sumar.
2025-06-18 Leikjaplan Everton fyrir tímabilið 2025/26 kom út í dag.
2025-06-17 Nokkuð hefur borið á fréttum um að Kyle Walker sé mögulega á leiðinni til Everton, en tvennum sögum fór af því hvort um lán eða kaup væri að ræða.
2025-06-11 David Moyes fékk OBE orðuna (Officer of the Order of the British Empire) við hátíðlega athöfn.
2025-05-31 Skv. frétt á BBC virkjaði Everton klásúlu í samningi sínum við Flamengo um kaup á Charly Alcaraz fyrir 12.6M, en hann hefur (eins og við þekkjum) verið á láni hjá Everton á tímabilinu. Gott að klára það snemma.
Við munum uppfæra þessa frétt ef eitthvað nýtt gerist.
Það er allt á rólegu nótunum hjá okkar klúbbi í leikmanna kaupum.
Er ekki verið að klára nýjan samning við Branthwaite og Coleman.
Bestu fréttir sumarsins. Brantwaith skrifaði yndir, staðfest
Þarna er èg sammála þèr eins og oft áður.
Velkominn Thierno Barry. Vonandi er þetta bara byrjunin á góðum glugga… 🙂
Mér líst vel á þetta, að fá svona háan framherja
ef við náum að landa Douglas Luiz þá væri það meiriháttar kaup